Vinnureglur um aðstoðarmenn

Framkvæmd 7. og 8. gr. reglna forsætisnefndar um aðstoðarmenn alþingismanna

1. gr.
Reikningar.

Einungis eru greiddir eða endurgreiddir reikningar sem eru löglega gerðir, eru frá þriðja aðila, eru skráðir á nafn og kennitölu aðstoðarmannsins, nema annað leiði af þessum reglum.

2. gr.
Ferðakostnaður.

Greiddur er ferðakostnaður, að hámarki sem svarar 6.000 km á ári, skv. akstursbók.

Endurgreiðslu skv. þessum lið má nýta að hluta til eftirtalinna atriða enda fari heildarupphæð ferðakostnaðar ekki yfir viðmiðun í 1. mgr. og reikningur komi frá þriðja aðila:

  1. flug- og ferjuferða innan lands,
  2. kostnaðar við leigubíla og bílaleigu í tengslum við flugferðir,
  3. gistingar innan lands í ferðum á vegum alþingismannsins,
  4. millilandaflugs og dagpeninga erlendis skv. reglum fjármálaráðuneytisins um dagpeninga ríkisstarfsmanna á ferðalögum erlendis. - Þessi töluliður gildir eingöngu um aðstoðarmenn formanna flokka.

3. gr.
Farsími.

Styrkur á móti farsímakostnaði aðstoðarmanns er 60 þús. kr. á ári.

Alþingi greiðir mánaðarlega 5.000 kr. inn á farsímareikning aðstoðarmanns. Ef aðstoðarmaður fullnýtir ekki farsímakostnað er heimilt að færa kostnað á milli mánaða. Þá þarf aðstoðarmaðurinn að senda skrifstofu Alþingis reikninga og uppgjör er gert í lok árs.

4. gr.
Annar rekstrarkostnaður.

Greiðslur fyrir annan útlagðan rekstrarkostnað í tengslum við starf aðstoðarmanns fyrir alþingismann er að hámarki 420 þús. kr. á ári. Sé aðstoðarmaður í starfi hluta úr ári skerðist greiðsluheimildin hlutfallslega.

5. gr.
Húsaleiga og starfsaðstaða.

Leiga fyrir skrifstofu aðstoðarmanns í kjördæmi alþingismannsins er greidd eða endurgreidd skv. reikningi frá húseiganda, innan greiðsluheimildar skv. 4. gr.

Heimilt er að greiða aðstoðarmanni leigu eftir reikningi frá honum fyrir tilgreinda starfsaðstöðu í kjördæmi þingmannsins sem aðstoðarmaðurinn á eða leigir og notar til starfa sinna. Hámark greiðslu skv. þessari mgr. er þá 15.000 kr. á mánuði.

Skrifstofa Alþingis getur skoðað eða tekið út skrifstofu eða starfsaðstöðu aðstoðarmanns sem hún greiðir leigu fyrir. Leigufjárhæð skal vera í samræmi við húsaleigu á svæðinu og reikningar gefnir út af eiganda húsnæðisins sem er þannig framtalsskyldur fyrir tekjunum.

Upplýsingar um starfsaðstöðu aðstoðarmanns og síma eru birtar á vef Alþingis. Á þann stað eru send öll skjöl frá Alþingi sem eiga að berast aðstoðarmanni.

6. gr.
Skrifstofubúnaður, ritföng, nettenging og póstburðargjöld.

Til annars rekstrarkostnaðar telst enn fremur:

  1. Viðhald og viðgerðir á fartölvum, farsímum og öðrum skrifstofubúnaði.
  2. Kostnaður við fundi, ráðstefnur og fyrirlestra sem aðstoðarmaður sækir vegna starfa sinna og hann þarf að greiða fyrir (fundar-, námskeiðs- eða ráðstefnugjöld).

7. gr.
Fastlínusími á skrifstofu.

Skrifstofa Alþingis greiðir fyrir notkun á fastlínusíma í starfsaðstöðu aðstoðarmanns að hámarki 3.000. kr. mánaðarlega.

(Skrifstofa Alþingis, júní 2008.)

Reglur um aðstoðarmenn formanna stjórnmálaflokka og alþingismanna úr Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæmum.