133. löggjafarþing — 62. fundur
 30. janúar 2007.
vegalög, 1. umræða.
stjfrv., 437. mál (heildarlög). — Þskj. 548.

[15:03]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til nýrra vegalaga. Það var samið af nefnd sem skipuð var af samgönguráðherra þann 17. janúar 2006 í því skyni að endurskoða vegalögin, nr. 45/1994, og skila niðurstöðum í formi frumvarps til nýrra vegalaga.

Aðdragandi að þessari endurskoðun vegalaganna er nokkuð lengri, frá árinu 2003 þegar samgönguráðherra skipaði vinnuhóp til að fara yfir gildandi vegalög. Í áfangaskýrslu vinnuhópsins sem skilaði í nóvember 2003 er lagt til að heildarendurskoðun vegalaga fari fram frekar en breytingar á einstökum ákvæðum þeirra. Í skýrslunni eru rakin ýmis sjónarmið um þá þætti sem taka mætti til skoðunar við endurskoðun laganna. Við samningu frumvarpsins sem hér er kynnt var horft til þeirrar áfangaskýrslu.

Í nefndinni sem skipuð var til að endurskoða vegalögin áttu sæti 11 nefndarmenn víðs vegar að úr þjóðfélaginu. Má þar nefna alþingismenn, bæjarfulltrúa, fulltrúa Vegagerðarinnar, Umferðarstofu, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka atvinnulífsins. Einnig störfuðu með nefndinni starfsmenn Vegagerðarinnar og samgönguráðuneytisins.

Niðurstaða þessa nefndarstarfs var tillaga að frumvarpi til nýrra vegalaga sem nefndin skilaði með bréfi til mín þann 11. október 2006. Við samningu frumvarpsins hafði nefndin hliðsjón af áðurnefndri áfangaskýrslu og var lögð áhersla á að skoða stjórnskipulag og verkaskiptingu með hliðsjón af kröfum um aðskilnað stjórnsýslu og þjónustu.

Nefndin skoðaði einnig uppbyggingu laganna með það fyrir augum að hafa meiri aðskilnað milli ákvæða um Vegagerðina og ákvæða um veghaldið. Einnig skoðaði nefndin flokkun vega, skipulagsmál og samskipti Vegagerðar og sveitarfélaga.

Við endurskoðun frumvarpsins var sérstaklega litið til umferðaröryggismála og aukinna krafna á því sviði sem og umhverfismála, svo sem hljóðvistar í þéttbýli með hliðsjón af kostnaðar- og verkaskiptingu milli Vegagerðarinnar og sveitarfélaganna.

Í frumvarpi því sem nefndin lagði til er m.a. nýr flokkur vega, sveitarfélagavegir, sem tekur yfir alla vegi sem samkvæmt gildandi lögum eru safnvegir auk hluta þeirra vega sem kallast tengivegir. Lagði nefndin til tilflutning á veghaldi þessara vega til sveitarfélaga. Samhliða var lagt til að sveitarfélögin fengju úthlutað fé af mörkuðum tekjustofnum þeirra til vegagerðar og að gerð yrði grein fyrir heildarfjárveitingu þeirra í vegáætlun. Var jafnframt gert ráð fyrir að þetta ætti sér hæfilegan aðdraganda og því kveðið á um það í bráðabirgðaákvæði samkvæmt tillögunum að þetta ákvæði taki ekki gildi fyrr en árið 2009 og að yfirfærslan gæti tekið allt að tvö ár frá þeim tíma eða allt til ársins 2011.

Ekki náðist hins vegar samstaða innan nefndarinnar um þetta atriði frumvarpsins og skiluðu þrír nefndarmenn séráliti þar sem fram kom að þeir teldu ótímabært að færa verkefni á sviði vegamála frá ríki til sveitarfélaga þar sem það mál væri enn órætt á vettvangi sveitarfélaganna. Í sérálitinu er tekið fram að ekki sé lagst gegn þessari hugmynd en til að svo megi verða þurfi að kynna málið betur fyrir sveitarstjórnarmönnum, einnig verði fjármögnun að liggja ljósari fyrir og vera betur tryggð en frumvarpið gerir ráð fyrir.

Eftir að nefndin hafði skilað áliti sínu fór fram áframhaldandi vinna við frumvarpsdrögin hjá starfsmönnum samgönguráðuneytis og Vegagerðarinnar og voru m.a. athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins unnar á þeim vettvangi.

Vegna framangreinds sérálits þriggja nefndarmanna var ákveðið að hverfa frá tillögunni um tilfærslu veghalds til sveitarfélaganna. Ég taldi ekki skynsamlegt að ganga gegn sjónarmiðum fulltrúa sveitarfélaganna og féll þess vegna frá þeim hugmyndum sem uppi voru. Í staðinn er lagt til að Vegagerðinni sé heimilt að fela sveitarstjórn veghald ákveðinna vega innan sveitarfélagsins, svokallaðra héraðsvega, sem er einn undirflokkur þjóðvega, ef þess væri óskað af hálfu sveitarstjórna á viðkomandi stað. Er jafnframt lagt til að eigi slíkur tilflutningur veghalds sér stað renni fjárveitingar sem ætlaðar eru til þessara vega óskertar til sveitarfélagsins sem tekur að sér veghaldið. Með þessu var verið að koma til móts við þau sveitarfélög sem óska eftir því að taka að sér veghald innan sveitarfélagamarkanna.

Eftir að frumvarpið var kynnt í ríkisstjórn voru gerðar tvær breytingar á því vegna athugasemda frá umhverfisráðuneytinu. Um er að ræða breytingar á 2. mgr. 7. gr., en þar er fjallað um heimild Vegagerðarinnar til að gera vegaskrá yfir aðra vegi en þjóðvegi. Breytingin á ákvæðinu felst í því að svokallaðir vegir og vegslóðar breytist í vegi í náttúru Íslands.

Einnig var gerð breyting á 41. gr., um að við lagningu og viðhald vega skuli þess gætt að valda ekki meiri áhrifum á umhverfi og samfélagi en nauðsynlegt er. Að ábendingu umhverfisráðuneytisins var tekin út tilvísun til samfélagsins þar sem tilvísun til umhverfis taki jafnframt til samfélagsins í heild en að öðru leyti er ákvæðið óbreytt.

Greinargerð með frumvarpinu var jafnframt breytt til samræmis við þær ábendingar sem komu frá umhverfisráðuneytinu.

Að auki voru gerðar tvær breytingar vegna ábendinga úr landbúnaðarráðuneyti. Snýr önnur þeirra að ákvæði um bann við lausagöngu búfjár en í frumvarpstillögunni var bannið útvíkkað til þjóðvega. Í gildandi lögum nær það til stofnvega og tengivega sem eru flokkaðir innan þjóðvega. Var þá horfið frá þeirri útvíkkun þannig að það er áfram látið ná eingöngu til þessara tveggja vegflokka.

Hin breytingin varðar eignarnámsheimildina þar sem í frumvarpsdrögunum hafði verið horfið frá því að ráðherra gæti heimilað eignarnám vegna hvers konar einkavega og stíga eins og heimilt er samkvæmt gildandi lögum. Nauðsynlegt var talið að hafa slíka heimild áfram í lögunum og var henni því bætt við vegna eignarnámsheimildar í 37. gr. frumvarpsins. Greinargerð með frumvarpinu var einnig breytt til samræmis við þessar breytingar. Ég tel ástæðu til að geta þessa vegna þess að hér er um mikilsverð atriði að ræða.

Í frumvarpinu, eins og það er hér lagt fram, er að finna ýmis nýmæli og eru þau helstu eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er lagt til það nýmæli að kveða sérstaklega á um hlutverk Vegagerðarinnar. Í gildandi vegalögum segir að Vegagerðin sé veghaldari þjóðvega. Að öðru leyti er hlutverk stofnunarinnar ekki skilgreint sérstaklega, heldur er það að finna í einstökum ákvæðum á víð og dreif í löggjöfinni.

Hjá vegalaganefndinni kom til skoðunar hvort ástæða væri til að gera breytingar á skipan laga um Vegagerðina og hlutverk hennar. Kom þar tvennt til greina, annars vegar að sett yrðu sérstök lög um stofnunina og hlutverk hennar eða kveða á um þetta í vegalögum. Nefndin ákvað að taka síðari kostinn og er því hér í frumvarpinu lagt til það nýmæli að kveðið er á um hlutverk Vegagerðarinnar í sérstöku ákvæði 5. gr.

Það er þó ekki um tæmandi talningu að ræða, heldur eru einungis helstu verkefni stofnunarinnar tilgreind og gert ráð fyrir að nánar megi útfæra þau með reglugerð. Með þessu er ekki verið að leggja til neinar róttækar breytingar á hlutverki Vegagerðarinnar eins og það er nú. Hlutverk hennar verður áfram framkvæmd vegamála og veghald, aðstoð við mótun stefnu stjórnvalda í samgöngumálum, umsjón og eftirlit með útboðum almenningssamgangna sem njóta ríkisstyrkja og framkvæmd er varða leyfisskylda starfsemi sem Vegagerðinni er falin lögum samkvæmt.

Þær breytingar sem verða á hlutverki stofnunarinnar endurspeglast fyrst og fremst í ákvæðum frumvarpsins almennt þar sem mikil áhersla er lögð á umferðaröryggissjónarmið og er Vegagerðinni falið ákveðið hlutverk er það varðar enda heyra umhverfisöryggismál undir samgönguráðuneytið.

Þá er rétt að nefna það nýmæli að Vegagerðinni er fengin heimild til að taka þátt í stofnun félags sem tekur að sér að sinna verkefnum sem stofnuninni eru falin. Þetta er í takt við þá þróun að verkefni opinberra stofnana eru að flytjast í æ ríkara mæli í hendur þriðja aðila og því rétt að þessi heimild sé fyrir hendi alveg skýr og klár.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar er varða flokkun vega. Þær breytingar sem lagðar eru til miða að því að flokkun vega sé skýrari og heildstæðari en í gildandi lögum og er megináherslan lögð á samfellt vegakerfi alls landsins.

Meðal helstu breytinga er lagt til að vegakerfi landsins skiptist í fjóra meginflokka, þjóðvegi, sveitarfélagavegi, einkavegi og almenna stíga. Þjóðvegum er síðan skipt upp í fjóra undirflokka, stofnvegi, tengivegi, héraðsvegi og landsvegi. Almennir stígar skiptast í reiðstíga annars vegar og hjólreiða- og göngustíga hins vegar. Þessar breytingar eiga að gera flokkun vega skýrari og heildstæðari en er í gildandi lögum. Er megináherslan á samfellt vegakerfi landsins og verður með þessu til samfellt flokkað vegakerfi sem nær til allra þéttbýlisstaða og byggðra bóla utan þéttbýlis auk þeirra flugvalla og hafna sem eru mikilvægar fyrir flutninga- og ferðaþjónustu.

Meðal helstu nýmæla annarra er nýr vegflokkur sem kallast sveitarfélagavegir og nýr undirflokkur þjóðvega sem eru héraðsvegirnir. Sveitarfélagavegir eru vegir í þéttbýli sem eru í umsjón sveitarfélaga og kallast samkvæmt gildandi lögum almennir vegir. Auk þess munu teljast til þess vegflokks nokkrir vegir sem í dag eru stofn- eða tengivegir.

Héraðsvegir eru þjóðvegir og teljast til þeirra vegir sem samkvæmt gildandi lögum eru hluti af tengivegum en auk þess er heimilt að fella þar undir vegi að stórum sumarbústaðahverfum. Það er nýmæli.

Þá er lagt til það nýmæli varðandi einkavegi að kveðið er á um eignarhald þeirra og er gert ráð fyrir að slíkir vegir geti einnig verið í eigu opinberra aðila.

Einnig er það nýmæli að skýrar er kveðið á um stöðu almennra stíga og að þeir séu hluti af vegakerfi landsins. Til almennra stíga teljast göngu-, hjólreiða- og reiðstígar sem ætlaðir eru til almennrar umferðar en tilgangur þess er m.a. að stuðla að auknu öryggi óvarinnar umferðar.

Í þriðja lagi eru gerðar breytingar er varða veghald vega. Er þar fyrst að nefna að ákvæðum um veghald er skipað í sérstakan kafla um veghald en svo er ekki í gildandi lögum. Þykir skýrara að hafa á einum stað ákvæði þar sem skýrt er kveðið á um veghaldið sjálft, skyldur veghaldara og með hvaða hætti haft sé eftirlit með veghaldi og úrræði ef út af er brugðið.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem skýra eiga ábyrgð og forræði á veghaldi. Sú meginregla gildir áfram að veghald er í höndum þess sem telst eigandi eða umsjónaraðili vegar. Er skýrt kveðið á um hver er veghaldari viðkomandi vegflokks og þá meginskyldu hans að bera ábyrgð á veghaldinu en ekkert sambærilegt ákvæði er í gildandi lögum. Í samræmi við áherslur frumvarpsins um öryggi umferðar og að umferð eigi greiða og góða leið er lagt til að veghaldara beri að gæta umferðaröryggis- og umhverfissjónarmiða eins og mögulegt er við veghaldið. Jafnframt er áréttað að taka skuli tillit til náttúru og minjaverndar veghaldsins og er það í samræmi við kröfur tímans um verndun náttúrunnar. Gildir þetta um alla veghaldara en hver það er ræðst af flokkun vega. Þannig hefur Vegagerðin veghald þjóðvega, sveitarfélögin veghald sveitarfélagavega og eigendur einkavega veghald þeirra. Áfram er gert ráð fyrir að vegamálastjóri hafi heimild til að framselja veghald einstakra kafla þjóðvega til þriðja aðila og honum er þar með heimilt að gera samninga um einkaframkvæmd — og vil ég sérstaklega árétta það — tiltekinna vegamannvirkja eins og nánar er ákveðið í samgönguáætlun. Sérstaklega er kveðið á um heimild vegamálastjóra til að fela sveitarstjórn að taka að sér veghald allra héraðsvega innan síns sveitarfélags og er með því verið að koma til móts við þau sveitarfélög sem hafa óskað eftir að hafa forræði á slíku eins og fyrr var getið um.

Í kafla frumvarpsins um veghaldið er einnig kveðið á um eftirlit með veghaldi annarra vega en þjóðvega sem kostaðir eru af fé ríkisins og ætlaðir eru almenningi til frjálsrar umferðar. Vegagerðin hefur fengið það hlutverk enda verður að telja stofnunina best til þess fallna þar sem hún hefur með höndum veghald allra þjóðvega landsins. Hér er rétt að benda á það nýmæli að kveðið er á um að eftirlit með veghaldi Vegagerðarinnar sé á vegum sjálfstæðrar deildar innan stofnunarinnar sem heyri beint undir vegamálastjóra. Eftirlit er með því aðskilið frá öðrum þáttum í starfsemi Vegagerðarinnar og er í samræmi við kröfur um innra eftirlit í nútímastjórnsýslu.

