135. löggjafarþing — 65. fundur
 19. feb. 2008.
stofnun háskólaseturs á Akranesi, fyrri umræða.
þáltill. JBjarn o.fl., 344. mál. — Þskj. 580.

[19:07]
Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um stofnun háskólaseturs á Akranesi, en flutningsmenn auk mín eru hv. þingmenn Kolbrún Halldórsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir.

Tillögugreinin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að hefja undirbúning að stofnun háskólaseturs á Akranesi með áherslu á iðn- og tæknigreinar auk almennra grunngreina háskólanáms. Ráðherra geri Alþingi grein fyrir undirbúningsstarfinu og tillögum sínum um uppbyggingu háskólastarfs á Akranesi fyrir 1. september 2008.“

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er hliðstætt og var hér með tillögu til þingsályktunar um stofnun háskólaseturs á Selfossi lögð áhersla á að efling menntastofnana og rannsóknasetra sem víðast um landið er eitt brýnasta mál landsbyggðarinnar. Reynslan hefur sýnt fram á kosti þess að heimamenn stjórni slíkri starfsemi að sem mestu leyti sjálfir og byggi þá á tækniþekkingu, menningu, atvinnulífi og auðlindum hvers héraðs um sig. Hér er hægt að benda á háskólana á Hvanneyri, Bifröst og Hólum.

Blómlegt mannlíf byggist á menntun, fjölbreyttri atvinnu og góðri almannaþjónustu. Enginn einn þessara þátta nægir þar til. Íbúum Akraness hefur fjölgað um á annað þúsund manns á árunum 1997–2007 og eru nú um 6.345. Ef með eru taldir íbúar Hvalfjarðarsveitar í árslok 2007 er heildarfólksfjöldinn á svæðinu um 7.015 manns eða dálítið á áttunda þúsund manns. Uppbygging atvinnulífs þar hefur að stórum hluta hvílt á aukinni stóriðju og atvinnugreinum henni tengdri. Það er því er afar mikilvægt að auka fjölbreytni í atvinnulífi á svæðinu, efla menntunarmöguleika og almenna þjónustu við íbúana.

Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum könnunar sem Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi létu gera á viðhorfum fólks til búsetuskilyrða á Vesturlandi er ljóst að menntamálin eru mörgum þar ofarlega í huga. Á svæðinu sunnan Skarðsheiðar lentu möguleikar á að afla sér háskólamenntunar í öðru sæti yfir þá þætti sem íbúarnir töldu helst ábótavant á svæðinu. Sama könnun leiddi í ljós brýna þörf fyrir iðnaðarmenn með framhaldsmenntun og ákveðnar vísbendingar um að skortur á iðn- og tæknimenntuðu fólki hamlaði vexti almenns iðnaðar á Akranesi.

Þótt ekki sé orðið ýkja langt að fara milli Akraness og Reykjavíkur, þar sem þegar eru starfræktar deildir sem bjóða upp á háskólanám í iðn- og tæknigreinum, má ætla að aðstæður fólks til að sækja slíkt nám þangað séu alls ekki alltaf nógu góðar. Það á einkum við um fólk sem þegar er starfandi í iðnaðinum, hefur verið á vinnumarkaði um allnokkurt skeið og komið sér þar fyrir til frambúðar. Það gefur augaleið að háskólasetur, sem mundi færa námið til fólksins í stað hefðbundinnar skólasóknar sem hugsanlega hefði atvinnumissi og daglegan akstur frá heimili til skóla, ef ekki búferlaflutninga, í för með sér, mundi gerbreyta aðstæðum fólks til að sækja sér slíka menntun.

Ekki er vafi á því að stofnun háskólaseturs á Akranesi yrði kærkomin viðbót við Fjölbrautaskóla Vesturlands sem þar er fyrir. Slíkar menntastofnanir mundu styðja vel hvor við aðra, og ekki bara á sviði menntunar þótt sú samvinna yrði hvað dýrmætust. Ásókn fólks, sem komið er af hefðbundnum framhaldsskólaaldri, í nám við Fjölbrautaskólann fer stöðugt vaxandi. Vel má hugsa sér að háskólasetur á Akranesi gæti samnýtt ýmiss konar húsnæði með Fjölbrautaskólanum og þannig mætti dreifa stofn- og rekstrarkostnaðinum á fleiri hendur. Áratugahefð er fyrir öflugri og fjölbreyttri iðnmenntun á Akranesi. Iðnnámið hefur þó átt undir högg að sækja síðustu missiri vegna þess að slíkt nám krefst almennt meiri kostnaðar á hvern nemanda en hefðbundið bóknám. Fjölbrautaskólinn hefur einmitt þurft að heyja stöðuga baráttu fyrir iðnnámi sínu og þeirri sérstöðu sem hann hefur haft á því sviði.

