150. löggjafarþing — 52. fundur
 23. janúar 2020.
innviðauppbygging og markaðssetning hafnarinnar í Þorlákshöfn, fyrri umræða.
þáltill. ÁsF o.fl., 61. mál. — Þskj. 61.

[13:58]
Flm. (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér tillögu um innri uppbyggingu og markaðssetningu hafnarinnar í Þorlákshöfn. Ásamt mér eru flutningsmenn þessarar tillögu hv. þingmenn Páll Magnússon, Vilhjálmur Árnason, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Karl Gauti Hjaltason, Oddný G. Harðardóttir og Birgir Þórarinsson.

Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að skipa starfshóp til að móta stefnu um hvernig standa megi að innviðauppbyggingu hafnarinnar í Þorlákshöfn svo að höfnin geti enn frekar vaxið sem inn- og útflutningshöfn.

Starfshópurinn geri tillögu um hvernig bæta megi og auka öryggi og dýpi í og við innsiglingu í höfnina. Starfshópurinn geri einnig tillögur um hvernig bestum árangri verði náð í markaðssetningu hafnarinnar innan lands og utan.

Lögð verði áhersla á staðsetningu hafnarinnar með tilliti til styttri siglingatíma milli Evrópu og Íslands fyrir farm- og farþegaflutninga og sem einstaklega áhugaverðan kost sem inn- og útflutningshöfn með nægt landrými í 40–60 mínútna akstursfjarlægð frá stærstu mörkuðum og þéttbýlustu svæðum landsins og alþjóðaflugvellinum í Keflavík.

Starfshópurinn skili skýrslu með tillögum til ráðherra eigi síðar en 1. maí 2020. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins.“

Svohljóðandi greinargerð fylgir, ég ætla að lesa hana, hún er ekki mjög löng:

Tillaga þessi var áður lögð fram á 149. löggjafarþingi og er nú endurflutt að mestu óbreytt. Markmið tillögunnar er að efla innviðauppbyggingu hafnarinnar í Þorlákshöfn.

Hægt er að stytta siglingatíma töluvert með því að sigla til Þorlákshafnar frá Evrópu í stað Reykjavíkur. Á siglingaleiðinni munar allt að 10 klukkustundum aðra leiðina. Ferð frá Þorlákshöfn landleiðina til Reykjavíkur tekur einungis rúmlega hálfa klukkustund. Því fylgja þau jákvæðu áhrif að kolefnisspor vöruflutninga þessa sjóleið til landsins er mun minna en til áfangastaða við Faxaflóa eða þeirra hafna sem eru lengra frá stærstu mörkuðum landsins.

Ekki eru síður gullin tækifæri til farþegaflutninga um höfnina en í því sambandi má nefna skemmtiferðaskip og farþegaferjur. Helsti kostur þess að hafa viðkomu með farþega af skemmtiferðaskipum í Þorlákshöfn er nálægðin við mest sóttu ferðamannastaði á Íslandi.

Í apríl 2017 hóf færeyska félagið Smyril Line Cargo ferjuskipaflutninga, svokallaða „Roll on – Roll off“ vöruflutninga, með ferjunni Mykinesi á milli Rotterdam í Hollandi og Þorlákshafnar með viðkomu í Þórshöfn í Færeyjum á leiðinni til Íslands. Vörurnar eru fluttar í tengivögnum sem keyrðir eru um borð í skipin sem tryggir bæði vandaða og örugga vörumeðhöndlun. Strax á fyrsta ári voru tekjur hafnarinnar af inn- og útflutningi með Mykinesi langt umfram væntingar en þær breyta öllu í rekstri og afkomu hafnarinnar á komandi árum. Með tilkomu þessarar siglingaleiðar hafa farmgjöld til og frá landinu lækkað flutningskostnað einstaklinga og fyrirtækja um 40% en það er helsta ástæðan fyrir þeirri velgengni sem Þorlákshöfn og Smyril Line Cargo hafa notið. Smyril Line, sveitarfélagið Ölfus og hafnaryfirvöld í Þorlákshöfn undirrituðu samning til sex ára 24. maí 2018 sem tryggir Þorlákshöfn meiri og öruggari tekjur en á reynsluárinu.

