131. löggjafarþing — 11. fundur
 19. október 2004.
hollustuhættir og mengunarvarnir, 1. umræða.
stjfrv., 192. mál (hollustuháttaráð). — Þskj. 192.

[14:27]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 7 frá 1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir: Frumvarpið er samið í umhverfisráðuneytinu í samráði við Samtök atvinnulífsins og Samband íslenskra sveitarfélaga. Í því er lagt til að hollustuháttaráð, sem nú starfar samkvæmt 17. gr. laganna, verði lagt niður í núverandi mynd og í stað þess verði skipuð þriggja manna samstarfsnefnd.

Hlutverk hollustuháttaráðs er samkvæmt núgildandi lögum að fjalla um þá þætti sem falla undir lögin og varða atvinnustarfsemi svo sem samhæfingu krafna og eftirlits. Enn fremur skal ráðherra leita álits ráðsins um þá þætti er varða atvinnustarfsemi svo sem lagabreytingar og stefnumarkandi reglugerðir, samþykktir og gjaldskrár.

Ráðið hefur verið skipað níu mönnum, þ.e. fulltrúum frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Vinnumálasambandinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, ASÍ, Félagi heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa og landlæknisembættinu auk forstjóra Umhverfisstofnunar og formanni tilnefndum af ráðherra. Ráðið hefur starfað síðan 1998 og þykir reynslan af störfum þess ekki gefa tilefni til að halda því áfram í núverandi mynd.

Upphaflega var tilgangur ráðsins að skapa samráðsvettvang milli stjórnsýslunnar annars vegar og atvinnulífsins hins vegar um eftirlit og kröfur sem settar hafa verið á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Segja má að sú skipan hollustuháttaráðs sem verið hefur hafi ekki náð að fylgja því hlutverki eftir með markvissum hætti. Í ljósi þeirrar reynslu sem fengin er af störfum ráðsins er því lagt til að hlutverki þess og samsetningu verði breytt svo að um verði að ræða lögbundið samráðsferli sem snýr að stjórnvöldum annars vegar, þ.e. umhverfisráðherra og Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og atvinnulífinu hins vegar, þ.e. Samtökum atvinnulífsins. Er gert ráð fyrir að hin nýja samráðsnefnd fjalli áfram um stefnumarkandi þætti er falla undir lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og varða atvinnustarfsemi. Að auki er lagt til að nefndin geti haft frumkvæði að því að taka upp slík mál við ráðherra og sveitarfélögin en hollustuverndarráði er ekki ætlað slíkt hlutverk samkvæmt núgildandi lögum. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til umhverfisnefndar.



[14:30]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég tek undir að það má endurskoða hollustuháttaráð og skipan þess en ég er svo sem ekki sannfærður um að sú skipan sem nú er tekin upp sé sú besta. Áður en lengra er haldið finnst mér rétt að gera smávægilega athugasemd við greinargerð með frumvarpinu en í henni kemur fram að kostnaður við rekstur heilbrigðis- og mengunareftirlits á vegum sveitarfélaganna sé að mestu leyti borinn uppi af atvinnulífinu, eða sem nemur ¾ hlutum kostnaðar. Þá finnst mér rétt að taka fram að eftirlitsgjöldin eru venjulega 60–70% af tekjum heilbrigðiseftirlitanna og 30–40% eru bein framlög sveitarfélaganna. Þar af greiða opinber fyrirtæki af þessum 60–70% tæpan helming, eða um 40%. Það eru þá eftirlitsgjöld með vatnsveitum sem eru talsverð, eftirlitsgjöld með sundlaugum, leikskólum, skólum, sjúkrahúsum og svona má lengi telja. Samtök atvinnulífsins standa ekki alfarið undir ¾ hlutum kostnaðarins. Mér finnst rétt að taka þetta fram í umræðunni áður en lengra er haldið.

