Starfsreglur fyrir fastanefndir Alþingis

I. Nefndaskipun - formreglur.


1. gr.
Boðun fyrsta fundar nefndar.

1. mgr. Kosning á þingsetningarfundi samkvæmt samkomulagi.
Þegar aðalmenn og varamenn í fastanefndir eru kosnir á þingsetningarfundi samkvæmt tillögu formanna þingflokka boðar kosinn formaður fyrsta fund nefndarinnar að jafnaði innan viku frá kosningu.

2. mgr. Listakosning án samkomulags.
Náist ekki samkomulag milli þingflokka um nefndaskipan eða formennsku í nefndum og kosið til nefndanna á þingsetningarfundi eftir reglum 75. gr. þingskapa [Nú 82. gr. þingskapa] skal sá boða til fyrsta fundar nefndar sem fyrstur var kosinn í nefndina innan viku frá kosningu hennar. Á þeim fundi skal nefndin kjósa sér formann og 1. og 2. varaformann. Forseta Alþingis skal tilkynnt um kjörið strax að loknum fundi.

2. gr
Formaður og varaformenn nefndar.

1. mgr. Formaður.
Formaður gerir starfsáætlun nefndar, boðar til fundar í nefnd og stýrir fundum hennar. 1. varaformaður gegnir störfum formanns í forföllum hans og 2. varaformaður í forföllum 1. varaformanns.

2. mgr. Stjórn nefndarinnar.
Formaður, 1. varaformaður og 2. varaformaður mynda stjórn nefndar og skulu hafa samráð um störf hennar.

3. mgr. Formannsstörf til bráðabirgða.
Ef formaður og varaformenn eru forfallaðir eða varaþingmenn sitja fyrir þá felur formaður öðrum nefndarmanni að gegna formannsstörfum til bráðabirgða. Greiða má atkvæði um þá tilhögun í upphafi fundar, ef þess er óskað.

4. mgr. Formannskjör að nýju.
Nefnd getur hvenær sem er kosið að nýju formann eða varaformenn ef fyrir liggur beiðni meiri hluta nefndarmanna og fellur þá hin fyrri kosning úr gildi er ný kosning hefur farið fram, sbr. 4. mgr. 14. gr. þingskapa.

3. gr.
Nefndafundir.

1. mgr. Lokaðir fundir.
Nefndafundir eru að jafnaði lokaðir vinnufundir, sbr. 1. mgr. 19. gr. þingskapa og lokaðir öðrum en nefndarmönnum og starfsmönnum þeirra nema nefnd ákveði annað, sbr. 2. mgr. 19. gr. þingskapa. Óheimilt er að vitna til orða nefndarmanna eða gesta sem falla á lokuðum fundi nema með leyfi viðkomandi eða orðin hafi fallið á opnum hluta fundar, sbr. 1. og 2. mgr. 19. gr. þingskapa.

2. mgr. Gestafundir.
Þegar gestir koma fyrir nefnd getur hún þó ákveðið að opna fund eða hluta fundar fyrir fréttamönnum, að því tilskildu að um aðra gesti sé að ræða en þá sem starfa í Stjórnarráðinu á ábyrgð ráðherra, sbr. 2. mgr. 19. gr. þingskapa. Heimilt er að vitna til orða nefndarmanna og gesta á gestafundum þegar fréttamönnum er heimill aðgangur.

3. mgr. Opnir fundir.
Nefnd getur ákveðið að halda opinn fund sem sendur er út í sjónvarpi og á vef Alþingis. Þá getur fjórðungur nefndarmanna farið fram á slíkur fundur sé haldinn. Formaður gerir tillögu um afmörkun fundarefnis og tilhögun fundarins, þ.m.t. hversu langan tíma nefndarmenn fá til spurninga, og gesti sem óskað er eftir að verði til svara á fundinum. Ber formanni nefndarinnar að leita eftir því með hæfilegum fyrirvara, að jafnaði ekki minni en viku, að gestur komi á opinn fund og gera honum grein fyrir efni fundarins. Ákveði nefnd að halda opinn fund skal hún fylgja reglum forsætisnefndar um fyrirkomulag slíkra funda. Um framkvæmd opinna funda vísast að öðru leyti til reglna forsætisnefndar um opna fundi fastanefnda.

4. gr.
Varamenn, staðgenglar og varaþingmenn.

1. mgr. Varamaður.
Varamaður í nefnd skal taka sæti nefndarmanns sem er forfallaður eins og röð á lista segir til um.

