138. löggjafarþing — 47. fundur
 16. desember 2009.
fundargerðir af fundum ráðherra með erlendum aðilum.
fsp. REÁ, 270. mál. — Þskj. 308.

[13:38]
Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra um fundargerðir af fundum ráðherra með erlendum aðilum. Í ræðu á Alþingi 22. október sl. segir hæstv. utanríkisráðherra, með leyfi forseta:

„Ég vil upplýsa hv. þingmenn um það að mínir fundir eru allir skipulagðir fyrir fram, þeir standa í 20–60 mínútur. Þar er oft farið yfir fyrir fram ákveðin umræðuefni og lyftufundir og aðrir fundir í ýmsum skúmaskotum eru ekki taldir með. En frá miðju sumri held ég að ég hafi talað við nánast alla utanríkisráðherra Evrópusambandsins um þessi mál, við framkvæmdastjóra NATO nokkrum sinnum og marga fleiri ráðherra.“

Þarna er hæstv. utanríkisráðherra að vísa í samskipti sín vegna Icesave-málsins á þessum tíma sem um ræðir og einnig hafði hann upplýst í fyrri ræðu að hann hefði talað við a.m.k. 30 þjóðhöðingja beinlínis um Icesave-málið og 12–14 utanríkisráðherra Evrópusambandsríkjanna. Það er tilefni fyrirspurnar minnar þar sem, eins og allir vita sem hafa fylgst með Icesave-umræðunni, mikið hefur verið kallað eftir gögnum. Varðandi þau gögn sem við höfum fengið er það yfirleitt þannig að við höfum ítrekað þurft að óska eftir þeim. Ég fór síðan á netvef utanríkisráðuneytisins og 2. nóvember er rakinn endalaus fundalisti yfir fundi ráðherra. Hér er verið að tala um fleiri tugi funda sem ráðherra hefur haldið og ég gæti kannski bætt við fyrirspurnina sem ég mun lesa rétt á eftir. Það virðist sem hæstv. utanríkisráðherra hafi átt endalausa fundi með alls konar fólki. Spurningin er þá þessi: Hverju hefur það skilað? Það væri fínt að fá álit hæstv. ráðherra á því.

Það sem vakir fyrir mér er að spyrja hæstv. ráðherra um hvort fyrir liggi fundargerðir af öllum þessum fundum sem tilteknar eru í fyrirspurn minni og er of langt mál að taka. Ef þær fundargerðir eru ekki til vil ég fá að vita hvers vegna þær voru ekki gerðar. Ef þessar fundargerðir eru til vil ég vita hvort til stendur að birta þær. Nú er ég ekki að væna hæstv. utanríkisráðherra um eitt eða neitt, til að fyrirbyggja allan misskilning. Ég verð með svipaða fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra í dag sem verður stundum ansi viðkvæmur fyrir því að ég kalli eftir gögnum. Hann segir mig væna sig um alls konar hluti. Ég vil taka sérstaklega fram að ég er ekki að því. Ég vil einfaldlega fá að vita hvort ekki sé skipulag á því varðandi alla þá fundi sem hæstv. ráðherra tiltók sérstaklega í ræðu sinni að væru fyrir fram skipulagðir og stæðu í 20–60 mínútur, að fundargerðir séu haldnar. Hvort ekki standi til að birta þær og gefa þingheimi kost (Forseti hringir.) á að sjá hvernig á þessum málum hefur verið haldið af hálfu hæstv. utanríkisráðherra.



[13:42]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhuga hennar á fundarsókn og fundarhöldum utanríkisráðuneytisins. Nú er það hlutverk utanríkisráðherra að hafa fundi með öðrum ráðherrum og halda málstað fram erlendis. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að ég hef átt skipulagða fundi, reyndar ekki við 12–14 eins og ég sagði í ræðu, heldur við 19 utanríkisráðherra, 3 þjóðhöfðingja. Þar að auki hef ég átt nokkuð sem kalla mætti samtöl, miðað við skilgreiningar hv. þingmanns á slíkum óformlegum fundum í annarri fyrirspurn sem hún hefur sent til mín sem skriflega fyrirspurn. Lengd þessara funda var yfirleitt í kringum 20 mínútur, það er alveg hárrétt. Tveir þeirra voru líklega töluvert skemmri, þrír þeirra voru lengri, einn 60 mínútur. Á öllum þessum fundum ræddu menn málefni sem tengdust Icesave og afstaða Íslands til þeirra var kynnt.

