140. löggjafarþing — 103. fundur
 21. maí 2012.
neytendavernd á fjármálamarkaði.

[15:30]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við höfum frá síðustu kosningum rætt mjög mikið frumvarp sem fjallar um innstæðutryggingarkerfi sem er mál sem við þekkjum mjög vel og hefur verið mikil andstaða í þinginu við að samþykkja slíka löggjöf. Ástæðan er einföld, slíkt kerfi getur ekki hentað fyrir Íslendinga. Það er tryggingakerfi sem er upprunnið í Bandaríkjunum þar sem eru sjö þúsund og eitthvað bankastofnanir og þar er ábyrgðinni mjög dreift, en á Íslandi eru þrír bankar með 95% af öllum innstæðum. Þetta hefur verið margrætt í þinginu og allir sem að málinu hafa komið hafa komist að sömu niðurstöðu enda er hún algerlega augljós.

Við höfum hins vegar tækifæri til að hafa áhrif á þessa hluti. Þetta er bundið við tilskipun Evrópusambandsins. Ég átti fundi með formanni þeirrar nefndar sem fer með þessi mál hjá Evrópusambandinu og hann, eins og aðrir nefndarmenn sem ég talaði við þar í september sl., hafði skilning á stöðu Íslands og bauðst til að taka við erindi frá okkur og hugmyndir um undanþágur hvað þessa hluti varðaði. Ég upplýsti þáverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, Árna Pál Árnason, um þessa hluti og það kom mér því mjög á óvart þegar það var upplýst í hv. efnahags- og viðskiptanefnd að við höfum ekki nýtt okkur þetta tækifæri og við höfum ekkert gert, virðulegi forseti, til að vekja athygli á málstað okkar Íslendinga hjá þeim sem um þetta véla.

Ég vil því spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra af hverju svo er, af hverju hafa íslensk stjórnvöld ekki reynt að koma sjónarmiðum okkar (Forseti hringir.) fram í þessu mikilvæga máli?



[15:32]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé ekki rétt að það hafi engin samskipti verið við Evrópusambandið um þessi mál. Þau ber á góma reglulega, t.d. á svonefndum ECOFIN-vettvangi þar sem ég hef mætt og þar sem þessi mál hafa verið rædd og þar sem sérstöðu bæði Íslands og Noregs í þessum efnum hefur borið á góma. Sömuleiðis hefur verið farið yfir þetta í samskiptum við Evrópusambandið sem tengist þeim köflum í samningaviðræðunum sem lúta að þessu sérstaklega, 4., 9. og 17. kafla til dæmis, og það hefur borið á góma hver staðan í þessum málum er hjá okkur.

Við munum þurfa að ganga frá reglum sem tryggja nægilega neytendavernd á fjármálamarkaði með einhverjum hætti og sem stendur erum við bundin af því að notast við þær evrópsku reglur sem niðurstaðan verður að þar verði innleiddar nema þá að því marki sem við fengjum undanþágur frá þeim eða semdum okkur frá því að þurfa að innleiða þær með sama hætti og aðrir gera. Þær eru að vísu ákveðnar lágmarksviðmiðanir í eðli sínu og þó ekki, samanber deilu Norðmanna við ESB um að fá að tryggja mun hærri fjárhæðir í sínum bönkum en þar hefur verið miðað við.

Vandinn er sá að þessi mál eru enn í mikilli deiglu í Evrópu og það er svolítið erfitt að ræða við Evrópusambandið um sérlausnir Íslands á meðan Evrópusambandið veit ekki sjálft hvernig það ætlar að hafa reglurnar að endingu. Það er ein meginástæða þess að við höfum beðið átekta með frekari aðgerðir á sviði löggjafar hér að málin liggja alls ekki skýrt fyrir af hálfu Evrópusambandsins. Á meðan gildir auðvitað sú yfirlýsing sem hér hefur verið marggefin og ítrekuð að innstæður eru tryggðar og að okkar gjaldþrotaskiptalöggjöf er þannig í dag að innstæður eru forgangskröfur í bú. Það má því segja að það sé ríkulega um það búið í bili. Það er til dæmis ein spurning sem þarf að fást á hreint hvort við getum reiknað með því, eða megum ef við svo kjósum, að hafa okkar löggjöf þannig til frambúðar.



[15:35]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það virðist gæta ákveðins misskilnings hjá hæstv. ráðherra í svari hans. Það er þannig að Evrópuþingið er að véla um þessi mál. Þegar ég talaði við þá þingmenn sem þarna voru voru þeir allir sammála um að það fyrirkomulag sem er í gangi eða liggur núna í drögum og þeir hafa verið að ræða hentar ekki fyrir Ísland. Þeir spurðu mig af hverju enginn frá ríkisstjórn Íslands hefði komið og upplýst okkur um þetta, því að enginn hafði upplýst þá þingmenn sem eru að fara með þetta frá Íslandi um stöðu Íslands, enginn. Ég veit það vegna þess að ég talaði við flesta þingmenn sem eru í þessari nefnd. Þess vegna talaði ég við hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og upplýsti hann um málið, átti fundi með honum og bauðst til að aðstoða eins og ég gæti til að koma þessum skilaboðum áleiðis. Það er vilji hjá þeim að fara yfir þetta en ég skil þetta ekki. Við getum deilt um ýmislegt en getum við ekki unnið saman í þessu máli. Getur hæstv. ríkisstjórn ekki (Forseti hringir.) gengið í það og notað þau tæki sem við höfum, sem eru meðal annars samskipti við þingmenn Evrópuþingsins, til að koma hinum augljósu hagsmunum Íslands á framfæri?



[15:36]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Jú, ég tel að það sé auðvitað mjög mikilvægt að við notum öll tækifæri og alla farvegi sem okkur bjóðast til að upplýsa um stöðu mála og koma á framfæri þeirri sérstöðu sem við höfum eða kjósum að hafa í þessum efnum, eins og hv. þingmaður nefndi samskipti við þingmenn, EES- og EFTA-nefndina og aðra slíka farvegi sem við höfum sem og auðvitað samskipti stjórnvalda. Það eru engar fréttir, það þarf ekki hv. þingmann til að upplýsa það sem við væntanlega vitum öll að bæði Evrópuþingið og framkvæmdastjórnin eru með þessi mál í höndunum en það hefur dregist mjög að það skýrðist í hvaða niðurstöðu það stefndi. Það eru alla vega þær upplýsingar sem ég fæ frá þeim sérfræðingum sem eru að vakta þetta fyrir okkur.

Til að hugga hv. þingmann bar þetta á góma á fundi sem ég átti með þeim manni sem fer með efnahagsmál innan embættis stækkunarstjórans í Brussel í lok janúar þar sem ég fór yfir það hver staðan væri hjá okkur varðandi gjaldeyrishöftin, varðandi fyrirkomulag innstæðutrygginga (Forseti hringir.) og það bráðabirgðaástand sem hér ríkti af þessum sökum. Þannig að að minnsta kosti á þeim vettvangi var þeim upplýsingum komið á framfæri. En að sjálfsögðu er gott að eiga liðsmann í hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni í þessum efnum eins og fleirum og nýta hans víðtæku sambönd við þingmenn í Evrópu til að koma okkar málstað þar á framfæri.