Ferskar sjávarafurðir og eldisfiskur sem fara vikulega með Mykinesi á föstudegi eru komnar til sölu á mörkuðum síðdegis á mánudegi í vestanverðri Evrópu en á þriðjudagsmorgni á Ítalíu, Spáni og Portúgal. Þessi nýja siglingaleið er styttri en aðrar og flutningsgjöld því lægri um sem nemur 40% eins og áður hefur komið fram, þegar þau eru hagstæðust. Það ætti að hafa áhrif til lækkunar á vöruverði á Íslandi og gera útflutningsgreinar samkeppnishæfari á erlendum mörkuðum.

Þær breytingar sem gerðar hafa verið á innviðum hafnarinnar í Þorlákshöfn á liðnum árum hafa tekist framúrskarandi vel og verið langt undir kostnaðaráætlun, en gjörbreytt aðstöðunni við höfnina og gert mögulegt að taka á móti stærstu skipum sem til landsins koma. Það liggur þó fyrir að hvass vindur að sunnan eða suðaustan gerir innsiglinguna varasama á stórum skipum með mikið vindfang. Þess vegna höfðu skipstjórnarmenn á Mykinesi æft inn- og útsiglinguna í Þorlákshöfn í siglingahermi í alls um 200 skipti áður en vikulegar siglingar hófust. Þeir voru því við öllu búnir en í erfiðustu aðstæðunum, sem áður er getið, þarf skipið að sigla á töluverðum hraða til að halda stefnu við þröngar og krefjandi aðstæður þar sem kröpp beygja á bakborða er tekin rétt áður en komið er inn á milli garða og þar þarf að nota allt vélarafl skipsins til að stöðva það. Þessar aðstæður þarf að laga og verður starfshópurinn að rýna alla möguleika til þess og koma með tillögur til úrbóta. Þá er mikilvægt til að bæta öryggi hafnarinnar og sjófarenda við suðurströndina að nýr og öflugri lóðsbátur en nú er verði fenginn að höfninni.

Tollsvæðið sem höfnin reisti í upphafi fyrir innflutning er löngu sprungið en flutningar um höfnina eru langt umfram væntingar. Til að mæta þessari auknu umferð um svæðið er nýtt 40.000 fermetra afgirt og upplýst tollsvæði norðan hafnarinnar komið í notkun. Frá Þorlákshöfn eru greiðar samgöngur við höfuðborgarsvæðið og Vesturland um Þrengsla- og Suðurlandsveg, um Óseyrarbrú á Selfoss og Suður- og Suðausturland, og um Suðurstrandarveg til Suðurnesja og alþjóðaflugvallarins í Keflavík. Í markaðslegu tilliti má segja að höfnin sé staðsett í 50 km radíus frá markaðssvæði þar sem 2/3 hluti þjóðarinnar býr og starfar. Auk nálægðar við stærstu markaði eru helstu náttúru- og ferðamannaperlur landsins í innan við 2–3 klst. akstur frá höfninni í Þorlákshöfn.

Sveitarfélagið Ölfus er öflugt samfélag í mikilli sókn og hefur yfir sterkum innviðum að ráða auk nægs landrýmis til að takast á við aukin verkefni á sviði farm- og farþegaflutninga. Þar er hefð fyrir öflugri útgerð og fiskvinnslu, vikurútflutningur hefur farið um höfnina í áratugi og fiskeldi vex fiskur um hrygg í sveitarfélaginu. Í fárra kílómetra fjarlægð frá höfninni eru ein gjöfulustu vatnsverndarsvæði landsins sem og öflugt jarðhitasvæði sem eru óinnheimt tækifæri fyrir framtíðina.