Í fjórða lagi, virðulegi forseti, er lögð til heimild til gjaldtöku af umferð. Mikilvægt nýmæli er að finna í frumvarpinu sem snýr að gjaldtöku af umferð en ekkert slíkt er í gildandi vegalögum. Er lagt til að kveðið verði á um almenna heimild til gjaldtöku af umferð um þjóðvegi þannig að ekki sé þörf á að afla sérstakrar lagaheimildar hverju sinni til einstakra framkvæmda, eins og nú er, eins og var gert vegna Hvalfjarðarganga, samanber lög nr. 45/1990. Það skal tekið fram að hér er ekki verið að setja opna gjaldtökuheimild til handa veghaldara til að ákveða sjálfur að framkvæmd skuli fjármögnuð með gjaldi af umferð. Til að fá heimild til gjaldtöku þarf að gera tillögur um slíkt í samgönguáætlun og fá samþykki Alþingis hverju sinni. Er með þessu gert ráð fyrir að fjallað verði um alla þætti fjármögnunar þjóðvega innan ramma samgönguáætlunar.

Sú gjaldtaka sem um er að ræða er annars vegar veggjald, sem er gjald fyrir notkun tiltekins vegar í tiltekinn tíma í tiltekið skipti. Má sem dæmi um það nefna gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum. Hins vegar er notkunargjald sem er greitt fyrir notkun, t.d. mælt eftir eknum kílómetrum, tíma dags og vegna stærðar ökutækis. Gjaldtökuheimildir þessar eru sniðnar að meginreglum tilskipunar nr. 1999/62/EB eins og henni hefur verið breytt með tilskipun 2006/38/EB og eiga sömu sjónarmið við um gjaldtökuheimildir. Má þar nefna þá meginreglu að óheimilt er að raska jafnræði þeirra sem nota vegamannvirkin og ekki er heimilt að innheimta samhliða veggjald og notkunargjald af sama vegkaflanum.

Í fimmta lagi eru lögð til ýmis nýmæli er varða kostnaðarskiptingu vegna aðgerða til að draga úr áhrifum umferðarhávaða í næsta nágrenni þjóðvega í þéttbýli. Hér er um mikilvægt nýmæli að ræða enda er umferðarhávaði vaxandi vandamál, einkum í þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu, og hafa álitaefni risið um það hver beri ábyrgð á aðgerðum sem nauðsynlegar eru til að uppfylla kröfur laga og reglugerða um umferðarhávaða. Í frumvarpinu eru lögð til ýmis nýmæli sem eiga að fara bil beggja og vera nokkurs konar málamiðlun milli mismunandi sjónarmiða um skiptingu kostnaðar við mannvirkjagerð sem er nauðsynleg til að skýla byggð fyrir umferðarhávaða. Er ákvæðum þessum ætlað að stuðla að sátt um skiptingu þess kostnaðar milli Vegagerðarinnar og sveitarfélaga og má í stórum dráttum segja að skiptingin byggi á því hvort nauðsyn hávaðavarna verði rakin til aðgerða við vegi eða skipulag byggðarinnar.

Til að skýra þetta nánar má taka sem dæmi að ef nýr vegur er lagður um byggð sem fyrir er má segja að nauðsyn hávaðavarna verði rakin beinlínis til vegarins og því eðlilegt að veghaldarinn kosti þær. Þegar hins vegar er nauðsynlegt að grípa til hávaðavarna vegna byggðar sem skipulögð er að vegi sem fyrir er eða hefur verið ákveðin í skipulagi er eðlilegt að sveitarfélagið sem ber ábyrgð á skipulaginu kosti varnirnar. Má því segja að frumvarpið geri ráð yfir þeirri meginreglu að saman fari ábyrgð á kostnaði og forræði á skipulagi.

Eins og áður hefur verið rakið er frumvarp þetta mjög litað af sjónarmiðum um umferðaröryggi og greiða og góða leið umferðar. Því þykir rétt að hafa ákvæði um skiptingu kostnaðar vegna nauðsynlegra aðgerða sem grípa þarf til þegar tryggja þarf umferðaröryggi, sérstaklega vegna fyrirsjáanlegrar aukningar umferðar samhliða skipulagi byggðar og einnig ef umferð eykst umfram það sem áður hefur verið gert ráð fyrir í umferðarspám.

Í sjötta lagi er lagt til það nýmæli að heimila að veita fé til almennra stíga af fjárveitingum til vegagerðar. Samkvæmt núgildandi lögum er heimilt að veita fé til reiðstíga af vegáætlun en ekki er gert ráð fyrir fjárveitingum til annars konar stíga. Í frumvarpinu er lagt til að þessi heimild nái einnig til annarra almennra stíga, þ.e. göngu- og hjólreiðastíga sem liggja meðfram þjóðvegum og opnir eru almenningi til frjálsrar umferðar. Þetta er nýmæli og mikil endurbót því að hér er tekið tillit til umferðaröryggis þar sem umferð um stíga fer alls ekki saman við hina miklu umferð bifreiða, sérstaklega á vegunum í kringum Reykjavík.

Í sjöunda lagi eru lögð til nýmæli er varða málsmeðferð sem ber að viðhafa við eignarnám. Í frumvarpinu eru ákvæði um eignarnámsheimild Vegagerðarinnar löguð að réttarþróun en ekki eru gerðar neinar efnislegar breytingar á eignarnámsheimildinni sem slíkri. Breytingarnar eru fyrst og fremst þær að kveðið er á um ákveðna málsmeðferð sem Vegagerðinni ber að viðhafa við eignarnám en slík ákvæði skortir í gildandi vegalögum. Þetta er fyrst og fremst til þess að auka réttaröryggi borgaranna sem eignarnám beinist að og stuðla að vönduðum undirbúningi eignarnámsákvarðana og málsmeðferð allri. Eins og í gildandi lögum er Vegagerðinni falin eignarnámsheimild vegna lands undir þjóðvegi en samþykki þess ráðherra sem fer með vegamál þarf fyrir eignarnámi undir einkavegi og almenna stíga.

Í áttunda lagi eru lögð til nýmæli er varða skipulag, hönnun, lagningu og viðhald vega og öryggi umferðar. Samráð skipulagsyfirvalda við Vegagerðina og aðkoma stofnunarinnar að skipulagsgerð er mjög mikilvæg en gildandi vegalög kveða ekki sérstaklega á um þetta nema að hafa beri samráð við Vegagerðina við ákvörðun um legu veglína á skipulag. Í frumvarpinu er því lagt til að hlutverk Vegagerðarinnar hvað varðar aðkomu að skipulagi verði skýrt þannig að ekki leiki vafi á hlutverki stofnunarinnar. Er ákvæðum þessum ætlað að stuðla að enn betra samstarfi Vegagerðarinnar og skipulagsyfirvalda við að tryggja greiða og örugga umferð.

Kröfur vegna ástands þjóðvegakerfisins og flutningsgetu þess, öryggis umferðar og tillitssemi gagnvart umhverfi hafa farið sífellt vaxandi en ákvæði núgildandi laga eru fáorð um þetta efni. Undanfarna áratugi hafa hins vegar orðið stórstígar framfarir á þjóðvegakerfinu og er óhætt að tala um byltingu í því sambandi. Því er lagt til með frumvarpi þessu að kveða á um með hvaða hætti auknum kröfum til veghaldara verði fundinn lagalegur rammi og er með því stefnt að auknu öryggi vegfarenda og gæðum vegamannvirkjanna. Kveðið er á um þau meginatriði sem taka skuli mið af við lagningu og viðhald vega og gert ráð fyrir að setja megi reglur um lágmarkskröfur til vega sem almenningur á aðgang að og að veghaldari beri ábyrgð á að þær kröfur séu uppfylltar.

Einn af mikilvægustu þáttunum í endurskoðun vegalaganna er öryggi umferðar og þarfnast ákvæði gildandi laga um það endurskoðunar í samræmi við þá áherslu sem nú er lögð á mikilvægi aukins umferðaröryggis. Því eru lagðar til breytingar sem stuðla að aukinni áherslu á umferðaröryggismál við framkvæmd vegamála. Má þar sérstaklega nefna heimild til ráðherra um að setja reglur um svokallaða umferðaröryggisstjórnun en í því felst m.a. að gera umferðaröryggismat á öryggisþáttum nýrra vega, umferðaröryggisrýni sem felst í rýni hönnunargagna á mismunandi stigum hönnunar, lagfæring svokallaðra svartbletta í umferðinni og umferðaröryggisúttekt. Mikið af þessu er þegar unnið hjá Vegagerðinni en rétt þykir að þessi skylda komi skýrt fram í lögum, ekki síst vegna almennra krafna um aukið umferðaröryggi.

Að lokum er rétt að geta þess að lagt er til það nýmæli að heimila Vegagerðinni að taka þátt í kostnaði við undirgöng fyrir búfé. Það markmið að auka umferðaröryggi er einnig lagt til grundvallar því nýmæli frumvarpsins að kveðið er skýrt á um heimild fyrir Vegagerðina til að taka þátt í kostnaði við gerð undirganga fyrir búfé. Víða háttar svo til að reka þarf búfé yfir vegi þar sem umferð er mikil og umferðarhraði er einnig mikill. Verði frumvarpið að lögum verður Vegagerðinni heimilt að bregðast við með því að taka þátt í kostnaði við gerð undirganga undir viðkomandi vegi í samstarfi við landeigendur hverju sinni. Gerð ganga af þessu tagi hefur verið reynd og má ætla að ágæt reynsla sé af þeim þar sem á hefur reynt til þessa. Ekki er vafi á að auka má öryggi með gerð undirganga undir veg en allnokkur kostnaður getur verið af því og má ætla að frumvarpið geti stuðlað að fjölgun slíkra ganga undir umferðarmestu vegi.

Hér hefur stuttlega verið gerð grein fyrir helstu nýmælum frumvarpsins, virðulegur forseti, og breytingum frá gildandi vegalögum. Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri en legg áherslu á að um mikilvæga löggjöf er að ræða hvað allt veghald varðar þar sem tekið er mið af umferðaröryggi og að umferð eigi greiða og góða leið hvar sem því verður við komið auk þess sem gætt sé að áhrifum á samfélagið í heild. Eru þetta allt sjónarmið sem skipta okkur miklu máli og því mikilvægt að settur verði ákveðinn lagarammi um þetta sem hægt er að vinna eftir.

Virðulegur forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.



[15:28]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Andsvar mitt snýr eiginlega að því að fá frá hæstv. samgönguráðherra, áður en hér kemur til almennrar umræðu, nánari umfjöllun um e-lið 5. gr. sem fjallar um umsjón með rannsóknum og þróun á sviði vegamála annars vegar, og þá líka með tilliti til 41. gr. VIII. kafla, þar sem segir almennt:

„Við lagningu og viðhald vega skal þess gætt að ekki sé valdið meiri áhrifum á umhverfi en nauðsynlegt er til að unnt sé að ná markmiðum vegalagningarinnar á sem hagkvæmastan hátt og þannig að öryggi umferðar verði sem mest.“

Hæstv. forseti. Í nýlegu svari sem ég fékk við fyrirspurn um viðhald á vegum sem lengst af hafa gengið undir nafninu ó-vegirnir, Óshlíð, Ólafsvíkurenni og Ólafsfjarðarmúli, kom fram að viðhald á Óshlíð var náttúrlega allt að tífalt það sem var á hinum vegunum sem lagðir höfðu verið, að vísu kannski ekki alveg nákvæmlega samanburðarhæft tímabil, en þegar tekið er tillit til þess hverju menn voru að reyna að ná með lagfæringum á Óshlíð, með vegkápum, lagfæringu vegarins og öðru slíku, þá er greinilegt að viðhald á þeim vegi keyrir fram úr öllu sem menn gerðu kannski ráð fyrir. Sérstaklega er áberandi að hönnun annarra vega sem leystu þessa ó-vegi af hólmi hefur tekist þannig að viðhald þar er miklu minna.

Þess vegna spyr ég og óska eftir nánari umfjöllun frá hæstv. ráðherra hvort ekki (Forseti hringir.) sé nú þegar uppi sú staða að auka þurfi rannsóknir á vegagerð og veghaldi.



[15:31]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það fari ekkert á milli mála að rannsóknir á sviði vegagerðar eru mjög mikilvægar. Þess vegna er sérstakt ákvæði um að tilteknum hundraðshluta af útgjöldum til vegamála sé varið til rannsókna og í þessu frumvarpi er verið að auka það. Ég get tekið undir að það er nauðsynlegt.

En á hitt er að líta að viðhald einstakra vegkafla segir út af fyrir sig kannski ekkert til um það hvort þurfi að gera meira á þeim tilteknu köflum en verið hefur. Aðalatriðið er að ég tel að þetta frumvarp komi einmitt til móts við þau sjónarmið að við þurfum að auka rannsóknir og þróun og líka eftirlit.

Þess vegna er sérstaklega fjallað um vegrýni og skoðun bæði hvað varðar hönnun og að sjálfsögðu framkvæmdir og viðhald og annað er snýr að allri þeirri þjónustu.

Ég get því bara tekið undir með hv. þingmanni að við þurfum að leggja mjög mikið í þróunar- og rannsóknakostnað í þessari mannvirkjagerð og ég vænti þess að eiga drjúga stuðningsmenn í þeim efnum í liði Frjálslyndra.



[15:33]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, hæstv. samgönguráðherra getur örugglega treyst því að hann á dygga stuðningsmenn fyrir bættu vegakerfi á landinu í röðum okkar í Frjálslynda flokknum.

Það sem mér finnst hins vegar mjög áhugavert í svarinu sem ég vitnaði til er hversu staðreyndirnar tala því máli að lítið viðhald er í jarðgöngum. Má þar bæði horfa á viðhaldskostnaðinn í Hvalfjarðargöngum en það eru þau jarðgöng sem eru mest ekin hér á landi. Viðhaldskostnaðurinn í þeim á tímabilinu frá 1998 til 2005 er 175 milljónir en er hins vegar í Vestfjarðagöngum, á tímabilinu frá 1997 til 2005, 82 milljónir eða 10% af veghaldinu á Óshlíð, að vísu er á lengra tímabili, en þar var verið að reyna að gera þann veg öruggan.

Ég vek á þessu athygli og ég veit að hæstv. samgönguráðherra hefur örugglega skoðað þessar tölur líka. Mér finnst sú staða greinilega vera komin upp að Vegagerðin verður að fara að meta það af miklu meiri kostgæfni til framtíðar varðandi vegstæði á Íslandi hvaða leiðir eru valdar með tilliti til þess hver kostnaðurinn verður á lengra tímabili.

Ég fæ ekki annað lesið út úr þessu en það sé mjög áhugaverður kostur að nýta sér jarðgöng þar sem því verður við komið þar sem greinilegt virðist vera að sá stöðugi hiti sem er í jarðgöngum, engin úrkoma, enginn saltburður o.s.frv., gerir það að verkum að viðhald á slitlagi virðist vera miklu, miklu minna en á þjóðvegum eða akstursleiðum með sambærilegri umferð sem er ofan jarðar og þarf að mæta breytilegu veðurfari og þar að auki saltburði.



[15:35]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú erum við eiginlega komin út í umræður um samgönguáætlun sem ég bíð spenntur eftir að fá tækifæri til þess að taka þátt í og hafa framsögu um.

