Reglur um aðgang að gögnum um stjórnsýslu Alþingis

1. gr.
Gildissvið.

Reglur þessar gilda um aðgang að gögnum um stjórnsýslu Alþingis. Um rétt til aðgangs að slíkum gögnum fer samkvæmt upplýsingalögum, með þeim takmörkunum sem þar greinir, þingsköpum Alþingis og reglum þessum.

Að því marki sem ákvæði laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 taka til stjórnsýslu Alþingis fer um rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt þeim lögum.

2. gr.
Orðskýringar.

 Með Alþingi í reglum þessum er átt við Alþingi sem samkomu þjóðkjörinna fulltrúa, fastanefndir og sérnefndir, forsætisnefnd, alþjóðanefndir og skrifstofu Alþingis, enn fremur nefndir og starfshópa sem hafa starfsaðstöðu hjá skrifstofu þingsins samkvæmt ályktun Alþingis eða ákvörðun forseta Alþingis eða forsætisnefndar Alþingis.

Með stofnunum Alþingis er átt við umboðsmann Alþingis, Ríkisendurskoðun og rannsóknarnefndir samkvæmt lögum um rannsóknarnefndir.

Með stjórnsýslu Alþingis er átt við þá starfsemi sem fram fer á vegum Alþingis og forseti Alþingis hefur æðsta vald í, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um þingsköp Alþingis, eða forsætisnefnd er ætlað að fjalla um samkvæmt þingsköpum Alþingis. Til stjórnsýslu Alþingis telst enn fremur starfsemi sem forseta Alþingis eða forsætisnefnd er falin samkvæmt fyrirmælum í öðrum lögum eða samkvæmt ályktun Alþingis.

3. gr.
Gögn sem varða stjórnsýslu Alþingis.

Réttur til aðgangs að gögnum um stjórnsýslu Alþingis tekur til:

a. Gagna um rekstur skrifstofu Alþingis, svo sem um ráðstöfun fjárveitinga til kaupa á vörum og þjónustu og um umsjón og rekstur húseigna.
b. Fundargerða forsætisnefndar og annarra nefnda eða starfshópa sem hafa starfsaðstöðu hjá skrifstofu Alþingis, sbr. þó c-lið 2. mgr. 4. gr.
c. Gagna um kynningu á málefni sem Alþingi ályktar um að borið skuli undir þjóðaratkvæði, sbr. reglur forsætisnefndar um fyrirkomulag þar að lútandi.
d. Gagna um þingfararkaup og þingfararkostnað, samkvæmt lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, og reglum forsætisnefndar, sem settar hafa verið samkvæmt þeim, að því marki sem slík gögn eru ekki þegar aðgengileg samkvæmt ákvörðun forsætisnefndar. Undanþegin aðgangi eru þó gögn um einstakar ferðir þingmanna í tengslum við störf þeirra.
e. Gagna um rekstur Húss Jóns Sigurðssonar, verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta og úthlutun fræðimannsíbúða, sbr. reglur forsætisnefndar um Hús Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn.
f. Gagna um úthlutun styrkja til ritunar meistaraprófsritgerða, sbr. reglur forsætisnefndar um styrki til ritunar meistaraprófsritgerða.
g. Gagna um samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar, sbr. lög um samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar, að því marki sem slík gögn eru tiltæk hjá skrifstofu Alþingis.
h. Gagna um framkvæmd ályktana Alþingis um einstök málefni, sem skrifstofa Alþingis hefur umsjón með. Undanþegin eru þó gögn um undirbúning að ályktun um skipan rannsóknarnefnda, samkvæmt lögum um rannsóknarnefndir, og um aðkomu skrifstofu Alþingis að rekstri slíkra nefnda. Um aðgang að gögnum rannsóknarnefnda fer skv. 15. gr. laga um rannsóknarnefndir.
i. Gagna um störf nefnda eða starfshópa sem forseti eða forsætisnefnd hefur komið á fót til þess að kanna einstök mál eða til að vinna tillögur um málefni sem varða störf Alþingis og stjórnsýslu þess.
j. Gagna um úthlutun heiðurslauna listamanna, sbr. lög nr. 66/2012.

