Reglur um meðferð erinda til þingnefnda

1. gr.

Reglur þessar eiga við um erindi sem beint er til þingnefnda, þ.e. fastanefnda, sérnefnda og eftir atvikum annarra þingmannanefnda.

Með erindum er átt við umsagnir, álit og önnur gögn frá ráðuneytum, stofnunum, samtökum og einstaklingum utan Alþingis.


2. gr.

Erindi skulu skráð og varðveitt á skrifstofu Alþingis.

3. gr.

Aðgangur að erindum til nefnda skal öllum heimill. Erindi skulu að jafnaði birt á vef Alþingis eins fljótt og unnt er eftir að þau hafa borist. Umsagnir sem kunna að vera í andstöðu við lög, góða reglu eða velsæmi eða innihalda upplýsingar um einkahagi annarra, sem sanngjarnt og eðlilegt er að leynt fari, skulu ekki birtar á vef Alþingis. Nefnd getur leitað úrskurðar forseta um það hvort birta skuli umsögn á vef Alþingis í heild eða að hluta.

Nefnd getur samþykkt að aðgangur að tilgreindum erindum eða erindum er varða tiltekið þingmál sé óheimill þar til afgreiðslu máls lýkur. Ákvæði þessarar málsgreinar gilda þó ekki um alþingismenn og starfsmenn Alþingis og þingflokka.

Alltaf skal heimilt að afhenda erindi þegar afgreiðslu máls er lokið frá þingnefnd, sbr. þó 4. gr.


4. gr.

Um erindi sem hafa að geyma trúnaðarupplýsingar fer eftir reglum forsætisnefndar um meðferð upplýsinga sem háðar eru þagnarskyldu eða bundnar fyrirmælum um trúnað.


5. gr.

Reglur þessar eru settar á grundvelli 28. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis.

 

(Samþykkt á fundi forsætisnefndar 5. desember 1994, breytt 28. nóvember 2011 og 26. janúar 2021.)