2. mgr. Staðgengill.
Í forföllum nefndarmanns og varamanns er þingflokki heimilt að tilnefna annan þingmann sem staðgengil til setu í nefnd., sbr. 3. mgr. 17. gr. þingskapa. Formaður þingflokks skal senda nefndarritara tilkynningu um tilnefningu staðgengils. Þá getur þingflokkur að beiðni nefndarmanns óskað eftir því að staðgengill taki sæti í nefnd við afgreiðslu tiltekins þingmáls og skal sú ákvörðun tilkynnt formanni nefndar.

3. mgr. Varaþingmaður.
Varaþingmaður, sem tekið hefur sæti á Alþingi í forföllum þingmanns, á sæti í þeim nefndum sem þingmaðurinn er kjörinn í nema þingflokkur nefndarmanns óski eftir að tilnefndur varamaður eða staðgengill taki sæti í nefndinni. Varaþingmaður getur hafið störf í nefnd fyrir hádegi þann dag sem þingmannaskipti eiga sér formlega stað á þingfundi, en má þá ekki taka þátt í afgreiðslu mála nema kosning hans hafi áður verið tekin gild og hann undirritað drengskaparheit að stjórnarskránni. Þingmanni er eins heimilt, með samþykki varaþingmanns, að sitja nefndarfund og taka þátt í afgreiðslu mála fyrir hádegi þann dag sem hann tekur sæti á Alþingi að nýju.

4. mgr. Réttindi og skyldur.
Varamaður, varaþingmaður og staðgengill gegna ekki embættisstörfum þess þingmanns sem þeir taka sæti fyrir innan nefndar en njóta að öðru leyti allra sömu réttinda og aðrir nefndarmenn.

5. gr.
Undirnefndir.

Skipun undirnefndar.
Formaður fastanefndar getur skipað undirnefnd úr hópi nefndarmanna til að fjalla nánar um mál eða nánar afmarkaða þætti máls sem til meðferðar er hjá nefnd. Að jafnaði skal framsögumaður máls sitja í undirnefnd ásamt tveimur öðrum nefndarmönnum. Undirnefnd skal hafa hliðsjón af vinnuáætlun nefndar um mál sem hún fær til umfjöllunar.

6. gr.
Nefndarritari.

1. mgr. Starfsmaður nefndar.
Fyrir hverja nefnd skal starfa sérfræðingur, nefndarritari. Skrifstofa Alþingis ræður nefndarritara til starfa á nefndasviði Alþingis.

2. mgr. Hlutverk nefndarritara.
Nefndarritari aðstoðar formann, varaformenn og framsögumann máls við að skipuleggja vinnu nefndarinnar. Hann situr alla fundi nefndar og ritar fundargerðir. Hann fer yfir öll mál sem vísað er til nefndarinnar og sendir athugasemdir sínar til formanns og framsögumanns í tilteknu máli ef ástæða er til. Nefndarritari annast samskipti nefndar við ráðuneyti, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga, óskar upplýsinga og samhæfir störf sem unnin eru á vegum nefndarinnar. Nefndarritari veitir aðstoð við gerð nefndarálits og breytingartillagna. Þá hefur hann á hendi önnur þau verkefni sem nefnd ákveður.

3. mgr. Ferðir og fundir utan Alþingis.
Nefndarritari skal fylgja nefnd í vettvangsferðir og á fundi utan Alþingis og vera nefndarmönnum til aðstoðar.

II. Starfsáætlun, vinnuáætlun, meðferð máls - framkvæmdarleg atriði.


7. gr.
Skipulagning nefndastarfa.

1. mgr. Gerð starfsáætlunar.
Í upphafi haust-, vetrar- og vorþings skal formaður nefndar, ásamt 1. og 2. varaformanni, hafa forgöngu um að nefnd geri starfsáætlun, m.a. með hliðsjón af þingmálaskrá ráðherra, þar sem fram komi m.a. áætlun um afgreiðslu mála úr nefnd, sbr. 2. mgr. 18. gr., í því skyni að dreifa vinnu nefndar sem jafnast yfir þingtímann.

2. mgr. Efni starfsáætlunar.
Í starfsáætlun skulu m.a. koma fram, eftir því sem við verður komið, upplýsingar um fjölda funda sem nefnd ráðgerir að halda á tímabilinu, mál sem nefndin hyggst taka upp að eigin frumkvæði, þingmál sem nefndin hyggst taka fyrir, þingmál sem nefndin hyggst flytja, áætlanir um meðferð framangreindra mála sbr. 9. gr., og um fundi utan Alþingis og vettvangsferðir sem nefndin hyggst fara í.

