Reglur um utanferðir fastanefnda Alþingis

1. gr.
Almennar reglur.

Fastanefndir Alþingis sinna alþjóðastarfi eftir því sem fyrir er mælt í þessum reglum. Alþjóðastarf skal standa í nánum tengslum við málefnasvið nefndar.

Þeirri fjárhæð sem Alþingi veitir til alþjóðastarfs fastanefnda skal ráðstafa í samræmi við þessar reglur.

Ferðakostnaður greiðist eftir þeim reglum sem skrifstofa Alþingis setur á hverjum tíma.

2. gr.
Utanferðir nefnda og formanna nefnda.

Sérhver fastanefnd á kost á að fara utan fullskipuð, með öllum sem fast sæti eiga í nefndinni, í heimsókn eða fundaferð einu sinni á kjörtímabili.

Formenn fastanefnda skulu eiga þess kost að sækja fundi eða ráðstefnur einu sinni á kjörtímabili til viðbótar því sem segir í 1. mgr.

3. gr.
Utanríkismálanefnd.

Utanríkismálanefnd á kost á að fara utan fullskipuð einu sinni á hverju löggjafarþingi. Auk þess getur hluti nefndar, þrír til fimm nefndarmenn, sótt fundi eða ráðstefnur sem nefndinni er boðið að sækja einu sinni á hverju löggjafarþingi.

Formaður utanríkismálanefndar skal eiga þess kost að sækja fundi eða ráðstefnur tvisvar á hverju löggjafarþingi til viðbótar því sem segir í 1. mgr.

4. gr.
Umsóknir og forgangsröð.

Miðað er við að þrjár fastanefndir auk utanríkismálanefndar geti farið utan á hverju löggjafarþingi og að þrír formenn nefnda auk formanns utanríkismálanefndar geti sótt fundi eða ráðstefnur, sbr. 2. og 3. gr.

Ef fleiri nefndir eða formenn nefnda óska eftir að fara utan skal forgangur ráðast af því hver þeirra leggur fyrst fram formlega beiðni ásamt greinargerð. Í greinargerð skal koma fram tilefni ferðar, tengsl við starfsemi nefndar, sbr. 1. mgr. 1. gr., drög að dagskrá, ferðatilhögun og kostnaðaráætlun.

Umsókn og greinargerð skal skilað til forstöðumanns nefndasviðs.

5. gr.
Fjárveitingar.

Fjárveiting til utanferða fastanefnda ræðst af rekstrarfé til nefndasviðs Alþingis í samræmi við afgreiðslu fjárlaga ár hvert.

Ef beiðnir skv. 4. gr. eru umfram fjárveitingar eða sótt er um fleiri ferðir en reglur þessar gera ráð fyrir skal leita fyrir fram til forseta Alþingis um heimild til utanferðar áður en ferð er ákveðin.

Telji formaður nefndar að beiðni hans sé ranglega hafnað eða hann getur ekki fellt sig við forgangsröðina er honum heimilt að skjóta málinu til forseta Alþingis.

6. gr.
Gildistaka o.fl.

Reglur þessar eru settar með stoð í 3. mgr. 8. gr. [nú 5. mgr. 8. gr.] laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og skulu taka gildi 1. október 2007.


(Samþykkt á fundi forsætisnefndar 20. mars 2007.) 1

1Samkvæmt ákvörðun forsætisnefndar í janúar 2009 eru eingöngu ákvæði reglnanna er varða utanríkismálanefnd virk.