Ég vil bæta því við eftir þessa greinargerð að síðastliðinn mánudag sigldi ferjan Akranes, sem er systurskip Mykines, til hafnar við Þorlákshöfn í annað sinn. Skipið mun hafa brottfarartíma á mánudagskvöldum en Mykines aftur á móti á föstudagskvöldum. Það er því verið að dekka vikuna með þessum tveimur skipum. Skipin eru systurskip, þau eru 138 m löng og 25.000 brúttótonn. Það er því ekkert smáræði að sigla slíkum skipum inn í höfnina í þeim veðrum sem hafa verið nú undanfarna daga og vikur. Útsynningur, með allt að 8–10 m ölduhæð og vind upp í 20 m og jafnvel meira, gerir það að verkum að nú þegar Akranes er komið til hafnar þurftu tveir lóðsbátar, annar frá Vestmannaeyjum og hinn frá Reykjavík, að koma til að aðstoða skipið við að sigla inn í höfnina, halda stefnunni og snúa því við í þröngri aðstöðu sem er þar fyrir innan. Þó að það sé búið að bæta töluvert er enginn hægðarleikur að snúa slíku skipi inni í höfninni í miklum vindi og það skipum sem eru með gríðarlegt vindfang. Akranes er þó töluvert minna en systurskipið þar sem hliðar þess eru lægri en á Mykinesinu. Það er því mikilvægt að nefndin skili þessu áliti sem fyrst og að það verði alvara á bak við það að endurnýja höfnina og lagfæra það sem þarf að laga. Það er mjög mikilvægt, til að auka öryggi þessara siglinga inn í höfnina allt árið, að lengja suðurgarðinn. Talið er að það þurfi u.þ.b. 180–200 m til þess að skipið nái að komast í skjól fyrir garðinn og sigla þannig óáreitt inn í höfnina.

Til upplýsingar fyrir okkur hér í þinginu, um það hversu stórt mál þetta er, má nefna að árið 2015 komu 33 vöruflutningaskip í Þorlákshöfn. Þau fluttu 72.000 tonn. Árið 2016 — ég geri ráð fyrir að þetta eigi að vera 2018 — komu 118 skip með 260.000 tonn og hluti af því er vikur. Stærsti hlutinn er frá Mykinesi og nú er Akranes að bætast við þannig að þarna eru að verða gríðarlegir flutningar á alls konar vörum og þjónustu og það er kominn tími til að þeim ótrúlegu tækifærum sem höfnin í Þorlákshöfn býður upp á, og varða hag nánast allra landsmanna, verði gefinn gaumur.



[14:08]
Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Sem meðflutningsmaður langar mig að fá hv. flutningsmann, Ásmund Friðriksson, til að upplýsa okkur aðeins betur um hugsanlega farþegaflutninga. Nú sér Smyril Line um ferjusiglingar til Seyðisfjarðar og hefur sinn kúnnahóp víða um Evrópu. Verði af því að það verði farþegaflutningar og jafnvel bílaferja til Þorlákshafnar, eru menn þá hugsanlega eingöngu að hugsa um Bretland eða hvernig rímar saman að vera með þessar tvær ferjur, hugsanlega frá sama fyrirtæki? Hafa menn eitthvað rætt þetta og þekkir hv. þingmaður það?



[14:09]
Flm. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Skemmtiferðaskip hafa komið í Þorlákshöfn og átt þar viðdvöl yfir hásumarið. Eins og kemur fram í greinargerðinni er stutt til fallegustu ferðamannastaða landsins frá Þorlákshöfn. Það er áhugavert fyrir slíka höfn að ná til skemmtiferðaskipa en það myndi væntanlega aðeins virka tímabundið eins og staðan er akkúrat núna. Miðað við þær aðstæður sem eru í höfninni núna hugsa ég að ferjusiglingar þangað allt árið væru ekki góður kostur með marga farþega. Stórt farþegaskip fullt af farþegum yrði væntanlega í erfiðleikum með að sigla inn fyrir í aðstæðum eins og hafa verið undanfarna daga. Auðvitað hafa Þorlákshafnarbúar og hafnaryfirvöld í Þorlákshöfn mikinn metnað til að búa höfnina þannig að hún geti tekið á móti skemmtiferðaskipum, enda er það bara sama aðstaða og þarf fyrir þau skip sem nú þegar sigla þangað. Það myndi fjölga tækifærum þessarar hafnar en mikilvægast er að fara í þá uppbyggingu sem er komin af stað og núna megum við alls ekki draga lappirnar þannig að aðstaðan verði langt á eftir þeirri þörf sem er fyrir og er að myndast með tilkomu fleiri leiða og leiðarkerfa sem Smyril Line er að byggja upp. Smyril Line á fimm skip og þrjú þeirra sigla til Íslands.



