132. löggjafarþing — 10. fundur
 18. október 2005.
staðgreiðsla opinberra gjalda og virðisaukaskattur, 1. umræða.
frv. SKK o.fl., 18. mál (vanskil á vörslufé). — Þskj. 18.

[16:23]
Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, sem á þessum tvennum lögum hafa orðið.

Frumvarp þetta varðar breytingar á ákvæðum laganna sem varða vanskil á vörslufé en ásamt mér flytja málið þingmenn frá öllum stjórnmálaflokkunum, hv. þingmenn Össur Skarphéðinsson, Magnús Stefánsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Ögmundur Jónasson, Drífa Hjartardóttir, Guðjón A. Kristjánsson, Sólveig Pétursdóttir, Pétur H. Blöndal, Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðjón Hjörleifsson, Halldór Blöndal og Birgir Ármannsson.

Mál þetta er ekki að koma inn í sali hins háa Alþingis í fyrsta skipti því það var flutt á 131. löggjafarþingi en varð ekki útrætt þá. Engu að síður fékk málið umtalsverða umfjöllun innan veggja þingsins og var á því löggjafarþingi, þ.e. því síðasta, afgreitt úr efnahags- og viðskiptanefnd með breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar sem birtust á þskj. 1189 ásamt nefndaráliti á þskj. 1188 og síðan framhaldsnefndaráliti og breytingartillögum á þskj. 1409. En þar afturkallaði nefndin fyrri breytingartillögur sínar.

Þrátt fyrir umrædda málsmeðferð náðist ekki að afgreiða frumvarpið sem lög frá Alþingi fyrir þinglok og er það því lagt fram að nýju með þeim breytingum sem meiri hluti hv. efnahags- og viðskiptanefndar lagði til við meðferð þess á 131. löggjafarþingi.

Eins og frumvarp það sem hér er til umræðu var þegar það var lagt fram á 131. löggjafarþingi var gert ráð fyrir að lágmarksfésekt við tilteknum skattalagabrotum, sem lögfest var árið 1995, skyldi ekki eiga við þegar um svokölluð vanskil á vörslufé væri að ræða hefði brotamaður skilað réttilega skilagrein svo ljóst mætti vera að ekki væri um að ræða tilraun til undanskots. Gerði frumvarpið annars vegar ráð fyrir að við 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda bættist nýr málsliður svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Hafi brot einskorðast við að skila ekki réttilega tilgreindri staðgreiðslu samkvæmt skilagrein staðgreiðslu á lögmæltum tíma skal fésektarlágmark þessa ákvæðis ekki eiga við.“

Hins vegar gerði frumvarpið ráð fyrir því að við 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt bættist við nýr málsliður svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Hafi brot einskorðast við að skila ekki réttilega tilgreindum virðisaukaskatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu á lögmæltum tíma skal fésektarlágmark þessa ákvæðis ekki eiga við.“

Frú forseti. Frumvarp það sem nú er til umræðu felur eftir sem áður í sér að lágmarksfésekt við tilteknum skattalagabrotum, sem nú eru að lágmarki tvöföld vangoldin skattfjárhæð, eigi ekki við þegar um vanskil á vörslufé er að ræða en gjaldandi hefur skilað skilagrein á réttum tíma, þannig að ekki sé um að ræða tilraun til undanskots, og vanskil hafi verið gerð upp áður en til ákvörðunar refsingar kemur. Lagt er til í frumvarpinu að í slíkum tilvikum ráði mat dómara þyngd refsingar, sem getur þá verið allt að tíföld, þó að ekkert lögbundið lágmark verði til staðar. Með öðrum orðum, við þessar aðstæður er dómstólunum gefið mat á því hvort rétt sé að horfa í gegnum fingur sér gagnvart fólki sem ekki hefur tekist að greiða vanskil á virðisaukaskatti en ljóst að menn hafi ekki verið í rekstri sínum að reyna að svíkja undan skatti.

