Reglur um opna fundi fastanefnda Alþingis sem sendir eru út í sjónvarpi og á vef Alþingis

1. gr.
Opinn fundur.

Reglur þessar gilda um opna fundi sem fastanefnd ákveður að halda, sbr. ákvæði 19. gr. þingskapa. Nefnd getur haldið opinn fund í því skyni að afla sér upplýsinga um þingmál sem vísað hefur verið til hennar eða um mál sem nefndin tekur upp að eigin frumkvæði, sbr. 26. gr. þingskapa.

Tvær nefndir geta efnt sameiginlega til opins fundar og skal þá formaður þeirrar nefndar sem málinu hefur verið vísað til stýra slíkum sameiginlegum fundi. Sé fundur um mál skv. 26. gr. stýrir formaður þeirrar nefndar sem hefur tekið málið upp sameiginlegum fundi. Um nánari tilhögun sameiginlegs fundar vísast til 3. mgr. 7. gr.

Skrifstofa Alþingis skal leggja nefnd til fundaraðstöðu fyrir opinn fund.

2. gr.
Gestir á opnum fundi.

Nefnd getur óskað eftir því að núverandi og fyrrverandi ráðherrar, forstöðumenn sjálfstæðra ríkisstofnana, formenn ráða og nefnda á vegum ríkisins, ríkisendurskoðandi, umboðsmaður Alþingis, fulltrúar hagsmunaaðila og sérfræðingar sem ekki starfa undir stjórn eða á ábyrgð ráðherra komi á fundi og veiti nefndinni upplýsingar. Formanni ber að leita eftir því með hæfilegum fyrirvara að gestur komi á opinn fund og gera honum grein fyrir efni fundarins.

3. gr.
Tilkynning og dagskrá.

Þegar ákvörðun liggur fyrir um að halda opinn fund skal hann tilkynntur á vef Alþingis með minnst sólarhrings fyrirvara. Þar skal greint frá dagskrá fundarins, fundarstað og hvaða gestir sitji fundinn.

Formaður skal sjá til þess að nefndarmenn og gestir séu upplýstir um tilhögun opins fundar að jafnaði eigi síðar en 3 dögum fyrir fundardag.

4. gr.
Aðgengi almennings og fjölmiðla.

Fjölmiðlar skulu eiga þess kost að láta fulltrúa sína fylgjast með opnum fundi. Jafnframt skal fundurinn opinn almenningi eftir því sem húsrúm leyfir.

Ljósvakamiðlum er heimilt að hafa beinar útsendingar frá opnum nefndafundi óski þeir slíks, enda bera þeir allan kostnað af slíkri útsendingu.

Heimilt er að víkja af fundi áhorfanda sem raskar friði á fundinum, sbr. 14. gr.

5. gr.
Fundarsköp.

Á opnum fundi gilda starfsreglur fastanefnda með þeim undantekningum sem felast í 6. og 7. gr.

6. gr.
Tilhögun fundar.

Í upphafi opins nefndafundar skal formaður nefndarinnar gera grein fyrir fundarefni og tilefni fundarins áður en gestum eða öðrum nefndarmönnum er gefið orðið. Hann skal jafnframt gera stuttlega grein fyrir fyrirkomulagi fundarins. Þá skal formaður gera grein fyrir þeim gögnum sem gestir leggja fyrir fundinn til glöggvunar fyrir þá er fylgjast með fundinum.

7. gr.
Framsaga og fyrirkomulag umræðna.

Miða skal við að framsaga talsmanns hvers hóps gesta sem á fund kemur sé ekki lengri en 10 mínútur. Orðaskipti nefndarmanns og gests að lokinni framsögu skulu í heild ekki fara yfir 5 mínútur og þar af má efnislegt innlegg eða svar ekki fara yfir 2 mínútur í senn. Formaður skal sjá til þess að þegar nefndarmaður hefur borið fram sínar spurningar sé þeim svarað áður en hann gefur næsta nefndarmanni orðið. Frá þessum tímamörkum má þó víkja eftir aðstæðum og skal þá formaður tilkynna um slíkt í upphafi fundar. Talsmanni hóps er heimilt að fela öðrum úr hópnum að svara einstökum spurningum.

