Reglur um þinglega meðferð EES-mála

I. Umsjón EES-mála á Alþingi.

1. gr.
Yfirumsjón og fundir.

Utanríkismálanefnd hefur yfirumsjón með umfjöllun nefnda Alþingis um EES-mál. Nefndin skal halda fundi um EES-mál eftir þörfum, þó ekki sjaldnar en einu sinni í mánuði að jafnaði yfir þingtímann.

Formanni er skylt að boða til fundar um EES-mál ef ósk berst um það frá ráðherra eða þriðjungi nefndarmanna.


II. Upplýsingagjöf og samráð um nýjar ESB-gerðir.

2. gr.
Meðferð ESB-gerða sem háðar eru samþykki Alþingis.

Þegar fulltrúi ráðuneytis fær til meðferðar í vinnuhópi EFTA ESB-gerð sem fyrirhugað er að fella inn í EES-samninginn en ekki mun taka gildi á Íslandi nema að undangengnu samþykki Alþingis skal senda utanríkismálanefnd gerðina í heild sinni. Heimilt skal að senda óþýddan frumtexta. Með gerðinni skal fylgja upplýsingablað ráðuneytisins (sk. EES-eyðublað) ásamt staðalskjali. Ef ráðuneyti hyggst óska eftir efnislegri aðlögun, svo sem um undanþágur, sérlausnir eða frest á gildistöku, skal nefndin upplýst um slíkt.

Ef utanríkismálanefnd telur að ESB-gerð þarfnist efnislegrar aðlögunar, þó að ekki hafi verið gert ráð fyrir slíku af hálfu ráðuneytis, skal hún boða fulltrúa utanríkisráðuneytis og viðkomandi fagráðuneytis á samráðsfund um málið. Umfjöllun utanríkismálanefndar skal miðuð við að ráðuneytið geti unnið úr ábendingum hennar í tæka tíð fyrir lok tilskilins frests á sendingu staðalskjals málsins til EFTA-skrifstofunnar. Að jafnaði skal því miða við að samráðsferli hverrar gerðar skuli lokið innan tveggja vikna frá því að gerðin ásamt fylgigögnum barst utanríkismálanefnd, sbr. 1. mgr.

III. Þingleg meðferð EES-mála fyrir fundi í sameiginlegu EES-nefndinni.

3. gr.
Upplýsingagjöf og samráð fyrir fundi í sameiginlegu EES-nefndinni.

Ekki verður tekin ákvörðun af Íslands hálfu í sameiginlegu EES-nefndinni, með fyrirvara um samþykki Alþingis, án undangengins samráðs við utanríkismálanefnd.

Í vikunni fyrir fund í sameiginlegu EES-nefndinni skal utanríkisráðuneytið senda utanríkismálanefnd lista með umfjöllun um þær ESB-gerðir sem ráðgert er að fjalla um á næsta fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar. Listanum fylgi afrit af minnisblöðum til ríkisstjórnarinnar yfir þær gerðir sem fyrirhugað er að taka upp í EES-samninginn á næsta fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar, auk aðlögunartexta.

IV. Staðfesting Alþingis á ákvörðunum sameiginlegu
EES-nefndarinnar.

4. gr.
Aflétting stjórnskipulegs fyrirvara í formi þingsályktunar.

Samþykki Alþingis þarf til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við og gildir um þá meðferð eftirfarandi:

 1. Stjórnskipulegum fyrirvara við ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar skal að jafnaði aflétt með þingsályktun. Telji utanríkisráðherra eða aðrir ráðherrar tilefni til að víkja frá því og afla heimildar til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara í því lagafrumvarpi sem fjallar um innleiðingu hlutaðeigandi ESB-gerðar skal ráðherrann hafa um slíkt samráð við utanríkismálanefnd sem getur heimilað slíka málsmeðferð.
 2. Framsetning tillagna til þingsályktunar, sem lagðar verða fyrir Alþingi í þessum tilgangi, sé samræmd þannig að efnisatriði, sbr. c-lið, komi skýrt fram í athugasemdum hverrar tillögu fyrir sig.
 3. Í stuttri athugasemd skal efni einstakra kafla vera eftirfarandi: forsaga þess að málið er komið til kasta Alþingis; tilgangur viðkomandi ESB-gerðar; ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar; afstaða efnisreglna gerðarinnar gagnvart íslenskum rétti og líklegar og nauðsynlegar breytingar á íslenskum lögum; efnahagslegar og stjórnsýslulegar afleiðingar gerðarinnar; og tillögur viðkomandi ráðuneytis.
 4. Í athugasemdum skal að auki vera staðlaður texti um stjórnskipulegan fyrirvara og hvað hann hefur í för með sér.
 5. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar ásamt viðkomandi gerð eða gerðum skal að jafnaði birta sem fylgiskjal með þingsályktunartillögunni.

