135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

NMT-kerfið og öryggismál.

[10:55]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði í lokin. Við skulum vakta það sameiginlega og láta fara í gegnum það þegar nær dregur þessum tímamótum að ekki verði tekin nein áhætta en ég hef verið fullvissaður um að ekki sé ástæða til að hafa áhyggjur af því.

Það er auðvitað margt að gerast í þessum málum. Ég kom því ekki frá mér í minni fyrri stuttu ræðu en það er m.a. ástæðan fyrir því að setja á þessa langdrægu senda á hærri staði, upp á hærri fjöll til að ná lengra út og ef það er að verða þannig að þessi langdrægu farsímakerfi ná yfir 100 kílómetra út frá ströndum landsins þá er það náttúrlega mjög gott hvað varðar ferlivöktun á bátum og að fá neyðarhnappana og hringingarnar og allt sem þar kemur inn.

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan að ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu og í sameiningu skulum við sjá til þess að þetta verði vaktað á réttum tíma og allt verði klárt áður en (Forseti hringir.) NMT-kerfið verður lagt niður um næstu áramót.