Reglur um störf nefnda utan þingtíma

1. gr.

Nefndum er heimilt að halda fundi þegar Alþingi er ekki að störfum, sbr. 23. gr. stjórnarskrárinnar. Fyrir þingfrestun að vori skal forseti ákveða, að höfðu samráði við formenn nefnda, fasta fundartíma fyrir nefndir yfir sumarið, sbr. 18. gr. þingskapalaga. Hver nefnd skal jafnframt leggja fram fyrir þingfrestun áætlun um helstu fundarefni sem ráðgert er að rædd verði á sumarfundunum.

Leitast skal við að hafa fundarhlé á tímabilinu 1. júlí til 15. ágúst [samkvæmt þingsköpum er sumarhlé þingsins frá 1. júlí til 10. ágúst og skal ekki boða til nefndafunda á tíma nema brýna nauðsyn beri til].

2. gr.

Telji formaður, eða a.m.k. þriðjungur nefndarmanna, brýnt að nefnd komi saman utan fyrir fram ákveðins fundartíma skal boða fund og jafnframt gera nefndarmönnum grein fyrir tilefni fundarins í fundarboði [nú fjórðungur nefndarmanna, sbr. 15. gr. þingskapa].

3. gr.

Skrifstofa Alþingis skal í þinghléum veita nefndum sömu þjónustu og veitt er á þingtíma eftir því sem unnt er.

4. gr.

Um kostnað við ferðir nefndarmanna, sem búsettir eru utan Reykjavíkur, á nefndarfundi í Reykjavík utan þingtíma fer samkvæmt reglum um dvalar- og ferðakostnað þingmanna.

5. gr.

Ef nefnd telur þörf á að halda vinnufundi utan Reykjavíkur eða nágrennis hennar, þannig að umtalsverðum aukakostnaði valdi, skal það heimilt að fengnu samþykki forsætisnefndar. Í tengslum við slíkan fund getur nefnd efnt til vettvangskönnunar. Tillögu um fund utan Reykjavíkur, sem og vettvangsferð, ásamt áætlun um kostnað, sem unnin skal í samráði við skrifstofu þingsins, ber að leggja fyrir forsætisnefnd fyrir þingfrestun. Í fundaferðum samkvæmt þessum tölulið skal miða við reglur um dvalar- og ferðakostnað þingmanna og að Alþingi leggi til sameiginlegan farkost.

Ef nefnd telur nauðsyn bera til meiri háttar kynnisferðar vegna starfa sinna, þannig að ákvæði fyrri málgreinar eiga ekki við, skal hún bera það undir forsætisnefnd, ásamt kostnaðaráætlun, eins fljótt og verða má, helst svo tímanlega að gera megi ráð fyrir þeim kostnaði við afgreiðslu fjárheimilda.

6. gr.

Reglur þessar eru settar skv. 3. mgr. 8. gr. [nú 5. mgr. 8. gr.] þingskapalaga, nr. 55/1991.

(Samþykkt á fundi forsætisnefndar 2. júlí 1991.)