Reglur um upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis

1. gr.

Á vegum Alþingis starfar upplýsinga- og rannsóknaþjónusta fyrir alþingismenn og nefndir þingsins. Enn fremur aðstoðar upplýsingaþjónustan forseta Alþingis og skrifstofu þingins eftir því sem við á.

Tilgangur upplýsinga- og rannsóknaþjónustunnar er að styrkja starfsaðstöðu alþingismanna með því að veita þeim hlutlausa og faglega þjónustu og tryggja þeim greiðan aðgang að upplýsingum, sbr. 3. gr.

Upplýsinga- og rannsóknaþjónustan rekur bókasafn Alþingis.

2. gr.

Upplýsinga- og rannsóknaþjónustan skal hafa forustu um upplýsingamiðlun og rannsóknarvinnu á skrifstofu Alþingis og stuðla að samstarfi sérfræðinga innan hennar.

Starfsfólk þjónustunnar leitar einnig, ef þörf krefur, til óháðra sérfræðinga utan þingsins.

3. gr.

Þeir sem eiga rétt á að nýta sér þjónustuna eru: alþingismenn, varaþingmenn (meðan þeir sitja á þingi), starfsfólk þingflokka, aðstoðarmenn formanna þingflokka og starfsfólk skrifstofu Alþingis.

4. gr.

Starfsfólk upplýsinga- og rannsóknaþjónustu er bundið trúnaði við þingmenn og er óheimilt að gefa upp nafn þess sem unnið er fyrir hverju sinni gagnvart öðrum, utan þings og innan, nema að fengnu leyfi.

Almennar samantektir um þingmál eru öllum opnar en gæta skal trúnaðar þegar skriflegar samantektir eru unnar sérstaklega fyrir þingmann.

5. gr.

Fara ber með trúnaðarupplýsingar frá utanaðkomandi aðilum, sem afhentar eru alþingismönnum, á sama hátt og með aðrar trúnaðarupplýsingar sem þingmenn fá, sbr. 51. gr. þingskapa Alþingis.

6. gr.

Leggja skal áherslu á að veita þjónustu svo fljótt sem kostur er og hafa hliðsjón af því hvenær alþingismanni er nauðsynlegt að fá upplýsingar fyrir umræðu eða viðtöl. Málefni sem eru til umfjöllunar á yfirstandandi þingi skulu vera í fyrirrúmi í starfi upplýsingaþjónustunnar.

7. gr.

Reglur þessar eru settar á grundvelli 86. gr. [Nú 92. gr.] laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, með síðari breytingum, og skulu taka gildi frá og með 1. des. 2011.

(Samþykkt á fundi forsætisnefndar 5. desember 2011.)