Reglur um aðstoðarmenn þingmanna

Frestun

Frestun á greiðslu launa- og starfskostnaðar aðstoðarmanna alþingismanna

Í samræmi við ákvörðun forsætisnefndar 25. maí sl. samþykkir nefndin að í sparnaðarskyni verði frá og með alþingiskosningunum 25. apríl 2009 ekki veitt fé til að greiða launa- og starfskostnað aðstoðarmanna alþingismanna í Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæmi, sbr. 2. gr. reglna um aðstoðarmenn frá 14. mars 2008. Samþykkt þessi er reist á 1. mgr. 10. gr. laga nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, og gildir þar til annað hefur verið ákveðið.

Formenn stjórnmálaflokka, sem eiga sæti á Alþingi og ekki eru jafnframt ráðherrar, geta að svo stöddu áfram ráðið sér aðstoðarmann í fullt starf, sbr. 1. gr. reglna um aðstoðarmenn, og greiðir Alþingi launa- og starfskostnað hans í samræmi við reglurnar.

Meðan samþykkt þess gildir koma ákvæði 2. gr., 3. mgr. 5. gr., 7. gr. og 8. gr. reglna um aðstoðarmenn ekki til framkvæmda. Önnur ákvæði reglnanna gilda að breyttu breytanda um aðstoðarmenn formanna stjórnmálaflokka.

(Samþykkt á fundi forsætisnefndar Alþingis 9. júní 2009.)

Reglurnar

Reglur um aðstoðarmenn formanna stjórnmálaflokka og alþingismanna úr Norðvestur-, Norðaustur og Suðurkjördæmi


1. gr.

Formenn stjórnmálaflokka, sem eiga sæti á Alþingi og eru ekki jafnframt ráðherrar, eiga rétt á að ráða sér aðstoðarmann í fullt starf. Um kjör aðstoðarmanns formanns stjórnmálaflokks og starfsaðstöðu fer samkvæmt þessum reglum.

Það er skilyrði þess að alþingismaður nýti sér ákvæði þessarar greinar að hann eigi aðild að þingflokki, sbr. 71. gr. þingskapa, að stjórnmálasamtökin, sem hann er formaður fyrir, falli undir lög nr. 162/2006, um fjármál stjórnmálasamtaka o.fl., með síðari breytingu, svo og ákvæði kosningalaga, eftir því sem við á, að samtökin hafi sett sér reglur til að starfa eftir og séu landssamtök.

2. gr.

Alþingismenn, sem kjörnir eru í Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæmum, sem eru ekki jafnframt ráðherrar eða formenn stjórnmálaflokka, sbr. 1. gr., eiga rétt á að ráða sér aðstoðarmann í þriðjungs-starfshlutfalli (33%). Um kjör aðstoðarmanns alþingismanns og starfsaðstöðu fer samkvæmt þessum reglum.

Alþingismenn, sem eiga rétt á að ráða sér aðstoðarmann skv. 1. mgr., geta staðið saman, tveir eða þrír, að ráðningu aðstoðarmanns og hækkar þá starfshlutfall aðstoðarmannsins sem því nemur (67% eða 100%), svo og aðrar greiðslur til hans samkvæmt þessum reglum. Gerður skal einn ráðningarsamningur við aðstoðarmann skv. þessari málsgrein.

3. gr.

Alþingismaður, sem á rétt á að ráða sér aðstoðarmann, gerir skriflegan ráðningarsamning við aðstoðarmanninn. Samningurinn skal vera í þremur eintökum, á formi sem skrifstofa Alþingis lætur í té, undirritaður af alþingismanni og aðstoðarmanni og staðfestur af skrifstofustjóra Alþingis. Heldur hver einu eintaki.

Í ráðningarsamningi skulu vera ákvæði um starfshlutfall, ráðningartíma, uppsagnarfrest og almenn starfsréttindi, svo sem orlof, veikindarétt, tryggingar, lífeyrisgreiðslur o.fl.

Lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gilda ekki um aðstoðarmenn alþingismanna. Þó skal hafa hliðsjón af 6. gr. laganna um almenn hæfisskilyrði fyrir aðstoðarmenn alþingismanna. Ráðning aðstoðarmanns má fara fram án auglýsingar. Aðstoðarmaður má samhliða gegna öðru starfi.

Gagnkvæmur uppsagnarfrestur er þrír mánuðir, sbr. þó 5. mgr.

Ráðningarsamningur skal ekki gilda lengur en fram að reglulegum kjördegi, en almenn uppsagnarákvæði gilda ef kjörtímabil styttist við þingrof. Ákvæði 5. gr. laga nr. 139/2003, um hámark tímabundinnar ráðningar, gilda ekki um aðstoðarmenn alþingismanna.