Menn hafa bent á og ég tel að við þurfum að taka þá umræðu innan veggja þingsins að rétt sé að ganga jafnvel lengra en þetta frumvarp gerir ráð fyrir í þá átt að veita dómstólunum enn frekari heimild til að framkvæma slíkt mat í niðurstöðum sínum. Á það hefur verið bent nýlega í grein Garðars Gíslasonar héraðsdómslögmanns sem birtist í Morgunblaðinu þar sem hann leggur til að gengið sé lengra í að veita dómstólum mat í þá átt sem ég vísaði til og ég tel að það verði framtíðarverkefni okkar sem höfum haft áhuga á þessum málum og gefið þeim gaum. Ég tel hins vegar rétt að leggja málið fram í þeim búningi sem það er núna vegna þess að það er í samræmi við þá niðurstöðu sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd komst að við meðferð málsins á síðasta löggjafarþingi þegar það var lagt fram þá af þáverandi hv. þingmanni, núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, Einari K. Guðfinnssyni.

Frú forseti. Vanskil á vörslufé vegna greiðsluerfiðleika eru nokkuð ólík öðrum skattalagabrotum. Slík brot hafa sjaldnast þau einkenni sem algengt er að fylgi skattsvikum, svo sem vanhöld á færslu bókhalds, og ekki er heldur fyrir að fara þeirri leynd sem að jafnaði einkennir skattsvik og önnur skattalagabrot. Oft eiga brotlegir sér einnig málsbætur umfram þær að fremja önnur skattalagabrot en skýringa er ósjaldan leitað í því að forsvarsmenn fyrirtækja hafa lent í greiðsluerfiðleikum sem oft enda með gjaldþroti.

Tilgangur breytingarinnar sem þetta frumvarp kveður á um er einnig sá að gefa dómstólum meira svigrúm til að ákvarða refsingu, einkum með hliðsjón af málsbótum sem brotlegir kunna að hafa. Þær breytingar sem lögfestar voru árið 1995, og ég vék hér að áðan, miðuðust fyrst og fremst við alvarleg skattalagabrot, en undir þau falla vanskil alla jafna ekki nema þau nái yfir langt tímabil, um verulegar fjárhæðir sé að ræða eða ítrekuð brot eða ef aðstæður auka saknæmi verknaðarins en þá varða brotin jafnframt við 262. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Falla þau þá utan lagabreytinganna sem hér eru lagðar til.

Það er ekki skilyrði þessa ákvæðis að gjaldskyldur lögaðili eða einstaklingur hafi bætt ríkissjóði eða öðrum rétthafa gjaldanna það tjón sem hann kann að hafa valdið, en slíkt kemur til skoðunar við mat á refsingu. En það er einnig í samræmi við meginreglu 74. gr. almennra hegningarlaga að tekið skuli tillit til slíks við refsiákvörðun hjá aðila sem leitast við að bæta af sjálfsdáðum tjón sem hann hefur valdið og með ákvæðum sem hér eru lögð til yrði tekið af skarið um að slík háttsemi skyldi virt til refsilækkunar. Úr slíku tjóni verður aðeins bætt með því að greiða það sem vanrækt var að greiða.

Leggja verður áherslu á að vextir og álag sem leggjast á vangoldna fjárhæð samkvæmt lögum teljast ekki til refsiverðra vanskila. Telja verður að vörslufé aukist ekki þó því sé haldið tímabundið og því ekki ástæða til að lögfesta að vangreiddir vextir geti orðið grundvöllur refsinga. Með öðrum orðum þýðir þetta í raun og veru að hafi sá sem vangreiðir skatta lagt inn á greiðslu sem greidd hefur verið inn á höfuðstól þess skatts sem vangreiddur er getur dómari lagt það til grundvallar en þarf ekki að líta til þeirra vaxta og eftir atvikum dráttarvaxta eða innheimtukostnaðar sem á skuldina hefur lagst. Í praxís hefur það verið þannig að þegar menn hafa verið að greiða upp sínar skattskuldir þá hefur ríkið litið þannig á að mönnum beri fyrst að greiða þennan kostnað, hvort sem það eru vextir eða annar kostnaður, og síðast komi höfuðstóll þess sem vangoldið er til greiðslu.