3. mgr. Umfjöllun nefndar um mál fyrir vísun þess til nefndar.
Sé máli vísað til nefndar áður en 1. umræða um lagafrumvarp fer fram, fyrri umræða um þingsályktunartillögu eða strax að framsöguræðu lokinni skal formaður leggja fram tillögu um hvernig skoðun nefndarinnar á málinu verði hagað, þ.m.t. hvernig upplýsingaöflun eða öflun frekari skýringa á efni máls skuli hagað, m.a. um það hvort leita skuli eftir áliti utanaðkomandi sérfræðinga eða annarra, sbr. 2. mgr. 23. gr. þingskapa. Þegar nefnd hefur lokið athugun sinni er meðferð málsins fram haldið í þingsal. Forseti ákveður hversu lengi athugun nefndar samkvæmt framangreindu má standa.

4. mgr. Breyting á starfsáætlun.
Starfsáætlun skal uppfæra reglulega með hliðsjón af vísun mála til nefndar og áætlun nefndar um meðferð máls.

5. mgr. Kynning starfsáætlunar.
Starfsáætlun nefndar skal vera nefndarmönnum aðgengileg á innri vef nefndar og breytingar á henni skal kynna nefndarmönnum með hæfilegum fyrirvara. Formaður skal kynna forseta Alþingis starfsáætlun nefndar og áætlun nefndar um afgreiðslu mála, sbr. 2. mgr. 18. gr. þingskapa.

8. gr.
Meðferð máls. Framsögumaður.

1. mgr. Framsögumaður.
Þegar máli hefur verið vísað til nefndar skal nefnd fela einum nefndarmanni að vera framsögumaður máls, sbr. 27. gr. þingskapa. Ákveða skal framsögumann á fyrsta fundi sem málið kemur til umræðu.

2. mgr. Hlutverk framsögumanns.
Framsögumaður skal vinna drög að áætlun nefndar um meðferð máls, þ.m.t. um afgreiðslu þess, sbr. 1. mgr. 27. gr. þingskapa. Með áætlun máls skal leitast við að tryggja markvissa vinnu nefndarinnar og þar skal áætla tíma fyrir einstaka verkþætti við vinnu nefndar.

3. mgr. Forgangsröðun verkbeiðna.
Nefndarritari forgangsraðar verkbeiðnum framsögumanna í samræmi við starfsáætlun nefndar og áætlun nefndar um meðferð máls og ber að upplýsa formann um stöðu verkefna í samræmi við þær.

9. gr.
Áætlun nefndar um meðferð máls.

1. mgr. Gerð áætlunar máls.
Framsögumaður fær aðstoð nefndarritara við gerð vinnuáætlunar máls, gestalista, öflun upplýsinga, lausn faglegra álitaefna í tengslum við viðkomandi mál og gerð draga að nefndaráliti og breytingartillögum.

2. mgr. Efni áætlunar máls.
Áætlun nefndar um meðferð máls skal að lágmarki taka til eftirfarandi þátta:

  1. Umsagnarfrests.
  2. Fundar til kynningar á frumvarpi og funda með gestum.
  3. Umræðu nefndar um mál í heild sinni, einstaka þætti þess og breytingar á máli.
  4. Athugunar máls og vinnu við drög að nefndaráliti og breytingartillögum.
  5. Kynningar á og umræðu um drög að nefndaráliti og breytingartillögum.
  6. Afgreiðslu máls.

3. mgr. Umfjöllun í nefnd.
Formaður ákveður í samráði við framsögumann hvenær mál kemur til umfjöllunar og efnislegrar málsmeðferðar í nefnd.

4. mgr. Áætlun máls inn í starfsáætlun.
Fella skal vinnuáætlun máls inn í starfsáætlun nefndar.

5. mgr. Breyting á áætlun máls.
Telji framsögumaður á einhverju stigi máls þörf á að gera breytingar á áætlun nefndar um meðferð máls skal hann tilkynna það formanni og gera grein fyrir ástæðum þeirra.

6. mgr. Kynning áætlunar máls.
Áætlun nefndar um meðferð máls skal vera nefndarmönnum aðgengileg á innri vef nefndar.

10. gr.
Umsagnir, erindi og álit.

1. mgr. Umsagnir um þingmál.
Öllum er frjálst að senda inn umsagnir um mál.

2. mgr. Umsagnarbeiðnir.
Nefnd getur við umfjöllun máls óskað skriflegra umsagna um það frá aðilum utan þings. Veita skal aðilum hæfilegan frest til að senda inn umsagnir. Umsagnarbeiðnir eru að jafnaði sendar út rafrænt og heimilt er að veita umsögnum sendum með rafpósti viðtöku. Umsagnir og erindi, sem ekki er farið með sem trúnaðarmál, skal birta á vef Alþingis jafnóðum og þær berast.

