Reglur um sérfræðilega aðstoð fyrir fastanefndir Alþingis

1. gr.

Þingnefnd er heimilt að afla sér sérfræðilegrar aðstoðar frá stofnunum, samtökum eða einstaklingum utan skrifstofu Alþingis í samræmi við 2. gr. enda sé þingmálið eða verkefnið það umfangsmikið eða krefjist þeirrar sérþekkingar að ætla megi að ekki verði úr því leyst með öðrum hætti, svo sem með aðstoð starfsfólks Alþingis eða ráðuneyta.


2. gr.

Með sérfræðilegri aðstoð er í reglum þessum átt við að sérfróðir menn taka, að beiðni nefndar og að undangengnum skriflegum verksamningi, til umfjöllunar og mats ákveðin álitaefni um þingmál sem til umfjöllunar eru í nefndinni eða taka að sér að undirbúa mál sem nefnd hyggst vinna að eigin frumkvæði eða veita sérfræðiaðstoð að öðru leyti og skila nefndinni skriflegri álitsgerð þar um.


3. gr.

Óski nefnd þess að afla sér sérfræðilegrar aðstoðar snýr formaður sér til nefndasviðs skrifstofu Alþingis með ósk um að hún geri skriflegan verksamning áður en sérfræðileg aðstoð hefst. Skal þar kveðið á sem nákvæmastan hátt á um:

  1. hver vinni verkið og fyrir hvern,
  2. verklýsingu,
  3. áætluð verklok,
  4. kostnað.

Áður en sérfræðileg aðstoð hefst skal verksamningur staðfestur af forstöðumanni nefndasviðs enda sé umfang verksins eðlilegt miðað við fjárveitingu til þessa þáttar í árlegri rekstraráætlun Alþingis.

Liggi fyrir að verk verði sérstaklega kostnaðarsamt, þ.e. fari umfram 25% af heildarfjárveitingu hvers árs eða rúmist ekki innan fjárveitingar sem til ráðstöfunar er hverju sinni, skal leita fyrir fram til forseta um heimildir.


4. gr.

Telji nefndarmaður að tillögu sinni um sérfræðiaðstoð sé ranglega hafnað eða hann getur ekki fellt sig við þann sem meiri hluti nefndar hyggst fela sérfræðiaðstoðina er honum heimilt að skjóta málinu til forseta.

Rísi ágreiningur um aðra framkvæmd þessara reglna er aðilum jafnframt heimilt að bera hann undir forseta til úrskurðar.

Forseti skal leggja fyrir forsætisnefnd úrskurði sína og ákvarðanir samkvæmt þessum reglum.

5. gr.

Reglur þessar eru settar á grundvelli 33. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og skulu taka gildi frá og með 1. október 2007.

(Samþykkt á fundi forsætisnefndar 20. mars 2007, upphaflegar reglur samþykktar á fundi forsætisnefndar 5. desember 1994.)