Það hefur verið venjubundin framkvæmd hérlendis í mörg ár, bæði af hálfu skattrannsóknastjóra ríkisins og í gengnum dómum í héraði og í Hæstarétti, að ekki er höfðað refsimál vegna yfirstandandi rekstrartímabils þegar aðili fer í þrot, enda verður ekki séð að greiðsluskylda hafi myndast þegar þannig stendur á. Sama á við um ógreidda útistandandi reikninga gjaldskylds aðila við gjaldþrot hans enda er þá ekki unnt að vísa til vangoldins vörslufjár. Flutningsmenn telja að þeir gjaldendur sem af ýmsum ástæðum skila ekki inn skilagrein eða virðisaukaskattsskýrslu á réttum tíma hafi því miður engan fjárhagslegan hvata í núgildandi kerfi til að upplýsa um stöðu mála með því að skila inn skilagrein eða virðisaukaskattsskýrslu eftir að frestur er liðinn og gera upp skuldir sínar að hluta vegna þess hvernig núverandi fyrirkomulagi um löggjöf er háttað.

Ástæður þess að gjaldendur skila ekki inn upplýsingum geta í sjálfu sér verið af margvíslegum toga. Má í því sambandi nefna að fyrirtæki geta orðið undir í samkeppni eða markaðir brugðist þannig að rekstur þeirra líði fyrir. Hjá einstaklingum má oft kenna um fjármálaóreiðu, fjárskorti, vanþekkingu, veikindum, óreglu eða einbeittum brotavilja. Fyrir utan síðustu ástæðuna sem hér var nefnd, þ.e. einbeittan brotavilja, eru þessum aðilum allar bjargir bannaðar samkvæmt núgildandi lögum en samkvæmt þeim vofir yfir þessum aðilum sekt að lágmarki tvöföld skattfjárhæð, hvort sem þeir upplýsa um málið og greiða hluta hins vangoldna skatts eða ekki. Gerir núverandi fyrirkomulag því ekki ráð fyrir neinni aðstoð eða hvatningu til þessara aðila til þess að ráða við þann vanda sem þeir hafa komið sér í hverjar sem ástæður þess kunna að vera. Og það hlýtur að teljast allra hagur, herra forseti, jafnt innheimtuaðila sem gjaldenda, að löggjöfin feli í sér hvatningu fyrir gjaldendur til þess að upplýsa um stöðu mála og til þess að gera upp skuldir sínar eins og þeir mögulega geta. Of harðar og of ósveigjanlegar reglur sem þessar, sem ekki taka mið af fjölbreytilegum aðstæðum, eru frekar til þess fallnar að brjóta niður í stað þess að vera uppbyggjandi. Við þessu þarf löggjöfin að bregðast með því að gera skattkerfið sveigjanlegra og manneskjulegra án þess að draga úr markmiði þess að allir greiði þá skatta sem þeir hafa innheimt fyrir ríkið af þriðja aðila.

Flutningsmenn þessa frumvarps telja jafnframt að breytingin sé mikið réttlætismál fyrir forsvarsmenn í atvinnustarfsemi í rekstrarerfiðleikum sem hafa leitt til vanskila á staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatti. Á hinn bóginn telja flutningsmenn að hafa beri í huga að á undanförnum árum hefur greinilegrar tilhneigingar orðið vart í þá átt að einstaklingar stofni ný fyrirtæki í kringum sama atvinnureksturinn. Æðioft eru einu breytingarnar á rekstrinum þá ný auðkenni og ný kennitala. Þegar þannig hefur háttað til er það oft vörslu- og innheimtufé eins og staðgreiðsla opinberra gjalda og virðisaukaskattur sem er í vanskilum og verður eftir sem ógreiddar kröfur í þrotabúið. Flutningsmenn telja brýnt að sporna áfram gegn þeirri þróun með ráðum og dáð. Endurtekin vanskil sömu rekstrareininga undir mismunandi kennitölu mundu dómstólar að öllum líkindum meta sem meiri háttar brot gegn lögum og varða þá við 262. gr. almennra hegningarlaga. Fellur sú háttsemi því ekki undir þær breytingar sem hér eru lagðar til. Það er mjög mikilvægt að menn hafi það í huga þegar þeir taka afstöðu til þessa máls. Það er ekki verið að rétta þeim sem vísvitandi brjóta gegn skattalögunum hjálparhönd. Það er einungis verið að reyna að gera kerfið réttlætanlegt og réttlátara gagnvart því fólki og þeim fyrirtækjum sem hafa farið á hausinn en að öðru leyti haft allt sitt á hreinu, skilað inn réttum skattskýrslum og skilagreinum og greitt inn á skuldir sínar.