3. mgr. Álit annarrar fastanefndar.
Nefnd er heimilt að óska eftir áliti annarrar fastanefndar um þingmál sem hún hefur til meðferðar enda eigi hluti þess undir málefnasvið þeirrar nefndar. Skulu formenn nefndanna þá koma sér saman um verkaskiptingu. Að jafnaði skal sú nefnd sem fær afmarkaðan efnisþátt máls til umsagnar vinna hann til fulls, þ.m.t. breytingartillögur, og skila umsögn innan sanngjarns og eðlilegs tíma miðað við umfang og eðli málsins. Ávallt skal birta umsagnir og tillögur annarra nefnda sem fylgiskjöl með nefndaráliti þeirrar nefndar sem upphaflega hafði málið til meðferðar.

4. mgr. Meðferð erinda.
Um meðferð umsagna og erinda nefnda fer eftir reglum forsætisnefndar um meðferð erinda til þingnefnda.

5. mgr. Rafrænar umsagnir.
Þegar máli hefur verið vísað til nefndar skal það tilgreint á vefsvæði nefndar. Félögum, stofnunum og einstaklingum skal gefinn kostur á því að fá tilkynningu rafrænt (áskrift) um vísun mála til nefnda. Um frágang rafrænna umsagna skal fylgja verklagsreglum sem forseti staðfestir.

11. gr.
Undirbúningur vegna funda með gestum.

1. mgr. Drög að gestalista.
Framsögumaður skal a.m.k. fjórum virkum dögum áður en boða skal til fundar með gestum samkvæmt starfsáætlun nefndar senda nefnd og nefndarritara drög að gestalista sem nefndarmenn fá sólarhring til að leggja til viðbætur við eða breytingar á.

2. mgr. Boðun gesta og niðurröðun á dagskrárlið.
Framsögumaður raðar gestum niður á viðkomandi dagskrárlið fundar með aðstoð nefndarritara. Starfsfólk nefndasviðs boðar gesti.

3. mgr. Gestir og dagvinnutími.
Gesti skal almennt ekki boða utan dagvinnutíma.

12. gr.
Gestir á nefndafundum.

1. mgr. Framsaga og svör gesta.
Nefnd getur samþykkt að fá gesti til fundar við sig og hlýða á mál þeirra. Þegar gestir eru boðaðir á fundi nefnda gefur formaður framsögumanni fyrstum nefndarmanna orðið til að reifa málið og spyrja gesti spurninga. Formaður skal svo að jafnaði gefa gestum kost á að hafa stutta framsögu um álit sitt á máli sem til umræðu er. Þá geta gestir einnig dreift gögnum til nefndarmanna um málið. Að því loknu gefst nefndarmönnum kostur á að bera fram spurningar til gesta. Formaður skal veita framsögumanni aukið rými og tíma til að fylgja eftir spurningum og spyrja að nýju. Formaður getur óskað eftir því að allir nefndarmenn komi spurningum sínum á framfæri áður en hann gefur gestum tækifæri til svara.

2. mgr. Afmörkun fundarefnis.
Samskipti nefndarmanna og gesta á fundum skulu vera málefnaleg. Ekki skal fara fram efnisleg umræða um mál í viðurvist gesta og þeir skulu ekki bera fram spurningar til nefndarmanna, nema allir viðstaddir nefndarmenn samþykki annað.

3. mgr. Tímamörk.
Formaður skal leitast við að halda tímaáætlun nefndar samkvæmt dagskrá þegar nefnd tekur á móti gestum.

4. mgr. Endursögn ummæla og þagnarskylda.
Nefndarmanni, og öðrum er sækja nefndafundi, er óheimilt að hafa eftir opinberlega ummæli er fallið hafa á lokuðum nefndarfundi, sbr. 1. mgr., nema hans sjálfs eða með leyfi þess sem þau viðhafði. Jafnframt geta gestir í upphafi fundar óskað eftir því að nefndarmenn séu bundnir þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um á fundinum og skal formaður þá þegar leita eftir afstöðu nefndarinnar til þess. Ræður vilji meiri hlutans. Nefndarmaður sem ekki vill taka við trúnaðarupplýsingum um mál skal víkja af fundi meðan það mál er til umræðu og afgreiðslu.

13. gr.
Símafundir og fjarfundir.

1. mgr. Fundur með fjarstöddum gesti.
Nefnd getur hlýtt á framsögu gesta og beint spurningum til gesta á símafundi eða með fjarfundabúnaði. Þess skal getið sérstaklega í fundargerð ef fundi er hagað með þessum hætti.

