Reglur um vefbirtingu þingskjala

1. gr.

Meginregla þingskapa um útbýtingu þingskjala er að hún fer fram á þingfundi með tilkynningu forseta.

2. gr.

Þingskjöl eru einnig birt á vef og lögð fram í útbýtingarherbergi eftir því sem þau berast meðan á þingfundi stendur og eru opinber án þess að um þau sé tilkynnt í hvert sinn. Í upphafi þingfundar og í lok hans les forseti lista yfir útbýtt þingskjöl.

3. gr.

Utan þingfunda má einnig, ef nauðsyn ber til, útbýta þingskjölum með því að birta þau á vef, fram til klukkan 8 síðdegis.

4. gr.

Ef þingskjölum er útbýtt utan þingfundar er þingmönnum tilkynnt það annaðhvort í tölvupósti eða með sms-skilaboðum. Jafnframt birtist undir hlekknum tilkynningar  á heimasíðu Alþingis að nýjum þingskjölum hafi verið útbýtt utan þingfundar og þau sé að finna undir hlekknum ný þingskjöl neðar á forsíðunni.

Dæmi: 19.09.2011
Þingskjölum útbýtt utan þingfundar
Þingskjölum var útbýtt utan þingfundar kl. xxx. Sjá hlekkinn ný þingskjöl.

5. gr.

Í formlegum þinghléum er miðað við að hægt sé að útbýta svörum við fyrirspurnum og skýrslum sem Alþingi hefur samþykkt að biðja um.

Viðauki.

Ákvæði þingskapa um vefbirtingu.

65. gr. 4. mgr.:
Á milli þingfunda má birta þingskjöl á heimasíðu Alþingis og telst sú birting jafngilda útbýtingu á þingfundi. Forseti setur nánari reglur um útbýtingu þingskjala á vef þingsins. Sama gildir um tilkynningar um þingsetu varamanna. Allar tilkynningar, sem birtast fyrst á vef þingsins samkvæmt þessari málsgrein, skal forseti endurtaka við upphaf næsta þingfundar eftir vefbirtingu.

(Kynnt á fundi forsætisnefndar 27. september 2011.)