135. löggjafarþing — 93. fundur.
NMT-kerfið og öryggismál.

[10:49]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Fyrirspurn mín til samgönguráðherra snýr að öryggisþætti þess þegar breytt verður um hið svokallaða langdræga farsímakerfi sem núna er NMT-kerfi en við stefnum á það að taka upp þriðju kynslóð farsímakerfisins sem mun þá dekka þau svæði sem NMT-kerfið dekkar í dag. Þó er rétt að geta þess að NMT-kerfið dekkar ekki öll svæði. Það eru t.d. nokkrir blettir á Vestfjörðum nálægt landi og undir háum fjöllum, eins og fyrir Hornstrandir, þar sem NMT-kerfið virkar ekki og mér ekki ljóst hvort hið nýja farsímakerfi muni virka þar heldur. Það gerir heldur ekki metrabylgjukerfið þ.e. VHF-kerfið svokallaða, og þar erum við auðvitað komin inn í tilkynningarskyldumálin og það öryggishlutverk allt saman þar sem við erum með sjálfvirka tilkynningarskyldu.

Þess vegna spyr ég hæstv. samgönguráðherra hvort farið verði gaumgæfilega yfir þá stöðu sem upp kemur um næstu áramót þegar farsímakerfið sem nú er, NMT-kerfið, verður lagt af, hvort við séum þá örugglega þannig í stakk búin fyrir framhaldið að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að skipta um kerfi sem á sér stað á versta tíma ársins, þ.e. yfir svartasta skammdegið og háveturinn og sendarnir eru yfirleitt staðsettir uppi á fjöllum. Það væri auðvitað afar bagalegt ef upp kæmi sú staða að öryggiskerfi okkar væri ekki til staðar af einhverjum orsökum. Ég vek athygli á þessu við hæstv. samgönguráðherra og vil að hann svari þessum hugleiðingum mínum.



[10:51]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp þetta mál og vekja máls á því á Alþingi. Eins og við vitum verður hið langdræga 450 MHz farsímakerfi, NMT-kerfið, lagt af um næstu áramót eins og löngu hefur verið ákveðið. Það eru margar ástæður fyrir því. Kerfið er dýrt, varahlutir fást ekki í það og fáir notendur. Í staðinn sjáum við núna að farsímafyrirtækin eru hvert á fætur öðru að setja upp hið nýja kerfi, langdræga kerfi á 900 eða 1.800 tíðnisviðinu, sem nær langt út á haf og upp á fjöll. Eins og ég hef áður sagt er ánægjulegt að segja að um næstu áramót, ef áætlanir farsímafyrirtækjanna ganga eftir og það sem Fjarskiptasjóður er að gera, verður Ísland allt orðið farsímavætt fyrir GSM-tæknina og langt út á haf.

Vegna þess sem hv. þingmaður ræddi hér, sem er eðlilegt að hann geri, um tilkynningarskylduna og öryggi sjófarenda á litlu bátunum, þá átti ég nýlega fund með forstjóra Neyðarlínunnar, Þórhalli Ólafssyni, og þar var m.a. farið yfir þessi atriði. Ég er nokkuð viss um að þessi mál eru öll í fínum farvegi og öryggi sjófarenda verður auðvitað ekki stefnt í hættu um hávetur þegar þetta gerist. Neyðarlínan er nú að setja upp nýjan útbúnað fyrir allt að 300 millj. kr. sem á að vera tilbúinn 1. ágúst næstkomandi og hann á að dekka m.a. það sem hv. þingmaður talaði um.

Ég vil svo segja, virðulegi forseti, út frá því sem hv. þingmaður ræddi, að við skulum skoða þetta vel og það verður auðvitað ekki tekin nein áhætta með því. Ég er þess nokkuð fullviss að þau (Forseti hringir.) áform sem ég hef verið að segja hér frá munu ganga eftir og þá verður öryggi sjófarenda ekki stefnt í neina hættu þó svo að NMT-kerfið leggist af 1. janúar næstkomandi.



[10:54]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir skýr og greinargóð svör. Að lokum vil ég beina þeim tilmælum til hæstv. ráðherra að það liggi algjörlega fyrir þegar við komum til þings næsta haust að þær öryggisprófanir sem þurfa að fara fram við skiptingu kerfanna liggi fyrir og búið sé að prófa þetta vel vegna þess að ef fresta þarf gildistökunni og fresta þarf framkvæmdinni þá er betra að menn geri það á fyrstu mánuðum nýs þings, á næsta hausti, en í desember eða janúar við mjög erfiðar aðstæður sem þá eru uppi vegna þess hvar land okkar er staðsett á hnettinum og vegna veðurfars. Ég vænti þess, miðað við orð hæstv. ráðherra, að þessum tilmælum verði fylgt eftir fyrir haustið.



[10:55]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði í lokin. Við skulum vakta það sameiginlega og láta fara í gegnum það þegar nær dregur þessum tímamótum að ekki verði tekin nein áhætta en ég hef verið fullvissaður um að ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur af því.

Það er auðvitað margt að gerast í þessum málum. Ég kom því ekki frá mér í minni fyrri stuttu ræðu en það er m.a. ástæðan fyrir því að setja á þessa langdrægu senda á hærri staði, upp á hærri fjöll til að ná lengra út og ef það er að verða þannig að þessi langdrægu farsímakerfi ná yfir 100 kílómetra út frá ströndum landsins þá er það náttúrlega mjög gott hvað varðar ferlivöktun á bátum og að fá neyðarhnappana og hringingarnar og allt sem þar kemur inn.

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan að ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu og í sameiningu skulum við sjá til þess að þetta verði vaktað á réttum tíma og allt verði klárt áður en (Forseti hringir.) NMT-kerfið verður lagt niður um næstu áramót.