Varðandi rannsóknaþróun vil ég vekja athygli hv. þingmanns á 23. gr. frumvarpsins sem við erum að fjalla hér um, en í skýringu við þá grein segir, með leyfi forseta:

„Í gildandi vegalögum er kveðið á um að a.m.k. einum hundraðshluta af mörkuðum tekjum til vegagerðar skuli varið til rannsókna á sviði vega- og gatnagerðar. Mikilvægi þess að unnið sé að rannsóknum og framþróun á þessu sviði er síst minna nú en var við gildistöku þeirra laga. Er því lagt til að þessi starfsemi verði efld enn frekar“ — þetta er hin pólitíska stefnumótun af minni hálfu — „með því að hækka framlagið í 1,5% af mörkuðum tekjustofnum. Jafnframt er lagt til að felld verði niður bein tilvísun í áður gildandi lög um fjáröflun til vegagerðar.“

Hér getur hv. þingmaður áttað sig á því hver áherslan er af minni hálfu og af hálfu ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna. Áherslan er á að auka rannsóknir og þróun um 50% frá því sem verið hefur á undanförnum árum. Ég tel því að við séum á hárréttri leið og vonandi leiða þær rannsóknir m.a. til þess og sýna fram á að við getum búið til betri vegi.

Ég er alveg sannfærður um að allar rannsóknir sýna fram á að við þurfum að velja vegstæði mjög vandlega. En það er ekki alltaf alveg gefið að það eigi að vera jarðgöng. Við getum búið til góða vegi undir berum himni en við þurfum hins vegar að velja skynsamlega kosti.



[15:37]
Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til vegalaga sem hæstv. samgönguráðherra hefur fylgt úr hlaði sem á að koma í staðinn fyrir vegalög nr. 45/1994.

Eins og fram kom í flutningi hæstv. ráðherra var frekar farin sú leið að búa til ný vegalög heldur en lagfæra þau og stagbæta þau sem fyrir eru. Held ég að það sé alveg hárrétt ákvörðun.

Mér sýnist, virðulegi forseti, við fyrstu yfirferð á þessu frumvarpi að hér sé verið að vinna gott verk. Mér sýnist líka að það sé meðal annars vegna þess að hæstv. ráðherra hefur beitt sér fyrir því að skipa töluvert stóran hóp manna og kvenna sem fór yfir þessi vegalög og var falið að vinna þá vinnu sem við sjáum hér í þessu frumvarpi. Ég held að þetta sé til mikillar eftirbreytni og mætti gera oftar. Það stytti kannski umræður á Alþingi og við sæjum betri frumvörp fyrir vikið. Ég segi fyrir mitt leyti að ég hef átt þess kost að fylgjast með vinnu þessarar nefndar í gegnum einn hv. alþingismann og félaga minn Einar Má Sigurðarson sem sat í þessum hóp og vann við þetta. Síðan förum við í samgöngunefnd auðvitað yfir frumvarpið.

Ég ítreka það sem ég segi að við fyrstu yfirferð sýnist mér hér hafa verið farin tvímælalaust rétt leið til að koma með ný lög enda hefur margt breyst frá 1994 þegar gömlu vegalögin voru sett, eins og til dæmis það að umferðaröryggismál skuli vera komin til samgönguráðuneytis sem auðvitað var líka alveg hárrétt. Þau eiga þar heima. Er í raun og veru furðulegt hvað það var seint sem þau færðust frá dómsmálaráðuneyti til samgönguráðuneytis.

Virðulegi forseti. Ég ætla nú við 1. umr. að fara yfir nokkra þætti þessa frumvarps. Það getur vel verið að það blandist eitthvað inn í, eins og hæstv. samgönguráðherra sagði áðan, tilhlökkun við að ræða samgönguáætlun sem að mér skilst verði lögð fram hér vikunni. Ef stjórnarflokkarnir klára málið frá sér nú í vikunni þá verður þetta vonandi lagt fram fljótlega þannig að við komumst sem fyrst í að ræða þessa miklu áætlun. Það hefði verið betra ef samgönguáætlunin hefði verið komin fram fyrr og við hefðum haft meiri og betri tíma til að fara í gegnum hana vegna þess að ég hygg að það verði dálítið skiptar skoðanir um hana og margir munu kalla eftir breytingum á henni eða einhverju nýju inn og öðru slíku, ég tala nú ekki um vegna þess að við erum að gera þetta á kosningavetri. Það verður því mikið farið í gegnum þetta. En það helgast auðvitað líka af því að þörfin er mjög brýn og mikil.

Virðulegi forseti. Hér í V. kaflanum er strax fjallað um vegáætlun og fjármögnun vega. Þar er fjallað um það hvernig fjár til vegamála skuli aflað. Þá kemur upp í huga minn svar sem ég fékk við fyrirspurn sem ég lagði fram á Alþingi fyrir tveimur árum síðan um skiptingu á skatttekjum ríkissjóðs af annars vegar umferð og hins vegar bílainnflutningi. Þar kom fram að heildarskatttekjur af bílanotkun og umferð voru 47 eða 48 milljarðar kr. En þá runnu aðeins — og ég segi: aðeins — um 14 milljarðar til Vegagerðarinnar, Vegagerðarinnar allrar, þar með talið reksturs, nýbygginga, viðhalds o.s.frv. Ég hef áður sagt það og segi það enn einu sinni að við þetta er auðvitað ekki hægt að búa. Það vantar miklu meira fé inn í samgönguáætlunina, í vegaáætlun, til þess að koma til móts við hina miklu umferð, breikka vegi, styrkja vegi, gera sums staðar bara kannski í fyrsta skipti nothæfa vegi til ýmissa staða og byggja jarðgöng, breikka brýr o.s.frv. Vegna hinnar miklu fjölgunar bíla undanfarin ár hér á landi er ljóst að framkvæmdir í samgöngumálum og vegamálum hafa ekki haldið í við þessa miklu umferð. Hér á höfuðborgarsvæðinu eru umferðarstíflur, teppur, á mestu annatímum dagsins, á morgnana og kvöldin þegar fólk er að fara til vinnu og frá vinnu. Þar getur verið um óþolandi langar biðraðir og umferðarteppur að ræða. En svo aftur víðast hvar og á mörgum stöðum úti á landi er spurningin hvort menn komist yfir höfuð bara á milli staða. Get ég þá nefnt mitt kjördæmi og hef oft tekið dæmi af norðausturhorni landsins þar sem vegir eru þannig að í raun ættu þeir að tilheyra samgönguminjasafni en ekki nútímavegum sem við viljum hafa árið 2006–2007.

Virðulegi forseti. Ég er að endursegja það sem við í Samfylkingunni höfum sagt og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefur sagt á fjölmörgum fundum í landsbyggðarkjördæmunum þremur í fundaherferð sinni sem stendur nú yfir. Fyrstu umferð lauk í gærkvöldi á fundi á Egilsstöðum þar sem formaður Samfylkingarinnar boðar og segir frá þeirri stefnu sem Samfylkingin vill hafa fyrir komandi ár, þ.e. að stórauka þurfi fé til vegamála, til vegaframkvæmda, hér á landi og það eigi að fara í sérstakt samgönguátak, töluvert mikið átak. Hún hefur svo sýnt okkur fram á það og lýst hennar sýn og okkar sýn á þetta kerfi, á þessar framkvæmdir til næstu jafnvel átta ára.

Ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur að horfa það langt fram í tímann vegna þess að stundum eru byggðar upp væntingar á ákveðnum landsvæðum eins og með jarðgöng eða lagfæringar á vegum sem ekki standast. En stundum væri hægt að koma til móts við þarfir íbúanna með tímasettri áætlun sem mundi þá standast og væri hægt að fara eftir. En þá er ég, virðulegi forseti, að vitna til þess að við höfum séð frá hæstv. ríkisstjórn miklar og góðar áætlanir um framkvæmdir í vegamálum og það er svo skrýtið að hæstu fjárveitingarnar áttu sér stað fyrir árin 1999 og 2003. Hvers vegna nefni ég þessi tvö ár, virðulegi forseti? Jú, þetta voru kosningaárin, kosningar til Alþingis. (Samgrh.: Þú þarft ekki að vera hissa á því.) Nei. Ég tek eftir því að hv. samgönguráðherra kallar hér fram í segir að ég skuli ekki vera hissa á því. Nei, það er nefnilega þannig að menn þurfa ekki að vera hissa á því. En maður er hissa á því að það hefur ekki verið staðið við þetta. (Samgrh.: Um þetta var kosið.) Það var ekki kosið um það, virðulegi forseti, að það skyldu svo vegaframkvæmdir skornar niður um 2 milljarða á hverju ári eftir að búið var að kjósa. (Gripið fram í: Áform ...) Skorið var niður um 2 milljarða á ári. Ég tek eftir því og fagna því sérstaklega ef hæstv. samgönguráðherra vill ræða þessi mál vegna þess að það er vissulega gott, 2 milljarðar í niðurskurð þrjú ár í röð eða 6 milljarðar á því kjörtímabili sem nú er að ljúka.

Virðulegi forseti. Nú er ég kominn út í samgönguáætlunina sem kemur vonandi sem fyrst en við erum hér kannski að fá smjörþefinn af því sem þar kemur.

Ég er ákaflega ánægður með það og stoltur yfir því sem formaður Samfylkingarinnar hefur verið að segja frá á fundum okkar þar sem hún hefur lagt höfuðáherslu á það að meginþættir í nýrri byggðastefnu, í byggðaátaki séu samgöngumál, menntamál og atvinnumál. Hún hefur útskýrt það á þann hátt sem þar hefur komið fram á fundum og hefur fengið ákaflega jákvæðar og góðar viðtökur hjá öllum þeim fjölda fundarmanna sem mætt hafa á þessa níu fundi sem lokið er.

Virðulegi forseti. Nokkur nýmæli eru í þessum vegalögum og ég hika ekki við að halda því fram að í 17. gr. sé kannski merkilegasta nýmælið þar sem opnað er fyrir að hægt sé að fara í vegaframkvæmdir miðað við vegaáætlun í einkaframkvæmd, að það þurfi sem sagt ekki endilega að fara þá leið sem hefur verið farin hingað til í þeirri einkaframkvæmd sem við tölum nú mest um, Hvalfjarðargöngin, þ.e. að menn þurfi að takast á um það hér á Alþingi og semja um það sérlög heldur sé hægt að fara með það í gegnum samgönguáætlun ef menn vilja fara þessa leið.

Ég hika ekki við að segja að ég held að þetta nýmæli eigi alveg tvímælalaust rétt á sér í vegalög. Ég er hlynntur því að þessi leið verði skoðuð, þ.e. einkaframkvæmdarleiðin. Ég get kannski komið að því síðar eða í umræðu um samgönguáætlun að þessa leið beri að skoða þó svo að ekki sé hægt að fullyrða að hún sé alltaf hagkvæmasta leiðin og best. Oft og tíðum getur það líka verið gott að sjálfsögðu að gera það fyrir eigið fé ríkissjóðs sem líka hefur miklu betri lánskjör en fyrirtæki. En við höfum hins vegar séð áætlanir þar sem hafa verið sýndir útreikningar um að þetta þurfi ekki endilega að vera miklu dýrara en annað.

Nú er rætt um einkaframkvæmd við tvöföldun á Suðurlandsvegi og það er líka í raun rætt um einkaframkvæmd á Vaðlaheiðargöngum. Fyrirtæki fyrir norðan, Greið leið, hefur unnið þar undirbúningsvinnu ákaflega faglega. Það er sem sagt tilbúið eiginlega til ákvarðanatöku. Eitt af því sem við bíðum ákaflega spennt yfir í samgönguáætlun hæstv. ríkisstjórnar er hvað verði um framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng eða verður það yfir höfuð sett inn á þann hátt og þetta fyrirtæki og sveitarstjórnarmenn og aðrir fyrir norðan hafa lagt upp með, þ.e. að þetta komi strax í samgönguáætlun og heimild verði veitt til þess að hefja framkvæmdir sem allra fyrst. Það tengist svo öðru máli sem hefur oft verið rætt og verður þá væntanlega líka í samgönguáætlun, þ.e. hvort hægt sé að gera þetta saman á það hagkvæman og góðan hátt að um leið og Vaðlaheiðargöng eru gerð þá sé Akureyrarflugvöllur lengdur. En ég ætla nú ekki að fara frekar út í það, virðulegi forseti, í einstökum þáttum.

Í 17. gr. er líka fjallað um möguleika á að taka notkunargjöld í gegnum svokallaða GPS-tækni. Þessu fagna ég alveg sérstaklega sem hér er sett inn vegna þess að ég hef áður á hinu háa Alþingi rætt um þann möguleika að rukka gjöld, áður fyrir þungaskatt, núverandi olíugjald, með GPS-tækni. Ég hef spurt um það og sagt að ég telji alveg fullkomlega koma til greina að GPS-tækni verði til dæmis notuð til þess að taka gjöld af flutningastarfsemi á vegum landsins. Því vil ég hér spyrja hæstv. samgönguráðherra út í það sem hann getur svarað í sinni seinni ræðu, hvort hann telji koma til greina að nota GPS-tæknina, að byrja og þróa og fylgjast með og skoða það að nota þessa tækni við að rukka inn í staðinn fyrir olíugjöld af flutningabílum og koma þannig til móts við þá sem kvarta mikið yfir háum flutningskostnaði. Það má nota þetta á þann hátt sem kemur þá líka inn á vegaviðhald og minnkar slit á vegum, til dæmis ef sett verður inn ákvæði um að flutningabílar geti kannski keyrt með 50 eða 75% afslætti ef keyrt er á næturnar. Ég held að þetta sé hugmynd sem full ástæða er til að skoða ákaflega vel. Þá dreifum við umferðinni betur og það er líka sannað að vegslit er minna þegar vegir eru kaldari. Þess vegna fagna ég því sem hér er hreyft í athugasemdum um greinina, skýringum með greinunum, til dæmis 17. gr., að hægt sé að taka svokallað notkunargjald með GPS-staðsetningartæki. Og það sem ég nefndi hér með flutningabílana gæti komið til móts við þá miklu kröfu að lækka flutningskostnaðinn. Áður hef ég að minnsta kosti einu sinni, kannski tvisvar rætt um það á hinu háa Alþingi og þá skattheimtu sem á sér stað af þessari starfsemi og íþyngir mjög lífi fólks úti á landi og atvinnurekstri úti á landi og er í raun samkeppnishindrun fyrir atvinnurekstur á landsbyggðinni.

Virðulegi forseti. Tíminn líður hratt í þessari fyrri ræðu minni. Ég var að ræða um 17. gr., um gjaldtökuheimildina sem þarf að vera inni, hvort sem það er með veggjöldum eða notkunargjöldum, ef út í einkaframkvæmd verður farið. Hér er talað um hina ýmsu vegi og ég vil segja um tengivegina og héraðsvegina að sá vegflokkur hefur fengið langminnst fé af samgönguáætlun undanfarinna ára. Þar þarf að gefa í.

Varðandi ferjurnar sem fjallað er um í 22. gr. og eiga að sjálfsögðu heima í samgönguáætlun, þá er rétt að minna á það að þegar ferjurnar fóru til Vegagerðarinnar í samgönguáætlun, áður vegáætlun, fylgdi tekjustofn ekki með. Hann var ekki aukinn í samræmi við kostnaðinn. Hið sama á við auðvitað um flugið sem við höfum líka talað um.

