Verklagsreglur skrifstofu Alþingis um framkvæmd reglna um þinglega meðferð EES-mála (EES-reglur)

1. gr.
Ritari EES-mála.

Ritari EES-mála hefur umsjón með þeim verkum sem skrifstofan sinnir á sviði EES-mála og annast fyrir hönd skrifstofunnar samskipti við utanríkisráðuneytið um þau mál er varða Evrópska efnahagssvæðið. Ritari EES-mála sér um þessi verk í umboði ritara utanríkismálanefndar.

2. gr.
Móttaka gagna frá ráðuneyti og vistun þeirra.

EES-gögn frá utanríkisráðuneyti eða fagráðuneyti eftir atvikum skulu send með rafrænum hætti til ritara EES-mála og skal hann fylgjast með að ekki verði dráttur á því að eftirtalin gögn berist nefndinni frá ráðuneyti:

  1. ESB-gerð í heild sinni (t.d. óþýddur frumtexti) og staðalskjal ásamt upplýsingablaði (EES-eyðublað), sbr. 1. mgr. 2. gr. EES-reglna.

  2. Drög að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar (sem EFTA-skrifstofan sendir viðkomandi sérfræðingum til umfjöllunar) þar sem aðlögunartexti er settur fram. Þetta á einnig við hafi utanríkismálanefnd fjallað sérstaklega um þörf á efnislegri aðlögun og hyggist fylgja málinu eftir, sbr. 2. mgr. 2. gr. EES-reglna.

  3. Listi yfir ákvarðanir [þ.e. þær gerðir] sem gætu verið á dagskrá næsta fundar sameiginlegu EES-nefndarinnar.

  4. Dagskrá næsta fundar sameiginlegu EES-nefndarinnar.
  5. Minnisblað til ríkisstjórnarinnar (frá utanríkisráðuneyti, ásamt fylgiskjölum, sérstaklega efnisútdrætti um ESB-gerð sem fylgir undirritunarblaði).

Miðað er við að gögn berist á tölvuleitanlegu formi, þ.e. Word eða HTML, einnig PDF ef það er tölvuleitanlegt.

EES-gögn frá utanríkisráðuneytinu skulu vistuð á sérstöku vefsvæði á tölvuneti Alþingis, sbr. 8. gr.

Þegar gögn skv. a- og b-lið 1. mgr. berast sendir ritari EES-mála þingmönnum í utanríkismálanefnd og Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA tölvupóst með upplýsingum um að gögnin hafi borist.


3. gr.
Undirbúningur.

Ritari EES-mála undirbýr þá fundi utanríkismálanefndar, eða þann hluta fundar, þar sem fjallað er um EES-mál. Hann gengur frá dagskrá í samráði við formann.

Einstakir nefndarmenn skulu láta ritara EES-mála vita af þeim málum sem þeir óska eftir að sett verði á dagskrá EES-fundar nefndarinnar (t.d. um fyrirvara um samþykki Alþingis varðandi nýjar ESB-gerðir, efnislega aðlögun og eftirfylgni mála).

Fyrir fund utanríkismálanefndar um EES-mál skal ritari EES-mála senda utanríkismálanefnd og þingmannanefnd EFTA tölvupóst og greina frá dagskrá fundarins. Hann skal jafnframt senda formanni og ritara þeirra fastanefnda, sem hafa rétt til að senda fulltrúa á fundinn, tölvupóst með dagskrá fundarins og leita staðfestingar á því hvort viðkomandi nefnd ætli að senda fulltrúa á fundinn.

4. gr.
Stjórnskipulegum fyrirvara aflétt með lagafrumvarpi.

Veiti utanríkismálanefnd heimild til að stjórnskipulegum fyrirvara verði aflétt með lagafrumvarpi, sbr. a-lið 4. gr. EES-reglna, skal ritari EES-mála senda formanni og ritara viðkomandi fastanefndar tölvupóst með upplýsingum um fyrirhugaða málsmeðferð, sbr. 7. gr. sömu reglna.

5. gr.
Gögn á fundi.

Þegar fyrir liggur hvaða EES-mál verða sett á dagskrá utanríkismálanefndar setur ritari EES-mála þau gögn á vefsvæði um EES-mál, sbr. 8. gr.

Ritari EES-mála felur skjalaverði að setja fyrir fund eftirfarandi gögn í möppur nefndarmanna:

  1. Staðalskjal ásamt upplýsingablaði (EES-eyðublaði) er varðar ESB-gerðir sem ætla má að kalli á lagabreytingar hér á landi.
  2. Drög að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem aðlögunartexti er settur fram, hafi utanríkismálanefnd fjallað sérstaklega um þörf á efnislegri aðlögun og hyggist fylgja málinu eftir, sbr. 2. gr. EES-reglna.
  3. Minnisblað utanríkisráðuneytisins til ríkisstjórnarinnar (auk efnisútdráttar um ESB-gerð) varðandi EES-mál sem fyrirhugað er að fjalla um í sameiginlegu EES-nefndinni en ekki mun taka gildi á Íslandi nema að undangengnu samþykki Alþingis.

6. gr.
Afstaða nefndar, tilkynning.

Þegar afstaða utanríkismálanefndar til einstakra mála liggur fyrir undirbýr ritari EES-mála tilkynningu um hana sem undirrituð er af formanni utanríkismálanefndar og send utanríkisráðuneytinu. Ef ágreiningur verður í nefndinni um afgreiðslu skal greint frá því í tilkynningu nefndarinnar til ráðuneytisins.

7. gr.
Frágangur þingmála.

Skjaladeild sinnir uppsetningu þingsályktunartillagna og lagafrumvarpa um EES-mál skv. ákvæðum 36. og 44. gr. laga um þingsköp Alþingis, setur þau í rétt form og veitir leiðbeiningar um það sem betur má fara í framsetningu og ritun, sbr. 4. og 5. gr. EES-reglna.

8. gr.
Upplýsingar á vef.

Upplýsingar um þau gögn sem berast, sbr. 2. gr., eru birtar á vef Alþingis undir tenglinum Þingnefndir.

9. gr.
Gildistaka.

Verklagsreglur þessar eru settar á grundvelli reglna forsætisnefndar Alþingis um þinglega meðferð EES-mála frá 16. ágúst 2010 og taka gildi 15. nóvember 2010.

(Samþykkt af skrifstofustjóra Alþingis 11. nóvember 2010.)