Reglur Sameiginlegar þingmannanefndar Íslands og ESB

1. gr.

Sameiginleg þingmannanefnd Íslands og ESB er stofnuð á grunni samþykktar Evrópuþingsins frá 8. júlí 2010 og Alþingis frá 16. ágúst 2010.

2. gr.

Hlutverk Sameiginlegu þingmannanefndarinnar er að fjalla um samband ESB og Íslands frá öllum hliðum.

3. gr.

Að tillögu framkvæmdastjórnar Sameiginlegu þingmannanefndarinnar getur nefndin beint tilmælum til Evrópuþingsins, Alþingis og ríkisstjórnar Íslands, framkvæmdastjórnar og ráðherraráðs Evrópusambandsins.

Tilmæli teljast samþykkt ef þau fá stuðning meiri hluta fulltrúa jafnt Evrópuþingsins sem og Alþingis í nefndinni.

4. gr.

Sameiginlegu þingmannanefndina skipar sami fjölda fulltrúa frá Evrópuþinginu og frá Alþingi.

Lengd þess tímabils sem fulltrúar sitja í þingmannanefndinni ákvarðast í samræmi við reglur og framkvæmd Evrópuþingsins annars vegar og Alþingis hins vegar.

5. gr.

Framkvæmdastjórn Sameiginlegu þingmannanefndarinnar skipa formaður sendinefndar Evrópuþingsins, formaður sendinefndar Alþingis og varaformenn beggja sendinefnda.

Sæti formanns nefndarinnar skipa til skiptis formaður sendinefndar Evrópuþingsins og formaður sendinefndar Alþingis. Ef leysa þarf formann nefndarinnar af kemur það í hlut varaformanns sendinefndar hans.

6. gr.

Sameiginlega þingmannanefndin kemur saman einu sinni á ári, til skiptis í einhverjum af starfsstöðum Evrópuþingsins og á Íslandi.

Drög að dagskrá funda nefndarinnar, sem framkvæmdastjórnin leggur til, eru að jafnaði send nefndarmönnum tveimur vikum fyrir áætlaðan fundartíma.

Fundir nefndarinnar eru opnir nema framkvæmdastjórn nefndarinnar ákveði annað.

7. gr.

Fulltrúar ríkisstjórnar Íslands, fulltrúar ráðherraráðs Evrópusambandsins, fulltrúar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og aðrir, geta sótt fundi Sameiginlegu þingmannanefndarinnar og tekið til máls ef framkvæmdastjórn nefndarinnar ákvarðar svo.

8. gr.

Skrifstofa Evrópuþingsins og skrifstofa Alþingis annast rekstur skrifstofu Sameiginlegu þingmannanefndarinnar.

Eftir hvern fund Sameiginlegu þingmannanefndarinnar skal unnin samantekt sem lögð er fram til samþykktar á næsta fundi nefndarinnar.

9. gr.

Nefndarmenn geta tekið til máls á fundum Sameiginlegu þingmannanefndarinnar á opinberu tungumáli Evrópusambandsins eða á íslensku. Séð verður fyrir þýðingu og túlkun á grundvelli ákvörðunar framkvæmdastjórnar Sameiginlegu þingmannanefndarinnar og í samræmi við starfsreglur Evrópuþingsins.

10. gr.

Ferðakostnaður nefndarmanna og embættismanna sem eru þeim til aðstoðar er greiddur af því þingi sem þá skipa.

Öðrum kostnaði við fundi og starfsemi nefndarinnar er skipt milli Evrópuþingsins og Alþingis.

11. gr.

Breytingar á þessum starfsreglum, sem Sameiginlega þingmannanefndin leggur til, skulu samþykktar af framkvæmdastjórn Evrópuþingsins og forsætisnefnd Alþingis.

(Samþykkt af framkvæmdastjórn Evrópuþingsins 22. nóvember 2010, breytt 6. júní 2016).

(Samþykkt af forsætisnefnd Alþingis 23. febrúar 2011, breytt 2. mars 2016 og 14. janúar 2019).