133. löggjafarþing — 35. fundur.
fjármálafyrirtæki, 1. umræða.
stjfrv., 386. mál (eigið fé, EES-reglur). — Þskj. 428.

[15:01]
viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Frumvarpið mælir fyrir um hvernig staðið verður að innleiðingu á breyttum reglum um eigið fé fjármálafyrirtækja sem teknar eru upp á Evrópska efnahagssvæðinu með breytingum á tveimur tilskipunum, nr. 2006/48 og nr. 2006/49.

Reglurnar eru byggðar á staðli frá Basel-nefndinni um bankaeftirlit, svonefndum Basel II staðli sem gefinn var út í júní 2004 og uppfærður í nóvember 2005. Hann kemur í stað eldri staðals um eigið fé alþjóðlegra fjármálafyrirtækja sem að stofni til er frá 1988. Gert er ráð fyrir að þessar nýju reglur verði innleiddar í lög og reglur aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins með gildistöku hinn 1. janúar 2007.

Sú leið hefur verið valin í frumvarpinu, eins og reyndar víðar, að meginatriði breytinganna verða lögfest, verði frumvarpið að lögum, en útfærslum og tækniatriðum er vísað í reglur sem Fjármálaeftirlitið setur.

Tilgangur þess að lögbinda ákveðið lágmark eigin fjár fjármálafyrirtækja sem þó ákvarðist af umfangi starfseminnar helgast af því að fjármálafyrirtæki þurfa að geta þolað talsverð fjárhagsleg áföll án þess að lenda í greiðsluþroti. Reglur Basel-nefndarinnar hafa það að markmiði að samræma reglur milli aðildarríkja nefndarinnar hvað varðar starfsemi alþjóðlegra fjármálafyrirtækja. Á Evrópska efnahagssvæðinu hefur frá upphafi verið farin sú leið að láta Basel-reglurnar gilda um öll fjármálafyrirtæki hvort sem starfsemi þeirra er alþjóðleg eða bundin við eitt land.

Markmiðið með breytingunum er einkum að ákvörðun um lágmark eigin fjár fjármálafyrirtækja verði byggð á nákvæmari viðmiðum en hingað til hefur verið stuðst við þannig að fyrirtæki sem hafa góða stjórn á áhættum sínum geti notið þess við útreikning á eiginfjárkröfunni. Þetta er gert með tvennum hætti: Meginreglur eru annars vegar ítarlegri en áður og auk þess geta stór fjármálafyrirtæki með öflugt skipulag fengið að byggja eiginfjárkröfuna á eigin áhættumati að hluta.

Ákvæði um eigið fé eru í 84. og 85. gr. laganna. Í þremur fyrstu málsgreinum 84. gr. eru ákvæði um lágmark eigin fjár sem lagt er til að breytist nokkuð þannig að nýjar málsgreinar koma í stað eldri. Síðari hluti greinarinnar er einkum skilgreining á eigin fé í þessu samhengi og leggur frumvarpið til nokkrar breytingar á henni. Lagt er til að hugtakið eiginfjárgrunnur verði notað í 84. gr. í stað hugtaksins eigin fjár en þetta hefur í för með sér breytingar á nokkrum öðrum lagagreinum. Breytingar eru lagðar til á 85. gr. sem fjallar um liði sem draga þarf frá eigin fé áður en það er borið saman við lágmarkið. Þá er lögð til breyting á 17. gr. vegna innleiðingar á ákvæði tilskipunar 2006/48 um fullnægjandi innri ferla við mat á áhættum og eiginfjárþörf fjármálafyrirtækis og breyting á 28. gr. vegna lagfæringar á undanþáguákvæði um hámark á virkum eignarhlutum en það ákvæði hefur áhrif á hvaða liðir dragast frá eiginfjárgrunni skv. 84. og 85. gr. laganna.

Eins og áður kom fram er reiknað með að þessar nýju reglur komi til framkvæmda á Evrópska efnahagssvæðinu hinn 1. janúar nk. Mikilvægt er því að frumvarp þetta verði að lögum fyrir áramót.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu óska ég þess að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.



