Reglur um gerð tillögu við kosningu ríkisendurskoðanda og umboðsmanns Alþingis

1. gr.
Tilgangur

Tilgangur reglnanna er að stuðla að því að málsmeðferð forsætisnefndar við tilnefningu einstaklings við kosningu í embætti ríkisendurskoðanda eða umboðsmanns Alþingis byggi á sjónarmiðum um jafnræði og gagnsæi.

2. gr.
Undirnefnd

Forsætisnefnd Alþingis skipar þriggja manna undirnefnd úr sínum hópi sem annast undirbúning tillögugerðar til forsætisnefndar um tilnefningu einstaklings við kosningu Alþingis í embætti ríkisendurskoðanda og umboðsmanns Alþingis.

Undirnefndin skal að jafnaði skipuð forseta Alþingis, 1. varaforseta og einum öðrum varaforseta og skal val hans taka mið af 1. mgr. 28. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

3. gr.
Ráðgjafarnefnd

Við undirbúning tilnefningar forsætisnefndar í embætti ríkisendurskoðanda og umboðsmanns Alþingis skipar hún nefnd þriggja einstaklinga sem skal vera undirnefnd til aðstoðar. Í henni eiga sæti:

  1. Formaður,
  2. Sérfræðingur í þeim málefnum sem heyra til verksviðs embættis ríkisendurskoðanda eða lögfræðingur með þekkingu á þeim málefnum sem heyra til verksviðs embættis umboðsmanns, eftir því hvort embættið á í hlut,
  3. Sérfræðingur í mannauðsmálum.

Ritari forseta Alþingis er starfsmaður nefndarinnar og færir fundargerðir hennar.

Reynist nefndarmaður vanhæfur eða er forfallaður, skipar forsætisnefnd annan mann í hans stað.

4. gr.
Tilkynning um fyrirhugaða kosningu

Tveimur mánuðum áður en fyrirhugað er að Alþingi kjósi ríkisendurskoðanda eða umboðsmann Alþingis skal forsætisnefnd birta tilkynningu í fjölmiðlum um kosninguna. Í henni skal vakin athygli á því að forsætisnefnd muni á tilteknum tíma tilnefna einstakling við kosninguna.

Í tilkynningunni komi jafnframt fram að þeir sem áhuga hafa á því að verða tilnefndir við kosningu í viðkomandi embætti geti sent erindi um það efni til Alþingis fyrir tilgreindan tíma. Enn fremur að þeim sem þess óska geti sent forsætisnefnd ábendingar um einstakling eða einstaklinga sem þeir telja að koma eigi til greina við kosninguna. Þá verði tilgreint hvaða hæfniskröfur séu gerðar til þess einstaklings sem gegnir embættinu og hvaða upplýsingar skuli fylgja erindinu. Erindi skulu berast á netfangið kosningrikisendurskodanda@althingi.is eða kosningumbodsmanns@althingi.is.

Þegar fyrir liggur hverjir hafa áhuga á að verða tilnefndir við kosninguna skal undirnefnd upplýsa forsætisnefnd um nöfn þeirra. Í kjölfarið skulu þau ásamt starfsheitum birt á vef Alþingis.

5. gr.
Hæfniskröfur

Viðmið fyrir þær hæfniskröfur sem gerðar eru til einstaklings sem gefur kost á sér til að gegna embætti umboðsmanns Alþingis eða embætti ríkisendurskoðanda ráðast af hlutverki umboðsmanns og ríkisendurskoðanda eins og þeim er lýst í lögum um embættin og ætla verður að skipti máli fyrir starfrækslu þeirra, þar á meðal eru þekking á þeim viðfangsefnum sem falla undir starfssvið embættanna og færni við úrlausn þeirra.

6. gr.
Fyrsti fundur undirnefndar og ráðgjafarnefndar

Á fyrsta fundi undirnefndar og ráðgjafarnefndar skulu störf ráðgjafarnefndar afmörkuð og útbúin áætlun um störf hennar. Jafnframt skal gengið úr skugga um sérstakt hæfi nefndarmanna í undirnefnd og ráðgjafarnefnd. Við mat á sérstöku hæfi skal fylgja ákvæðum stjórnsýslulaga.

7. gr. 
Hlutverk ráðgjafarnefndar

Hlutverk ráðgjafarnefndar er að vera undirnefnd til aðstoðar með því að veita umsögn um þá sem hafa gefið kost á sér til þess að gegna embætti ríkisendurskoðanda eða umboðsmanns Alþingis. Í umsögn ráðgjafarnefndar skal komist að niðurstöðu um hvaða einstaklingar komi helst til greina að boðaðir verði í annað viðtal hjá undirnefndinni, sbr. 12. gr.

8. gr. 
Verkefni ráðgjafarnefndar

Ráðgjafarnefndin skal fara yfir framkomnar tilnefningar og ábendingar. Nefndin athugar:

  1. hvort þeir einstaklingar, sem sóst hafa eftir tilnefningu eða staðfest hafa að þeir sækist eftir embættinu, uppfylli þau almennu hæfisskilyrði sem gerð eru til umboðsmanns Alþingis eða ríkisendurskoðanda í lögum um stofnanirnar og 6. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins,
  2. hvort uppfylltar séu þær hæfniskröfur sem gerðar eru, sbr. 5. gr. og vísa skal til í tilkynningu forsætisnefndar, sbr. 4. gr.,
  3. hvort nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi fyrir og aflar í samræmi við það gagna eftir því sem tilefni er til.

