150. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2020.

innviðauppbygging og markaðssetning hafnarinnar í Þorlákshöfn.

61. mál
[14:11]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Mér þykir ástæða til að þakka fyrir ágætistillögu sem er lögð fram og ekki að ástæðulausu eins og hv. þm. Ásmundur Friðriksson rakti í framsögu sinni. Það var allt hárrétt sem hann sagði um tækifærin sem leynast í uppbyggingu á höfn í Þorlákshöfn ásamt þeim vandamálum sem eru til staðar. Mig langaði aðeins að tala um það en líka að skýra hvers vegna ég er ekki meðflutningsmaður á tillögunni. Mér barst boð um að vera meðflutningsmaður en sá það hreinlega ekki á sínum tíma. Þegar ég skoðaði dagatalið fyrir þann dag rétt áður en ég kom í pontu sá ég hvers vegna, það var ansi mikið að gera þann daginn eins og á til að gerast. Það að ég skuli ekki vera meðflutningsmaður þýðir ekki að ég styðji ekki málið, þvert á móti. Þetta virðist vera mjög fínt mál.

Mig langar til að tala aðeins um þetta í samhengi við þá framtíð sem er kannski hægt að horfa til á þessu svæði. Aukning hefur verið á flutningum í gegnum Þorlákshöfn undanfarin ár og almennt er mikil uppbygging á Suðurlandinu en það sem vantar kannski helst að horfa líka til í umfjöllun um uppbyggingu hafnarinnar til framtíðar eru möguleikar á iðnaðaruppbyggingu þar í kring. Þá er kannski hægt að vísa til tillagna framtíðarnefndar forsætisráðherra sem komu út fyrir áramót í skýrslu um framtíð íslensks samfélags 2035–2040, ekki síst 5. tillögu nefndarinnar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Setja verður skýrari markmið um uppbyggingu atvinnu á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, t.d. í formi heildstæðrar nýsköpunar, atvinnu- og iðnaðarstefnu. Kortleggja þarf vaxtartækifæri sem skapast við tæknibreytingar, einkum í hátæknigeirum.“

Hvernig tengist þetta hafnaruppbyggingu í Þorlákshöfn? gætu einhverjir spurt. Svarið er nokkuð einfalt. Það hefur aldrei verið nein skýrt afmörkuð stefna um það hvernig eigi að þróa atvinnuhætti og iðnað á Suðurlandinu. Margar hugmyndir eru í gangi um hvernig mætti fara með það. Til dæmis hef ég heyrt hugmyndir um að byrja að binda koltvísýring í þeim tilgangi að framleiða eldsneyti, jafnvel til útflutnings. Samhliða slíkum ferlum mætti jafnvel flytja út brennisteinssýru og önnur efni. Samhliða því að við reynum að byggja og bæta þessa höfn held ég að ef við göngum bara út frá línulegri þróun frá deginum í dag, miðað við þá þróun sem hefur átt sér stað síðustu ár, og tökum ekki tillit til mögulegrar þróunar vegna tæknibreytinga er hætt við að allar hugmyndir um stækkun og úrbætur á höfninni yrðu of litlar. Ég held að það sé betra í svona málum að hugsa stórt til framtíðar og tryggja að við séum ekki að missa af einhverjum tækifærum hreinlega vegna skammsýni.

Enga skammsýni er þó að finna í þessari ágætu tillögu og ég þakka vel fyrir hana og vona að hún nái fram að ganga.