Reglur um þýðingar á ræðum og skjölum fyrir þingmenn

1. gr. Þýðing á erlent mál.

Alþingismönnum er heimilt að fá þýddar á erlent mál ræður og erindi sem þeir hyggjast flytja eða birta í tengslum við starf sitt.

2. gr. Þýðing á íslensku.

Alþingismönnum er heimilt að fá þýddan á íslensku erlendan texta sem ætlaður er til birtingar á þingskjali, enda sé umfang verksins eðlilegt miðað við fjárveitingu til þessa þáttar í árlegri rekstraráætlun Alþingis.

3. gr. Beiðni.

Alþingismenn skulu koma óskum um þýðingar á framfæri við skrifstofu Alþingis (nefndasvið) sem skal fela löggiltum skjalaþýðendum, sem skrifstofan hefur samninga við, að annast verkið.

4. gr. Kostnaður

Kostnaður við þýðingar samkvæmt reglum þessum skal greiddur af Alþingi og færður á sérstakan reikning nefndasviðs. Liggi fyrir að verk verði sérstaklega kostnaðarsamt, þ.e. fari umfram 25% af heildarfjárveitingu hvers árs eða rúmist ekki innan fjárveitingar sem til ráðstöfunar er hverju sinni, skal leita fyrir fram til forseta um samþykki.

Annar kostnaður við þýðingar er ekki greiddur nema með sérstöku samþykki forsætisnefndar hverju sinni.

5. gr. Gildistaka.

Reglur þessar eru settar á grundvelli 2. málsl. 5. mgr. 10. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og skulu taka gildi frá og með 1. október 2021.

(Samþykkt á fundi forsætisnefndar 16. ágúst 2021.)