14. gr.
Fundir með ráðherra.

1. mgr. Fundur um þingmál og önnur mál á málefnasviði ráðherra.
Nefnd getur óskað þess að ráðherra komi á fund hennar til þess að fjalla um mál sem hún hefur til afgreiðslu frá honum eða mál sem nefndin hefur tekið til umfjöllunar að eigin frumkvæði og varðar málefnasvið ráðherrans.

2. mgr. Frumkvæði ráðherra að fundi með nefnd.
Að sama skapi getur ráðherra óskað þess að eigin frumkvæði að koma á fund nefndar og ræða mál er hana varðar.

3. mgr. Þingmálaskrá.
Ráðherrar skulu að jafnaði á fyrstu vikum þings koma á fund þingnefnda er fjalla um málaflokka þeirra, sbr. 4. mgr. 18. gr. þingskapa [Nú 3. mgr 47. gr. þingskapa]. Þar skal ráðherra gera grein fyrir þeim þingmálum sem þeir hyggjast leggja fram á löggjafarþinginu samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnar.

4. mgr. Fundir með ráðherra í þinghléum.
Fjórðungur nefndarmanna getur óskað eftir því að ráðherra komi á fundi þingnefndar í þinghléum, sbr. þó 3. mgr. 10. gr. þingskapa. Slíkir fundir skulu að jafnaði afmarkaðir við umræður um stjórnsýslu ráðherra.

5. mgr. Málfrelsi ráðherra.
Þegar ráðherra kemur á fund nefndar hefur hann sama rétt til þátttöku í umræðum og nefndarmenn.

6. mgr. Þagnarskyldar upplýsingar.
Í upphafi fundar getur ráðherra óskað eftir því að nefndarmenn séu bundnir þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um á fundinum og skal formaður þá þegar leita eftir afstöðu nefndarinnar til þess hvort hún vilji taka við slíkum trúnaðarupplýsingum. Ræður vilji meiri hlutans. Nefndarmaður sem ekki vill taka við trúnaðarupplýsingum um mál skal víkja af fundi meðan það mál er til umræðu og afgreiðslu.

15. gr.
Umræða nefndar um mál í heild sinni, einstaka þætti þess og breytingar á máli.

1. mgr. Hlutverk framsögumanns.
Þegar nefnd ræðir mál án gesta skal formaður gefa framsögumanni fyrstum orðið um málið. Framsögumaður reifar helstu atriði málsins, tilgreinir áhersluatriði, leggur línur fyrir vinnu nefndarinnar og gerir tillögu að áframhaldandi málsmeðferð.

2. mgr. Afstaða nefndarmanna.
Formaður skal óska eftir afstöðu og sjónarmiðum einstakra nefndarmanna og hefja umræðu um hvernig unnt er að mæta þeim í nefndaráliti eða með breytingartillögum.

3. mgr. Minni hluti nefndar.
Ef ljóst er að nefnd verður ekki einhuga um afgreiðslu máls skal formaður kalla eftir því hvort minni hluti eða hlutar nefndar munu skila sérálitum. Minni hluti sem skilar áliti skal tilnefna framsögumann þess, sbr. 29. gr. þingskapa.

16. gr.
Vinna við drög að nefndaráliti og breytingartillögum.

1. mgr. Drög að nefndaráliti.
Að loknum fundum með gestum hefst vinna við drög að nefndaráliti og breytingartillögum telji framsögumaður þörf á þeim. Framsögumaður nýtur aðstoðar nefndarritara við verkið.

2. mgr. Frestur til skila á nefndaráliti.
Nefnd skal skila áliti sínu í einu skjali, en ef nefnd er ekki einhuga skal formaður gefa hverjum hluta nefndarinnar hæfilegan frest, að jafnaði eigi skemmri en tvo daga, til að ganga frá áliti og breytingartillögum áður en þeim er skilað.

17. gr.
Kynning á og umræða um drög að nefndaráliti og breytingartillögum.

Tillaga um afgreiðslu máls.

Framsögumaður gerir tillögu að afgreiðslu nefndar á máli. Leggi framsögumaður til að mál sé afgreitt með nefndaráliti eða nefndaráliti og breytingartillögum kynnir hann drög sín þar um fyrir nefndinni sem formaður skal taka til umfjöllunar.

18. gr.
Afgreiðsla mála úr nefnd. Nefndarálit.

1. mgr. Atkvæðagreiðsla um mál.
Formaður skal bera drög framsögumanns, sbr. 17. gr., undir atkvæði.

2. mgr. Fyrirvari við nefndarálit.
Formaður skal kanna hvort einhverjir nefndarmenn ætli að skrifa undir nefndarálit með fyrirvara og í hverju fyrirvari sé fólginn.

