136. löggjafarþing — 33. fundur
 21. nóvember 2008.
eftirlaunalög o.fl..

[10:36]
Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég beini orðum mínum til hæstv. utanríkisráðherra sem formanns Samfylkingarinnar og spyr hana hreint að því hvort henni finnist sú framkoma, leyfi ég mér að segja, ríkisstjórnarinnar, Samfylkingarinnar gagnvart þjóðinni vera boðleg þegar við blasir á hverjum einasta degi að það er mikill ágreiningur á milli stjórnarflokkanna og fulltrúar Samfylkingarinnar, bæði óbreyttir þingmenn og hæstv. ráðherrar, ástunda gaspur, ég kalla það gaspur meðan ekki er hægt að sjá að verið sé að vinna neitt í málum. Það er borið á borð fyrir þjóðina að Samfylkingin vilji þetta og Samfylkingin vilji hitt. Þetta er alger nýjung í íslenskum stjórnmálum og þjóðin stendur frammi fyrir gríðarlega miklum vanda en það sem hún horfir upp á hjá stjórnarheimilinu er mikil ósamstaða.

Ég bæti því svo við, hæstv. forseti, að í morgun birtist reyndar má segja gleðifrétt því að þar kemur fram að búið sé að ná samstöðu um svokölluð eftirlaun æðstu embættismanna og að slíkt frumvarp hafi verið tekið fyrir í ríkisstjórn eða átti að taka fyrir í ríkisstjórninni í morgun. Þetta er mál sem stjórnarandstaðan hefur ekki verið upplýst um og það samstarf sem átti sér stað við stjórnarandstöðuna virðist hafa verið rofið. En miðað við þessa stuttu frétt sýnist mér að það sé að fæðast frumvarp sem er í líkingu við frumvarp sem hæstv. utanríkisráðherra hafnaði fyrir líklega tveimur árum síðan þegar Halldór Ásgrímsson var forsætisráðherra og reyndi að ná samkomulagi um framlagningu frumvarps til breytinga á þessum lögum en þá hafnaði hæstv. utanríkisráðherra frumvarpi (Forseti hringir.) sem miðað við fréttina er í líkingu við það sem nú er til umræðu.



[10:39]
utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég verð að játa að ég átta mig ekki alveg á þeirri spurningu sem til mín var beint af hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur sem fór yfir ýmislegt sem hún ber fyrir brjósti og á henni hvílir. (Gripið fram í.) Hún talaði um framkomu Samfylkingarinnar, um ágreining í ríkisstjórninni, um skoðanir ýmis samfylkingarfólks, um væntanlegt eftirlaunafrumvarp og um gamalt frumvarp frá Halldóri Ásgrímssyni. Ég get alveg sagt þingmanninum að hugmyndir mínar um það hvernig breyta eigi eftirlaunalögunum eru annars eðlis en þær hugmyndir sem Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, kom fram með á sínum tíma. Ef það getur friðað þingmanninn eitthvað get ég látið það koma fram að hugmyndir mínar um þetta eru annars eðlis en hugmyndir hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra Halldórs Ásgrímssonar.

Hvað varðar Samfylkinguna þá er Samfylkingin stór flokkur og í okkar húsi eru margar vistarverur og fólk getur haft nokkuð mismunandi skoðanir og það á ekki að koma hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur á óvart miðað við þann örflokk sem hún er í núna þar sem fjöldinn allur af skoðunum er uppi og ekki nóg með það (Gripið fram í.) heldur geta menn ekki einu sinni haldist við í þeim flokki vegna skoðanaágreinings. Það á ekki við um Samfylkinguna, þó að þar geti fólk haft eitthvað mismunandi skoðanir á hlutunum helst það ágætlega við þar og getur alveg rætt það og getur líka rætt það við samstarfsflokkinn án þess að það þurfi að leiða til þess að menn stökkvi fyrir borð unnvörpum.



[10:40]
Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Það er greinilegt að ég kom eitthvað við kaunin á hæstv. utanríkisráðherra þegar ég fór að tala um ósamstöðuna í ríkisstjórninni og framkomu hv. þingmanna og ráðherra á síðustu dögum sem varðar samstarfið. Þegar hún talar um að samfylkingarfólk haldist við í flokknum þá er það samt svo að það er ekki nema um helmingur kjósenda Samfylkingarinnar sem styður ríkisstjórnina og það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir hæstv. ráðherra.

En í sambandi við eftirlaunalögin krefst ég þess að hæstv. forsætisráðherra, sem annar forustumaður í ríkisstjórn Íslands, greini okkur frá því hvort frumvarp sé á leiðinni og hvort við þingmenn og við formenn stjórnarandstöðuflokkanna megum eiga von á að fá upplýsingar um hvernig það frumvarp er vaxið. Ég tel að það sé mikill árangur og lýsi ánægju með það ef stjórnarflokkarnir hafa náð samstöðu vegna þess að það er einmitt það sem hefur staðið á fram til þessa. Stjórnarflokkarnir hafa ekki getað komið sér saman um hvernig þetta nýja frumvarp eigi að líta út. Það mun ekki standa á okkur framsóknarmönnum að breyta lögunum.



[10:42]
utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að það skuli koma fram hjá hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur að ekki standi á framsóknarmönnum að breyta eftirlaunalögunum og ég geri ráð fyrir að það verði þá kannski hægt að ná um það góðri samstöðu. Ég get fullvissað þingmanninn um að ef að líkum lætur verði slíkt frumvarp kynnt fyrir formönnum stjórnarandstöðuflokkanna áður en það verður lagt fram í þinginu.