136. löggjafarþing — 117. fundur
 30. mars 2009.
frumvarp um endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

[15:27]
Karl V. Matthíasson (Fl):

Herra forseti. Fyrir þingi liggur frumvarp til laga um stofnun hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja sem felur það í sér að þetta hlutafélag gæti tekið að sér að reka ýmis fyrirtæki sem eru nú komin í slæm mál og eru í vörslu banka. En það stendur ekki í frumvarpinu, hvorki í lagagreinum né greinargerð, um hvers konar fyrirtæki gæti verið um ræða.

Því langar mig til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann geti komið með nánari útlistanir á þessu. Erum við að tala um flugfélög? Erum við að tala um verslun? Erum við að tala um útgerðarfélög? Um hvað er fjallað í frumvarpinu sem hann leggur hér fyrir?



[15:28]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Þetta frumvarp er unnið upp úr tillögum sem alþjóðlegir ráðgjafar, sem fengnir voru til starfa eftir bankahrunið, settu fram og er að alþjóðlega þekktri fyrirmynd og mörg önnur lönd sem lent hafa að einhverju leyti í hliðstæðum aðstæðum hafa farið þessa leið og með henni er mælt af alþjóðlegum ráðgjöfum og innlendum aðilum.

Mikilvægt er að taka það fram að fyrirtækinu er ekki ætlað að eiga og reka þessi fyrirtæki, eins og hv. fyrirspyrjandi sagði, heldur þvert á móti að endurskipuleggja þau og standa að endursölu þeirra og koma þeim út í lífið á nýjan leik. Lögin eru tímabundin og eignaumsýslufélagið skal hafa lokið verkefnum sínum og skal vera slitið innan fimm ára.

Það er skilgreint í greinargerð frumvarpsins hvað átt er við með þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki. Þar er fyrst og fremst verið að tala um fyrirtæki sem eru með svo mikilvæga starfsemi sem tengist öryggishagsmunum, innviðum samfélagsins, almannaþjónustu eða öðru slíku að rík áhersla er til að tryggja að ekki komi rof í þá starfsemi ef þau eru í vanda, og ef það verður niðurstaðan að vænlegra sé að greiða úr málum þeirra í höndum slíks sérhæfðs eignaumsýslufélags heldur en að viðskiptabankarnir, sem jafnframt eru í eigu ríkisins, geri það hjá sér.

Að sjálfsögðu er þar með augljóst að hér er ekki verið að smíða frumvarp utan um einhver tiltekin fyrir fram ákveðin fyrirtæki og þaðan af síður einhvern tiltekinn fjölda eða af tiltekinni stærð heldur ræðst það af aðstæðum hverju sinni. Ætlunin er að útfæra nánar þessar viðmiðunarreglur og frumvarpið gerir ráð fyrir að það sé gert í samráði við Seðlabanka Íslands og aðila vinnumarkaðarins sem gera tillögur um nánari skilgreiningu á þeim viðmiðunum sem þar yrði starfað eftir.



[15:30]
Karl V. Matthíasson (Fl):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svarið en spurning mín var um hvort hægt væri að nefna einhver dæmi um fyrirtæki. Hæstv. ráðherra gerði það ekki heldur talaði almennt um málið eins og það kemur fyrir í frumvarpinu. Mér leikur hugur á að vita, ef þingið á að fara að samþykkja þetta, ætli menn teldu þá nauðsynlegt að ríkið ræki útgerðina í landinu að einhverju leyti eða verslunina? Segjum bara að Bónus fari á hausinn og Krónan líka, hvernig mundum við bregðast við því? Ég vona að verslunin standi vel undir sér og allt það en spurningin er um þetta: Um hvers konar rekstur er að ræða? Er þetta einhver almennur rekstur eða hvað? Getur þetta verið útgerð, geta þetta verið flugfélög, skipafélög, eða hvað er um að ræða, svo að talað sé beint út?



[15:31]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég held að hv. þingmaður, fyrirspyrjandi og aðrir hljóti að átta sig á að það væri ekki hæfi að fara að nefna nöfn fyrirtækja en … (KVM: Atvinnugreinar.) Já. En þessu er hins vegar nokkuð vel lýst í greinargerð með frumvarpinu, að ég held. Af sjálfu leiðir þegar talað er um þjóðhagslega mikilvæga starfsemi sem tengist öryggi eða innviðum samfélagsins, almannaþjónustu, fæðuöryggi eða öðru slíku, geta menn hugsað að það séu þá líklega fyrirtæki t.d. á sviði samgangna, fjarskipta, fæðuöryggis og annarra slíkra sviða þar sem starfsemin er þannig í eðli sínu að hún skiptir sköpum og er undirstaða einhverrar annarrar og almennrar starfsemi í félaginu. Það er síður ætlunin og í raun ekki gert ráð fyrir því nema í einhverjum undantekningartilvikum að hefðbundin atvinnufyrirtæki í samkeppnisrekstri, eitt af 20–30 á þessu sviði kæmi inn til svona fyrirtækis þannig að ætlunin er að hafa inngripið eins lítið og mögulegt er. Má ég minna á að það er eingöngu spurning um fyrirkomulag hvort banki í eigu ríkisins (Forseti hringir.) greiðir úr málunum sjálfur, (Forseti hringir.) eftir atvikum í eign umsýslufélaga á sínum vegum, eða hvort það er fært yfir til (Forseti hringir.) eignaumsýslufélags í eigu hins sama ríkis.