Reglur um starfsfólk þingflokka

1. gr.
Heimild til ráðningar.

Starfsfólk þingflokka er ráðið til þingflokka eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum hvers árs til þess að aðstoða þingmenn í störfum þeirra.

2. gr.
Ráðning og starfskjör.

Skrifstofustjóri Alþingis ræður starfsfólk þingflokka og segir þeim upp störfum, hvoru tveggja samkvæmt tillögu þingflokks.

Um laun og önnur starfskjör starfsfólks þingflokka fer samkvæmt kjarasamningi starfsmanna Alþingis og forseta Alþingis.

3. gr.
Ráðningarsamningar.

Skrifstofa Alþingis útbýr ráðningasamninga að fenginni tillögu þingflokks og annast framkvæmd hans í samræmi við lög og kjarasamninga, þ.m.t. að fylgjast með og ráðstafa þeim fjármunum sem þingflokki hefur verið úthlutað á fjárlögum.

4. gr.
Starfslýsing og hlutverk starfsfólks þingflokka.

Þingflokkurinn skal gera skriflega starfslýsingu fyrir starfsfólk þingflokka en starfssviðið felur m.a. í sér að annast faglegan undirbúning þingmála, upplýsingaöflun og skýrslugerðir, samskipti við almenning, samtök og stofnanir, ásamt skipulagningu á fundum og öðrum viðburðum á vegum þingflokksins.

5. gr.
Uppsögn.

Ráðning starfsfólks þingflokka er tímabundin og er gagnkvæmur uppsagnarfrestur þrír mánuðir. Þó skal gagnkvæmur uppsagnarfrestur á reynslutíma vera einn mánuður á fyrstu sex mánuðum í starfi.

Verði breytingar á þingflokki á kjörtímabilinu, þingflokkur uppfyllir ekki lengur skilyrði þingskapa, breytingar verða á fjárheimildum eða aðrar breytingar verða á forsendum skal endurskoða ráðningarsamning starfsfólks þingflokks og gildir þá uppsagnarfrestur skv. 1. mgr.

Komi ekki annað til lýkur ráðningu starfsfólks þingflokka með þriggja mánaða uppsagnarfresti, miðað við næstu mánaðamót eftir kjördag. Ekki er skilyrði að starfslokin hafi verið tilkynnt fyrir þann tíma.

Réttur til launa í uppsagnarfresti fellur niður haldi starfsfólk þingflokks starfi sínu við upphaf nýs kjörtímabils, en þá skal gerður nýr ráðningarsamningur, sbr. 3. gr. Taki starfsfólk þingflokks laun í öðru starfi skerðast greiðslur til þess skv. 3. mgr. sem þeim launum nemur.

6. gr.
Starfsaðstaða.

Skrifstofa Alþingis sér starfsfólki þingflokka fyrir starfsaðstöðu, tölvu og öðrum skrifstofubúnaði.

Starfsfólk þingflokka fær greitt fyrir innlenda símanotkun samkvæmt viðmiðum skrifstofu Alþingis sem tilgreind eru í starfsmannahandbók skrifstofunnar hverju sinni.

7. gr.
Aðstoðarmenn formanna stjórnmálaflokka.

Kjör aðstoðarmanna formanna stjórnmálaflokka, sem eiga sæti á Alþingi og eru ekki jafnframt ráðherrar, og starfsaðstaða þeirra er þau sömu og gildir fyrir starfsfólk þingflokka. Formenn stjórnmálaflokka stýra störfum aðstoðarmanna sinna.

Alþingismanni er óheimilt að ráða sem aðstoðarmann náið skyldmenni sitt eða venslamann. Með því er átt við maka, barn, foreldri, tengdabarn, tengdaforeldri eða systkini.

8. gr.
Lagastoð, gildistaka og brottfall.

Reglur þessar eru settar með stoð í 6. mgr. 10. gr. laga nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, sbr. 1. gr. laga nr. 135/2018. Reglur þessar öðlast gildi við upphaf kjörtímabilsins 2021-2025 en þó öðlast 3. og 4. mgr. 5. gr. þegar gildi. Frá sama tíma falla brott reglur um aðstoðarmenn formanna stjórnmálaflokka og alþingismanna úr Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæmi, sem samþykktar voru á fundi forsætisnefndar Alþingis 14. mars 2008 og breytt 18. ágúst 2008, sbr. ákvæði til bráðabirgða laga nr. 88/1995, sbr. 2. gr. laga nr. 135/2018.


Samþykkt á fundi forsætisnefndar 16. ágúst 2021.