131. löggjafarþing — 11. fundur,  19. okt. 2004.

Hollustuhættir og mengunarvarnir.

192. mál
[14:33]

Mörður Árnason (Sf):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni um það að gott væri að fá meira að heyra um hvað þessari nefnd er ætlað að gera. Það er frekar óljóst í greinargerðinni með frumvarpinu, rætt um „lögbundið samráðsferli“ en ekki tekið fram um hvað það snúist eða hvað í því felist nema það að menn eigi að skoða saman, þessir þrír, ýmsar reglugerðir og þau mál sem upp koma.

Ljóst er að hin eldri nefnd eða hollustuháttaráðið svokallaða þykir ekki hafa heppnast vel og því spyr ég mig hvort ekki sé rétt að hvetja hæstv. ráðherra til að ganga skrefinu lengra og losa skattgreiðendur í landinu við þennan litla sepa út úr ríkisvaldinu. Væntanlega er ætlast til þess að skattgreiðendur greiði þessi laun. Hins vegar sé aðilum falið að hafa það samráð sem eðlilegt er í hverju tilviki og ekki endilega bara við sveitarfélög og Samtök atvinnulífsins heldur líka við ýmsa þá aðra sem þarna er um að ræða.

Ég geri ráð fyrir að flest þau mál sem þessi nefnd mundi fjalla um varði líka starfsmenn á þeim vinnustöðum sem yfirleitt um ræðir og hefur valdið því að t.d. Alþýðusamband Íslands var sett inn í gömlu nefndina. Með því að stofna þessa þriggja manna nefnd er um leið verið að taka Alþýðusamband Íslands og þar með fulltrúa starfsmanna út úr hinu lögbundna samráðsferli. Ég áskil mér allan rétt til að hugleiða það í nefndarstarfi í umhverfisnefnd hvort það er rétt eða ekki.

Fyrstu viðbrögð mín eru því þau að í greinargerðinni sé ekki gerð almennilega grein fyrir því um hvað þessi nefnd eigi að fjalla og sú spurning vaknar hvort hún sé til nokkurs hlutar.