138. löggjafarþing — 39. fundur.
endurskoðendur, 1. umræða.
stjfrv., 227. mál (starfsábyrgðartrygging). — Þskj. 252.

[16:59]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur.

Í frumvarpinu er lögð til breyting á 1. mgr. 6. gr. laga um endurskoðendur, nr. 79/2008. Í ákvæðinu er fjallað um starfsábyrgðartryggingar og sú skylda lögð á endurskoðendur að hafa í gildi starfsábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi vegna fjárhagstjóns sem leitt getur af ásetningi eða gáleysi í störfum hans eða starfsmanna hans samkvæmt lögunum. Var ákvæði um skylduvátryggingu vegna tjóns sem leiðir af ásetningi nýmæli í lögum 79/2008.

Eftir gildistöku laganna hefur komið í ljós að vátryggingafélög hafa ekki getað boðið endurskoðendum starfsábyrgðartryggingar vegna tjóns sem leitt getur af ásetningsbrotum. Hafa endurskoðendur því ekki getað uppfyllt þetta skilyrði laganna. Því er lagt til að felld verði niður skylda endurskoðenda til að hafa starfsábyrgðartryggingu vegna fjárhagstjóns af völdum ásetningsbrota.

Þrátt fyrir að lagt sé til að endurskoðendum verði ekki skylt að taka starfsábyrgðartryggingu vegna tjóns sem hlotist hefur af ásetningsbrotum bera endurskoðendur eftir sem áður ábyrgð á tjóni sem þeir eða starfsmenn þeirra valda af ásetningi eða gáleysi, samanber 27. gr. laga um endurskoðendur. Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi. Ekki er gert ráð fyrir að þær breytingar sem lagðar eru fram hér hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.



[17:01]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um endurskoðendur. Í þessu frumvarpi er það helst að afnema á tryggingarskyldu endurskoðenda og er það gert fyrst og fremst vegna þess að þeir geta ekki keypt sér tryggingu. Þetta er skarplega athugað að taka kröfuna út þannig að það eru ekki miklar athugasemdir við þetta frumvarp en þetta minnir okkur alþingismenn kannski á að hugsa málið til enda áður en við setjum lög.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til viðskn.