Ekki verður betur séð, herra forseti, en meiri hluti hv. efnahags- og viðskiptanefndar, sem afgreiddi forvera þessa frumvarps á 131. löggjafarþingi, hafi tekið undir þær röksemdir sem færðar hafa verið fyrir þeim breytingum sem lagðar eru til með þessu frumvarpi. Þannig sagði meiri hluti nefndarinnar m.a. í framhaldsnefndaráliti sínu, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er að því stefnt að þeir sem skila inn réttum skýrslum og sýna vilja til að greiða skuldir við ríkið njóti þess að því leyti að vikið verði frá sektarlágmarki og mat dómara ráði þess í stað. Er þar byggt á því að þegar þannig háttar til sé ekki um eiginleg skattsvik að ræða. Þessu markmiði verður ekki náð nema að mjög takmörkuðu leyti samkvæmt fyrri breytingartillögum meiri hlutans. Eftir að hafa skoðað málið nánar telur meiri hlutinn rétt að leggja til breytingar á frumvarpinu sem ekki gera eins miklar kröfur til þess að vikið verði frá sektarlágmarki, m.a. varðandi það hvort skýrslu er skilað á réttum tíma eða ekki. Meiri hlutinn telur rétt að girða ekki fyrir að þeir sem hafi greiðslugetu og greiðsluvilja sjái sér hag í því að lækka skattfjárhæð áður en til sektarákvörðunar kemur. Megináherslan hlýtur að liggja á því að gjaldandi, eða sá sem ábyrgð ber á greiðslum, sjái hag í því að skila inn réttum skýrslum og greiða eins mikið og unnt er áður en niðurstaða dómstóla eða yfirskattanefndar liggur fyrir. Lögin taka sérstaklega á síðbúnum skilum með ákvörðun álags og dráttarvaxta og fellur meiri hlutinn frá þeirri tillögu að kveða á um greiðslu þessa hluta kröfunnar í þeim ákvæðum sem lagt er til að breytt verði og fjalla um sakarmat. Af framkvæmd verður ráðið að við ákvörðun refsingar sé tekið tillit til þeirra greiðslna sem inntar hafa verið af hendi og miða tillögur nú að því að ekki verði breyting þar á.“

Með þessum tilvitnuðu orðum lagði meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar til að gerðar yrðu breytingar á frumvarpinu sem eru samhljóða þeim ákvæðum sem fram koma í 1. og 2. gr. þess frumvarps sem ég hef hér mælt fyrir og lagði til á síðasta þingi að frumvarpið yrði þannig samþykkt sem lög frá Alþingi. Ég tek þetta sérstaklega fram vegna þess að ég leyfi mér, herra forseti, að mælast til þess og óska eftir því að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til umræðu og umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd, en ég tel engu að síður að málið sé fullrætt og útrætt innan þeirrar nefndar. Ég tel að nefndin hafi í sjálfu sér tekið efnislega afstöðu til þeirra atriða sem fram koma í 1. og 2. gr. frumvarpsins og í rauninni lagt til þá niðurstöðu eða þær breytingar sem þar koma fram. Ég lít því ekki svo á að þetta frumvarp þurfi að fara til umsagnar um allt þjóðfélagið vegna þess að umsagnir um þetta mál liggja nú þegar fyrir og niðurstaða meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar gerir það líka, hún gerir það í þessu frumvarpi.

Að lokum vil ég segja, herra forseti, að ég tel að í þessu máli felist veruleg réttarbót fyrir þá sem málið varðar. Ég tel að ef frumvarpið verður samþykkt verði skattkerfið gert mun sveigjanlegra og dómurum þessa lands og skattyfirvöldum sem hafa með rannsókn og úrskurði í skattamálum að gera verði gert kleift með mun ríkari hætti en áður hefur verið að meta aðstæður hverju sinni þegar tekin er ákvörðun um það með hvaða hætti beri að taka á vanskilum einstaklinga og fyrirtækja vegna opinberra gjalda og virðisaukaskatts. Við höfum horft á það trekk í trekk, og það hefur verið mikið í umræðunni, að dómstólar þessa lands hafa verið að fella dóma yfir fólki sem hefur borið ábyrgð á atvinnurekstri, eins og ég hef vikið hér að, dóma sem eru þess eðlis að ætla mætti að um sakamenn væri að ræða sem hefðu ekkert annað í huga en að svíkja undan skatti. Í mörgum þessara mála hafa aðstæður verið þannig að svo hefur ekki verið. Hins vegar hefur dómstólum verið sá kostur nauðugur að dæma þetta fólk til langrar fangelsisvistar og hárra refsinga eða sektargreiðslna einfaldlega af þeirri ástæðu að lögin eru þannig úr garði gerð að dómstólar hafa ekki fengið tækifæri eða haft svigrúm eða heimildir til að meta til refsilækkunar þau atriði sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir að dómstólar hafi heimild til að líta til í framtíðinni verði frumvarpið að lögum. Ég tel að í þessu felist veruleg réttarbót gagnvart þeim sem hér um ræðir.

