139. löggjafarþing — 104. fundur.
rannsókn á stríðsrekstri í Líbíu.

[10:45]
Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra að því hvort ekki sé tilefni til að hann beiti sér sem utanríkisráðherra á NATO-vettvangi til að óska eftir því að gerðar verði rannsóknir á stríðsglæpum sem hafa verið sannaðir en þó ekki teknir til almennilegrar umfjöllunar eða fólk þurft að axla ábyrgð á þeim voðaverkum sem þar hafa verið framin.

Ég óttast að þetta stríð í Líbíu eigi eftir að þróast á óheillavænlegan hátt. Ég sá frétt í gær um að Obama hefði heimilað leynilegan hernaðarstuðning við líbíska uppreisnarmenn tveimur vikum fyrir árásirnar þar sem bæði Bandaríkjamenn, Frakkar og fleiri hafa verið gagnrýndir fyrir að hafa gengið allt of hart fram. Á eina höndina heyrir maður að vernda eigi saklausa borgara og margir tala um að það sé ekki hlutverk NATO eða að í þessari ályktun frá Sameinuðu þjóðunum hafi ekkert kveðið á um að það eigi að losa sig við Gaddafí. Ég hef heyrt í fréttum frá Líbíu, frá fólki sem þar býr, að Gaddafí fari seint frá, hann hafi lofað því að berjast til síðasta blóðdropa og deyja í heimalandi sínu ef það væri það sem þyrfti til að verja landið sitt gegn árásum NATO og fleiru.

Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort ekki sé tilefni til að hann beiti sér í því að vekja athygli á og kalla eftir rannsóknum á stríðsglæpum í Afganistan. Þó að við séum ekki með fólk þar þá erum við með aðild að NATO og eigum að beita okkur þar til hins ýtrasta.



[10:47]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þingmaður gerði bæði Líbíu og Afganistan að umræðuefni og hún velti fyrir sér stöðunni í Líbíu. Það liggur líka fyrir að harðstjórinn í Líbíu lýsti því yfir í þann mund sem hann ætlaði að leggja til atlögu við borgarana í Bengasi að hann mundi engu eira og að hann mundi fara fram af fullkomnu miskunnarleysi gagnvart fólkinu þar. Það á þeirri stundu réði ekki hvað síst ákvörðun öryggisráðsins. Sú ákvörðun tekur algerlega skýrt fram að óheimilt er að beita einhvers konar hersetuliði. Með öðrum orðum er landhernaður útilokaður samkvæmt ákvörðun öryggisráðsins, það liggur algerlega skýrt fyrir.

Að því er Afganistan varðar þá höfum við mannskap þar en við höfum fyrir löngu dregið til baka allt starfslið þar sem starfar beinlínis að virkum hernaði. Eins og hv. þingmaður man vorum við þar með sveit brynvarinna jeppa og segir fátt af því og ekkert fallegt. Í dag erum við með mannskap þar sem sinnir mannúðarstörfum, ekki síst því að byggja upp kvennahreyfingar, ljósmæður og hjúkrunarfólk. Ísland hefur alltaf lagt mjög ríka áherslu á að farið verði eftir mannúðarlögum í öllum átökum, hvort sem það eru átök sem NATO eða aðrir eiga aðild að. Ef tilefni gefst þá situr ekki á Íslandi og hefur ekki setið á Íslandi að óska eftir því að slíkt yrði rannsakað eða taka þátt í málflutningi í þá veru. Dæmi um það er aðild okkar að tillögu um að Gaddafí verði dreginn fyrir alþjóðlegan sakamáladómstól þannig að það stendur síst á okkur að gera það. Það er alveg ljóst hver afstaða okkar er í þessum efnum. (Forseti hringir.) Við viljum að farið sé eftir alþjóðlegum mannúðarlögum.



[10:50]
Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Er ekki tilefni til að hafa frumkvæði að því að fordæma stríðsglæpi NATO í Afganistan og á vettvangi NATO og kalla eftir rannsókn á því sem komið hefur fram í The Afghan Warlords sem lekið var á Wikileaks? Þar koma fram tölur yfir hversu margir óbreyttir borgarar hafa verið myrtir og meira að segja kom fram í grein í gær, sem var birt í Rolling Stone, með ljósmyndum og vídeóum, að hermenn hafi drepið almenna borgara sér til leiks og látið mynda sig með líkin. Er ekki tilefni til að fordæma svona stríðsglæpi og er ekki tilefni til að beita sér enn frekar á vettvangi NATO til að sýna að við séum með sanni þjóð sem styður frið og t.d. stefnu Vinstri grænna? Ég skora jafnframt á Vinstri græna að beita sér meira í utanríkisstefnu landsins.



[10:51]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar áskoranir. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að þingið allt eigi að beita sér meira í utanríkismálum landsins.

Það tiltekna mál sem hv. þingmaður vísað til, og fjallað var um í tímaritinu Rolling Stone, þekki ég. Það er eina málið sem ég þekki sem nýlega hefur komið upp en á því máli hefur verið tekið mjög fast. Bandarísk stjórnvöld hafa réttað yfir þeim ákveðna manni. Hann hefur upplýst um þrjá aðra sem hafa tekið þátt í því og það er frá honum komið, að það sem hann kallar dauðasveitir hafi gert sér að leik að drepa saklausa borgara og stilla sér upp og láta taka „trophy“-myndir sem svo eru kallaðar, með leyfi forseta. Það er búið að dæma þann hermann í 28 ára fangelsi þannig að það hefur verið tekið á því máli.

Hins vegar er það rétt hjá hv. þingmanni að Ísland á hvarvetna að stíga fram og fordæma brot á alþjóðlegum lögum og reglum og fordæma hryðjuverk og stríðsglæpi. (Forseti hringir.) Það gerum við reglulega. (BirgJ: Gætum gert meira.)