[15:06]
Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ekkert hef ég neitt á móti Basel II fremur en ég hafði nokkuð á móti Basel hinum fyrsta. Ég er meira að segja hlynntur Basil fursta. En í máli hæstv. ráðherra kemur fram að sú stefna hafi verið tekin af hálfu ráðuneytisins að innleiða meginbreytingarnar sem leiða af þessum tilskipunum tveimur í lög en skilja útfærsluna eftir með þeim hætti að hún komi fram í reglum Fjármálaeftirlitsins. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hefði ekki dugað að láta tilskipanirnar og þær breytingar sem af þeim leiða koma allar fram í reglum Fjármálaeftirlitsins? Er beinlínis nauðsynlegt að setja sérstök lög þar um?



[15:07]
viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé litið almennt svo á að það sé nauðsynlegt að a.m.k. undirstöðureglur og -rammar séu lagðir í lögum til þess að um fullnægjandi löggildingu sé að ræða í aðildarlöndunum, það sé hins vegar kannski matsatriði hversu langt er gengið í því. Hér er reynt að fara hóflega leið í þessu máli.



[15:07]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Hér er á ferðinni afskaplega spennandi mál um eiginfjárreglur fjármálafyrirtækja sem við í efnahags- og viðskiptanefnd hlökkum mikið til að skoða og einhenda okkur í.

Það segir sig sjálft að það er auðvitað mikilvægt að hafa samræmdar reglur á þessu sviði eins og á svo mörgum öðrum sviðum. Ef ég skil hæstv. viðskiptaráðherra rétt er hér um að ræða skyldu okkar til að innleiða efnisreglur þeirra tilskipana sem hann vísaði til. Það væri reyndar fróðlegt að fá viðbrögð frá hæstv. viðskiptaráðherra um hvort hér sé um að ræða skyldu eða ekki, hvort við höfum í rauninni eitthvert val hvað þetta varðar. Það væri líka fróðlegt að vita að hvaða leyti við höfum svigrúm í efnahags- og viðskiptanefnd til að koma að breytingum þessa máls. Markmiðið er væntanlega að stuðla að samræmingu og þá hlýtur svigrúm löggjafans eðli málsins samkvæmt að vera mjög takmarkað.

Við sjáum að markmiðið með þessum breytingum er fyrst og fremst að ákvörðun um lágmark eigin fjár fjármálafyrirtækja verði byggð á nákvæmari viðmiðum en hingað til hefur verið stuðst við og að fyrirtæki sem hafa góða stjórn á áhættum sínum geti notið þess við útreikning á eiginfjárkröfunni. Meginreglurnar eru víst ítarlegri en áður og stór fjármálafyrirtæki með öflugt skipulag geta fengið að byggja eiginfjárkröfuna á eigin áhættumati að hluta.

Eins og ég skil frumvarpið eru þetta efnisatriði málsins. Mig langar að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvort hér sé verið að bregðast við einhverjum vanda hvað þetta varðar, hvort honum sé kunnugt um að eitthvað hafi kallað á þessa breytingu úti í hinum stóra heimi og hvort þessar breytingar muni breyta einhverju í raun og veru varðandi íslensku fjármálafyrirtækin. Hver er hin praktíska breyting, ef svo mætti segja?

Í greinargerðinni er sagt að framvegis muni lánastofnanir geta valið á milli ýmissa aðferða við uppgjör á eiginfjárkröfum vegna lánaáhættu og að annaðhvort verði unnt að velja tiltölulega einfalda aðferð, sem kallast staðlaða aðferðin, eða þá að velja aðra tveggja flóknari aðferða sem m.a. byggjast á eigin útreikningi fyrirtækja á áhættu. Það kallast víst innramatsaðferðir. Notkun innramatsaðferðar er háð heimild frá Fjármálaeftirlitinu sem jafnframt mun hafa reglulegt eftirlit með því hvort aðferðirnar sem beitt er standist ýmsar kröfur sem gerðar eru.

