Reglur um þinglega meðferð skýrslna Ríkisendurskoðunar

1. gr.

Skýrslur Ríkisendurskoðunar og greinargerðir, skv. 3., 7. og 9. gr., sbr. og 11. gr., laga um stofnunina, nr. 86/1997, með síðari breytingum, skulu sendar forseta Alþingis með bréfi.

2. gr.

Fjalli skýrslan um framkvæmd fjárlaga, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 13. gr. þingskapa eða um endurskoðun ríkisreiknings sendir forseti Alþingis skýrsluna til umfjöllunar fjárlaganefndar. Aðrar skýrslur sendir forseti til umfjöllunar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sbr. 8. tölul. 1. mgr. 13. gr. þingskapa.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fjallar um starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar.

3. gr.

Nefnd, sem fær skýrslu til umfjöllunar, tekur ákvörðun um málsmeðferð, þar á meðal um hverja hún boðar til fundar við sig um efni hennar eða óskar skriflegra umsagna.

Ríkisendurskoðandi á rétt á að koma á fund nefndar sem fjallar um skýrslu Ríkisendurskoðunar ef hann óskar þess.

4. gr.

Nefnd, sem fær skýrslu Ríkisendurskoðunar til meðferðar, getur óskað eftir umsögn annarrar fastanefndar um efni hennar eða um tiltekna efnisþætti hennar, innan þess frests sem tiltekinn er.

5. gr.

Nefnd getur skilað áliti um skýrslu Ríkisendurskoðunar ef hún telur ástæðu til, sbr. 2. máls. 31. gr. þingskapa. 

6. gr.

Nefnd getur í áliti sínu til þingsins gert tillögu til þingsályktunar um efni skýrslunnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. þingskapa.

7. gr.

Reglur þessar taka þegar gildi og falla þá um leið úr gildi reglur forsætisnefndar um þinglega meðferð skýrslna Ríkisendurskoðunar frá 12. febrúar 2008.

(Samþykkt á fundi forsætisnefndar 27. janúar 2012.)