[14:11]
Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Mér þykir ástæða til að þakka fyrir ágætistillögu sem er lögð fram og ekki að ástæðulausu eins og hv. þm. Ásmundur Friðriksson rakti í framsögu sinni. Það var allt hárrétt sem hann sagði um tækifærin sem leynast í uppbyggingu á höfn í Þorlákshöfn ásamt þeim vandamálum sem eru til staðar. Mig langaði aðeins að tala um það en líka að skýra hvers vegna ég er ekki meðflutningsmaður á tillögunni. Mér barst boð um að vera meðflutningsmaður en sá það hreinlega ekki á sínum tíma. Þegar ég skoðaði dagatalið fyrir þann dag rétt áður en ég kom í pontu sá ég hvers vegna, það var ansi mikið að gera þann daginn eins og á til að gerast. Það að ég skuli ekki vera meðflutningsmaður þýðir ekki að ég styðji ekki málið, þvert á móti. Þetta virðist vera mjög fínt mál.

Mig langar til að tala aðeins um þetta í samhengi við þá framtíð sem er kannski hægt að horfa til á þessu svæði. Aukning hefur verið á flutningum í gegnum Þorlákshöfn undanfarin ár og almennt er mikil uppbygging á Suðurlandinu en það sem vantar kannski helst að horfa líka til í umfjöllun um uppbyggingu hafnarinnar til framtíðar eru möguleikar á iðnaðaruppbyggingu þar í kring. Þá er kannski hægt að vísa til tillagna framtíðarnefndar forsætisráðherra sem komu út fyrir áramót í skýrslu um framtíð íslensks samfélags 2035–2040, ekki síst 5. tillögu nefndarinnar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Setja verður skýrari markmið um uppbyggingu atvinnu á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, t.d. í formi heildstæðrar nýsköpunar, atvinnu- og iðnaðarstefnu. Kortleggja þarf vaxtartækifæri sem skapast við tæknibreytingar, einkum í hátæknigeirum.“

Hvernig tengist þetta hafnaruppbyggingu í Þorlákshöfn? gætu einhverjir spurt. Svarið er nokkuð einfalt. Það hefur aldrei verið nein skýrt afmörkuð stefna um það hvernig eigi að þróa atvinnuhætti og iðnað á Suðurlandinu. Margar hugmyndir eru í gangi um hvernig mætti fara með það. Til dæmis hef ég heyrt hugmyndir um að byrja að binda koltvísýring í þeim tilgangi að framleiða eldsneyti, jafnvel til útflutnings. Samhliða slíkum ferlum mætti jafnvel flytja út brennisteinssýru og önnur efni. Samhliða því að við reynum að byggja og bæta þessa höfn held ég að ef við göngum bara út frá línulegri þróun frá deginum í dag, miðað við þá þróun sem hefur átt sér stað síðustu ár, og tökum ekki tillit til mögulegrar þróunar vegna tæknibreytinga er hætt við að allar hugmyndir um stækkun og úrbætur á höfninni yrðu of litlar. Ég held að það sé betra í svona málum að hugsa stórt til framtíðar og tryggja að við séum ekki að missa af einhverjum tækifærum hreinlega vegna skammsýni.

Enga skammsýni er þó að finna í þessari ágætu tillögu og ég þakka vel fyrir hana og vona að hún nái fram að ganga.



[14:15]
Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni fyrir framsöguna og þessa góðu tillögu. Ég er einn af meðflutningsmönnum hennar og fagna henni mjög. Hún er vel unnin og ég vona að hún fái skjóta afgreiðslu í þinginu og að sá starfshópur sem rætt er um verði skipaður og vinni hratt og vel þá vinnu sem lagt er upp með í tillögunni.