Varðandi VI. kaflann þar sem er talað um skipulag og veghelgunarsvæði þá sé ég ekki alveg og hef ekki alveg kynnt mér það hvort þarna sé um mikla breytingu að ræða. Þó er fjallað um að óski sveitarstjórn eftir að önnur leið verði valin en Vegagerðin leggur til að þá megi rukka sveitarfélagið um þann aukna kostnað. Ég hygg að þetta verði nú dæmi sem komi mjög upp þegar verður rætt um framtíðarlegu og hvernig Sundabrautin skuli liggja, hvort hún verður lögð yfir um Sundin með göngum eða á annan hátt.

En varðandi skipulag þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra út í það hvort sé hér einhver breyting á þannig að Vegagerðin hafi meira vald og jafnvel dálítið vald fram yfir viðkomandi sveitarfélög um það hvernig vegir skuli liggja að þjóðvegum. Upp í huga mér kemur núna framkvæmd uppi í Borgarnesi varðandi nýbyggingu verslunarhúsnæðis á svæði sem ég kann nú ekki alveg að segja hvað heitir. Ég veit að hæstv. samgönguráðherra kann að nefna það betur. En mér hefur fundist þar vera vegtenging sett inn á þjóðveginn sem er beinlínis stórhættuleg, þ.e. að taka þetta þannig inn á veginn sem raun ber vitni. Þarna eru búin til gatnamót þar sem verið er að koma úr verslun sem er mjög vinsæl og mikið farið í. Mér finnst þarna hafa verið gerð tenging sem geti skapað allt of mikla hættu. Að mig minnir hef ég heyrt einhvern tímann talað um að Vegagerðin ætti ekkert marga möguleika á að fá þessu breytt. Þess vegna spyr ég hæstv. samgönguráðherra hvort hér í þessu frumvarpi sé tekið eitthvað öðruvísi á því máli þannig að Vegagerðin geti komið inn með sérstaklega hugsun um umferðaröryggi.

Virðulegi forseti. Ég skil vel að sveitarfélagið Borgarbyggð hafi viljað stuðla að því að þessi verslun kæmi á svæðið og uppbyggingu á þessu svæði og meðal annars hjá Sparisjóði Mýrasýslu. En það er svolítið umhugsunarvert hvernig vegtengingin er þarna við þjóðveginn.

Þá er ég kominn yfir í VII. kafla um þá réttarþróun sem hæstv. ráðherra fjallaði um, um eignarnám og bráðabirgðaafnot lands. Ég tek eftir því og ég fagna því líka að þarna sé sett inn í lögin að landeigendur séu skyldugir til að veita Vegagerðinni heimild til að fara um land til undirbúnings og skoðunar á vegstæðum. Ég held að það sé mikilvægt að setja þetta þarna inn. Það eru líka sett þarna inn meðalhófsákvæði um að menn skuli ganga varlega um svæðið sem farið er um. Ég tel að þetta sé ákaflega mikilvægt og kannski mikilvægar nú en oft áður vegna þess að svo virðist vera, virðulegi forseti, að með kaupum ýmissa aðila sem ekki beint kannski búa á jörðum heldur kaupa jarðir, safna jafnvel jörðum eins og sumir gera, þá horfir fólk orðið öðruvísi á þetta en áður fyrr þegar menn fögnuðu því að Vegagerðin kom og lagði góða og fína vegi.

Virðulegi forseti. Dæmi er um það frá Norðausturlandi að svona ferli tekur óralangan tíma. Í raun hefur Vegagerðin ekki verið undirbúin undir þann langa tíma og langa kæruferli og allt það sem er hægt að setja upp varðandi þessi atriði. Ég fagna þess vegna að þetta skuli vera sett þarna inn. Ég fagna líka vegna þess að ákvæðið á ekki að vera þannig að hægt sé að ganga að yfir allt hvernig sem Vegagerðin vill. Þarna er svona meðalhófsregla sett fram og vona ég að sátt verði um þann þátt sem þarna er settur inn.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki getað farið yfir allt frumvarpið eins og ég hefði viljað í ræðutíma mínum sem nú er á enda. Ég segi eingöngu að ég held að hér sé stigið gott skref. Hér er hið besta mál að koma fram. (Forseti hringir.) Ég segi að það verður tilhlökkunarefni að vinna þetta mál ásamt öðrum í samgöngunefnd þó ég geri mér grein fyrir því, virðulegi forseti, að fundum (Forseti hringir.) samgöngunefndar muni fjölga mjög núna næstu missiri.



[15:57]
Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er skoðun mín að ásamt menntamálum og endurreisn atvinnulífs víðast hvar á landsbyggðinni séu samgöngumál og þá einkum og sér í lagi vegamálin sá málaflokkur sem skiptir landsmenn alla og sérstaklega íbúa á vissum svæðum landsins mestu máli. Það fer ekki hjá því að manni verði hugsað til íbúa Vestfjarða sérstaklega og norðaustursvæðisins að hluta til þegar vegamál ber á góma því að slíkt ófremdarástand hefur verið og er og verður fyrirsjáanlega enn þá um langa hríð í samgöngumálum á þeim svæðum.

Það er hárrétt sem kom fram áðan í máli fyrri ræðumanns að stórlega hefur verið dregið saman í fyrirætluðum samgöngubótum á landinu undanfarin þrjú ár og það hefur sérstaklega komið hart niður á þeim landsvæðum sem ég nefndi áðan, Vestfjörðum ekki síst, þar sem menn eru enn þá að keyra á malarvegum, komast ekki inn á svæðið nema um malarvegi. Fólk er að keyra á stórhættulegum vegum þar sem það getur búist við grjóti ofan á bílana sína hvenær sem er ársins eða snjóflóðum í þannig veðri og vegirnir eru rétt rúmlega einbreiðir.

Við ræðum frumvarp til vegalaga og fáum vonandi fljótlega í hendurnar vegáætlun eða samgönguáætlun því að þetta eru hvort tveggja þingmál sem skipta landsmenn höfuðmáli og við þurfum að fá góðan tíma til að ræða þessi mál.

Þegar við skoðum vegáætlun er nokkuð ljóst að þetta snertir eiginlega þrjá flokka fyrir utan ríkið, það eru þrír hagsmunaaðilar. Það eru sveitarfélögin, landeigendur og einstaklingar. Ef maður horfir um öxl á samskipti ríkisins og þessara aðila er eiginlega óhjákvæmilegt að komast að þeirri niðurstöðu að það halli alltaf á mótaðila ríkisins í þessum efnum. Við sjáum líka tóninn í bókun fulltrúa sveitarfélaganna í endurskoðunarnefnd sem ráðherra kynnti áðan. Þeir eru að sjálfsögðu fullir tortryggni vegna viðskipta sinna við ríkið og benda á það í bókun sinni, að fyrir utan það að þetta mál er með öllu órætt á vettvangi sveitarfélaganna, þ.e. að færa vegi innan sveitarfélaga í þeirra hendur, þá kemur auðvitað upp viðvörun vegna fjárhagslegra samskipta ríkis og sveitarfélaga sem sveitarfélögin hafa nú ekki góða reynslu af, eins og við vitum sem hér erum og við þingmenn stjórnarandstöðunnar viðurkennum, þó að stjórnarþingmenn viðurkenni það auðvitað seint.

Í 17. gr. þessa lagafrumvarps er talað um gjaldtöku. Ekki fer hjá því að manni detti í hug Hvalfjarðargöngin sem ákveðinn hluti landsmanna er látinn borga með ferð sinni um þau og verður aldrei of oft bent á hversu mikil ósanngirni felst í því gagnvart þessum hluta landsmanna og þá sérstaklega þeim sem þurfa vegna búsetu sinnar og vinnu sitt hvorum megin við göngin að eiga oft leið þar um. Eins og við vitum er mikill fjöldi fólks sem býr á Akranesi og í sveitunum þar í kring sem sækir vinnu og skóla til Reykjavíkur og er látinn borga framkvæmdina á þessum göngum. Þetta er vissulega hlutur sem fólk undirgekkst á sínum tíma með vísan í það að það átti um aðra leið að velja þó að sú leið væri í rauninni aðeins teóretísk vegna þess að þó að fólki sé boðið að keyra um Hvalfjörð í staðinn fyrir að borga í göngin þá er það auðvitað ekki valkostur þegar til kastanna kemur.

Núna aftur á móti er búið að gera ýmislegt og annað stendur fyrir dyrum þar sem fólk hefur valkosti. Þá er ég að tala um ný jarðgöng fyrir austan þar sem fólk hefur kost á annarri leið en þarf ekki að borga í göngin, Fáskrúðsfjarðargöngin. Einnig stendur fyrir dyrum að byggja 7–8 milljarða kr. göng á Norðurlandi eystra, milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar, en ekki er reiknað með að fólk borgi í göngin. Það er því auðvitað algjörlega óásættanlegt að hæstv. samgönguráðherra skuli enn þá þrjóskast við að koma því réttlætismáli í höfn að landsmenn geti keyrt um göngin án þess að verða að borga í þau, jafnvel stórfé, eins og þeir þurfa að gera sem ekki eru með áskrift. Hver einstök ferð kostar þúsund krónur. Maður getur séð það í hendi sér t.d. hvílík hindrun þetta gjald er fyrir ferðaþjónustu. Ef fólki dytti nú í hug t.d. að sækja ágætt veitingahús á Skaganum þá á það líka kost á veitingahúsi fyrir austan fjall, sem er ágætt, en það munar þegar 2 þús. kr. á matarreikningnum þegar upp er staðið vegna gjaldanna í göngin. Það veitingahús má vera miklu betra á Skaganum til að það verði ofan á. (Gripið fram í.)

Þetta er, þrátt fyrir að hæstv. ráðherra geri grín að þessu, ekkert gamanmál, þetta er nefnilega háalvarlegt mál, hæstv. ráðherra. En ég á svo sem satt að segja ekki von á að hæstv. ráðherra geri bragarbót á þessu máli fyrir lok starfsferils síns. Hann hefur fengið mjög mörg tækifæri til þess og það er stöðugt verið að minna hann á þörfina á að þetta verði lagfært, einkum og sér í lagi af hv. þm. Jóhanni Ársælssyni, þingmanni Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi en hæstv. ráðherra hefur lengst af látið sem málin séu í athugun og við vitum nú hvernig sú athugun hefur farið, hún leiðir ekki til neinnar niðurstöðu.

Ég verð að segja, frú forseti, að ég hef ákveðnar áhyggjur af örlögum landeigenda í viðskiptum við ríkið. Í frumvarpinu er kveðið á um bætur og kveðið er á um uppsetningu girðinga meðfram vegum og um eignarnámsrétt o.s.frv. Þetta er allt saman ágætt en þegar maður fer að skoða málin geta komið upp dæmi sem eru mjög óhagstæð fyrir landeigendur þegar til lengri tíma er litið.

Ég ætla að nefna dæmi þar sem frekar lítilli bújörð hefur verið skipt í fimm búta af Vegagerð ríkisins. Nú hefur Vegagerðin væntanlega séð til þess að girða hvern og einn bút af meðfram vegunum sem fara þvers og kruss í gegnum þessa jörð en síðan er það bóndans að sjá um viðhald á þeim girðingum öllum. Hann fær væntanlega bætur í eitt skipti fyrir það óhagræði sem af þessu hlýst og hann fær uppsetta girðingu einu sinni en síðan má hann kosta viðhald á þeim girðingum um aldur og ævi.

Þó að okkur þéttbýlisbúunum finnist það gott og gilt að gerðir séu nýir og góðir vegir, sem beinastir og stystir og allt það, er afar mikilvægt líka að Vegagerðin gæti að því hvernig hún fer með eignir manna. Skoðun mín er sú að landeigendur hafi oftar en ekki borið skarðan hlut frá borði í viðskiptum sínum við Vegagerðina og það sama er að segja um einstaklinga. Ég veit ekki til þess að eitt einasta dæmi finnist þar sem einstaklingar hafi unnið lögsókn gegn ríkinu því að ef málið hefur verið vafasamt lendir það alltaf endanlega á verktakanum, ef það lendir ekki á einstaklingnum sjálfum.

Við erum að tala um ákaflega mikilvægan þátt í lífi landsmanna, þ.e. Vegagerðina. Ég á von á að það verði margir þingmenn sem eigi eftir að lúslesa frumvarpið með tilliti til umbjóðenda sinna og til framtíðar. Eins og ég sagði áðan er þetta eitt það almikilvægasta sem við höfum með höndum á Alþingi, að skipuleggja samgöngubætur og þar er virkilega verk að vinna sem verður að fara í á næstu árum. Ég held reyndar að fleiri og fleiri séu að verða sér þess meðvitaðir, m.a. Samtök verslunar og þjónustu sem hélt málþing fyrr í vetur um forkastanlegt ástand á vegum landsins, en ekkert tillit hefur verið tekið til þess í framkvæmdaáætlunum ríkisins eða fjárveitingum til vegabóta hvernig umferð og þunginn á vegunum hefur aukist þannig að vegfarendur eru orðnir í stórkostlegri lífshættu í umferðinni þegar út á þjóðvegina er komið.



[16:10]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að ræða um þetta mál í heild. Þetta er mikið frumvarp og nefndarmenn munu örugglega fara vel í gegnum það og fá um það umsagnir frá þeim aðilum sem líklegastir eru til þess, sem bæði vilja hafa áhrif á það sem í lögunum verður og hafa kannski mesta hagsmuni af því sem hér er. En það eru auðvitað allir landsmenn sem hafa mikla hagsmuni af vegagerð í landinu og nýta hana og greiða reikninginn.

Þá er ég kominn að því sem ég ætlaði að nefna fyrst sem er að það þarf að sinna þeim málum miklu betur en gert hefur verið. Samfylkingin hefur verið með digrar yfirlýsingar um að vilja standa að því að gera stórátak í vegagerð í landinu og það er sannarlega tími til kominn.

Það hafa oft verið gefnar slíkar yfirlýsingar af samgönguyfirvöldum á undanförnum árum. En það má segja að það hafi verið regla að slíkar fyrirætlanir hafa síðan skroppið saman þegar hefur farið að líða eitthvað á það kjörtímabil sem þær áttu við.

Ég tel að það sé kominn tími til þess að Íslendingar fái nothæft vegakerfi um allt land. Til þess þarf stórátak. Við höfum sem sagt dagað uppi í einhvers konar undarlegri hugsun sem hefur falist í því að horfa aftur í tímann til kerruslóðanna og ónýtra vega og litið á það sem einhver afrek að búa til þá ófullkomnu vegi sem liggja um landið en duga engan veginn fyrir þá umferð sem nú er.

Þarna þarf nýja hugsun og meiri kjark en hefur verið sýndur á undanförnum árum. Ég vona sannarlega að Samfylkingin fái tækifæri til þess að sýna hvað hún vill og ætlar sér í þeim efnum.

