Reglur um fundargerðir forsætisnefndar Alþingis

1. gr.
Fundargerðabók forsætisnefndar.

Forsætisnefnd Alþingis skal halda fundargerðir. Fundargerðir skal skrá rafrænt. Útprentaðar og undirritaðar fundargerðir hvers þings skulu bundnar í bók sem telst gerðabók forsætisnefndar.

Sameiginlegir fundir forsætisnefndar með öðrum, svo sem þingflokksformönnum, skulu einnig skráðir í gerðabók. Þá skulu heimsóknir forsætisnefndar til aðila utan þingsins einnig skráðar í gerðabók.

Þegar forsætisnefnd fjallar um trúnaðarmál skal slík fundargerð aðskilin frá öðrum fundargerðum nefndarinnar. Þær fundargerðir skal prenta út og undirrita.

Ritari forsætisnefndar skráir fundargerðir. Skrifstofustjóri felur starfsmanni skrifstofu Alþingis að gegna starfi ritara nefndarinnar.

Gerðabækur skulu varðveittar í skjalasafni Alþingis.

2. gr.
Efni fundargerða.

Eftirfarandi atriði skulu koma fram í fundargerð:

  1. Fundardagur og fundarstaður.
  2. Fundartími, þ.e. upphaf fundar og lok hans.
  3. Nöfn viðstaddra, þ.m.t. gesta.
  4. Forföll nefndarmanna og ástæður þeirra.
  5. Mál sem tekin eru fyrir á fundi, hvort sem mál eru samkvæmt dagskrá fundar eða sem nefndarmaður tekur upp að eigin frumkvæði.
  6. Ákvarðanir um meðferð máls og afgreiðslu máls.
  7. Meginsjónarmið í umræðu um mál.
  8. Bókanir sem einstakir nefndarmenn óska að gera um afstöðu sína til máls, sbr. 3. gr.
  9. Undirritun forseta og ritara, sbr. 4. gr.


Í fundargerð forsætisnefndar skulu ekki koma fram atriði sem hafa að geyma
þagnarskyldar upplýsingar eða upplýsingar sem falla undir takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna eða almannahagsmuna.

3. gr.
Bókanir um meðferð máls og afgreiðslu þess.

Einstakir nefndarmenn geta fengið bókaðar í fundargerð stuttar athugasemdir um afstöðu sína til þeirra mála sem til umræðu eru, þ. á m. til meðferðar eða afgreiðslu máls. Bókun skal vera stutt, afmörkuð og hnitmiðuð og ekki vera lengri en tíu línur í fundargerð. Sá nefndarmaður sem óskar eftir því að afstaða hans sé bókuð skal leggja bókunina fram gera það skriflega á fundinum eða koma henni til ritara nefndarinnar eigi síðar en innan sólarhrings frá því að bókunin er boðuð á fundi. Bókun skal liggja fyrir við lok fundar.   

4. gr.
Staðfesting fundargerða og aðgangur að þeim.

Fundargerð skal að jafnaði senda nefndarmönnum fyrir upphaf næsta fundar, en á þeim fundi skal hún lögð fram til staðfestingar. Komi fram athugasemd við fundargerð skal henni breytt í samræmi við athugasemdina hreyfi ekki aðrir nefndarmenn andmælum, ella skal hún skráð sem bókun viðkomandi í fundargerð næsta fundar.

Forseti staðfestir fundargerð með undirskrift sinni og ritari meðundirritar.

Fundargerðir forsætisnefndar eru ekki opinberar. Sama gildir um minnisblöð og önnur gögn sem tekin hafa verið saman fyrir fund nefndarinnar. Forseta er þó heimilt að gera fundargerð, eða hluta hennar, og gögn opinber komi fram beiðni um slíkt. Beiðnin skal vera skrifleg. Forseti getur jafnframt lagt slíka beiðni fyrir forsætisnefnd. Varaforsetar geta einnig borið slíkt erindi upp í forsætisnefnd.

Forseti getur ákveðið að tilteknir starfsmenn skrifstofunnar skulu hafa aðgang að fundargerðum forsætisnefndar.

5. gr.

Reglur þessar taka gildi 1. febrúar 2012.

(Samþykkt á fundi forsætisnefndar 27. janúar 2012, breytt 15. ágúst 2019).