5. gr.
Frágangur lagafrumvarpa um EES-mál.


Hlutaðeigandi ráðuneyti undirbúa samhliða eða í framhaldi af framlagningu þingsályktunartillögu nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga og leggja tímanlega fyrir þingið.

Í frumvarpstexta skal vera sérstakt ákvæði sem vísar til þeirrar EES-gerðar sem verið er að innleiða í íslenskan rétt.

Í athugasemdum við viðkomandi lagafrumvarp komi eftirfarandi efnisatriði fram með skýrum og samræmdum hætti:

 1. að með frumvarpinu sé lögð til innleiðing á reglum sem byggðar eru á
  ESB-gerðum og tilgreint hvaða greinar frumvarpsins stafa frá slíkum gerðum,
 2. hvort frumvarpið uppfyllir lágmarkskröfur á grundvelli viðkomandi ESB-gerðar og annarra skuldbindinga samkvæmt EES-samningnum,
 3. að hvaða marki frumvarpið hafi að geyma frávik frá upphaflegu ESB-gerðinni, þ.e. hvort og þá að hve miklu leyti gengið er lengra en viðkomandi gerð gefur tilefni til og hvaða hlutar frumvarpsins eru viðbætur eða tengdir þættir sem viðkomandi ráðherra leggur til að verði lögfestir.

V. Samstarf við fastanefndir og alþjóðanefndir
um þinglega meðferð EES-mála.

6. gr.
Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA.

Til funda utanríkismálanefndar um EES-mál skulu jafnframt boðaðir þingmenn sem sæti eiga í Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA.

Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA annast samskipti Alþingis við þingmannanefnd EFTA og sameiginlega þingmannanefnd EES. Íslandsdeildin skal reglulega koma á framfæri við utanríkismálanefnd upplýsingum um það EES-starf sem fram fer hjá áðurgreindum aðilum og koma nauðsynlegum gögnum á framfæri við utanríkismálanefnd.


7. gr.
Fastanefndir og ráðherrar.

Fastanefndir Alþingis skulu eiga þess kost að fylgjast með þróun einstakra EES-mála á sínu málefnasviði og gildir um þá meðferð eftirfarandi, sbr. II. og III. kafla:

 1. Utanríkismálanefnd skal bjóða öðrum fastanefndum eða fulltrúum þeirra að taka þátt í fundum nefndarinnar þegar ræða á mál á málefnasviði þeirra.
 2. Gögn sem utanríkismálanefnd fær send frá utanríkisráðuneytinu fyrir hönd
  Stjórnarráðsins eru í þeim tilvikum sem greinir í a-lið einnig send viðkomandi fastanefnd.
 3. Veiti utanríkismálanefnd heimild til að stjórnskipulegum fyrirvara verði aflétt með lagafrumvarpi, sbr. a-lið 4. gr., skal nefndin upplýsa viðkomandi fastanefnd um fyrirhugaða málsmeðferð.

VI. Upplýsingagjöf um Evrópumál.

8. gr.
Upplýsingar til utanríkismálanefndar.

Auk upplýsingagjafar og samráðs skv. 2. gr., um nýjar ESB-gerðir, skal utanríkisráðuneyti veita utanríkismálanefnd upplýsingar um ESB-áætlanir, grænbækur, hvítbækur og önnur stefnumótandi skjöl á vettvangi ESB og um helstu stefnumál ríkisstjórnarinnar í samskiptum við Evrópusambandið.

VII. Gildistaka og endurskoðun.

9. gr.
Gildistaka.

Reglur þessar eru settar á grundvelli 8., 10. og 18. gr. [nú 8., 18., 24. og 37. gr. þingskapalaga] laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, með síðari breytingum, og taka gildi frá og með 1. október 2010.

10. gr.
Endurskoðun.

Reglur þessar skulu endurskoðaðar fyrir 1. október 2011.

(Samþykkt í forsætisnefnd Alþingis í febrúar 1994.
Endurskoðað á fundi forsætisnefndar 16. ágúst 2010.)