Ég hef gert mér far um að greina utanríkismálanefnd frá þessum fundum. Á þeim sjö fundum sem ég hef átt sem utanríkismálaráðherra með nefndinni hef ég fjórum sinnum farið yfir þessa fundi, þar af þrisvar sinnum töluvert ítarlega. Þar gátu fundarmenn spurt mjög frjálslega út í efni þessara funda undir þeim trúnaði sem lög mæla fyrir um störf nefndarinnar. Þeir fundir sem eru með erlendum ráðherrum eru yfirleitt í tengslum við einhverja stóra fundi þar sem margir ráðherrar eru saman komnir. Þetta eru trúnaðarfundir í umhverfi trúnaðar og þeir bera þess merki. Menn skiptast þar frjálslega á skoðunum, eru oft litríkir í orðavali, bæði á því viðfangsefni sem menn ræða, sömuleiðis á atburðum og jafnvel mönnum. Í skjóli þessa trúnaðar eru þessir fundir haldnir. Af þeim eru ekki teknar formlegar fundargerðir sem bornar eru undir báða aðila og samþykktar. Þegar ráðherra er einn, og ég hef margoft haldið fundi einn með öðrum ráðherrum, sér í lagi þegar þeir koma til heimsókna á Íslandi, eru engir punktar teknir. Þegar embættismenn eru á tvíhliða fundum eða stærri fundum eru gjarnan teknir niður punktar til minnis um það sem fram fór á fundum. Þar getur kannski um efni sem rætt var. En oftar en ekki eru þá sérstaklega teknar setningar eða yfirlýsingar, gjarnan innan gæsalappa, sem merkar þykja og hafa hrotið úr munni viðkomandi. Oft og tíðum eru það einhvers konar yrðingar sem tengjast mikilvægum málum sem til umræðu eru eða eru undir af Íslands hálfu, eins og t.d. afstaða til sjávarútvegsmála og ESB.

Varðandi þá þjóðhöfðingja sem ég hef átt fundi með eða rætt þessi mál með, voru það forseti Finnlands, Tarja Halonen, Lech Kaczynski, forseti Póllands, og loks Václav Klaus, forseti Tékklands. Þessa fundi sat ég með forseta Íslands. Hann skipulagði fundina og bar af þeim, eðli máls samkvæmt, veg og vanda. Ég var þar eini fulltrúi utanríkisráðuneytisins og það voru engar fundargerðir teknar þar og engir minnispunktar heldur af minni hálfu. Á þessum fundum með forsetunum öllum þremur voru málefni Icesave t.d. reifuð, minnst þó á fundunum með forseta Tékklands, Klaus. Honum var umhugað töluvert um þau mál sem þá bar hæst í samskiptum Tékklands við Evrópusambandið og leystust nú ekki alls fyrir löngu, eins og hv. þingmaður veit. Á fundunum með Halonen, forseta Finnlands, var rætt í þaula um Icesave, mál sem því tengdust og ekki síst norrænu lánin. Ég get upplýst hv. þingmann um að á þeim fundi fór ég fram á að ef í nauðir ræki væri hægt að grípa til þess að fá forseta Finnlands til að tala fyrir málstað Íslands, a.m.k. gagnvart sínu landi. Mest var samt rætt um Icesave á fundunum með forseta Póllands. Þar var honum auðvitað þökkuð liðveisla Pólverja sem var snöggtum örlátari að manni fannst en annarra þjóða ýmissa. Ég átti sömuleiðis tvíhliða fundi með 14 utanríkisráðherrum, auk þess einn fund þar sem tveir voru viðstaddir og sama gildir um þessa fundi. Að því er varðar síðan fund minn með Dominique Strauss-Kahn var til hans boðað með skipulegum hætti. En það var alveg klárt að það var óformlegur trúnaðarfundur þar sem menn ræddu stöðuna og reyndu að leita leiða til að leysa málin. Ég tel að sá fundur, ásamt fundinum sem hæstv. fjármálaráðherra átti með honum í Istanbúl, hafi átt töluverðan þátt í því að það tókst að greiða úr því.



[13:47]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur fyrir þessa fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra. Það var greinilega þörf á henni því að hér koma fram mjög alvarlegar upplýsingar þar sem hæstv. utanríkisráðherra telur fullkomlega eðlilegt að ekki séu skrifaðar fundargerðir eða minnispunktar af fundum sem hæstv. utanríkisráðherra situr með háttsettum erlendum aðilum í okkar stærstu milliríkjadeilu.

Þrátt fyrir að hæstv. utanríkisráðherra komi á fundi hv. utanríkismálanefndar og flytji þar skilaboð af þessum fundum er ekki þar með sagt að hæstv. utanríkisráðherra skilji þá fundi með sama hætti og embættismenn annarra þjóða. Þetta er mjög alvarlegt mál. Hér viðurkennir hæstv. utanríkisráðherra að það eru engin skrifleg gögn til (Forseti hringir.) sem styðja málstað Íslendinga í þessari stóru milliríkjadeilu.