Ráðning fellur niður með almennum uppsagnarfresti ef alþingismaðurinn er kjörinn formaður stjórnmálaflokks, sbr. 1. gr., eða er skipaður ráðherra. Sama gildir ef alþingismaður andast, segir af sér þingmennsku, missir kjörgengi eða aðrar breytingar verða á stöðu hans sem þingmanns, þar á meðal ef hann hverfur úr þingflokki.

4. gr.

Alþingismaður ræður störfum aðstoðarmanns og ákveður verkefni hans. Þau skulu vera í þágu hans sem alþingismanns.

5. gr.

Laun aðstoðarmanna alþingismanna fylgja þingfararkaupi og eru ákveðið hlutfall af því. Launin eru heildarlaun fyrir starfið.

Laun aðstoðarmanns formanns stjórnmálaflokks er fullt þingfararkaup.

Laun aðstoðarmanns alþingismanns, sem er í þriðjungsstarfi, eru 25% af þingfararkaupi.

Skrifstofa Alþingis annast undirbúning og framkvæmd launagreiðslna og annarra greiðslna samkvæmt reglum þessum og stendur skil á afdregnum launatengdum gjöldum.

Aðstoðarmenn alþingismanna eiga aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

6. gr.

Aðstoðarmaður formanns stjórnmálaflokks, sbr. 1. gr., skal hafa skrifstofu í húsakynnum Alþingis og njóta almennt sömu þjónustu og réttinda og starfsmenn Alþingis að því er varðar skrifstofuaðstöðu, síma, tölvu, aðgang að mötuneyti, bílastæðum o.fl.

Aðstoðarmaður skv. þessari grein á rétt til farsímastyrks og endurgreiðslu ferðakostnaðar skv. a- og b-lið 7. gr.

7. gr.

Aðstoðarmaður alþingismanns, sbr. 2. gr., fær, auk fastra launa skv. 5. gr., eftirfarandi greiðslur hvern mánuð eða hluta úr mánuði:

  1. Greiðslu fyrir ferðakostnaði, að hámarki sem svarar 6.000 km á ári, skv. akstursbók. Endurgreiðslu skv. þessum lið má nýta að hluta til flug- og ferjuferða.

  2. Styrk á móti farsímakostnaði, 60 þús. kr. á ári.

  3. Greiðslu fyrir öðrum útlögðum rekstrarkostnaði, þar á meðal fyrir leigu á skrifstofu í kjördæminu þar sem aðstoðarmaðurinn starfar, að hámarki 420 þús. kr. á ári. Útlagður kostnaður verður endurgreiddur samkvæmt framlögðum reikningum eftir nánari vinnureglum sem skrifstofa Alþingis setur.

8. gr.

Aðstoðarmaður alþingismanns, sbr. 2. gr., fær fartölvu að láni frá Alþingi, ef hann óskar, er hann tekur við störfum. Með fartölvunni skal fylgja sami staðalbúnaður og alþingismenn fá. Aðstoðarmaður formanns velur hvort hann hefur borðtölvu eða fartölvu á skrifstofu sinni.

Aðstoðarmaður fær endurgreiddan kostnað við kaup á farsíma í þágu starfs síns, að hámarki 25 þús. kr., er hann tekur við störfum.

Skrifstofa Alþingis greiðir fyrir notkun á fastlínusíma á skrifstofu aðstoðarmanns. Skrifstofa Alþingis ákveður hámark mánaðarlegs símkostnaðar skv. þessari málsgrein og skal tilkynna það aðstoðarmönnum og alþingismönnum.

Aðstoðarmaður á rétt á sömu sérhæfðu þjónustu og alþingismenn fá frá skrifstofu Alþingis, eftir því sem við á, þar á meðal frá upplýsinga- og rannsóknarþjónustu skrifstofunnar, leiðbeiningar um tölvunotkun, aðgang að mötuneyti meðan þeir dveljast í Reykjavík o.s.frv. Skrifstofustjóri sker úr álitamálum sem rísa kunna um þessi efni.

Viðhald og viðgerðir á fartölvum, farsímum og öðrum skrifstofubúnaði, sem aðstoðarmenn hafa, skulu þeir annast sjálfir.

9. gr.

Alþingismanni er óheimilt að ráða sem aðstoðarmann náið skyldmenni sitt eða venslamann. Með því er átt við maka, barn, foreldri, tengdabarn, tengdaforeldri eða systkini.

10. gr.

Heimildir alþingismanna samkvæmt reglum þessum falla niður fyrir þá mánuði sem þær eru ekki nýttar.

11. gr.

Ríkisendurskoðun annast eftirlit með framkvæmd greiðslna skv. reglum þessum og endurskoðun á fjárreiðum.

12. gr.

Reglur þessar, sem settar eru með stoð í lögum nr. 8/2008, öðlast gildi 15. mars 2008.

(Samþykkt á fundi forsætisnefndar Alþingis 14. mars 2008 og breytt 18. ágúst 2008.)