Það sem ég átta mig ekki alveg á varðandi tilgang þessarar samstarfsnefndar er hlutverk hennar. Það væri ágætt að fá nánar að vita um það. Fram kemur að það eigi að fjalla um þætti sem varða atvinnustarfsemi, svo sem „lagabreytingar og stefnumarkandi reglugerðir, samþykktir og gjaldskrár“. Það væri gott að fá nánar að vita hvað átt er við. Ég tel í sjálfu sér að samstarf atvinnulífsins og þeirra sem fara með eftirlit sé mjög mikilvægt og það sé mjög góð reynsla af fulltrúum atvinnulífsins í heilbrigðisnefndum yfirleitt. Þess vegna mætti skoða hvort þessi samstarfsnefnd ætti þá ekki að vera jafnvel samstarfsnefnd þeirra sem fara með eftirlitið og atvinnurekenda. Ég varpa fram þessari hugmynd.

Eins og áður segir væri ágætt að fá nánar að vita um hlutverk þessarar nýju samstarfsnefndar.



[14:33]
Mörður Árnason (Sf):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni um það að gott væri að fá meira að heyra um hvað þessari nefnd er ætlað að gera. Það er frekar óljóst í greinargerðinni með frumvarpinu, rætt um „lögbundið samráðsferli“ en ekki tekið fram um hvað það snúist eða hvað í því felist nema það að menn eigi að skoða saman, þessir þrír, ýmsar reglugerðir og þau mál sem upp koma.

Ljóst er að hin eldri nefnd eða hollustuháttaráðið svokallaða þykir ekki hafa heppnast vel og því spyr ég mig hvort ekki sé rétt að hvetja hæstv. ráðherra til að ganga skrefinu lengra og losa skattgreiðendur í landinu við þennan litla sepa út úr ríkisvaldinu. Væntanlega er ætlast til þess að skattgreiðendur greiði þessi laun. Hins vegar sé aðilum falið að hafa það samráð sem eðlilegt er í hverju tilviki og ekki endilega bara við sveitarfélög og Samtök atvinnulífsins heldur líka við ýmsa þá aðra sem þarna er um að ræða.

Ég geri ráð fyrir að flest þau mál sem þessi nefnd mundi fjalla um varði líka starfsmenn á þeim vinnustöðum sem yfirleitt um ræðir og hefur valdið því að t.d. Alþýðusamband Íslands var sett inn í gömlu nefndina. Með því að stofna þessa þriggja manna nefnd er um leið verið að taka Alþýðusamband Íslands og þar með fulltrúa starfsmanna út úr hinu lögbundna samráðsferli. Ég áskil mér allan rétt til að hugleiða það í nefndarstarfi í umhverfisnefnd hvort það er rétt eða ekki.

Fyrstu viðbrögð mín eru því þau að í greinargerðinni sé ekki gerð almennilega grein fyrir því um hvað þessi nefnd eigi að fjalla og sú spurning vaknar hvort hún sé til nokkurs hlutar.



[14:36]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Eins og ráðið er skipað í dag eru í því níu menn sem koma úr mjög ólíkum áttum og eiga mjög ólíka aðkomu að málum. Það er fjallað nokkuð um þetta í greinargerðinni, t.d. það að forstjóri Umhverfisstofnunar sé lögskipaður inn í hollustuháttaráðið sem auðvitað gefur augaleið að er ekki heppilegt. Í raun og veru er verið að einfalda hlutina, ekki síst í ljósi þeirrar reynslu sem hefur fengist af störfum ráðsins. Þess vegna er verið að breyta hlutverkinu og samsetningunni þannig að um verði að ræða lögbundið samráðsferli sem snýr að þessum þremur aðilum, þ.e. umhverfisráðherra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum atvinnulífsins, og þá er gert ráð fyrir að hin nýja samráðsnefnd fjalli áfram um stefnumarkandi þætti sem falla undir lögin um hollustuhætti og mengunarvarnir og varða atvinnustarfsemi.

Því til viðbótar er líka verið að leggja til að nefndin geti haft frumkvæði að því að taka upp slík mál við ráðherra og sveitarfélögin en hollustuháttaráði er ekki ætlað slíkt hlutverk samkvæmt núgildandi lögum. Ég tel að hér sé um breytingu að ræða sem eigi að vera til bóta.