Síðan segir þarna, með leyfi forseta:

„Staðlaða aðferðin minnir á þá aðferð sem nú er notuð til að reikna út eiginfjárkröfu. Líklegt er að langstærstur hluti fjármálafyrirtækjanna miðað við fjölda muni velja hana. Innramatsaðferðirnar gera strangar og kostnaðarsamar kröfur til áhættumats fyrirtækjanna og er því búist við að einungis stærri fyrirtæki sæki um leyfi til að nýta þær aðferðir.“

Fjármálafyrirtækjum er veitt valfrelsi milli tvenns konar aðferða. Mig langar að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvort það sé skynsamlegt að hafa tvenns konar aðferðir sem fyrirtækin geti valið um og hvort á þeim sé einhver grundvallarmunur sem gæti vakið einhvern misskilning eða eitthvað slíkt eftir því hvaða aðferðir menn styðjast við. Mig langar einnig að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvort markaðsaðilar fjármálafyrirtækja hér á landi hafi sýnt þessu máli einhvers konar viðbrögð, hvort honum sé kunnugt um það. Býst hann við einhverjum vandkvæðum eða að íslensku fjármálafyrirtækin nái að fara að starfa eftir þessum lagabreytingum strax 1. janúar? Er nægur tími til að undirbúa viðkomandi fyrirtæki, eru þau í stakk búin til að fara eftir þessu? Þetta snertir auðvitað það hvort þetta séu í raun og veru miklar breytingar eða hvort þær séu aðallega tæknilegs og formlegs eðlis.

Mig langar einnig að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra um kostnaðinn. Í greinargerðinni er sagt að kostnaðurinn muni aukast, þá væntanlega bæði hjá Fjármálaeftirlitinu og hjá fjármálafyrirtækjunum sjálfum. Rekstur Fjármálaeftirlitsins er fjármagnaður með ríkistekjum af eftirlitsgjaldi samkvæmt lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og hér er sagt að þeim kostnaði verði mætt af þeim tekjum. Mig langar því að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra: Hversu mikið mun eftirlitsgjaldið hækka ef við samþykkjum þetta frumvarp? Mun sú hækkun ekki að öllu leyti duga fyrir þeim kostnaði sem Fjármálaeftirlitið verður fyrir við lögfestingu þess?

Einnig væri fróðlegt að vita hvort viðskiptaráðuneytið hafi metið það hvort kostnaður hjá fyrirtækjunum sjálfum muni aukast við að uppfylla þessar kröfur, hvort við séum að lögleiða hér það íþyngjandi reglur að talsverður kostnaður falli á viðkomandi fyrirtæki. Er e.t.v. hægur vandi fyrir þessi fyrirtæki að uppfylla kostnaðinn?

Að lokum langar mig að forvitnast um atriði sem hæstv. viðskiptaráðherra kom inn á í andsvari sínu sem lýtur að því að útfærslurnar og tækniatriðin eigi að vera ákvörðuð í reglum sem eru settar af Fjármálaeftirlitinu. Gerir hann ráð fyrir miklum breytingum hvað það varðar? Mun Fjármálaeftirlitið ráðast í meiri háttar breytingar á sínu regluverki vegna þessa frumvarps?

Í sjálfu sér styð ég markmið þessa frumvarps. Mér finnst það samræming á mikilvægum reglum. Samræmingin er góð. Hún er grundvöllur Evrópusamvinnunnar. Við höfum séð hvað þetta regluverk sem kemur frá Evrópusambandinu hefur fært okkur margt jákvætt í okkar samfélagi. Í rauninni sjáum við allar grundvallarbreytingarnar á fjármálalöggjöfinni, samkeppnislöggjöfinni, viðskiptalöggjöfinni, persónuréttarlöggjöfinni, umhverfislöggjöfinni, fjarskiptalöggjöfinni — svona mætti lengi telja. Við sjáum að þær breytingar á þessum lagabálkum, lagaumhverfi, koma að stærstum hluta frá Evrópusambandinu og í langflestum tilvikum eru þessar breytingar til batnaðar. Ég hef enga ástæðu til að efast um að þessar breytingar sem við erum að innleiða hér varðandi eiginfjárreglurnar séu af sama meiði, þ.e. að gera fjármálafyrirtæki okkar samkeppnishæfari og gegnsærri.