3. mgr. Ágreiningur um hvort athugun máls skuli hætt.
Ef ágreiningur er meðal nefndarmanna um hvort umfjöllun um mál í nefnd sé lokið og hvort skila skuli áliti hennar getur nefndarmaður gert tillögu um að athugun máls sé hætt og það afgreitt frá nefndinni, sbr. 2. mgr. 27. gr. þingskapa. Er formanni skylt að láta greiða atkvæði um slíka tillögu á þeim fundi sem hún er borin fram. Tillagan telst því aðeins samþykkt að meiri hluti allra nefndarmanna greiði henni atkvæði.

4. mgr. Nefndarmaður fjarstaddur við afgreiðslu máls.
Nefndarmanni sem ekki hefur varamann eða staðgengil, en hefur tekið þátt í efnislegri umfjöllun nefndar um mál, er heimilt að rita undir nefndarálit eða standa að breytingartillögum þótt hann hafi verið fjarstaddur við afgreiðslu máls að því tilskildu að ósk um það hafi komið fram við formann fyrir fund þar sem málið er borið upp til afgreiðslu og frá henni greint á fundinum, sbr. þó 29. gr. Berist ósk um að afstaða nefndarmannsins sé staðfest með símtali skal við því orðið.

5. mgr. Eitt nefndarálit um tvö eða fleiri mál.
Nefnd getur látið uppi álit á tveimur eða fleiri málum saman ef þau fjalla um skyld efni.

6. mgr. Framhaldsnefndarálit.
Fái nefnd mál til umfjöllunar á nýjan leik eftir útgáfu nefndarálits helst framsögumaður sá hinn sami nema nefnd ákveði annað. Sömu málsmeðferðarreglur gilda um framhaldsnefndarálit og önnur nefndarálit.

7. mgr. Frestur til afgreiðslu máls.
Forseti Alþingis getur sett nefnd, sem hefur mál til athugunar, frest til afgreiðslu þess og útgáfu nefndarálits eða framhaldsnefndarálits ef hann telur að athugun nefndarinnar hafi dregist óeðlilega, sbr. 3. mgr. 18. gr. þingskapa.

19. gr.
Skýrslur nefnda.

1. mgr. Athugun nefndar á máli á málefnasviði hennar.
Nefnd getur gefið þinginu skýrslu um athugun sína á máli sem heyrir undir málefnasvið hennar og varðar t.d. framkvæmd ákvarðana, laga og reglna, þó að þingið hafi ekki vísað því sérstaklega til hennar. Í skýrslunni skal gerð grein fyrir ábendingum og athugasemdum nefndarinnar um það málefni sem til umfjöllunar er. Í skýrslunni er heimilt að gera tillögu til þingsályktunar, sbr. 2. mgr. 26. gr. þingskapa.

2. mgr. Athugun nefndar á þingmáli sem athugun er ekki lokið á.
Nefnd getur jafnframt með skýrslu gert þinginu grein fyrir athugun sinni á þingmáli sem hún hefur ekki lokið athugun á að fullu telji hún sérstaka ástæðu til þess, sem og skýrslu um störf sín, sbr. 31. gr. þingskapa.

20. gr.
Kostnaðaráætlun.

1. mgr. Áætlun um kostnað fyrir ríkissjóð.
Mæli nefnd með samþykkt lagafrumvarps eða þingsályktunartillögu skal hún láta prenta með áliti sínu áætlun um þann kostnað sem hún telur ný lög eða ályktun hafa í för með sér fyrir ríkissjóð nema slík áætlun fylgi lagafrumvarpi eða þingsályktunartillögu.


2. mgr. Endurskoðun kostnaðarmats.
Geri nefnd verulegar breytingartillögur við mál skal hún óska eftir því við fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis að kostnaðarmat verði endurskoðað eða framkvæmt eftir atvikum.

III. Fundarskapareglur.

21. gr.
Fundarboð og dagskrá.

1. mgr. Fundarboð.
Fundarboði skal beint til nefndarmanna. Í forföllum nefndarmanns skal fundarboði beint til varamanns hans eða staðgengils, sbr. 3. mgr. 17. gr. þingskapa. Fundarboði skal einnig beint til áheyrnarfulltrúa sem rétt á til setu á nefndarfundi, sbr. reglur forsætisnefndar um áheyrnarfulltrúa á fundum fastanefnda Alþingis.