Ég ætla að nefna sérstaklega 17. gr. sem m.a. hv. síðasti ræðumaður, Anna Kristín Gunnarsdóttir, fór vel yfir en ég vil bæta svolítið við. Hér er fjallað um gjaldtöku af umferð. Það er ýmislegt sem menn þurfa að hafa í huga hvað það varðar. Meðal annars er rætt um að taka megi gjöld af jarðgöngum og hér stendur, með leyfi forseta:

„Gjaldtöku má ekki haga með þeim hætti að raski jafnræði þeirra sem nota mannvirkin.“

Þetta virðist vísa til þess að það eigi einungis að gilda jafnræði milli þeirra sem nota viðkomandi mannvirki en það eigi ekki að vera neitt jafnræði milli fólksins í landinu. Við höfum ein jarðgöng sem er innheimt gjald fyrir. Það vill svo til að þau eru af einni af þremur aðalleiðum til höfuðborgarinnar. Eins og það kosti nú ekki eitthvað að byggja upp vegi á hinum tveimur aðalleiðunum.

Hvers vegna skyldu þeir sem koma norðan eða vestan og ætla norður eða vestur, eiga að borga fyrir aðganginn að höfuðborginni eða því að fara frá henni en ekki þeir sem fara á Reykjanes eða austur fyrir fjall?

Ég vil spyrja hæstv. samgönguráðherra, sem eftir mikla umræður um Sundabraut á fyrri hluta þessa kjörtímabils, féll frá því að það ætti að innheimta veggjald af Sundabrautinni og skipti yfir í skuggagjöldin, hvað hann segir um yfirlýsingu Spalar, sem rekur Hvalfjarðargöngin, um að hann ætli að nota lækkun á virðisaukaskattinum til að safna upp í næstu framkvæmd í Hvalfjarðargöngunum. Það er auðvitað ótækt að menn skuli ætla þennan veg til slíks.

Hæstv. ráðherra hefur ítrekað verið spurður eftir þessu máli á undanförnum árum og loksins þegar lækkun virðisaukaskattsins komst til framkvæmda þá héldu allir að það mundi verða til þess að lækka verð í göngin. En nú liggur fyrir þessi yfirlýsing Spalar um að safna þeim fjármunum upp í nýja framkvæmd vegna stækkunar Hvalfjarðarganga.

Ég spyr þess vegna hæstv. ráðherra: Er hann búinn að skipta um skoðun? Var það ekki þannig að hæstv. ráðherra ætlaði að beita sér fyrir því að slíkar aðferðir yrðu ekki notaðar? Ég tel ástæðu til þess að fá skýr svör um þetta efni.

Þetta snýst nefnilega ekki einungis um að það að fólk sem býr á þessu svæði þurfi að borga fyrir að fá að fara þessa leið. Gjöld sem koma niður með svona mismunandi hætti eins og þessi gjöld, hafa áhrif á byggðina, á þróun byggðar. Það skyldi nú ekki vera, að það að á undanförnum árum hefur fjölgað miklu meira, hefur orðið miklu meiri þróun í byggð fyrir austan fjall en uppi í Borgarfirði, hafi haft eitthvað með það að gera að það er dýrara að ferðast hérna á milli? Það skyldi nú ekki vera. Því hvar eiga menn eiginlega leita skýringanna á því að þróun byggðar hefur orðið miklu hraðari og miklu meiri fólksfjölgun fyrir austan fjall en uppi í Borgarfirði?

Uppi í Borgarfirði eru tveir háskólar sem hafa verið að springa út og uppi í Hvalfirði, á sama svæði, eru stærstu fyrirtæki sem rekin eru í nágrenni höfuðborgarinnar, járnblendiverksmiðjan og álverið. Samt sem áður fjölgar fólkinu miklu hraðar á Suðurlandi. Hvernig stendur á því? Ég held að það sé dálítil ástæða til þess að skoða þetta í samhengi við þróun byggðar. Hvers vegna gengur svona vel á Suðurlandi? Hvers vegna fjölgar fólkinu svona hratt þar? Ég held að það geti hafi veruleg áhrif að fólk skuli þurfa að borga fyrir að fara í gegnum Hvalfjarðargöngin.

Það eru ekki bara þeir sem búa á þessu svæði sem greiða þetta. Þetta er líka skattur á Vestfirðinga og Norðlendinga og aðra þá sem þurfa að fara vestur eða norður til Akureyrar.

Það er líka annað atriði sem ég vil benda nefndarmönnum sérstaklega á að skoða. Hér segir: „Óheimilt er að leggja á samtímis veggjald og notkunargjald fyrir notkun tiltekins mannvirkis.“

Þetta væri nú fínt ef þetta stæði bara eitt og sér. En það er annað sem stendur fyrir aftan: „Heimilt er þó að leggja á gjald fyrir notkun jarðganga og brúa samhliða notkunargjaldi á aðlæga vegi.“ Þýðir þetta ekki að menn geti t.d. innheimt veggjald af Hvalfjarðargöngum? Jú, það hefur nefnilega verið gert á undanförnum árum.

Þeir sem hafa borgað 100% gjald í Hvalfjarðargöngin munu greiða þau eins og þau eru í dag, algerlega upp, þ.e. umferðin í gegnum göngin borgar þau upp, þeir hafa ekki bara borgað það gjald, þeir hafa líka borgað veggjaldið sitt í gegnum göngin. Er þetta eðlilegt? Ég tel það ekki vera eðlilegt. Það er viðurkennt að á öðrum svæðum, t.d. ef lagður yrði vegur yfir hálendið og innheimt veggjald af, þar eigi ekki að fara með tvöfalda gjaldtöku eins og gert hefur verið í Hvalfjarðargöngunum. Af hverju leiðir það ekki til þess að menn viðurkenni líka að það eigi að fella niður veggjald í gegnum Hvalfjarðargöngin og aðlægum vegspotta þar?

Mér finnst ástæða til þess að menn velti þessu fyrir sér sérstaklega ef það er nú hugmyndin að fara að innheimta víðar einhvers konar veggjald af mannvirkjum, að gjaldtakan verði ekki tvöföld.

Málið er einfalt. Ríkissjóður gæti einfaldlega skilað veggjaldinu til Spalar í Hvalfirði og Spölur lækkað veggjaldið á móti þannig að ekki væri verið að innheimta bæði gjaldið í gegnum göngin og líka veggjaldið af þeim sem nota göngin. Þetta er óeðlileg gjaldtaka. Ég er ekki að halda því fram að hún sé gríðarlega mikil, en hún er samt þó nokkur og ástæða til þess að ríkið gefi gaum að því hvort sanngjarnlega sé að hlutunum farið. Ég ætla ekki að ræða meira um þetta, ég vildi koma þessu til nefndarmanna, til umhugsunar, að fara yfir þetta mál.

Mig langar líka að ræða um 22. gr. Þar er að mínu viti mikilvæg breyting á ferðinni og ég fagna því að hæstv. ráðherra skuli hafa beitt sér fyrir því að halda uppi ferjusiglingum af öðrum ástæðum en þeim sem menn hafa fram að þessu talið að ættu að liggja til grundvallar, þ.e. vegna mikilvægrar ferðaþjónustu. Siglingarnar eru sérstaklega ofarlega í huga mínum vegna þess að þær eru líka öryggismál fyrir svæðið. Við vitum að það getur orðið snjóþungt og erfið færð á vetrum á sunnanverðum Vestfjörðum, en siglingar um Breiðafjörð tengja það svæði. Og þótt þær vegabætur sem þar stendur til að gera komist í framkvæmd þá vitum við ekki enn þá hvort þær leysi samgöngumál þar að fullu. Þess vegna er ástæða til þess að fagna því að þarna skuli vera opnað fyrir möguleikana til þess að halda slíkri þjónustu áfram.

Mig langar svo að nefna 28. gr. þar sem er talað um vegi og skipulag og hlut Vegagerðarinnar að því að koma að skipulagi. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Ákveða skal legu þjóðvega í skipulagi að fenginni tillögu Vegagerðarinnar.“

Ég vek athygli á þessari grein vegna þess að það er eins og Vegagerðin sé ekki endilega nógu mikill áhrifavaldur í þessum efnum stundum. Ég hef þá sérstaklega í huga veginn um Grunnafjörð, sem kallaður er um Grunnafjörð, en er þó vegur sem gert er ráð fyrir að liggi fyrir framan Grunnafjörð.

Þegar fjallað var um þennan veg í skipulagi hreppanna sunnan Skarðsheiðar, þá var gert ráð fyrir honum. Skipulagsstofnun og/eða Umhverfisstofnun gerðu athugasemdir við þær skipulagshugmyndir, umhverfisráðherra sendi inn athugasemdir við þær. Í þeim athugasemdum var greinilega stuðst við hugmyndir sem alls ekki voru raunverulega hugmyndir Vegagerðarinnar um það sem stóð til að gera.

Í umsögnum Skipulagsstofnunar, sem hæstv. umhverfisráðherra á svo auðvitað að staðfesta, þ.e. skipulagið sjálft, var gengið út frá því að aðalleiðin á þjóðvegi 1 yrði áfram í kringum Grunnafjörð eins og hún er núna. En að vegurinn sem Borgnesingar og Akurnesingar vilja fá, til að tengja saman Akranes og Borgarnes og að verði jafnframt aðalleiðin á þjóðvegi 1, það yrði sem sagt ekki aðalleiðin. Á þessum forsendum voru athugasemdir Skipulagsstofnunar, þær voru hugsaðar til þess að koma í veg fyrir þessar fyrirætlanir.

Þarna þarf auðvitað að grípa í taumana og sjá til þess að gerður verði samanburður á þessum tveimur leiðum. Þessi leið styttir þjóðveg 1 að vísu ekki mikið, um einn og hálfan kílómetra eða svo, en þetta er miklu betri leið en sú sem nú er farin og hún styttir leiðina milli tveggja byggðarlaga mjög mikið. Hún styttir leiðina milli Akraness og Borgarness líklega um átta eða níu kílómetra og er betri leið að mörgu leyti en sú sem er farin núna.

Það sem er eðlilegt að fara fram á í þessu sambandi er að gerður verði samanburður á þessum tveimur leiðum, að gert verði umhverfismat og á grundvelli slíks umhverfismats verði tekin ákvörðun.

Ég fyrir mitt leyti efast ekki um að leiðin fyrir framan fjörðinn er miklu betri þegar horft er til náttúrunnar. Þetta er Ramsarsvæði og allur flutningur og umferð um þennan veg er auðvitað hættuvaldur. Mengunarslys geta orðið á þeirri leið. En ef vegurinn liggur fyrir framan fjörðinn þá er þeirri hættu afstýrt. Fyrir nú utan hagræðið sem er af því að láta veginn liggja þar sem heimamenn hafa viljað að hann lægi.

Svo er annað sem ég vil nefna og hef oft gert áður, en ég sé ástæðu til þess að segja það enn einu sinni að hér vantar að lagðar séu fram skipulagshugmyndir til lengri tíma en menn hafa gert fram að þessu. Það þarf skipulagshugmyndir til svona 40 ára til þess að unnið sé að skipulagi með framtíðarmarkmið í huga og ekki verði skipulagsslys eins og við höfum horft upp á. Menn þurfa að ákveða hvar jarðgöng eigi að liggja í framtíðinni og hvar miklar umferðaræðar eigi að vera til lengri framtíðar litið.

Ef slíkt framtíðarskipulag hefði legið fyrir þegar menn tóku ákvörðun um að gera göng til Siglufjarðar eins og nú er verið að bora, þá er ég sannfærður um að þau göng hefðu aldrei legið þar. Vegna þess að þá hefði legið fyrir hvar menn ætla að gera göng í gegnum Tröllaskaga því ég efast ekki um að allir hljóti að sjá að menn munu ekki keyra upp í milli 500 og 600 metra hæð til Akureyrar í framtíðinni. Auðvitað koma jarðgöng sem tengja saman Skagafjörð og Eyjafjörð. Ef það hefði legið fyrir hvar þau göng ættu að vera þá tel ég að þau hefðu legið nálægt Hólum. Þá hefði niðurstaðan augljóslega verið sú að menn hefðu gert göng út í Fljót frá Siglufirði. Þau göng yrðu ekki nema fjögurra kílómetra löng. Nú er verið að leggja 11 kílómetra göng til að tengja þessi svæði.

Ég tel að þetta sé sönnun fyrir því að þarna hafi orðið skipulagsmistök vegna þess að menn horfa ekki nógu langt fram í tímann. Það er auðvitað of seint að tala um það í þessu máli sérstaklega en þetta er kannski dæmi til að minna okkur á að það þarf á svona framtíðarhugsun að halda í vegamálum. Þar hefur Vegagerðin mikið hlutverk og hún þarf að vera skipulagsyfirvöldum til ráðuneytis og það þarf auðvitað samstarf milli þessara aðila sem verður þá til þess að færri skipulagsslys verða í framtíðinni en til þessa.

Ég ætla svo sem ekki að hafa ræðu mína lengri enda er tími minn víst fokinn frá mér. Ég vildi fyrst og fremst koma því sem ég hef sagt á framfæri og svo vildi ég fylgja því eftir að fá að vita hvað hæstv. ráðherra hyggst fyrir hvað varðar veggjöld á leiðinni til og frá hans kjördæmi. Að hann segi þeim kjósendum sem búa báðum megin við og nota þessa tengileið til borgarinnar að og frá, hvað hann ætlast fyrir í þessum efnum. Því það er ástæða til að spyrja núna þegar það liggur fyrir að stefnt er að því að halda áfram gjaldtöku á þeirri leið.



[16:30]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að fara í andsvör við hv. þingmenn í þessari umræðu (Gripið fram í: Þú leggur ekki í það.) en vegna þess að hv. þingmaður veittist alveg sérstaklega að samgönguráðherra fyrir gjaldtöku í Hvalfjarðargöngunum þá tel ég mig knúinn til þess að fara í örfáum orðum yfir upphaf þess máls og sá veldur miklu sem upphafinu veldur. (ÖS: Ekki horfa á mig.) Hv. þm. Jóhann Ársælsson var í Alþýðubandalaginu árið 1990. Þá var gerður samningur, reyndar í janúar árið 1991, milli þáverandi samgönguráðherra og þingmanns Alþýðubandalagsins, Steingríms J. Sigfússonar, uppáskrifaður af ráðherra fjármála, Ólafi Ragnari Grímssyni, þar sem gerður er samningur milli Spalar og þáverandi samgönguráðherra um að grafa jarðgöngin. Þeir fengu heimild til að taka þetta gjald og að það væri innheimt í 25 ár og það skyldi vera 14% arður af uppfærðu hlutafé félagsins á hverjum tíma sem var alveg einsdæmi þá. (Gripið fram í.) Síðan var þessi samningur sem þáverandi fjármálaráðherra, Ólafur Ragnar Grímsson, og þáverandi samgönguráðherra, Steingrímur J. Sigfússon gerðu staðfestur með sérstakri þingsályktunartillögu 18. mars 1991. Í framhaldi af því var hv. þm. Jóhann Ársælsson heilt kjörtímabil fram til 1995 á Alþingi og ég man aldrei eftir því að hann hafi gert athugasemdir við þennan samning sem er grundvöllur að gjaldtöku í Hvalfjarðargöngunum.