[15:15]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég fagna því frumvarpi sem hér er komið fram. Það er mjög nauðsynlegt í þeirri stöðu sem við erum í nú með atvinnulíf sem hefur blómstrað óvenjuhratt og mikið og starfar ötullega jafnvel utan lands, alveg sérstaklega þar með þessari útrás eins og hún er kölluð. Við það magnast upp áherslur sem menn hafa kannski ekki kynnst áður, alla vega ekki að stærðargráðunni til. Þetta er þvílík áhætta að menn eiga mjög erfitt með að átta sig á henni. Það er tugmilljarða áhætta sem menn eru að taka í einstökum dæmum og jafnvel hundruð milljarða. Því er orðið mjög mikilvægt að bankarnir sem eiga mikla hagsmuni þarna tengda hafi bæði gott áhættustýringarkerfi innan borðs, innra eftirlit með áhættu og aðferðir til að dreifa áhættu. Brýnt er að opinberir eftirlitsaðilar gæti þess að þessi kerfi vinni rétt og að annarri áhættu sem kerfin taki ekki til sé mætt þannig að sparifjáreigendur og aðrir viðskiptamenn bankanna þurfi ekki að óttast að neitt komi upp á. Það er þekkt úr gjaldþrotafræðum og öðrum fræðum sem fjalla um líkindi að þegar menn taka mjög mikla áhættu og í vaxandi mæli þá er gjaldþrotið nánast óumflýjanlegt. Það er bara spurning hvenær. Þess vegna er mjög brýnt að bankar sem lána í svona starfsemi séu búnir undir það að taka á slíkum vandamálum. Mér sýnist nú að menn séu mjög duglegir í bönkunum að dreifa áhættunni til að geta ráðið við það ef einhverjir aðilar fara illa í sínum fjárfestingum.

Frú forseti. Ég styð þetta frumvarp. Ég mun vinna að hröðum framgangi þess í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og kalla til gesti sem vonandi geta skilað góðum niðurstöðum og góðum greinargerðum þannig að frumvarpið megi batna ef þörf er á í nefndinni.



[15:17]
viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessi ágætu viðbrögð og prýðilegar spurningar sem ég vonast til að geta fjallað eitthvað um þó þeim verði kannski ekki svarað endanlega í stuttu svari. Ég vil þakka þær ágætu undirtektir sem hér hafa komið fram hjá hv. þingmönnum.

Í sem einföldustu máli er um það að ræða að gera samræmda sundurliðun á áhættuþáttum á efnahagsreikningi og setja síðan samræmt margfeldi við hvern lið fyrir sig. Það er í allra skemmstu máli það sem um er að ræða þannig að niðurstöðutala á þessum áhættumatsreikningi sé með þeim hætti að viðskiptaaðilar og stjórnendur hvers fjármálafyrirtækis geti þokkalega við unað í þokkalegu öryggi.

Í sjálfu sér eru Basel II reglurnar ekki skylda, en innleiðing þeirra verður skylda við það að þær eru teknar upp í tilskipun. Það gerist raunverulega með þeim hætti. Það er kannski ekki rétt að segja að þessar reglur séu settar vegna einhverra sérstakra vandamála eins og hv. þingmaður spurði um. Það er frekar um það að ræða að þetta er þróunarstig. Þetta er liður í langri þróun. Vinnan við Basel II staðalinn hefur staðið yfir í mjög mörg ár. Hún hefur farið í gegnum margar umræður meðal fjármálastofnana og er ákaflega vönduð og reyndar flókin vinna þarna að baki. Það er ekki heldur um það að ræða að það séu sérstök vandamál í íslenskum fjármálafyrirtækjum sem verið er að mæta heldur frekar þróunarþarfir þeirra eins og ég sagði og ég hygg að einn sterkasti hvatinn til að taka upp þessar reglur hér á landi sé einfaldlega hagsmunir og öryggi fyrirtækjanna. Með því að fylgja þessari þróun vel eftir sýna þau sig að vera metnaðarfull, örugg og traust á alþjóðlegum markaði.

Þá var spurt hvort það væri heppilegt eða eðlilegt að hafa tvær eða reyndar þrjár aðferðir um að velja. Sannleikurinn er sá að flest minni fyrirtæki, og þar af leiðandi trúlega öll íslensku fyrirtækin, eiga kost á því að velja stöðluðu leiðina. Hinir kostirnir tveir um innramatsaðferðir eiga þá frekar við um þau fyrirtæki sem eru stærri, eru metnaðarfyllri, eru í flóknari viðskiptum, eru kannski í áhættufyllri viðskiptum og telja sér þess vegna henta eða jafnvel nauðsynlegt á markaði að sýna að þau viðhafa svo mikla vinnu, svo vandaða vinnu og svo flókið og fullkomið kerfi sem þar heimtist til.