2. mgr. Dagskrá.
Dagskrá reglulegra funda fastanefnda samkvæmt starfsáætlun skal send nefndarmönnum og gerð aðgengileg á vef Alþingis eins fljótt og auðið er, að jafnaði eigi síðar en síðdegis daginn fyrir fund. Til aukafundar, utan reglulegs fundartíma, skal boða með dagskrá.

3. mgr. Ákvörðun dagskrár.
Formaður ákveður dagskrá hvers fundar. Fylgja skal starfsáætlun nefndar við fundarboðun. Ef formaður er forfallaður skal dagskrá ákveðin af varaformanni eða þeim sem hefur heimild til að boða til fundar, sbr. 1. mgr. 2. gr.

4. mgr. Uppsetning dagskrár.
Á dagskrá skal geta þess til hvaða verkþáttar dagskrárliður fundar tekur, t.d. hvort um sé að ræða móttöku gesta, umræðu um mál eða afgreiðslu máls. Þá skal greina dagskrárliði í þeirri röð sem fyrirhugað er að ræða einstök mál á fundi ásamt tímasettri áætlun fyrir hvern dagskrárlið. Tilgreint skal við dagskrárlið þegar um gestafund er að ræða sem fréttamönnum er heimill aðgangur að.

5. mgr. Rafræn boðun.
Dagskrá og fundarboð skal senda nefndarmanni í gegnum tölvukerfi Alþingis með rafpósti í tæka tíð og eigi síðar en daginn fyrir fund. Þó skal, ef fundur er boðaður með minna en sólarhringsfyrirvara útbúa sérstakt fundarboð sem nefndarmönnum er afhent eða tilkynnt um á annan tryggilegan hátt. Dagskrá skal einnig útbýtt til nefndarmanna á fundinum.

6. mgr. Fundarfall.
Falli reglulegur fundur nefndar niður skal tilkynna nefndarmönnum sérstaklega um það á sama hátt og gildir um fundarboð.

7. mgr. Fundartímar.
Nefndarfundi skal ekki halda þegar þingfundur stendur yfir. Frá þessu má þó víkja ef allir nefndarmenn samþykkja og forseti þingsins hreyfir ekki andmælum.

22. gr.
Skylda til að boða fund.

1. mgr. Ósk um fund.
Ef ósk berst um það frá a.m.k. fjórðungi nefndarmanna eða frá þeim nefndarmanni sem falið hefur verið að vinna að athugun máls, framsögumanni, sbr. 27. gr. þingskapa, er formanni skylt að boða til fundar.

2. mgr. Fundur haldinn að ósk nefndarmanns/manna.
Fundur skv. 1. mgr. skal haldinn svo fljótt sem við verður komið eftir að ósk berst. Formaður skal gefa viðhlítandi skýringar ef dregst umfram þrjá virka daga að halda fund í nefndinni og getur falið nefndarritara að upplýsa nefndarmenn um ástæður þess með rafrænum hætti.

23. gr.
Fundarsókn.

Skylda til að sækja nefndarfundi.
Skylt er nefndarmönnum að sækja alla nefndarfundi nema lögmæt forföll banni. Forföll skal tilkynna nefndarritara eins fljótt og auðið er svo að unnt sé að boða varamann eða staðgengil til fundar.

24. gr.
Fundarstjórn.

1. mgr. Hlutverk formanns.
Formaður stýrir fundum nefndar.

2. mgr. Setning nefndarfundar.
Formanni er heimilt að setja nefndarfund ef til hans hefur verið boðað með dagskrá.

3. mgr. Takmörkun ræðutíma.
Séu dagskrárliðir tímasettir er formanni heimilt að takmarka ræðutíma nefndarmanna og gesta er koma á fundinn, sbr. 4. mgr. 21. gr.

4. mgr. Heimildir formanns.
Formaður getur breytt röð dagskrárliða og einnig tekið mál út af dagskrá, sbr. þó 21. gr. Þá getur formaður heimilað að umræður fari fram um tvo eða fleiri dagskrárliði í einu ef þeir fjalla um skyld efni eða það þykir hagkvæmt af öðrum ástæðum.

5. mgr. Önnur mál.
Formanni er heimilt, að eigin frumkvæði eða samkvæmt ósk nefndarmanna, að taka upp hvert það mál sem er á málefnasviði nefndarinnar undir liðnum "önnur mál". Beri formaður eða einhver nefndarmanna fram mótmæli gegn því að mál verði rætt undir þessum lið skal það borið undir atkvæði og ræður vilji meiri hlutans.

25. gr.
Málfrelsi og tillöguréttur.

Málfrelsi fundarmanna.
Nefndarmenn, varamenn og staðgenglar hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum. Um stöðu og réttindi áheyrnarfulltrúa á nefndafundum fer eftir reglum forsætisnefndar um áheyrnarfulltrúa á fundum fastanefnda Alþingis, sbr. einnig 2. mgr. 14. gr. þingskapa.