Sveitarfélagið Ölfus hefur á undanförnum árum orðið fyrir áföllum í atvinnumálum á svæðinu. Þau tengjast öll sjávarútvegi með einum eða öðrum hætti. Umtalsverður fiskveiðikvóti hefur farið frá svæðinu og ekki er langt síðan fiskvinnslufyrirtækið Frostfiskur flutti starfsemi sína þaðan og með því fóru nærri 60 störf eins og við þekkjum. Þá kemur að því sem við höfum rætt hér um, afleiðingum þess að hægt sé að selja kvóta frá sjávarbyggðum. Afleiðingarnar eru sláandi og við horfum upp á atvinnumissi, fólksfækkun og verðfall á eignum fólks og þjónustuaðila svo eitthvað sé nefnt. Þarna eru augljósir gallar á fiskveiðistjórnarkerfinu sem er nauðsynlegt að girða fyrir. Við í Miðflokknum höfum lagt áherslu á að settar verði ákveðnar girðingar í lögum, ef svo má að orði komast, til að koma í veg fyrir að kvóti verði seldur burt frá byggðarlögum sem byggja afkomu sína að stórum hluta á fiskveiðum og fiskvinnslu. Málefni Frostfisks á sínum tíma voru kannski aðeins öðruvísi að því leytinu til að þau voru meira viðskiptalegs eðlis og höfðu ekki beint með kvóta að gera en engu að síður hefur bæjarfélagið orðið fyrir áföllum. Það er hins vegar aðdáunarvert, herra forseti, að fylgjast með því hversu vel heimamönnum hefur tekist að endurreisa atvinnulífið.

Þar sjáum við sérstaklega hversu vel hefur til tekist með höfnina í Þorlákshöfn. Tiltrú heimamanna á rekstri hafnarinnar og sú ákvörðun á sínum tíma að ráðast í viðamiklar endurbætur á höfninni til að geta tekið við nýjum og auknum verkefnum hefur skilað þeim gríðarlega árangri sem hv. þm. Ásmundur Friðriksson rakti í framsögu sinni. Það hefur komið því til leiðar að nú eru hafnar reglubundnar millilandasiglingar til og frá Þorlákshöfn. Umsvifin hafa stóraukist og Þorlákshöfn er nú komin á kortið sem inn- og útflutningshöfn með stysta flutningstímann í sjóflutningum til og frá landinu. Það er ástæða til að hrósa bæjarfélaginu fyrir þetta verkefni og þá miklu framsýni sem það hefur sýnt.

Það er afar brýnt að tryggja fjármagn úr ríkissjóði til að ljúka hafnarframkvæmdunum, ekki síst af öryggisástæðunum sem hv. þingmaður rakti. Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi í vikunni að taka á móti hinu nýja skipi, Akranesi, sem er farið að sigla á vegum Smyril Line til Þorlákshafnar þannig að þá verður viðkoma tvisvar í viku. Umsvifin aukast jafnt og þétt. Það var alveg greinilega áskorun fyrir skipstjórann að sigla inn í höfnina, það var ansi hvasst þennan dag sem við fengum að skoða skipið, og verður að segjast eins og er að það er mjög brýnt að bregðast við því og lengja kantinn eins og hv. þingmaður rakti til að fyllsta öryggis verði gætt í öllum veðrum.

Það er líka mjög ánægjulegt að hinum auknu umsvifum hafnarinnar hafi fylgt lækkun á fargjöldum sem hafa vonandi skilað sér til neytenda sem er mjög brýnt. Nú er Þorlákshöfn orðin ein af lykilhöfnum landsins sem er ákaflega ánægjulegt. Tækifærin eru fjölmörg eins og hv. þingmaður rakti. Ég verð að segja, herra forseti, að þetta er gott dæmi um hversu vel framsýni heimamanna, dugnaður og kraftur til að bregðast við áföllum hefur skilað sér og ég óska heimamönnum og okkur öllum til hamingju með það að þessi höfn fari vaxandi og að núna sé komið þangað nýtt skip og viðkoman orðin tvisvar í viku, eins og ég nefndi. Þetta telur allt saman og hefur veruleg áhrif inn á svæðið sem er mikið fagnaðarefni.

Eins og ég nefndi í upphafi vona ég að þessi tillaga fái skjóta og góða afgreiðslu og að hægt verði að fara í nauðsynlegar endurbætur til að tryggja öryggi og að höfnin megi halda áfram að vaxa og dafna.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til um.- og samgn.