Sókn er besta vörnin og áðurnefnd könnun sýnir mjög sterka löngun íbúanna á svæðinu eftir auknu framboði á háskólamenntun í heimabyggð. Háskólarnir á Bifröst og Hvanneyri hafa náð sterkri stöðu á sínum sviðum. Háskólasetur með kennslu og rannsóknir á þeim sviðum sem hér eru lögð til mundi auka enn fjölbreytni í tækni- og háskólanámi í héraðinu. Háskólasetur á Akranesi mundi styrkja þessa heildarmynd menntunar og bæta enn frekar búsetuskilyrðin og koma þar með til móts við eindregnar óskir íbúanna í þessu ört vaxandi byggðarlagi. Því er lagt til að menntamálaráðherra skipi nú þegar nefnd með heimamönnum sem vinni tillögur að stofnun háskólaseturs á Akranesi og skili hún áliti fyrir 1. september 2008 svo að hægt sé að taka tillögur hennar inn í gerð fjárlaga fyrir árið 2009.

Frú forseti. Með þessu eru fylgiskjöl, bæði samþykktir og greinar frá frambjóðendum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og frá félögum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á Akranesi.

Frú forseti. Ég legg áherslu á að þessi tillaga skiptir miklu máli fyrir íbúana og samfélagið á þessu svæði og ég hvet til þess að að lokinni þessari umræðu fari hún til meðferðar í hv. menntamálanefnd og geti komið til afgreiðslu og samþykktar þingsins fyrir þinglok í vor þannig að hægt verði að hefja undirbúning að stofnun formlegs háskólaseturs á Akranesi næsta haust eins og tillagan gerir ráð fyrir.



[19:13]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar sem er endurflutt. Það skýrir nú kannski margt af því sem er í greinargerðinni að þetta mál hefur verið flutt nokkrum sinnum. Besta mál sem þarf auðvitað að skoða.

Markmiðin í tillögunni eru klárlega sameiginleg markmið Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og raunar allra flokka um þessar mundir, um að reyna að bæta aðgengi að menntun, færa hana sem næst þeim sem vilja njóta hennar og hækka menntunarstig almennt í landinu. Þetta hefur birst í málflutningi hæstv. ráðherra og raunar í stefnuplöggum og nú síðast í kjarasamningum koma fram áhersluatriði um menntun og því ber að fagna.

Það má síðan alltaf ræða með hvaða hætti slík mál eigi að bera að og hvernig standa eigi að þeim hvað varðar hvert svæði. Ég tek undir það með málshefjanda að skólinn á Akranesi, Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi, hefur verið öflugur iðn- og verkmenntaskóli. Það er eðlilegt að horfa til þeirra þátta þegar litið er til framhaldsnáms og þar hefur stundum vantað á. Menn bjuggu til þær reglur, bæði varðandi reiknilíkan og aðrar áherslur varðandi móðurskóla í framhaldsskólum landsins, að töluvert af iðn- og verknáminu færðist af Akranesi vegna þess að kröfurnar voru þannig og fjárveitingar til skólanna að ekki var hægt að kenna iðn- og verkgreinar. Jafnvel þó stutt sé til Reykjavíkur með tilkomu Hvalfjarðarganganna er það býsna langt að sækja daglega skóla á annað svæði, hvort sem það er í Borgarholtsskóla eða aðra skóla á höfuðborgarsvæðinu.

Það er því klárt og eðlilegt markmið að við reynum að bæta stöðu þessara greina innan fjölbrautaskólans. Það hefur vakið furðu mína varðandi þennan málflutning að hv. málshefjandi, Jón Bjarnason, skuli ekki einu sinni vitna í tillögu sem bæjarfulltrúi Vinstri grænna á Akranesi flutti, um að skoða stöðu iðn- og verknáms í skólanum á Akranesi. Sú vinna er enn í gangi. Það vekur jafnframt furðu mína að ekki skuli koma fram að í vaxtarsamningi Vesturlands er kafli um menntun þar sem einmitt er rætt um möguleika framhaldsskólans og mikilvægi tengingar við stóriðjuna á Grundartanga og hugsanlega uppbyggingu á framhaldsnámi, sérhæfingu og háskólanámi í tengslum við það. Sú vinna er í gangi. Ég fékk upplýsingar rétt áðan um að þar að auki hefðu skólameistarar Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi, raunar í samráði við bæjaryfirvöld, verið í viðræðum við Háskólann í Reykjavík, um að gegna hlutverki hvað varðar háskólanám.