[16:32]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Stundum finnst mönnum þægilegt að forða sér inn í fortíðina. Þetta er ekki það sem málið snýst um í dag. (Samgrh.: Þeir gáfu upp boltann.) Við vissum að við þyrftum að greiða þessi gjöld árum saman og höfum gert það sem höfum nýtt þennan veg. Það sem við viljum fá að vita í dag er hvort hugmyndin sé að menn haldi því áfram og hvort það sé sanngjarnt. Er það skynsamlegt? Ég held að svörin við þessu séu í öllum tilfellum nei. Það er auðvitað hæstv. ráðherra að svara því hvað hann vill gera í næstu framtíð hvað þessa hluti varðar og hvort hann er búinn að skipta um skoðun, því að þegar rætt var um Sundabrautina fyrr á kjörtímabilinu skipti hæstv. ráðherra yfir í skuggagjöldin. Nú svarar hann því ekki hvort hann sé sammála þeim í Speli að fara að undirbúa það að innheimta gjöld fyrir stækkun Hvalfjarðarganganna til að framlengja það ástand sem er og sem gerir upp á milli byggðarlaga í landinu. Þó svo að þessi göng hafi verið gerð á sínum tíma er þá ekki nóg að hafa innheimt fyrir alla þá framkvæmd og borgað hana í topp þegar það er búið? Er það ekki nóg? Ég tel að það sé ástæða til að hæstv. ráðherra svari þessu. Hann gerði það ekki í því andsvari sem við hlýddum á áðan.



[16:34]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Andsvar mitt var vegna þess að hv. þingmaður talaði eins og honum væri algerlega ókunnugt um hvers vegna Hvalfjarðargöngin voru grafin eða hvernig sú framkvæmd var grundvölluð. Það er alveg nauðsynlegt að minna hv. þingmann á það. Hins vegar blasir við núna að gjaldið mun lækka með ákvörðun ríkisstjórnarinnar um lækkun á virðisaukaskatti. Virðisaukaskatturinn mun lækka úr 14% í 7% 1. mars og þar með mun gjaldið í göngin lækka sem nemur þeim virðisaukaskatti eftir þeim ákvörðunum sem stjórn Spalar tekur hvað varðar gjaldtökuna. Það er á valdi hennar.

Hins vegar er alveg ljóst að þessi samningur var grundvöllur að því að tekin voru lán til þessarar framkvæmdar, það voru gerðir lánasamningar sem stjórn Spalar getur ekki hlaupið frá og innheimta gjaldsins er til að greiða niður þessi lán. Það liggur alveg ljóst fyrir og það eiga allir að vita mjög vel. Ég veit að þeim ágætu stjórnarmönnum og forsvarsmönnum Spalar sem stóðu fyrir þessari mikilvægu og stórkostlegu framkvæmd er alveg ljóst hver ábyrgð þeirra er við að endurgreiða lánin á grundvelli þeirra lánasamninga sem gerðir voru. Það er verkefni sem verður að sjálfsögðu að vinna og gjaldið stendur undir þeirri endurgreiðslu.

Um frekari gjaldtöku liggur ekkert fyrir. Við erum að fjalla um ný vegalög sem skapa möguleika á einkaframkvæmdum, skapa möguleika á nýrri aðferð við gjaldtöku, að leggja niður þungaskattinn (Forseti hringir.) og olíugjaldið en taka upp annars konar mælingu sem hv. þm. Kristján Möller tók (Forseti hringir.) alveg sérstaklega undir að ætti viðhafa.



[16:36]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum. Ég áleit að hæstv. ráðherra mundi svara því mjög skýrt hvað hann vildi gera í framhaldinu, hvort hann væri sammála þeirri ákvörðun Spalar að menn fari að safna upp fjármunum til að fara í eðlilegar viðbótarframkvæmdir eða hvort hæstv. ráðherra hugsi sér að hafa áhrif á hvaða fyrirætlanir menn hafi þarna og standi við það sem hann sagði fyrr á kjörtímabilinu að hann vildi frekar að tekin yrðu upp skuggagjöld heldur en að farið yrði í að innheimta meiri veggjöld á þessari leið. Ég tel reyndar að ríkið geti tekið upp annan hátt, ef það vill og það er mjög eðlilegt að ríkið geri það, en þarna er á og tekið á sig þær skuldir sem þarna eru, geri málið upp. Full ástæða er til að skoða þá leið úr því sem komið er og af því að til stendur að gera þessi mannvirki enn afkastameiri en þau eru og miklu fyrr en menn reiknuðu með. Það þarf auðvitað að endurskoða málin þegar svo er komið. Hins vegar er algerlega ólíðandi að af þremur aðalleiðum til borgarinnar borgi menn fyrir eina þeirra. Hæstv. ráðherra hlýtur að sjá að það er mjög ósanngjarnt og menn verða að taka á því máli.

Hæstv. ráðherra sagði það blasa við að gjöldin yrðu lækkuð. Yfirlýsingar Spalar benda ekki til þess. Spölur ætlar að fara að safna í sjóð og spurningin er … (Gripið fram í.) Hæstv. ráðherra fær tækifæri til að svara þessum spurningum síðar úr því að hann gerði það ekki núna en ég vænti þess varla úr því að hann lét hjá líða að koma með svörin núna.



[16:38]
Guðmundur Hallvarðsson (S):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að fylgjast með þessari umræðu sem segja má að einskorðist af því einu að almennt séu þingmenn mjög ánægðir með þetta framtak hæstv. samgönguráðherra sem er framlagning þessa frumvarps til vegalaga, sem er náttúrlega gjörbylting og breyting á þeim lögum sem nú eru í gildi. Það var vissulega tímabært að endurskoða vegalögin með tilliti til nútímans og þeirrar miklu umferðar sem við höfum upplifað á síðustu árum sem kemur kannski fyrst og fremst til vegna þess að hér á landi hefur ríkt mikið góðæri og menn hafa því getað veitt sér þann munað að kaupa fleiri bifreiðar. En eins og fram hefur komið er bifreiðaeign Íslendinga með því mesta sem gerist miðað íbúafjölda og það má kannski segja að við höfum ekki haldið vöku okkar nægilega hvað varðar uppbyggingu vega.

Menn hafa verið að blanda nokkuð saman 12 ára áætlun um samgöngumál og þessu ágæta frumvarpi og það er kannski ekki óeðlilegt í sjálfu sér. Það sem er líka merkilegt við hana er að þar hefur hæstv. samgönguráðherra lagt fram samræmda samgönguáætlun í flugi, á sjó og á landi og það passar auðvitað mjög vel við nútímann og er eðlilegt að horft sé til þess.

Varðandi það sem kom fram hjá hv. þm. Kristjáni L. Möller um heimild til gjaldtöku af umferð sem hér er lögð til og þá tækni sem fram undan er og tæknimöguleika sem menn hafa til að leggja af þungaskatt og kílómetragjald eða olíugjald og taka upp þá tækni sem felst í GPS-tækjum, þá er auðvitað eðlilegt að líta til framtíðar hvað það áhrærir.

Rætt hefur verið um að varúðarbjöllur sveitarfélagsmanna hefðu hringt þegar þeir unnu með nefndinni. Ég átti þess kost að sitja í þeirri ágætu nefnd. Þeir töldu að hafa yrði allan vara á gagnvart ríkinu vegna greiðslu sem fylgja mundi þeirri framkvæmd sem færð yrði yfir á sveitarfélögin ef samningar tækjust um það. Það má kannski segja að sporin hræði þar þegar litið er til fortíðar. Hitt er annað mál að ég varð ekki var við annað en að sveitarstjórnarmenn litu björtum augum til þeirra breytinga sem hér er verið að gera og þeirra spora sem hér er verið að stíga til framtíðar. Það er alveg ljóst og var margrætt í nefndinni að fullur hugur er á því að ganga fram í þessu máli með það að leiðarljósi að taki sveitarfélögin að sér framkvæmd þeirra mála sem nú voru sett á bið fylgi auðvitað fjármagn með henni. Þarna var þó opnuð önnur leið sem felst í því að Vegagerðin getur samið við sveitarfélögin um að taka að sér verk og þá fylgir ákveðin greiðsla þegar þau mál eru afgreidd.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson gerði mikið mál úr greiðslum í Hvalfjarðargöng sem snertir náttúrlega samgönguáætlunina. Hæstv. samgönguráðherra rifjaði upp fortíð þess máls og það var bara af hinu góða. Hitt er annað mál, og ég held að það hafi blundað meðal þjóðarinnar, að það er alveg ljóst að í Hvalfjarðargöng hefði ekki verið ráðist ef þessi samningur hefði ekki legið fyrir. Mér finnst það því skjóta nokkuð skökku við þegar menn koma í dag og segja að nú séu aðrir tímar og að samningurinn og það sem menn vildu á þeim tíma sé bara allt í plati. Ég tel að þetta hafi verið mikið framfaraspor og það hafi verið framsýnir menn sem stofnuðu fyrirtækið Spöl og lögðu í þetta ævintýri. Ótrúlega margir fræðimenn og fræðingar á verkfræðisviði lögðust mjög gegn þessu máli, höfðu allt á hornum sér og töldu kjark úr mönnum við að ráðast í þessa framkvæmd.

Síðan gerði hv. þingmaður íbúðabyggð að umræðuefni og hvernig hún hefði þróast og taldi að íbúðabyggð á Suðurlandi hefði aukist vegna Hvalfjarðarganganna. Það er merkilegt að slíkur heiðursþingmaður skuli ekki líta um öxl og gera sér grein fyrir því að í uppsveitum Borgarfjarðar og jafnvel norður í land hefur orðið gjörbreyting á verðmætamati lóða og jarða með tilkomu Hvalfjarðarganganna.

Ég tel ákvæðið um heimild til að taka gjald vegna umferðar af hinu góða. Við vorum alveg sannfærð um það sem sátum í nefndinni að það gæti leitt til enn hraðari uppbyggingar vega og yrði mikil samgöngubót sem er auðvitað forsenda byggðar.

Virðulegi forseti. Ég veit að tekið verður vel á þessu máli í samgöngunefnd þar sem ég á sæti og ef marka má hvernig þingmenn hafa tekið undir frumvarpið þá er ég sannfærður um að það fær góða umfjöllun og góða afgreiðslu út úr nefndinni.



[16:45]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi 1. umr. þessa máls koma inn á nokkur atriði í frumvarpi til vegalaga. Ég vil lýsa því yfir að mér finnst mjög margt vera jákvætt í því og tímabært hafi verið orðið að endurskoða vegalögin. Frumvarpið er að mörgu leyti mun skýrara og fært til nútímahorfs frá þeim lögum sem við búum við í dag.

Ég hef, hæstv. forseti, í þrígang lagt fram frumvarp til laga um breytingu á núgildandi vegalögum og um er að ræða tvö atriði sem lúta að öryggismálum. Annars vegar hef ég lagt nokkrum sinnum fram þingsályktunartillögu um rásir fyrir búfé, að inn í vegalögin komi sérstakt ákvæði um að Vegagerðinni eða þeim aðilum sem eru í vegagerð sé heimilt að setja niður rásir sem nú heita í frumvarpinu göng fyrir búfé. Ljóst er að mikil slysahætta skapast á fjölförnum vegum þar sem stórbúum hefur fækkað og það er orðið, því miður, nokkuð algengt að reka þurfi búfénað yfir þjóðvegi og fjölfarna vegi. Mér til mikillar ánægju sé ég að þetta er komið núna inn í það frumvarp sem við hér fjöllum um.

Eins hef ég lagt fram frumvarp um þann öryggisþátt að líta strax til hönnunar þjóðvega. Með leyfi hæstv. forseta vil ég fá að lesa upp þá breytingartillögu sem ég lagði fram við núgildandi 8. gr. en hún er svohljóðandi:

„Við gerð þjóðvega og við verulegar endurbætur á þjóðvegum skal farið að viðurkenndum öryggisstöðlum og þess gætt að vegirnir verði svo öruggir í notkun sem best verður á kosið að teknu tilliti til notkunar og aðstæðna hverju sinni.“

Þessi breytingartillaga mín sem er við 8. gr. núgildandi laga mundi falla mjög vel að 47. gr. í IX. kafla frumvarpsins, um ákvæði um öryggi vega og umferðar, sem ég tel vera til mikilla bóta en væri að mínu mati eðlilegra að kveða sterkar að orði en gert er greininni. Í greinargerðinni er ítarlegar farið yfir það sem að baki stendur en ég tel að réttara sé og hnykki á því betur að setja þessi ákvæði beint inn í greinina.

En hvað varðar ákvæði um öryggi vega og umferðar á í frumvarpinu að taka tillit til þess að gert verði umferðaröryggismat á öryggisþáttum nýrra vega, að gerð verði umferðaröryggisrýni, sem felst í rýni hönnunargagna á mismunandi stigum hönnunar, og gerð verði umferðaröryggisúttekt. Þetta er því allt til bóta, hæstv. forseti. Ég vil nefna þetta því ég tel að þetta eigi að vera ákveðnara í lagagreininni. Ég gerði tillögu um að í sjálfum lagatextanum verði kveðið á um að við gerð vegáætlunar skuli tekið mið af vegrýni út frá öryggissjónarmiðum. Það skiptir einmitt máli þegar verið er að skipuleggja og undirbúa legu og framkvæmdir að þá verði það ekki síst út frá öryggissjónarmiðum sem vegarstæði verður valið og hönnun gerð.

Margt kemur til þegar verið er að hanna vegi og umferðarmannvirki, t.d. snertir það leguna út frá landinu og umhverfissjónarmiðum, öryggi og einnig út frá kostnaði. Því miður, hæstv. forseti, er það oft svo að þegar þetta allt er tekið saman hefur ekki síst verið litið á kostnaðarþáttinn og hann hugsanlega oft verið látinn ráða þegar valið hefur verið og örygginu þá aðeins vikið til hliðar. Það sama má segja hvað varðar fjármagn til vegamála í dag, að mjög víða vantar vegrið og annan öryggisbúnað svo þjóðvegir okkar verði öruggari. Þarna skortir fé. Vegagerðin hefur, að ég tel, kortlagt mjög vel þá staði sem þyrfti að bæta hvað þetta varðar en hefur ekki haft fjármagn í þennan lið.

Það er margt skýrara í þessu lagafrumvarpi og það gleður mig einnig, hæstv. forseti, að sjá að í 10. gr. er búið að taka inn ákvæði um göngu- og hjólreiðastíga, að þeir flokkist nú með almenn um stígum en ekki eingöngu reiðstígar eins og hefur verið. Þetta hefur verið baráttumál okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur í nokkur skipti lagt fram þingmál hvað varðar það að setja göngu- og hjólreiðastíga í vegalög og hafa þá möguleika að ferðast á þann hátt, ekki eingöngu akandi, og ég þakka það að þetta ákvæði sé komið inn. Þá er það næsta, þ.e. að nóg framkvæmdafé sé svo hægt verði að fara í kortlagningu og forgangsröðun. Að mínu mati á að forgangsraða út frá þéttbýliskjörnum, tengja þá, eins og gert hefur verið á höfuðborgarsvæðinu, og það á að halda á áfram og fara milli þéttbýliskjarna hringinn í kringum landið. Stórt verkefni er fyrir höndum og skiptir máli að skipuleggja þetta strax og ganga síðan markvisst í verkið.

