139. löggjafarþing — 104. fundur.
um fundarstjórn.

fyrirhuguð utandagskrárumræða.

[11:05]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Það er einmitt vegna utandagskrárumræðu sem ég kveð mér hljóðs til að spyrja hæstv. forseta hvaða óviðráðanlegu orsakir það eru sem urðu til þess að utandagskrárumræða sem beindist að hæstv. innanríkisráðherra var felld niður með skömmum fyrirvara í dag.



[11:05]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseta bárust skilaboð frá hæstv. innanríkisráðherra um að hann hefði ekki tök á að vera við utandagskrárumræðuna og því var komið á framfæri við þingmenn. Það verða svo aðrir að svara fyrir það.



[11:06]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka þetta svar. Ég vildi bara hnykkja á þessu hér, á sama tíma og ég lýsi fullum skilningi á því ef aðstæður voru vissulega og sannarlega óviðráðanlegar, og fá úr því skorið hvað varð til þess að umræðan féll niður. Ég trúi því og treysti að hæstv. innanríkisráðherra, sem ég sé að er staddur hér og ég er mjög ánægð að sjá að það var alla vega ekki vegna veikinda að þau forföll urðu, ég treysti því að umræða á hinu háa Alþingi gangi alltaf fyrir í störfum hæstvirtra ráðherra.



[11:06]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill upplýsa að utandagskrárumræðan sem ekki varð af í dag verður næstkomandi fimmtudag kl. 11.



[11:07]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg kjörið að upplýsa þetta stóra leyndarmál. Ég held að allir sem að þessum málum hafa komið og koma geti fengið upplýsingar á svæðinu. Hér er hæstv. innanríkisráðherra bísperrtur, ég veit að hann er mjög vel máli farinn og getur örugglega tjáð sig um af hverju hann gat ekki farið í þessa utandagskrárumræðu. Þetta er slíkt leyndarmál og ég veit að allur þingheimur bíður óþreyjufullur eftir niðurstöðu í þessu stóra leyndarmáli. (Gripið fram í.) Ég held að það væri alveg kjörið að upplýsa það hér og nú og ég veit að hæstv. innanríkisráðherra og jafnvel fleiri hæstv. ráðherrar eru vel til þess fallnir að upplýsa þetta.