Það kann að vera að ýmis vandkvæði verði við innleiðslu þessara nýju reglna. Ég á reyndar ekki von á því fyrir þau fyrirtæki sem taka upp staðlaða aðferð. En ég held að það geri sér allir grein fyrir því að upptaka innramatsaðferðar tekur býsna langan tíma hjá fyrirtæki og ég held að það sé gert ráð fyrir því að þau hafi tíma og svigrúm til þess arna enda um valkvæðar ákvarðanir að ræða.

Við vitum ekki núna hver kostnaður verður af þessu. Í sjálfu sér má segja að útgáfa leiðbeinandi reglna af hálfu fjármálaeftirlitsins liggi kannski að talsverðu leyti fyrir í því að þessar tilskipanir séu fyrir hendi og álit Basel II nefndarinnar sé fyrir hendi og það er kunnugt öllum íslenskum bankamönnum og sérfræðingum fjármálaeftirlitsins til nokkurra ára nú þegar þannig að það er ekki þar með sagt að það verði mjög mikill kostnaður við það umfram það sem ella yrði. En einhver kostnaður verður þetta og vitanlega verður það talsverður kostnaður í metnaðarfullum fyrirtækjum að kaupa til sín alla þá flóknu sérfræðivinnu sem er dýr við að búa til þessa áhættugrunna og til dæmis þau sem taka innramatskerfið.

Ég endurtek að ég þakka þessar ágætu undirtektir og vönduðu spurningar sem hér komu fram og sýna hvað þetta er í raun og veru heillandi mál fyrir þá sem hafa á annað borð hafa áhuga á slíkum efnum.



[15:22]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskiptaráðherra fyrir greinargóð svör. Það er fróðleg vinna fram undan í efnahags- og viðskiptanefndinni og við höfum sem betur fer ágætan tíma núna á nefndardögum eftir helgi.

Mig langar að inna viðskiptaráðherrann eftir dálitlu varðandi kostnaðinn. Hæstv. viðskiptaráðherra segir að kostnaðurinn sé ekki alveg klár, þ.e. hvað varðar aukinn kostnað hjá Fjármálaeftirlitinu. Að sama skapi er væntanlega erfitt að meta þann kostnað sem verður fyrir hendi hjá sjálfum fjármálafyrirtækjunum og kannski ómögulegt fyrir viðkomandi ráðherra að meta það. En mig langaði að inna eftir því hvort það væri alveg öruggt að þeim kostnaði sem þó hlýst af þessu frumvarpi hjá Fjármálaeftirlitinu verði að öllu leyti mætt með hækkuðu eftirlitsgjaldi þannig að við munum ekki sjá fjármagn tekið úr sameiginlegum sjóðum landsmanna í formi skatta sem fara til Fjármálaeftirlitsins. Er það alveg öruggt og réttur skilningur að aukinn kostnaður Fjármálaeftirlits verði ekki fjármagnaður af skattfé heldur af þessum þjónustugjöldum sem Fjármálaeftirlitið nú þegar innheimtir af fjármálafyrirtækjunum sjálfum?



[15:24]
viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að megnið af þeim kostnaði sem um verður að ræða yrði innheimtur hjá viðkomandi fyrirtækjum því hér er um sértækan kostnað að ræða vegna sértækra verkefna. Ég hygg að hann muni dreifast á jafnvel nokkur ár. Sannleikurinn er þó sá að þessar reglur sjálfar liggja fyrir í þeim alþjóðlegu textum sem fyrir hendi eru þannig að það þarf ekki að nema nein ný þekkingarlönd á þessu sviði. Ég geri ráð fyrir því að það verði nægur tími til að bregðast við þörfum, aðstæðum og óskum sem kunna að koma upp við þessa innleiðingu. Ef óskað verður eftir því að tekið sé úr sameiginlegum sjóðum þá mun það vafalaust helgast af því að þar sé um einhver sameiginleg hagsmunamál að ræða. Að því leyti sem um er að ræða upptöku sérstakra reglna í einstökum fyrirtækjum þá tel ég tvímælalaust að það verði innheimt með venjulegum hætti af hálfu Fjármálaeftirlitsins.