Á opnum fundi skulu nefndarmenn einvörðungu beina spurningum til gesta. Þeir skulu ekki setja fram almennar hugleiðingar um efni fundarins né efna til umræðna um fundarefnið sín í milli. Í lok fundar, eða áður en gestir hverfa á braut, skal einn fulltrúi hvers flokks sem fulltrúa á í nefndinni hins vegar eiga þess kost að lýsa afstöðu sinni og síns flokks til þess máls sem fyrir fundinum liggur og þeirra sjónarmiða sem komið hafa fram hjá gestum. Þeir nefndarmenn sem til máls taka skulu takmarka mál sitt við 3 mínútur.

Á sameiginlegum fundi tveggja nefnda getur að jafnaði einn fulltrúi hvers þingflokks, þar með talinn áheyrnarfulltrúi, úr hvorri nefnd tekið til máls og beint spurningum til gesta og gildir um þau orðaskipti ákvæði 1. mgr. Aðrir þingmenn í nefndunum geta gert stutta athugasemd. Skulu þá orðaskipti nefndarmanns og gests í heild ekki fara yfir 3 mínútur og þar af má efnislegt innlegg eða svar ekki fara yfir 1 mínútu í senn. Tilkynna skal formanni nefndar fyrir upphaf fundar hverjir séu talsmenn þingflokks á fundinum skv. 1. málsl. Um tilnefnda talsmenn þingflokka á sameiginlegum fundi gilda ákvæði 2. og 3. málsl. 2. mgr.

8. gr.
Um trúnaðarupplýsingar.

Óheimilt er að miðla upplýsingum á opnum fundi, eða vísa til þeirra, sem eiga að fara leynt samkvæmt reglum um þagnarskyldu eða upplýsingalögum. Formaður nefndar getur ákveðið að fundi skuli lokað svo að leggja megi fram slíkar trúnaðarupplýsingar, sbr. 5. mgr. 19. gr. þingskapa.

9. gr.
Upptaka á fundi.

Það sem fram fer á opnum fundi nefndar skal tekið upp í því skyni að hægt sé að staðreyna það síðar ef þörf krefur. Slík upptaka skal fyrst og fremst fela í sér hljóðritun. Útskrift umræðna á opnum fundi skal þó takmarka við þau atriði sem staðreyna þarf og sem hafa komið fram á fundinum, sbr. 1. málsl. Ef unnt er að koma því við er heimilt að hafa upptöku bæði í hljóð og mynd og skal þá slík upptaka vera aðgengileg á vef Alþingis.

10. gr.
Tímasetning opins fundar.

Opinn fund fastanefndar skal ekki halda meðan þingfundur stendur yfir.

11. gr.
Staðgengill.

Í forföllum nefndarmanns og varamanns skal þingflokkur tilnefna annan þingmann sem staðgengil til setu á fundinum, sbr. 3. mgr. 17. gr. þingskapa.

12. gr.
Klæðaburður.

Á opnum nefndarfundi skulu nefndarmenn fylgja þeim venjum sem gilda um klæðaburð í þingsal.

13. gr.
Símanotkun.

Óheimilt er að hafa kveikt á farsíma meðan á opnum nefndarfundi stendur.

14. gr.
Fundarfriður.

Formanni er heimilt að vísa áhorfanda af fundi ef hann truflar fundarfrið eða framkoma
hans er óviðeigandi í orði eða verki.

15. gr.
Gildistaka.

Reglur þessar eru settar á grundvelli 8., 18. og 19. gr., sbr. og 26. gr., laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, með síðari breytingum, og skulu taka gildi frá og með 15. febr. 2012.


(Samþykkt á fundi forsætisnefndar 13. febrúar 2012, upphaflegar bráðabirgðareglur
samþykktar í forsætisnefnd 3. júní 2008 með breytingum 14. janúar 2009.)