Þannig að allt þetta er í gangi nú þegar og ný framhaldsskólalög, sem liggja fyrir þinginu og verða vonandi afgreidd á þessu þingi, gera ráð fyrir því að með auknum sveigjanleika á milli skólastiga verði hægt að kenna háskólaeiningar og -áfanga í framhaldsskólanum. Þá reynir á hugmyndaauðgi og gott samstarf við háskóla að þeirri kennslu verði komið á þannig að hægt sé að sinna þessu námi heima í héraði.

Ég nefni þetta hér einfaldlega vegna þess að ég tel mikilvægt að allir þessir þættir verði leiddir saman í eina fylkingu. Hvort sem það mun heita háskólasetur eða bera eitthvert annað heiti eða verði hreinlega undir verksviði Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi er mikilvægt að menn reyni að leiða alla aðila saman og skilgreini hvaða þætti háskólanáms verði hægt að bjóða upp á á Akranesi og í framhaldi komi þá tillögur um það.

Í sjálfu sér þarf ekkert að útiloka þingsályktunartillöguna þó að hún hefði þurft mikla uppfærslu eins og hún er lögð fram hér. Menn þurfa að gefa sér ákveðinn tíma til að skilgreina og skoða með hvaða hætti hægt er að auka þessa þjónustu á Vesturlandi. Ég fagna því þeim áherslum sem fram koma í tillögunni og harma að hún skuli ekki hafa verið uppfærð og skoðuð. Í framhaldinu hefðum við þurft að búa til hagsmunahópa á Akranesi í samstarfi við bæði ríki og sveitarfélög um að byggja þessa þjónustu á þessum sérsviðum, iðn- og verkmenntun, á Akranesi. Því ljóst er að Fjölbrautaskóli Vesturlands á að geta annað töluvert meiru en hann gerir í dag. Nýir framhaldsskólar hafa verið stofnaðir á svæðinu, sem er vel, bæði í Grundarfirði og nú í Borgarbyggð. Hvorugur þeirra skóla er með iðnnám og því verður sú þörf brýnni að halda á Vesturlandi þeirri góðu hefð sem hefur verið í tengslum við iðnnám í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.

Málið fer vonandi til menntamálanefndar og kannski tekst okkur í framhaldi af því að vinna upp tillögu eða tryggja með einhverjum hætti að aðilar sameinist um að beina þeim áformum og þeim hugmyndum sem hafa verið uppi í einn farveg svo að við náum sem bestum árangri.



[19:19]
Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka umræðu um þær tvær tillögur sem ég hef flutt um stofnun háskólaseturs, annars vegar á Selfossi og hins vegar á Akranesi. Eins og fram hefur komið hafa þessar tillögur verið fluttar nú undanfarin þrjú ár og má vel vera að einstaka þætti í þeim hefði þurft að uppfæra eins og hér hefur komið fram. En megininntak málsins stendur óbreytt, þörfin fyrir það að komið sé á formlegu starfi á þessa lund.

Það hefur ýmislegt gerst. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson minntist á Menntaskólann í Borgarnesi, sem er gleðiefni, Fjölbrautaskólann sem var stofnaður á Snæfellsnesi, háskólasetur í Stykkishólmi þar sem stundaðar eru rannsóknir á háskólastigi og rannsóknarsetur í Snæfellsbæ. En Akranes hefur einhvern veginn setið á hakanum hvað það varðar að koma slíku starfi á formlega. Ýmislegt er í gangi eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson nefndi en það á eftir að setja það í þann formlega farveg sem þarf til þess að slíkt starf fái vaxið og dafnað á tilteknum forsendum og ekki hvað síst hvað varðar iðn- og tæknimenntun og þróunarstarf á þeim vettvangi.

Ég fagna góðum undirtektum og ábendingum hv. þm. Guðbjarts Hannessonar og vonast fastlega eftir því að málið fái farsæla og góða meðferð í menntamálanefnd. Þar verði þá leitað eftir frekari gögnum og upplýsingum um hvernig styrkja megi þetta mál þannig að það komi til afgreiðslu fyrir þinglok í vor. Það á við um báðar þingsályktunartillögurnar, um stofnun háskólaseturs á Selfossi og háskólaseturs á Akranesi, sem ég tel mjög brýnt mál fyrir þessi landsvæði, frú forseti.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til menntmn.