138. löggjafarþing — 13. fundur
 22. október 2009.
fyrirvarar við Icesave-samninginn.

[10:51]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að beina spurningu til hæstv. utanríkisráðherra sem var rétt í þessu að fara yfir það að hinir ýmsu stjórnmálamenn í þessum sal væru mikið að snúast í afstöðu sinni. Við hljótum að draga þá ályktun af þeim orðum að hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnin séu afskaplega staðföst. Ég spyr hann þess vegna út í ákveðna hluti.

Við fjölluðum hér frá 5. júní til 28. ágúst um eitt mál, Icesave-málið. Að stórum hluta fór málið fram á þann hátt að meiri hluti þingheims var í rauninni í samningaviðræðum við ríkisstjórnina vegna þess að hún hafði gert samkomulag og reyndi að halda málinu innan ramma samkomulagsins. Niðurstöðuna þekkjum við. Það stóð upp úr hverjum einasta forustumanni ríkisstjórnarinnar, hverjum einasta, að fyrirvararnir rúmuðust fyllilega innan ramma Icesave-samningsins (Gripið fram í.) eins og það var sagt. (Gripið fram í.)

Forustumenn ríkisstjórnar hljóta að hafa sagt satt þegar þeir sögðu að þetta rúmaðist innan ramma samningsins og þeir hljóta að hafa útskýrt það fyrir Bretum og Hollendingum eins og þeir sögðust ætla að gera. Því hlýtur að koma mjög á óvart að við séum aftur að fjalla um þetta núna.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Voru forustumenn ríkisstjórnarinnar ekki að segja satt? Við vorum í nokkra mánuði að fjalla bara um þetta mál með öllum bestu sérfræðingum landsins og það var fullyrt að þetta rúmaðist (Forseti hringir.) innan samningsins. Ég vil að hæstv. ráðherra upplýsi hvort þjóð og þingi hafi ekki verið sagt satt.



[10:54]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég held að hæstv. ráðherrar hafi lýst þessu samkomulagi eftir sínum besta skilningi og bestu vitund. Ég rifja það upp að ég sagði sjálfur úr þessum ræðustól að með skapandi hugsun væri hægt að sýna fram á að allir fyrirvararnir rúmuðust innan laganna. Ég notaði þetta orðalag, og hv. þingmenn og fleiri notuðu það sem tilefni til að fara með flím og spott um þann ráðherra sem stendur hér aumur enn þá. Um málið að öðru leyti er það að segja að ég lít svo á að það frumvarp sem við erum að fara að ræða á eftir bregði frá því sem samþykkt var í sumar að einu leyti, þ.e. gert er ráð fyrir því að það sem kann að standa eftir árið 2024 verði líka sett undir ríkisábyrgð. Þá verður hins vegar að hafa það í huga að hv. þingmenn sömdu efnahagslega fyrirvara sem enn þá halda. Þeir gerðu ráð fyrir því [Kliður í þingsal.] að öll upphæðin yrði greidd fyrir 2024 miðað við efnahagslegar forsendur Seðlabanka Íslands. Nú blasir það við eftir nýjar upplýsingar, nýtt mat og nýjan samning milli gamla og nýja Landsbankans að endurheimturnar sem áður voru taldar vera með varfærnislegu mati 75% verða 90%. [Kliður í þingsal.] Ég held sjálfur að yfir 95% af höfuðstólnum endurheimtist. (Gripið fram í.)

Þetta er það sem ber frá. Ég get hins vegar fært rök fyrir því, og vona að hæstv. fjármálaráðherra geri það líka á eftir, að fyrirvararnir sjálfir eru styrktir. Sérstaklega á það við um þann fyrirvara sem kallaður er eftir Ragnari Hall og sömuleiðis það sem kallað hefur verið lagalegur fyrirvari I og ef hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa ekki skilið þetta (Gripið fram í.) verða þeir bara að lesa frumvarpið svolítið betur. (Forseti hringir.) Ég gruna suma þeirra um að tala um það án þess að hafa kynnt sér málið. Það hefur náttúrlega aldrei gerst áður um stjórnarandstöðu. (Gripið fram í: Ekki hjá þér?) Aldrei. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð í salnum.)



[10:56]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að næst þegar hæstv. ráðherra heldur ræður um hverjir séu að snúast í stjórnmálum þurfi hann að bæta einhverjum við. Ef hann heldur því fram að hann hafi ekki verið sammála hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra þegar þau sögðu að ekki þyrfti nýjar viðræður, þetta væri innan ramma samkomulagsins, og lýstu því staðfastlega yfir og beittu sér til þess að þetta væri með þeim hætti verður hann, held ég, að bæta við þeim aðilum sem eru búnir að taka hringsnúning í stjórnmálum.

Ég vek athygli á því að hér sagði formaður Sjálfstæðisflokksins, og fékk bágt fyrir, að það þyrfti að fá nýjar viðræður. Hann sagði að hér væri um gagntilboð að ræða. Formaður Sjálfstæðisflokksins spurði hvort ekki væri skynsamlegt að bíða aðeins með þetta mál og menn mundu fara í viðræðurnar. Nei, forustumenn ríkisstjórnar sögðu að það þyrfti engar nýjar viðræður, (Gripið fram í.) þetta rúmaðist alveg innan ramma samkomulagsins. Hér erum við að tala um að annaðhvort sögðu þeir vísvitandi ósatt eða þeir eru búnir að fara marga hringi í þessu máli (Forseti hringir.) og þeir sem bera kostnað af því eru íslenska þjóðin. (Gripið fram í.)



[10:57]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur mikla ályktunarhæfileika. Hvernig mundi hann gagnálykta út frá þeim orðum sem hann hefur eftir formanni Sjálfstæðisflokksins? Hann segir að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi sagt að niðurstaða Alþingis í sumar hafi verið gagntilboð. Þá gagnálykta menn væntanlega að á móti því komi annað tilboð. Það kom (Gripið fram í.) og eftir miklar hræringar, þreifingar og afsagnir ráðherra kom (Gripið fram í.) ákveðin niðurstaða sem við erum að ræða. (Gripið fram í.) Sú niðurstaða er eftir uppskrift Sjálfstæðisflokksins (Gripið fram í: Nú?) sem sagði í vetur að það ætti að gera þrennt, það ætti í fyrsta lagi að semja, í öðru lagi ætti ekki að fara dómstólaleiðina vegna þess að það hefði ákveðinn háska í för með sér (Gripið fram í.) og í þriðja lagi ætti að halda til haga áskilnaði okkar um að ef dómur félli yrði málið skoðað upp á nýtt. Allt þetta er inni nú. (Gripið fram í.) Já, hann gerði það. (Gripið fram í: Jaá, já.) (Gripið fram í: … breyta sögunni.)