Reglur um áheyrnarfulltrúa á fundum fastanefnda Alþingis

1. gr.

Eigi þingflokkur ekki fulltrúa í fastanefnd skv. 13. gr. þingskapa getur hann tilnefnt einn þingmann til fastrar setu í nefndinni sem áheyrnarfulltrúa, sbr. 2. mgr. 14. gr. þingskapa.

Áheyrnarfulltrúi skal boðaður á alla fundi nefndarinnar með dagskrá. Hann skal og fá öll þau gögn sem aðrir nefndarmenn fá.


2. gr.

Þingflokkur, sem ekki á fulltrúa í fastanefnd eða áheyrnaraðild að nefnd, getur óskað eftir því að eiga sæti á fundum nefndar þegar rætt er um tiltekið mál.

Þegar beiðni skv. 1. mgr. liggur fyrir skal þingnefndin taka afstöðu til hennar innan viku.

Samþykki þingnefnd beiðni þingflokks samkvæmt þessari grein skal boða þann þingmann sem tilnefndur er til þeirra nefndarfunda þar sem málið er á dagskrá og skal hann fá öll þau gögn sem málið varðar.


3. gr.

Áheyrnarfulltrúi hefur rétt til að taka þátt í vettvangsferðum nefnda innan lands.

Áheyrnarfulltrúi hefur rétt til að taka þátt í umræðum á nefndarfundi um efni dagskrármáls til jafns við nefndarmenn.


4. gr.

Áheyrnarfulltrúi hefur ekki tillögurétt á nefndarfundi um umsagnaraðila, að einstaklingar séu kvaddir á fund nefndarinnar eða að tiltekinna upplýsinga sé aflað.

Áheyrnarfulltrúi getur ekki verið framsögumaður nefndar í þingmáli.

Áheyrnarfulltrúi getur ekki gefið út nefndarálit eða ritað undir nefndarálit annarra.

Áheyrnarfulltrúi getur ekki krafist þess að afstaða hans til þess máls sem nefnd afgreiðir sé birt í nefndaráliti.


5. gr.

Áheyrnarfulltrúi skv. 1. og 2. gr. hefur sömu skyldur til fundarsóknar og aðrir nefndarmenn, sbr. 1. mgr. 17. gr. þingskapa.

Reglur II. kafla þingskapa gilda eftir því sem við á um áheyrnarfulltrúa í nefndum, svo sem um varamenn, mannaskipti, staðgengla o.fl.


6. gr.

Reglur þessar eru settar á grundvelli 5. mgr. 8. gr. þingskapa, sbr. 2. mgr. 14. gr.

 

(Samþykkt á fundi forsætisnefndar 9. nóvember 1995, breytt 28. nóvember 2011.)