Reglur um starf þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis

1. gr.

Reglur þessar gilda um starfsemi þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem kosin var af Alþingi á grundvelli laga nr. 142/2008, sbr. lög nr. 146/2009. Nefndin er skipuð níu þingmönnum af sameiginlegum lista allra þingflokka og gildir kosning þeirra til loka 138. löggjafarþings. Um störf nefndarinnar gilda lög um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, með síðari breytingum, eftir því sem við á, auk almennra reglna um fundi fastanefnda ef ekki er á annan veg mælt fyrir í reglum þessum.

2. gr.

Nefndin kýs sér formann og varaformann sem gegnir störfum formanns í forföllum hans. Nefndarmönnum ber að sækja fundi nefndarinnar og tilkynna um forföll ef einhver verða. Skal þá kalla til fasta staðgengla nefndarmanna.

3. gr.

Þingmannanefndin hefur fastan fundartíma tvisvar sinnum í viku. Þó er mögulegt að boða til aukafunda eftir þörfum og skal boðað til þeirra sérstaklega.

4. gr.

Þingmannanefndin skal halda gerðabók um það sem fram fer á fundum nefndarinnar. Í gerðabók skulu skráðir allir fundir nefndarinnar, deili á þeim sem kallaðir eru fyrir nefndina og önnur atriði sem tilgreind eru í 2. gr. reglna forsætisnefndar um frágang fundargerða fastanefnda Alþingis. Nefndarritari skráir fundargerðir og undirritar þær ásamt nefndarformanni.

Gerðabækur skulu varðveittar á skrifstofu Alþingis.

5. gr.

Fundargerðir nefndarinnar skulu gerðar opinberar. Að loknum hverjum fundi fá nefndarmenn fundargerðir til skoðunar og verða þær bornar upp til staðfestingar á næsta reglulega fundi nefndarinnar. Fundargerðir skulu síðan vera aðgengilegar á vefsvæði nefndarinnar á vef Alþingis.

6. gr.

Þingmannanefndin getur ákveðið að skipta sér upp í vinnuhópa sem fjalla um afmarkaða þætti í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

7. gr.

Hafi nefndin til umfjöllunar mál sem kunna að varða refsiábyrgð einstaklinga skal nefndin bundin trúnaði vegna rannsóknarhagsmuna. Nefndinni er þó heimilt að veita þingmönnum aðgang að gögnum sem hún er bundin trúnaði um. Áður en aðgangur er veittur skal leita samþykkis þeirra sem veitt hafa slíkar trúnaðarupplýsingar. Gögnin skulu varðveitt í sérstökum trúnaðarmálamöppum í vörslu starfsmanna Alþingis. Þingmenn sem óska aðgangs að slíkum gögnum eru bundnir trúnaði.

8. gr.

Nefndin heldur opna fundi svo oft sem hún telur þörf á. Eftir fremsta megni skal tryggja gestum nægilegan tíma til undirbúnings fyrir fund með nefndinni.

Um opna fundi skulu gilda almennar reglur um opna fundi fastanefnda Alþingis, eftir því sem við á.

9. gr.

Þingmannanefndin skal gera grein fyrir athugun sinni í skýrslu sem lögð verður fyrir Alþingi, sbr. 26. gr. þingskapa.

Nefndin getur lokið athugun sinni á einstökum þáttum málsins með framlagningu þingmála eða, eftir atvikum, vísað einstökum ábendingum um úrbætur í lagalegu tilliti til viðkomandi fastanefndar.

10. gr.

Ef nefndin telur nauðsynlegt að afla frekari upplýsinga um einstök atriði getur hún ákveðið að framhaldsrannsókn fari fram skv. 4. mgr. 15. gr. laga nr. 142/2008, sbr. lög nr. 146/2009. Í tillögu um framhaldsrannsókn skal afmarka með skýrum hætti að hverju rannsóknin eigi að beinast, hvenær skýrsla um niðurstöðu rannsóknarinnar skuli liggja fyrir og hverjum skuli falið að annast hana. Reglur I., III. og VI. kafla laga nr. 142/2008 gilda um slíka framhaldsrannsókn eftir því sem við á, þar á meðal reglur um rannsóknarheimildir, þagnarskyldu og birtingu upplýsinga sem háðar eru þagnarskyldu.

11. gr.

Reglur þessar eru settar á grundvelli 15. gr. laga nr. 142/2008, sbr. lög nr. 146/2009, og 32. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, með síðari breytingum.