Ég ítreka það að flutningsmenn þessa frumvarps koma úr öllum stjórnmálaflokkum. Það hefur með öðrum orðum myndast breið pólitísk samstaða um að grípa til aðgerða vegna þessara mála og gera skattkerfið okkar manneskjulegra og sveigjanlegra, hafa það þannig að þeim sem hafa með réttmætum hætti, ef svo má segja, a.m.k. heiðarlegum, farið á hausinn sé gert það kleift að standa aftur í lappirnar án þess að þurfa að sæta löngum fangelsisrefsingum eða háum sektargreiðslum sem leitt geta til þess að viðkomandi aðilar fá ekki rönd við reist í framtíðinni vilji þeir hefja annað líf á vinnumarkaðnum eða í fyrirtækjarekstri.

Að svo búnu, herra forseti, legg ég til að málinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar.



[16:46]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstvirtur forseti. Ég vildi nýta mér andsvarsréttinn, kannski misnota andsvarsréttinn, til að taka undir með hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni varðandi það að efnahags- og viðskiptanefnd hafi í raun lokið umfjöllun um þetta mál. Ég held að það sé nauðsynlegt að efnahags- og viðskiptanefnd taki þetta mál fljótt fyrir og sé í raun ekki ástæðu til annars en að það verði klárað fljótt í þinginu.

Eins og hér kom fram í máli hv. þingmanns, hann gerði góða grein fyrir þessu máli, er um gífurlega réttarbót að ræða. Ég veit að dómarar hafa beðið eftir því að geta hreinlega dæmt eftir sæmilega réttlátum lögum. Hér hafa komið upp mörg grátleg dæmi, eins og hv. þingmaður fór yfir, að heiðarlegt fólk hafi verið dæmt í miklar fésektir og í fangelsi fyrir hluti sem eru til komnir vegna ófyrirsjáanlegra atvika. Viðkomandi aðilar hafa alls ekki getað séð við því með neinum hætti. Þar eru satt að segja grátleg dæmi um að fólk hafi mátt sæta þungum refsingum fyrir engar sakir.



[16:48]
Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni Arnbjörgu Sveinsdóttur kærlega fyrir undirtektir hennar. Ég held að það sé hárrétt sem hv. þingmaður nefndi og ég gat um í ræðu minni, að hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur þegar tekið efnislega afstöðu í þessu máli, tekið afstöðu til þeirra lagaákvæða sem fram koma í frumvarpinu og þeirra breytinga sem þar er lagðar til. Það væri í sjálfu sér furðulegt ef að nefndin kæmist að annarri niðurstöðu nú, fáum mánuðum eftir að málið var þar síðast til meðferðar.

Ég veit að þeir hv. þingmenn sem sitja í nefndinni eru samkvæmir sjálfum sér. Þeir ættu af þeirri ástæðu að geta klárað þetta mál hratt og vel í nefndinni þannig að frumvarpið geti sem allra fyrst orðið að lögum og dómstólar landsins þurfi ekki að komast að niðurstöðum eins og þeim sem við höfum orðið vitni að á síðustu mánuðum og missirum. Þær geta ekki talist sanngjarnar og koma sérstaklega illa niður á fólki sem hefur ekki sýnt þann brotavilja að ástæða sé til að refsa því, líkt og við séum að refsa brotamönnum eða glæpamönnum. En kerfið eins og það er núna og lögin sem dæmt hefur verið eftir eru á þá leið að fólkið, sem við hugsum um og tölum fyrir í þessu máli, er í raun sett á sömu hillu og þeir sem einskis svífast í að brjóta gegn (Forseti hringir.) þeim skattareglum sem hér gilda.