Til gagna um stjórnsýslu Alþingis teljast enn fremur önnur gögn sem varða starfsemi sem forseta Alþingis eða forsætisnefnd eru falin samkvæmt fyrirmælum laga eða samkvæmt ályktun Alþingis.

4. gr.   
Gögn sem varða starfsemi Alþingis sem fulltrúasamkomu.

Réttur til aðgangs að gögnum um stjórnsýslu Alþingis tekur ekki til gagna um þá starfsemi sem fram fer af hálfu Alþingis sem fulltrúasamkomu þjóðkjörinna fulltrúa. Til slíkra gagna teljast m.a.:

a. Gögn um samskipti þingmanna við einstaklinga og lögaðila og um önnur störf þeirra, enn fremur gögn sem fara á milli þessara aðila og skrifstofu Alþingis, þ.m.t. um samskipti þingmanns og skrifstofunnar um skráningu þingmanns á fjárhagslegum hagsmunum og trúnaðarstörfum utan þings eða um samskipti hans við rannsóknarþjónustu Alþingis.
b. Gögn um starfsemi þingflokka og starfsmenn þeirra.
c. Gögn um meðferð umsókna um ríkisborgararétt, sbr. 6. gr. laga, um íslenskan ríkisborgararétt.
d. Gögn sem farið hafa á milli Alþingis og stjórnvalds við undirbúning fjárlagatillagna fyrir Alþingi.
Heimilt er að veita aðgang að eftirfarandi gögnum um starfsemi Alþingis sem fulltrúarsamkomu, og eru hluti af tilgreindu máli, þegar umfjöllun um þau eru lokið:
a. Gögnum sem farið hafa á milli Alþingis og stofnana þess um fjárhagsáætlanir og innri starfsemi þeirra.
b. Gögnum sem farið hafa á milli Alþingis og stjórnvalds um rekstur stofnana þess.
c. Upplýsingum í fundargerðum forsætisnefndar um samráð við stjórnvöld og stofnanir Alþingis og við undirbúning starfa Alþingis.
d. Gögnum sem skrifstofa Alþingis hefur unnið fyrir þingnefndir, forsætisnefnd, alþjóðanefndir eða nefndir og starfshópa sem hafa skrifstofuaðstöðu hjá þinginu. Ef þingnefnd eða annar aðili innan þingsins biður um álit á tilgreindu máli má undanskilja bæði álitsbeiðnina og álitið sjálft aðgangi. Hægt er að undanskilja aðgang að gögnum sem fara á milli forsætisnefndar eða skrifstofu Alþingis og starfsmanns í stjórnsýslu þingsins.
e. Gögnum sem fara á milli forsætisnefndar og þingflokka í samráðsferli.
f. Gögnum um kosningu umboðsmanns Alþingis eða ríkisendurskoðanda.
g. Gögnum sem jafnframt eru aðgengileg hjá aðilum sem heyra undir upplýsingalög. Varði gagnið bersýnilega hagsmuni sem fallið geta undir takmarkanir upplýsingalaga skal framsenda beiðni um aðgang að gagninu til hlutaðeigandi aðila.

5. gr.
Málsmeðferð. 

Um meðferð beiðna um aðgang að gögnum um stjórnsýslu Alþingis fer skv. IV. kafla upplýsingalaga.

Beiðnum um upplýsingar skal beint til skrifstofu Alþingis. Synjun um aðgang að gögnum má bera undir forsætisnefnd.

Skrifstofu Alþingis er heimilt að setja upp fyrirspurnarform á vef Alþingis þar sem tekið er á móti beiðnum um aðgang að upplýsingum.

Við úrlausn einstakra mála skal líta til framkvæmdar úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

6. gr.
Gildistaka.

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 91. gr. laga um þingsköp Alþingis, og öðlast þegar gildi.

(Samþykkt á fundi forsætisnefndar Alþingis, 20. janúar 2020.)