138. löggjafarþing — 120. fundur
 10. maí 2010.
launakjör seðlabankastjóra.

[15:15]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Síðan skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis var lögð fram á Alþingi hefur mönnum verið tíðrætt um ný vinnubrögð og gagnsæi og að það sé nauðsynlegt að efla þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu. Við höfum séð að á síðustu dögum hefur nefnd um bætta stjórnsýsluhætti verið að kynna alls kyns tillögur um það sem betur mætti fara bæði innan þings sem utan.

Á sama tíma þurfum við alþingismenn að búa við það hér á þingi að geta ekki fengið svör við einföldum spurningum sem við beinum að hæstv. ráðherrum. Ég hef núna í tvígang á Alþingi óskað eftir því að fá upplýsingar um það hver það var sem lofaði seðlabankastjóra 400 þús. kr. launahækkun, en tillaga um það var lögð fram í bankaráði Seðlabankans. Ég hef ekki fengið svör við þessum spurningum og málið er orðið að býsna miklu vandræðamáli fyrir ríkisstjórnina. Hæstv. forsætisráðherra lýsti því hér yfir að hún vissi ekkert um málið og hefði rætt við starfsmenn í forsætisráðuneytinu sem kæmu algjörlega af fjöllum hvað málið varðar. Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir varpaði allri ábyrgð yfir á formann bankaráðsins og sagði hér í ræðustól Alþingis að hún þyrfti að skýra mál sitt.

Ragnar Árnason, sem á sæti í bankaráðinu, lýsti því hins vegar að tillagan hefði verið lögð fram að höfðu samráði við hæstv. forsætisráðherra eða forsætisráðuneytið, sem er í algjörri andstöðu við það sem Lára V. Júlíusdóttir segir í Fréttablaðinu. Ég veit að hæstv. fjármálaráðherra er ekki fæddur í gær og það blasir við mér eins og væntanlega honum hvað er satt í þessu og hvað ekki. Ég vil fá að heyra það frá hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) hvort hann er reiðubúinn til þess að styðja þessi vinnubrögð, (Forseti hringir.) bera á þeim ábyrgð, og hvort tillaga um launahækkun seðlabankastjóra (Forseti hringir.) sem borin var upp í bankaráðinu hafi verið borin undir hann áður en það var gert.



[15:18]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti verður að biðja hv. þingmenn að virða tímamörk.



[15:18]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Mér finnst nú að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson eigi bara að fá allan þann tíma sem hann þarf í sínar Heimdallaræfingar hér.

Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður nefndi að við höfum fengið margvísleg gögn, ekki síst rannsóknarskýrslu Alþingis sem og tillögur sérstakrar nefndar undir forustu Gunnars Helga Kristinssonar. Reyndar er önnur nefnd að störfum sem fjallar um lögin um Stjórnarráðið sérstaklega, sem er heldur betur ástæða til að taka til rækilegrar skoðunar og úrvinnslu, enda er það veruleikinn að mjög mörgu var og er sumpart enn þá áfátt í stjórnkerfi okkar, stjórnmálalífi og stjórnsýslu. Það hlýtur Sjálfstæðisflokkurinn að vera að skoða ekki síður en aðrir um þessar mundir, þær miklu brotalamir sem leiddar eru í ljós þegar þetta er greint og rakið eins og gert er í tímamótaskýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Það væri áhugavert að ræða það og verður auðvitað gert og Alþingi hefur mikilvægt hlutverk með höndum, (Gripið fram í.) ekki síst sérstök nefnd um það efni.

Varðandi launamál seðlabankastjóra og ráðningu hef ég enga aðra aðkomu að því máli en þá að lögin um kjararáð heyra undir fjármálaráðherra. Annað heyrir ekki undir mig og ég hef þegar útskýrt það sem að því snýr í þessum efnum og hef engu við það að bæta. Hv. þingmaður hefur þegar átt orðastað við og spurt hæstv. forsætisráðherra út hvað þetta varðar, forsætisráðherra hefur svarað og ég get engu við það bætt. (Gripið fram í.)



[15:19]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Það er greinilegt að hæstv. fjármálaráðherra er ekki í góðu skapi á ársafmæli ríkisstjórnarinnar. Hér berum við þingmenn fram spurningar sem eru fullkomlega málefnalegar til hæstv. ráðherra og hann svarar því þannig að hér sé um einhverjar Heimdallaræfingar að ræða. Ég spurði bara hæstv. ráðherra að því hvort hann gæti upplýst mig um hver það var sem veitti seðlabankastjóra loforð um 400 þús. kr. launahækkun og hvort sú launahækkun eða sú tillaga hefði verið borin undir hann áður en hún var lögð fram í bankaráði. Ég fékk engin svör við fyrri spurningunni.

Það er alveg ótrúlegt að við þurfum að sitja undir því hér, þingmenn, eftir allt sem sagt hefur verið um aukið gagnsæi og opnari og betri stjórnsýslu að þegar menn vilja fá upplýsingar um (Forseti hringir.) hvað er satt og hvað er ósatt í þessu máli sé þeim spurningum svarað með þeim hætti sem hæstv. fjármálaráðherra gerði. Það er mjög slæmt.



[15:21]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég svaraði því sem að mér snýr í þessu máli og varð þar með við beiðni hv. þingmanns en hann ræður ekki svörum annarra manna. Hv. þingmaður hlýtur að vera orðinn það þingvanur að hann veit að menn ráða orðum sínum sjálfir hér í ræðustóli og bera ábyrgð á þeim.

Svo að það sé líka á hreinu er ég í frekar góðu skapi. Vorið er komið (Gripið fram í.) og ég lít heldur bjartsýnn fram á veginn og tilveruna þó að það sé við ýmsar brekkurnar að kljást satt best að segja. Mér sýnist nokkuð ljóst að hér er mikill orðaleikur í gangi. Auðvitað hefur enginn lofað seðlabankastjóra mörg hundruð þúsund kr. launahækkun (Gripið fram í.) einfaldlega vegna þess að laun seðlabankastjóra lækka umtalsvert (Gripið fram í: Einmitt.) frá því sem var. (Gripið fram í.) Seðlabankastjórarnir sem störfuðu á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins voru á þokkalegustu launum en það má deila um árangurinn af þeirra verkum.