Reglur um ferðakostnað formanna stjórnmálaflokka erlendis

1. gr.

Reglur þessar taka til formanna stjórnmálaflokka sem eru alþingismenn en ekki ráðherrar og eru í þingflokki samkvæmt þingsköpum.

Varaformaður flokks getur eftir atvikum komið í stað formanns flokks, sbr. 1. mgr., ef samþykki formanns eða beiðni hans liggur fyrir.

2. gr.

Formenn stjórnmálaflokka skv. 1. gr. eiga rétt á því að fá greiddan ferðakostnað ef þeir fara utan stöðu sinnar vegna til þess að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi sem flokkar þeirra eiga aðild að eða á sérstaka fundi, ráðstefnur eða samkomur sem tengjast starfi þeirra sem flokksformenn.

Formaður, sem nýtir sér rétt samkvæmt þessari grein, skal leggja fram, með eins góðum fyrirvara og unnt er, gögn er varða ferðina, svo sem boðsbréf, dagskrá fundar, ferðatilhögun o.fl. sem að ferðinni lýtur.

3. gr.

Um fyrirkomulag ferðakostnaðar gilda sömu reglur og um alþingismenn í alþjóðlegu samstarfi á vegum Alþingis, þar á meðal um hótelkostnað og dagpeninga.

4. gr.

Heimild samkvæmt þessum reglum gildir um allt að þrjár ferðir árlega enda sé lengd ferðar og umfang innan eðlilegra marka. Ekki er greitt fyrir fylgdarmann.

5. gr.

Reglur þessar gilda frá 1. janúar 2009.

Bráðabirgðaákvæði 2009: [Bráðabirgðaákvæði þetta hefur í framkvæmd verið látið gilda áfram óbreytt.]

Á árinu 2009 skulu ferðir samkvæmt þessum reglum þó að hámarki vera tvær, sbr. 4. gr., og reglurnar aðeins gilda um formenn en ekki varaformenn, sbr. 2. mgr. 1. gr.

(Samþykkt á fundi forsætisnefndar 20. janúar 2009, upphaflegar reglur samþykktar á fundi forsætisnefndar 26. febrúar 1996.)