[13:48]
Fyrirspyrjandi (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en ég verð að taka undir með hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, þau valda mér nokkrum vonbrigðum. Mér fannst t.d. ekki skýrt í svari ráðherrans hvort til stæði að birta eitthvað af þessum fundargerðum. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að ég er með aðra fyrirspurn fyrirliggjandi þar sem ég tiltek fundargerðir eða frásagnir, ég man ekki hvernig ég orðaði það, einmitt til þess að við færum ekki út í einhverjar hártoganir um að þetta væru formlegar fundargerðir. Ég hef unnið í stjórnsýslunni og ég veit að það eru teknir punktar þó að þeir séu ekki endilega bornir undir aðra.

Það sem vakir fyrir mér með þessari fyrirspurn er að sjá hvernig málstað Íslands hefur verið haldið á lofti. Ég verð að segja að svar hæstv. ráðherra svarar ekki þeirri spurningu. Að hæstv. utanríkisráðherra eigi eitthvert tveggja manna tal sem má ekki vitna í hjálpar mér ekki neitt. Það hjálpar mér ekki neitt við að komast að því hvernig hæstv. utanríkisráðherra hefur haldið málstað Íslands á lofti.

Við vitum núna hvar málið er statt, við sjáum hvaða samning var komið með heim. Okkur sem erum andvíg þessu máli finnst að það hefði verið hægt að gera betur. Þá spyr ég hæstv. ráðherra: Telur hæstv. ráðherra að fundahöld hans — svo að ég orði það eins og einhver þáttarstjórnandi gerði — að það að hann rífi kjaft í útlöndum hafi orðið málinu til framdráttar? Hafa þessir ótal fundir sem taldir eru upp, 12–14, við þrjá þjóðhöfðingja á ákveðnu tímabili sem hæstv. ráðherra hefur nefnt hér í ræðu yfir höfuð gert eitthvert gagn, hæstv. forseti? Ég sé reyndar að það hafa verið miklu fleiri fundir. Það er spurningin sem (Forseti hringir.) vaknar eftir svar hæstv. ráðherra.



[13:50]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þingmaður getur auðvitað bara fellt alla þá dóma sem hún vill um frammistöðu utanríkisráðherra eða annarra ráðherra. Það eru hennar forréttindi og hún verður bara að meta það. Ég hef margoft heyrt af munni hv. þingmanns og reyndar fleiri þingmanna í hennar flokki að þeim þyki til lítils hafa verið unnið.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé hlutverk utanríkisráðherra að koma sjónarmiði Íslands á framfæri. Það hef ég gert vegna þess að ég hef haft tækifæri til þess að hitta mjög marga utanríkisráðherra og ég hef gert það svikalaust. Þetta hafa ekki allt verið einkafundir, embættismenn hafa verið á meiri hluta þeirra og embættismenn annarra líka. En umhverfi þessara funda er umhverfi trúnaðar og það gerir það að verkum að menn tala mjög frjálslega og menn geta leyft sér, ekki síst viðmælandinn, að varpa fram alls konar viðhorfum og skoðunum.

Það er svo rangt sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sagði hérna áðan, að engir hefðu verið viðstaddir og engir punktar verið teknir. Ég fór rækilega yfir það í minni tölu. Hv. þingmaður hefur ekki hlustað. (Gripið fram í.) Svo spyr hv. þingmaður hvort ég telji að þeir hafi skilað árangri. Já, ég tel að þeir hafi skilað árangri. Ég tel að þeir hafi skilað árangri í sumar og í haust. Ég tel t.d. að sá fundur sem ég átti sameiginlega í New York með Miliband, utanríkisráðherra Bretlands, og Verhagen, utanríkisráðherra Hollands, hafi skilað þeim árangri að það tókst að kom inn í þríhliða ráðherrayfirlýsinguna ákvæði um að Ísland gæti hvatt til viðræðna ef forsendur brygðust, jafnvel þó að hinir tveir væru annarrar skoðunar. Ég tel að það ásamt ákveðnum ákvæðum í samningnum gjörbreyti stöðu okkar ef einhvern tíma reynir á dómstólaleiðina.

Ég tel sömuleiðis að samtöl mín við Strauss-Kahn og samtöl hæstv. fjármálaráðherra hafi skipt töluvert miklu máli við að greiða úr þeirri flækju sem afgreiðsla á endurskoðun samningsins við AGS og afgreiðsla lánanna var þá komin í. (Forseti hringir.) Margt fleira gæti ég auðvitað sagt um þessi mál en þetta tel ég að hafi skipt máli.