Í 14. gr., sem er undir yfirskriftinni framsal veghalds þjóðvega, er komið inn á þann þátt að vegamálastjóra sé heimilt að fela sveitarstjórn veghald héraðsvega innan sveitarfélagsins óski viðkomandi sveitarfélag eftir því. Ég tel mjög mikilvægt að það sé þá að ósk sveitarfélaganna. Safnvegir og tengivegir hafa setið mjög á hakanum og gera þarf stórátak víða um land til að koma þeim yfir á 21. öldina. Það verður átak að fara í endurbyggingu og lagfæringu á slíkum vegum svo sómi sé að. Ef þeim málaflokki hefði verið komið yfir á sveitarfélögin hefði það verið mjög alvarlegt, að mínu mati, en hugsanlega telja efnameiri sveitarfélög eða þau sem telja að þau séu svo aftarlega á listanum og hafi setið svo á hakanum, að það eina sem dugi sé að fara í framkvæmdir á vegum sveitarfélaganna, en þá verður það að vera á þeirra forsendum og tryggt sé að þeim verði greitt eins og samkomulag næst um um kostnað.

Síðan kemur að 17. gr., sem ég tel að töluvert muni verða rædd í samgöngunefnd og eins þegar frumvarpið kemur til 2. umr., en það er gjaldtaka af umferð. Við höfum eingöngu þekkt gjaldtökuna frá Hvalfjarðargöngunum. Á sínum tíma rúmaðist sú mikla framkvæmd engan veginn innan fjárlagarammans eða möguleika þess að fara samkvæmt hefðbundnu leiðum í þá framkvæmd, en ég man svo vel eftir öðrum rökum sem voru látin gilda og þau eru — ég tel að þau séu alveg jafngild í dag — að það sé valkvætt. Hægt er að keyra áfram Hvalfjörðinn. Þetta er ekki eina leiðin vestur eða norður, hægt er að fara Hvalfjörðinn. Það er sem sé valkvætt og það tel ég að eigi að hafa í huga ef farið er í áframhaldandi einkaframkvæmdir, að valkvæðar leiðir séu fyrir hendi, ég tel að það séu alveg jafngild rök eins og mörg önnur til að réttlæta það að fara ekki samkvæmt hefðbundnu fyrirkomulagi, eins og við höfum stundað nýframkvæmdir og vegagerð fram til þessa, þetta sé ekki þannig að menn verði að keyra þær leiðir sem gjald er tekin fyrir.

Ég tel að við eigum að stíga varlega í þessa átt. Einkaframkvæmdin er dýrari, það eru arðsemiskröfur af slíkum framkvæmdum sem eru ekki hjá Vegagerðinni. Slíkar framkvæmdir eru einnig dýrari vegna þess að það eru óhagstæðari lán og lánskjör, nema þá ef ríkissjóður ætlar sér að vera með einhverja baktryggingu. Ef slík vinnubrögð yrðu tekin upp er mjög líklegt að auðveldara verði að ganga á svig við gildandi vegáætlun eins og kom fram rétt fyrir jólin þegar mönnum hljóp kapp í kinn við að lofa betri vegtengingu á milli höfuðborgarinnar og austur að Selfossi eftir Suðurlandsvegi. Það virtist vera hægt að lofa tvöföldun vegarins þar sem þessi framkvæmd yrði einkaframkvæmd og þar af leiðandi kæmi hún varla hingað inn á okkar borð eða mundi ekki íþyngja ríkissjóði. Ég held að slík hugsun, að fara í einkaframkvæmd og hafa það algengari framkvæmdir en verið hefur fram til þessa, muni leiða eitt og annað í ljós sem væri betra að við skoðuðum og héldum okkur við vegáætlun og hagkvæmari leiðir en einkaframkvæmdarleiðina.

Hvað varðar 8. gr., um ferjur, finnst mér mjög jákvætt að slíkt ákvæði sé komið þarna inn. Ég man eftir þeim ferðum sem ég fór um skerjagarðinn út frá Gautaborg og eins í Stokkhólmi, að hægt var að fara í ferju þar og borga eins og í strætó. Við búum ekki við slíkar aðstæður en þó eru staðir þar sem eyjar eru í byggð og þurfa íbúar ýmist að nota flug eða ferjur og mikilvægt að hafa þetta ákvæði inni. Í mörgum tilfellum er þetta hluti af almenningssamgöngum og hugsanlega gætum við komið þeim betur á en er í dag.

Hvað varðar 28. gr. finnst mér að mörgu leyti að þau lög sem lúta að mati á umhverfisáhrifum séu þannig að þegar kemur að vegagerð er miðað við ákveðna vegalengd sem boðin er út til framkvæmda eða farið er í. Ég tel að nokkurrar tregðu gæti við að setja framkvæmdir í mat á umhverfisáhrifum. Til lengri tíma litið tel ég að við græðum öll á því þegar menn eru farnir að slípast í að vinna samkvæmt þessu, að finna bestu og heppilegustu leiðina til vegagerðar með mati á umhverfisáhrifum. Ég tel að stuðla eigi frekar að því að framkvæmdir séu settar í mat á umhverfisáhrifum. Það muni jafnframt á margan hátt spara okkur bæði fjármuni og eins átök ef gerð er langtímaáætlun, t.d. hvað varðar svæðisskipulög. Þegar svæðisskipulögin eru unnin séu meginlínurnar dregnar þannig að íbúar svæðanna geti komið þar að og á því stigi raunar verði tekist á um hvar meginlínurnar eigi að vera, hvar stofnbrautirnar eigi að liggja, samanber átökin á Vestfjörðum núna. Að mínu mati hefði átt að vera búið að afgreiða vegarstæðið fyrir vestan með gerð svæðisskipulags en ekki þegar kemur að því að leggja veginn svo fólk fái betri heildarsýn og sjái þá hvað fram undan er.

Hæstv. forseti. Ég ætlaði aðeins að nefna nokkur atriði og ætlaði ekki að vera með langa ræðu en teygst hefur úr tímanum. Ég vona að samgöngunefnd hafi tíma til að fara vel yfir frumvarpið en mér finnst miður að samgönguáætlun skuli ekki vera komin fram. Ég hafði vonast eftir samgönguáætlun í upphafi þings svo nægur tími væri til að fara yfir áætlunina. Hún er enn ókomin en ég er sannfærð um að um þá áætlun eigi eftir að verða miklar umræður, bæði í nefndinni og eins í salnum. Mér finnst miður að hún skuli ekki liggja frammi nú þegar.



[17:05]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég held að frumvarpið sem hér er lagt fram sé þokkalegt að flestu leyti. Ég hef ekki mjög miklar athugasemdir við það á fyrsta stigi þótt kannski kunni að koma í ljós við nánari yfirlestur og yfirlegu í nefnd að eitt og annað megi athuga.

Í 14. gr. er vikið að því að vegamálastjóra sé heimilt að fela sveitarfélagi viðhald héraðsvega innan sveitarfélags óski sveitarfélag eftir því. Þessi heimild er opnuð og ekkert nema gott um það að segja.

Mig langar hins vegar aðallega að gera að umræðuefni, hæstv. forseti, 17. gr. og hugsunina í henni varðandi gjaldtöku og útfærslu á gjaldtökuheimildum. Út af fyrir sig tel ég mjög eðlilegt að opnað verði á notkunargjaldið. Ég tel að það sé áhugaverður kostur til að taka inn tekjur af notkun þjóðvega. Það er talið mjög mismunandi hversu einstök farartæki slíta þjóðvegum eða nota þá mikið. En ég tek eftir því að í 17. gr., í skýringum við hana, er eingöngu hugsað fyrir því að um gjaldtöku verði að ræða, hvernig eigi að útfæra gjaldtöku af notkun þjóðvega eða vegarkafla. Eðlilega er bent á að það sé hægt að gera með GSP-tækni, staðsetningartækni og auðvitað þarf að mæla umferð á vegum og vegarköflum á viðkomandi farartæki, aksturstíma þess.

Ég tel að þessi útfærsla sé mjög áhugaverður kostur fyrir framtíðina. Það væri náttúrlega áhugavert ef þau gjöld sem við höfum núna, t.d. þungaskattur og annað, gætu að hluta til eða öllu leyti verið innheimt eftir þessari aðferð, þ.e. eftir því hver ekur, hvernig og á hvers konar farartæki. En þá verða menn líka að leggjast í fagvinnu við að reyna að meta hvernig eigi að haga gjaldtöku miðað við gerð ökutækis, þunga þess, tíðni ferða o.s.frv. Það hlýtur að vera hugsunin. Ég geri a.m.k. ráð fyrir því að samgönguráðuneytið fylgi þeirri stefnu að þannig verði tekið á þessu í framtíðinni, að miða við þessa tækni.

Ég vil varpa einni hugmynd inn í umræðuna sem alls ekki kemur fram í þessari grein sem þó hefði virkilega verið möguleiki á, hæstv. forseti. Þ.e. að það þarf ekki endilega að útfæra þetta sem gjaldtöku. Það er líka hægt að útfæra þetta sem endurgreiðslu, hæstv. samgönguráðherra. Ég bendi á að þegar menn eru farnir að mæla umferð um vegi eftir ástandi vega, eftir vegarköflum, gerð veganna og þyngd farartækis, þá er þetta líka orðin endurgreiðsla. Hér er eingöngu talað um þáttinn sem snýr að gjaldtökunni en ekki hugað að því að jafna megi flutningskostnað um landið með því að hugsa þetta sem endurgreiðsluaðferð, þ.e. að þau farartæki eða þeir landshlutar sem búa við slæmt vegakerfi, þar sem umferðinni er ekki boðið upp á neitt sambærilegt við betri vegi í nágrenni höfuðborgarsvæðisins eða á bestu þjóðvegum í dag. Ég nefni t.d. ýmsar nýjar leiðir sem hafa verið opnaðar á undanförnum árum, t.d. Vatnaleið, sem er einhver best lagði vegur sem maður hefur séð, af fjallvegum, þótt honum væri mótmælt á sínum tíma. Þar er um að ræða afar góðar og öruggar akstursleiðir.

Snúa mætti þessari hugsun við. Í 17. gr. á bls. 25 er talað um notkunargjaldið. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þykir rétt að gera ráð fyrir þessari gjaldtöku í vegalögum en ekki liggur fyrir hvort né heldur hvenær búast má við beitingu hennar.“

Síðan hefði ég viljað bæta inn þeirri hugsun, mér finnst að það hefði átt að standa í greinargerðinni, hæstv. forseti: „Þykir rétt að gera ráð fyrir þessari gjaldtöku eða endurgreiðslu …“, hæstv. forseti, í vegalögum með það að markmiði að endurgreiða til þeirra sem aka lengstu flutningsleiðirnar með tilliti til þess vegakerfis sem mönnum er boðið upp á. Þessari hugsun held ég að menn eigi að koma inn í lagagreinina vegna þess að útfærslan og tæknin býður upp á að mæla vegalengdir, mæla ferð farartækjanna miðað við gerð þeirra og þunga væntanlega. Við getum skilgreint hvort um er að ræða flutningabíla með aftanívagni o.s.frv. eða hvort við erum að tala um annars konar flutningabíla á þjóðvegum landsins. Þá opnast möguleiki til þess, þar sem menn búa við versta vegakerfið, að í staðinn fyrir gjaldtöku umfram bensíngjöld og olíugjöld þá væri hægt að meta það til endurgreiðslu ef þeir þyrftu enn að keyra um vegi sem engan veginn eru sambærilegir við það sem aðrir eiga að venjast.

Þetta vildi ég benda á, hæstv. forseti. Ég tel að hugsunin megi ekki bara vera í þá átt að gjaldtakan verði í forgangi heldur eigi þetta líka að geta orðið til að jafna aðstöðu þeirra sem eru að keyra á þjóðvegum, eftir því hversu góða þjónustu þeim hefur verið veitt með nýbyggingu vega. Einnig vil ég beina þeirri hugsun inn í umræðuna hvort það mætti ekki einnig hugsa fyrir því að þau farartæki sem sleppa því að aka þjóðvegi landsins á stórum köflum með því að fara í ferju eigi ekki alveg eins rétt á endurgjaldi fyrir það. Ég held að menn verði að hugsa þetta í báðar áttir. Það er vissulega hægt að nota þetta sem gjaldtöku en einnig til endurgreiðslu og jafna þannig aðstöðu þeirra manna og landshluta sem búa við verst vegakerfi á landinu þótt framtíðin muni væntanlega gefa flestum landsmönnum kost á að búa við þjóðvegi með bundnu slitlagi, lagða eftir nútímastöðlum með lágmarkshalla og eðlilegri breidd.

Þessu vildi ég koma að í umræðunni. Þar sem ég á sæti í samgöngunefnd geti ég tekið þetta upp í nefndinni og reifað skoðanir mínar. Ég held að hugsa megi þetta á þennan veg eins og það að hér sé eingöngu lagt upp í gjaldtökuþáttinn þótt ég telji að notkunargjöld geti verið fyllilega eðlileg og mun eðlilegri heldur en sum þau gjöld sem við tökum af umferðinni í dag, t.d. þungaskatt sem kemur mjög óréttlátlega niður eftir vegalengdum á landinu, eftir ástandi þjóðvega o.s.frv. Ég beini þessu inn í umræðuna og vænti þess að hæstv. samgönguráðherra hafi meðtekið þessa hugmynd mína og tjái sig e.t.v. eitthvað um hana á eftir. Þetta gæti verið sanngirnismál a.m.k. meðan þjóðvegir landsins eru eins og þeir eru á sumum landsvæðum. Því er ekki saman að jafna hvort við erum að tala um þjóðvegi á Suður- og Vesturlandi eða þjóðvegi á Vestfjörðum og á norðausturhorni landsins.



[17:15]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir alveg sérstaklega góðar undirtektir við það frumvarp sem ég hef hér mælt fyrir, frumvarp til nýrra vegalaga. Það er vissulega uppörvandi fyrir mig sem samgönguráðherra að heyra hversu góðan skilning þingmenn hafa á málinu í heild sinni og þeim meginbreytingum sem hér er verið að gera á gildandi lögum. Hins vegar er, eins og liggur í hlutarins eðli, bent á ýmislegt sem þarf að skoða. Ég tel að það sé í fyllsta máta eðlilegt og í samræmi við vinnulag okkar í þinginu að samgöngunefndin fari mjög vandlega yfir þau atriði. Ég ætla að gera að umtalsefni nokkra þætti af þeim ábendingum sem hafa komið fram hjá hv. þingmönnum.

Ég er alveg sammála því sem kom fram hjá hv. þm. Kristjáni L. Möller að við þurfum að gera stórátak í vegamálum. Þessi lagabreyting er mikilvægur lykill að þeirri aðgerð. Vonandi tekst okkur fljótlega að komast inn í umræður um samgönguáætlunina en heimildin í þessu frumvarpi gefur okkur tækifæri til þess að fela einkaaðilum veghaldið. Sú breyting er byggð á reynslunni sem við höfum úr Hvalfjarðargöngunum og þetta er geysilega mikilvæg breyting til að komast inn í þá leið sem hefur verið tengd einkaframkvæmdum í vegagerð.

Vegagerðin er góð stofnun og henni hefur tekist afskaplega vel að sinna uppbyggingu og þjónustu og rekstri á vegakerfinu en þróunin hefur orðið sú hjá okkur að við höfum farið inn á þá braut að efna til einkaframkvæmda. Hvalfjarðargöngin eru dæmi um slíkt. Ráðstefnu- og tónlistarhúsið er mjög stórt og mikið dæmi um þessa einkaframkvæmdarleið. Sveitarfélögin hafa verið að fara þá leið o.s.frv. þannig að hér erum við að marka og móta nýja stefnu.