26. gr.
Meðferð trúnaðarmála.

1. mgr. Trúnaðarupplýsingar.
Á opnum fundi er óheimilt er að miðla eða vísa til upplýsinga sem leynt skulu fara samkvæmt reglum um þagnarskyldu og upplýsingalögum, svo sem mála sem varða persónuleg málefni einstaklinga og almannahagsmuni sem leynt skulu fara. Formaður getur ákveðið að loka yfirstandandi opnum fundi svo að leggja megi fram slíkar trúnaðarupplýsingar. Skal það bókað í gerðabók um trúnaðarmál fastanefnda.

2. mgr. Reglur um meðferð trúnaðarmála.
Um meðferð trúnaðarmála fer að öðru leyti eftir reglum forsætisnefndar um meðferð, varðveislu og skráningu trúnaðarmála.

27. gr.
Fundarfriður.

Farsímar og skilaboð.
Formaður skal sjá til þess að sem minnst röskun verði á fundum nefnda. Ekki skal beina símtölum inn á fund nema um brýnt erindi sé að ræða í tengslum við málefni fundarins. Samtöl í farsíma eru óheimil á fundum. Skilaboðum til nefndarmanna skal beint til starfsmanna nefndasviðs sem koma þeim skriflega til þeirra.

28. gr.
Ályktunarbær nefndarfundur. Ágreiningur.

1. mgr. Ályktunarbær fundur.
Fundur í nefnd er því aðeins ályktunarbær að meiri hluti nefndarmanna sé staddur á fundi og er það skilyrði fyrir því að teknar séu bindandi ákvarðanir eða mál afgreidd frá nefnd.

2. mgr. Ágreiningur um hvort athugun máls sé lokið.
Rísi ágreiningur um hvort athugun máls sé lokið og afgreiða eigi það frá nefndinni þarf meiri hluti allra nefndarmanna (a.m.k. fimm nefndarmanna af níu) að vera á fundi og greiða atkvæði með slíkri tillögu til að hún teljist samþykkt, sbr. 2. mgr. 27. gr. þingskapa.

29. gr.
Gerðabók.

1. mgr. Rafræn gerðabók.
Fastanefndir skulu halda rafræna gerðabók um það sem fram fer á fundum. Um efni fundargerða fer eftir reglum forsætisnefndar um frágang fundargerða fastanefnda Alþingis.

2. mgr. Staðfesting fundargerða.
Fundargerð skal lögð fram til staðfestingar í lok fundar eða í upphafi næsta fundar. Athugasemdir nefndarmanna við fundargerð skulu bókaðar í fundargerð næsta fundar.

3. mgr. Birting fundargerða.
Staðfestar fundargerðir nefnda skulu birtar á vefsvæði nefnda á vef Alþingis.

4. mgr. Trúnaðarmálabók.
Halda skal sérstaka gerðabók þar sem bóka skal trúnaðarmál fastanefnda og gögn sem nefndir fá afhent og bundin eru trúnaði.

IV. Önnur atriði.


30. gr.
Sérfræðileg aðstoð. Þýðingar.

1. mgr. Ósk nefndar um sérfræðilega aðstoð.
Nefnd getur óskað eftir sérfræðilegri aðstoð við athugun máls í samræmi við reglur forsætisnefndar um sérfræðilega aðstoð við afgreiðslu þingmála.

2. mgr. Ósk þingmanns eða nefndar um þýðingar.
Þingmaður eða nefnd getur óskað eftir þýðingu á ræðum og skjölum eftir reglum forsætisnefndar um þýðingar á ræðum og skjölum fyrir þingmenn og fastanefndir Alþingis.

31. gr.
Vísun mála milli nefnda.

Vísun til annarrar fastanefndar.
Nefnd, sem fengið hefur mál til athugunar, er heimilt að vísa því til annarrar fastanefndar telji hún að málið eigi fremur heima í þeirri nefnd. Áður skal þó liggja fyrir samþykki þeirrar nefndar sem málinu er vísað til. Tilkynna skal forseta um slíka tilfærslu.

32. gr.
Gildistaka.

Reglur þessar, sem settar eru með stoð í 5. mgr. 8. gr. þingskapa, taka gildi 1. október 2011.

33. gr.
Endurskoðun.

Reglur þessar skulu endurskoðaðar fyrir 1. október 2012, sbr. ákvæði til bráðabirgða laga nr. 84/2011.


(Samþykkt á fundi forsætisnefndar Alþingis 27. september 2011.)