Við athugun á einstökum erindum útbýr ráðgjafarnefndin tillögu að matsramma með tilgreindum matsþáttum, sem hún kynnir undirnefndinni. Matsramminn skal byggður á þeim hæfniskröfum sem gerðar verða, sbr. 5. gr. Hver nefndarmaður ráðgjafarnefndar metur sjálfstætt öll erindi út frá matsrammanum.

Ráðgjafarnefndin gerir undirnefndinni grein fyrir athugunum sínum á hæfisskilyrðum og hæfniskröfum og upplýsir undirnefndina um þá einstaklinga sem helst koma til greina að boðnir verða í fyrsta viðtal.

9. gr.
Fyrsta viðtal

Ráðgjafarnefndin setur upp spurningaramma fyrir stöðluð viðtöl, þar sem allir fá sömu spurningar. Hver spurning er tengd við minnst eina hæfniskröfu. Spurningarramminn skal kynntur undirnefndinni áður en viðtöl hefjast. Ráðgjafarnefndin tekur fyrstu viðtöl við einstaklinga.

Á meðan á viðtali stendur og í lok þess metur hver nefndarmaður fyrir sig, sjálfstætt frammistöðu allra sem koma í viðtöl út frá þeim hæfniskröfum sem gerðar eru, sbr. 5. gr. Nefndin fundar í kjölfar viðtala þar sem farið er yfir niðurstöður hvers nefndarmanns úr viðtölunum.

10. gr.
Próf og öflun umsagna

Ráðgjafarnefndin metur hvort tilefni sé til að óska eftir því að þeir sem komu í fyrsta viðtal, eða hluti þeirra eftir atvikum, undirgangist persónuleikamat, hæfnispróf eða úrlausn verkefna.

Nefndin aflar umsagna frá meðmælendum um þá einstaklinga sem hún telur helst koma til greina að gerð verði tillaga um að boðaðir verða í annað viðtal. Umsagnir sem aflað er og athugasemdir við þær skulu skráðar ef við á. Komi fram í umsögn upplýsingar sem nefndin hyggst byggja á og eru einstaklingi í óhag skal gefa honum færi á að tjá sig um þær.

11. gr.
Umsögn ráðgjafarnefndar

Ráðgjafarnefndin leggur mat á þær upplýsingar sem fram koma í framlögðum gögnum og viðtölum og frammistöðu hvers og eins í viðtali. Á grundvelli þess og umsagna, sem aflað hefur verið og eftir atvikum niðurstöðu prófa, sbr. 10. gr., ber nefndin saman þá einstaklinga innbyrðis, sem hún telur að helst komi til greina, að boðaðir verði í annað viðtal hjá undirnefnd forsætisnefndar. Skal niðurstaða slíks samanburðar byggja á heildarmati nefndarinnar á öllum matsþáttum.

Ráðgjafarnefndin gerir grein fyrir störfum sínum og niðurstöðu í umsögn til undirnefndar ásamt afriti þeirra gagna sem hún byggist á.

12. gr.
Annað viðtal

Undirnefnd forsætisnefndar kynnir forsætisnefnd umsögn ráðgjafarnefndar og leggur fram ferilskrá allra sem nefndin tók í viðtöl. Undirnefndin tilgreinir jafnframt hvaða einstaklingar, úr hópi þeirra sem ráðgjafarnefndin hefur lagt til, komi til greina í annað viðtal. Einstakir forsætisnefndarmenn geta gert tillögu um að bæta einum eða fleiri einstaklingum í hóp þeirra sem teknir verða í viðtalið, að því tilskildu að gerð hafi verið tillaga um þá í niðurstöðu ráðgjafarnefndar.

Undirnefnd forsætisnefndar tekur annað viðtal við einstaklinga þar sem byggt er á stöðluðum spurningarlista. Fulltrúi ráðgjafarnefndar og ritari eru viðstödd viðtölin og veita undirnefndinni þá aðstoð sem óskað er eftir.

13. gr.
Mat undirnefndar

Að loknum viðtölum leggur undirnefndin mat á einstaklinga og ræðir jafnframt hvort þörf sé á frekari upplýsingum áður en gerð verður tillaga til forsætisnefndar.

14. gr. 
Tillaga undirnefndar

Undirnefndin leggur fyrir forsætisnefnd skýrslu með rökstuddri tillögu um þann einstakling sem lagt er til að forsætisnefnd tilnefni við kosningu í embætti umboðsmanns Alþingis eða embætti ríkisendurskoðanda. Fallist forsætisnefnd á tillögu undirnefndar skal hún kynnt þingflokkum.

Reglur þessar, sem samþykktar voru á fundi forsætisnefndar 7. febrúar 2022, eru settar með vísan til starfa forsætisnefndar skv. 2. gr. laga nr. 46/2016, um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, og 1. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Frá sama tíma falla brott starfsreglur um störf undirbúningsnefndar um tillögugerð til forsætisnefndar við tilnefningu einstaklings við kosningu til embættis ríkisendurskoðanda og umboðsmanns Alþingis frá 1. mars 2021.