Á grundvelli 17. gr. frumvarpsins þar sem við erum að leggja á ráðin um nýtt form innheimtuafnota af vegakerfinu spurðist hv. þm. Kristján L. Möller fyrir um það hvort nota mætti það til að innheimta vegskatta, þá í tengslum við hugmyndir um gjaldtöku af umferðinni. Allt er þetta hægt. Það er spurning um ákvörðun Alþingis og tillögur frá ríkisstjórninni hvernig við högum þessari gjaldtöku af umferðinni. Ef við tökum upp þetta kerfi sem byggist á GSM-símasamböndum og fjarskiptatækninni er ýmislegt hægt en aðalatriðið er að taka ákvörðun um það eftir hvaða leiðum við innheimtum fyrir notkunina á vegakerfinu. Ég er ekki með neinar tillögur uppi í þessu samhengi um að auka á beina gjaldtöku af tilteknum vegarköflum eða vegamannvirkjum. Það hefur komið aðeins til tals að fara hina svokölluðu skuggagjaldsleið. Ef hún væri notuð væri þetta kerfi sem lagt er upp með í 17. gr. alveg upplagt en þetta er næsti fasi í þessari umræðu í raun og veru. Fyrst er að skapa þennan ramma, skapa þessa möguleika, þessa heimild, og síðan er þá spurningin um hvernig við notum þetta.

Nokkuð var rætt um 28. gr. þar sem fjallað er um vegi og skipulag. Þar segir, með leyfi forseta:

„Vegir skulu lagðir í samræmi við gildandi skipulagsáætlun eins og nánar er kveðið á um í lögum um skipulag og í lögum þessum.“

Þarna komum við náttúrlega að alveg geysilega umfangsmiklu og flóknu máli sem er samstarf Vegagerðarinnar og skipulagsyfirvalda. Þarna er lögð sú meginlína að vegirnir skuli lagðir í samræmi við gildandi skipulag og þar koma sveitarfélögin að sem lykilaðilar. Sveitarfélögin fara með skipulagsvaldið og ráða mjög miklu um þær útfærslur en hins vegar hefur Vegagerðin samkvæmt gildandi lögum heilmikil áhrif á það hvernig vegir eru lagðir og hvernig tengt er inn á þá. Hv. þm. Kristján L. Möller vakti sérstaka athygli á gatnamótum á hringveginum, m.a. í þéttbýli. Mér er vel ljóst að Vegagerðin hefur það sem meginstefnu að hafa gatnamót sem fæst, nota hringtorg og tengingar inn á meginleiðirnar og tengja síðan með hliðarvegum til þess að fækka gatnamótum. Þetta er meginlínan. Þarna þarf samstarf sveitarfélaganna annars vegar og Vegagerðarinnar hins vegar og við höfum allar heimildir til þess en hér er skerpt á þessum ákvæðum öllum og reynt að læra af reynslunni. Ég held að hér sé alls ekki farið offari um það að Vegagerðin hafi óeðlilegar heimildir. Þetta byggist allt meira og minna á samkomulagi. Hins vegar er þetta fræga ákvæði 28. gr. þessara heildarlaga að ef leggja þarf veg eftir sérstökum óskum sveitarfélaganna eru heimildir til þess að sveitarfélögin greiði þann kostnað. Þessu hefur ekki verið beitt. Sveitarfélögin hafa ekki verið mikið í því að taka slíkar skipulagsákvarðanir en engu að síður eru þess dæmi. Það hefur þá yfirleitt verið í góðu samstarfi við Vegagerðina og sættir hafa náðst um það. Það er ekkert í þessu frumvarpi og það kom ekkert fram í umræðunum sem bendir til þess að þingmenn telji of langt gengið í heimildum Vegagerðarinnar gagnvart sveitarfélögunum.

Hér var nokkuð rætt um girðingarmálin. Samkvæmt 51. og 52. gr. og í X. kaflanum raunar er fjallað um girðingar og göng fyrir búfé en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Veghaldara er heimilt að girða meðfram vegum sínum, m.a. til að tryggja öryggi umferðar …“

Þetta er geysilega mikilvægt atriði. Það er nýmæli að heimila uppsetningu á göngum fyrir búfé sem er mjög mikilvægt öryggisatriði. Ég tel að það sem fram kom í umræðum hv. þingmanna sé gott tilefni til þess að nefndin fari yfir þetta með Vegagerðinni annars vegar og hins vegar fulltrúum Bændasamtakanna sem hafa lýst skoðunum sínum á þessu. Komið hafa fram óskir frá einstökum landeigendum um að bæta hér enn frekar úr, en það eru heimildir í 52. gr. til þess bæði að kosta girðingar og viðhald þeirra en þarna ræður för það fjármagn sem við höfum til ráðstöfunar. Það þarf auðvitað að gæta hófs í því öllu. Ég tel að það sé ágætt og í rauninni nauðsynlegt að nefndin fari rækilega yfir X. kaflann með þeim aðilum sem að þessu koma.

Aðeins varðandi það sem kom fram, og það hefði mátt tengjast umfjöllun um 17. gr. og gjaldtökur og fleira, hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni um að gjaldtakan í Hvalfjarðargöngunum hafi haft áhrif á þróun umferðar eða byggðar. Staðreyndin er sú að það er mikil aukning í umferð vestur á land um Hvalfjörðinn. Mun meiri aukning hefur orðið á umferðinni þar á tilteknum tíma og eftir að jarðgöngin komu en í umferðinni austur fyrir fjall. Það er ekkert sem bendir til þess að gjaldtakan hamli eða dragi úr eða komi í veg fyrir umferð eða vöxt hennar, enda er þar um að ræða tvo kosti. Hvalfjörðurinn er vel fær og þar er góður vegur. Þetta vildi ég sérstaklega nefna hér út af því sem kom fram.

Hvað varðar það sem kom fram hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni um 28. gr. og ákvæði skipulagslaga og það að hugsanlegur vegur um Grunnafjörð fengi sérstaka umfjöllun vil ég bara vekja athygli á því að hugmyndir um veg yfir Grunnafjörðinn milli Akraness og Borgarbyggðarsvæðisins fela í sér mjög mikla styttingu og væri mikil bragarbót. Ég hef lýst þeirri skoðun minni að við eigum að huga að því. En þar stendur hnífurinn í þeirri kúnni að skipulagsyfirvöld og forsvarsmenn umhverfismála hafa algerlega lagst gegn öllum hugmyndum um að þvera þann fjörð. Áður en vegagerð á því svæði gæti orðið að veruleika þarf að ná samkomulagi milli sveitarfélaganna og umhverfis- og skipulagsyfirvalda og síðan Vegagerðar þannig að ég vísa til þess.

Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson mælti fram þá ágætu og gullvægu setningu að að mestu leyti væri þetta frumvarp þakkarvert, og ég er ánægður með það, en hann vakti athygli á því sem snýr að 17. gr. frumvarpsins, að e.t.v. mætti nýta tæknina og innheimtumöguleika til að dreifa styrkjum vegna flutninga til tiltekinna byggða, einkum þá jaðarbyggða sem ættu í erfiðleikum og inn á svæði þar sem vegir eru ófullnægjandi. Þetta er athyglisverð ábending og ég tel að við þurfum að huga að þeim möguleikum öllum en hins vegar sitjum við uppi með það að regluverkið um stuðning við einstaka flutningaaðila er snúið og svokallaður ólögmætur ríkisstuðningur er nokkuð sem stjórnvöld eiga ekki auðvelt með að komast upp með, ef svo mætti segja. Ef þessi tækni verður engu að síður tekin upp er sá möguleiki til staðar þótt ég sé ekki að mæla með því sérstaklega.

Virðulegur forseti. Ég held að það sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson nefndi sé eitt af því sem samgöngunefndin þarf að líta til í yfirferð sinni en að öðru leyti þakka ég enn og aftur fyrir góðar undirtektir undir frumvarpið og vænti þess að nefndin fjalli rækilega um það.



[17:30]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins varðandi það sem ég spurði hæstv. ráðherra um í ræðu minni og hann fjallaði um núna, 28. gr. gagnvart skipulagslögunum. (Gripið fram í.) Þó að ég taki þetta dæmi úr Borgarnesi þar sem tvenn gatnamót voru gerð á hringveginn við það skipulag sem þar var gert og við þær fyllingar sem þar voru gerðar, væntanlega vestan við þjóðveginn ef ég er ekki of áttavilltur þarna, til að byggja upp verslunarhúsnæði og þjónustumiðstöðvar, fjölfarnar leiðir — ég man bara ekki nákvæmlega hvar það var, hvort það var á fundi í samgöngunefnd eða annars staðar, þar sem ég ræddi þetta við fulltrúa Vegagerðarinnar — og kom þar auðvitað fram að hagsmunir Vegagerðarinnar og bæjarfélagsins við þessi gatnamót voru ólíkir.

Þar sem þetta skarast svo mikið sem raun ber vitni, annars vegar hagsmunir sveitarfélagsins og hins vegar hagsmunir Vegagerðarinnar, og alveg sérstaklega með tilliti til umferðaröryggis, vil ég taka skýrt fram að á þessum fjölfarna vegi þegar maður kemur til Borgarness eru þetta gatnamót sem menn smeygja sér inn á ótt og títt. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort honum finnist eðlilegt að þetta sé á þann hátt sem þarna er. Ég geri mér alveg grein fyrir skipulagslögunum og að endanlegt val er alltaf hjá sveitarfélögunum eins og kemur fram í athugasemd með þessari grein, en hefur verið rætt um þörfina á að skoða hvort hagsmunir Vegagerðarinnar og almennings gagnvart umferðaröryggi verði teknir jafnvel fram yfir hagsmuni viðkomandi sveitarfélags í þessu tilfelli?



[17:33]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta verður allt að vega saman, sérstaklega þarf auðvitað að gæta að öllu sem snýr að umferðaröryggismálum, og uppbygging vegakerfisins í samstarfi við sveitarfélögin þarf að vera á þeim nótum að við höfum öryggisþættina í fyrirrúmi. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við stöndum þannig að verki og ég efast ekki um að allir aðilar eru tilbúnir til þess og vilja gera það.

Það er hins vegar alveg ljóst að það er dálítið breytt veröld í þessu öllu saman á vettvangi samgönguráðuneytisins og Vegagerðarinnar þegar umferðaröryggismálin öll eru á einni hendi. Vegagerðin þarf að huga að skipulagsmálum og uppbyggingu vegakerfisins með það svo rækilega í huga að umferðaröryggismálin séu þar ofarlega, og í rauninni efst, á blaði.

Við þurfum að huga að þessu og við meðferð nefndarinnar held ég að hv. þingmaður ætti að tefla þessu sterkt fram.



[17:34]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka svo vel undir þetta sjónarmið sem ég hef fært hér fram.

Eins og hér hefur komið fram segir í umsögn um 28. gr., með leyfi forseta:

„Sveitarstjórn fer með skipulagsvaldið og hefur í slíkum tilvikum heimild til að ganga gegn tillögum Vegagerðarinnar.“

Það er akkúrat sá punktur sem hæstv. ráðherra fjallaði um, þ.e. umferðaröryggismál sem mér finnst að í þessu tilfelli ættu jafnvel að fá forgang. Þar ættu umferðaröryggismálin jafnvel að ganga framar skipulagsvaldinu sem sveitarstjórn hefur gagnvart þessu. Það kann að vera ódýrara og hagkvæmara — ég ætla kannski ekki að hafa það hagkvæmara — fyrir viðkomandi sveitarfélag að fara þá leið sem það vill fara í skipulagsmálum til að tengja sig að þjóðvegi en miklu verra í umferðarlegu tilliti og á umferðaröryggissvæðum. Miðað við skipulagslögin er greinilega endanlegt val hjá sveitarfélaginu en Vegagerðin á að borga, og Vegagerðin og hæstv. samgönguráðherra og aðrir sem eiga að bera ábyrgð á umferðaröyggismálum verða að lúta í lægra haldi fyrir þessum sjónarmiðum.

Þetta finnst mér mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að komi fram. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka undir það og vegna þess að hér eru velflestir fulltrúar samgöngunefndar, þar á meðal formaður samgöngunefndar, tek ég fram að ég held að við þurfum að taka þetta sérstaklega vel upp og ræða við Vegagerðina um málið. Þó að ég sé ekki mikið fyrir að ganga á hagsmuni sveitarfélaga og taki frekar til varnar fyrir sveitarfélög gagnvart stóra bróður, ríkisvaldinu, held ég að þarna sé bara það mikil nauðsyn vegna umferðaröryggismála að vegagerðar- og umferðaröryggissjónarmiðin þurfi að fá að verða ofan á og yfirsterkari öðrum atriðum.



[17:36]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér er kannski nokkur vorkunn en yfirleitt hef ég litið svo til að í langflestum tilvikum séu sveitarstjórnarmenn vel til þess fallnir að fara með mikið vald og þar á meðal skipulagsvald. En stundum er það ekki á þann veg og það verða deilur á milli sveitarstjórnar og þeirra sem ráða skipulagsmálunum og Vegagerðarinnar. Þá getur komið til ágreinings og í einhverjum tilvikum hefur Vegagerðin kært úrskurði og niðurstöður sem lúta að legu vegar. Frægasta dæmið, alveg spánnýtt, er að Vegagerðin kærði úrskurð skipulagsyfirvalda þar sem lagst var gegn því að þvera firði í Gufudalssveitinni. Hvers vegna var það? Jú, vegna þess að það var alveg skýrt mat þeirra sem komu að þessu þá, m.a. Vegagerðarinnar, að þarna væru umferðaröryggishagsmunir geysilega mikilvægir og þess vegna ætti fremur að fara með ströndinni og þvera firði en að setja vegina yfir hálsa og skapa hættulega vegarkafla með mjög bröttum brekkum.

Ég tek undir það að umferðaröryggismálin eru geysilega mikilvæg þegar við erum að leggja á ráðin um skipulag vegakerfisins og uppbyggingu þess og þess vegna þarf Vegagerðin að hafa býsna sterka stöðu gagnvart skipulagsyfirvöldum til að geta fengið framgengt áformum um betri (Forseti hringir.) og öruggari vegi.



[17:38]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki ætla ég að halda því fram í þessum ræðustól að ég þekki alla króka og kima í reglugerðum Evrópusambandsins að því er varðar útfærslu á gjaldtöku eða ekki gjaldtöku, endurgreiðslu eða ekki endurgreiðslu. Hitt hlýtur mér að þykja nokkuð ljóst, hæstv. forseti, að út frá almennum sanngirnissjónarmiðum hljóti að mega setja sams konar gjald á sams konar vegum á sams konar ökutæki og þar af leiðandi hljóti að mega endurgreiða sams konar gjald eða kostnað á sams konar vegum og sams konar ökutæki. Þetta vildi ég bara sagt hafa út af því sem hæstv. ráðherra sagði áðan en ég þakka fyrir undirtektir hans við því að alveg megi hugsa til þess að útfæra þetta með þeim hætti sem ég benti á. Ég held að það væri áhugavert ef þessi tækni yrði innleidd við gjaldtöku hér á landi.