140. löggjafarþing — 111. fundur.
lokun útibúa Landsbankans á landsbyggðinni.

[10:39]
Jón Bjarnason (Vg):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra fer með meiri hluta og hlutabréf ríkisins í Landsbanka Íslands. Við vorum stolt af því og það hefur verið stefna þessarar ríkisstjórnar að ríkið ætti að eiga einn sterkan banka og eiga afgerandi meiri hluta í honum til þess einmitt að geta tryggt ákveðið grunnsiðferði, ákveðna þjónustu, ákveðna starfsemi sem banki verði að bera ábyrgð á. Banki er fyrst og fremst þjónustustofnun.

Nú, síðustu daga með deginum í dag, er Landsbankinn að loka fjölda útibúa sinna á Austurlandi, Vestfjörðum og Snæfellsnesi þvert ofan í gefin loforð um að efla, styrkja og bæta þjónustuna. Ég hef meira að segja heyrt að forsvarsmenn bankans hafi nýlega farið þar um héruð og lofað þar öflugri og góðri þjónustu líkt og ESB-sendiherrarnir. Ég spyr hæstv. ráðherra:

Eru þessar lokanir í samræmi við eigendastefnu ríkisins varðandi Landsbankann?

Hvað er gert ráð fyrir að Landsbankinn skili miklu í arð til ríkisins og hvað ráðgerir ríkissjóður eða ríkið að taka mikið af arðgreiðslum út úr Landsbankanum á þessu og næsta ári?

Var haft samráð og samband við (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra sem fer með ábyrgð á eigendahlutnum áður en þessar ákvarðanir voru teknar nánast fyrirvaralaust af hálfu forsvarsmanna Landsbankans?



[10:42]
fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, þann 24. maí síðastliðinn tilkynnti Landsbankinn um hagræðingaraðgerðir sem fela meðal annars í sér sameiningu og lokun útibúa á Austurlandi, Vestfjörðum, Snæfellsnesi og í Reykjavík og sameiningu deilda í höfuðstöðvum bankans. Þess má geta að þessi hagræðing nær aðallega til útibúa sem Landsbankinn yfirtók hjá Sparisjóði Keflavíkur fyrir rúmu ári. Bankinn áætlar að um 400 millj. kr. sparist á ári með þessum breytingum en slíkar hagræðingarákvarðanir eru algjörlega á forræði stjórnar hans, ekki eigendanna eins og lög gera ráð fyrir og eins lög um hlutafélög og eigendastefna ríkisins. Í eigendastefnunni er skýrt tekið fram að Bankasýsla ríkisins sem fer með eignarhlutinn skuli ekki taka þátt í daglegum rekstri banka og sparisjóða.

Eftir hrun hefur verið á það bent að þörf sé á hagræðingu. Við lokun þessara útibúa fer þjónustan auðvitað niður en verra er að þarna afleggjast mörg störf. Vissulega finnst mér það ekki skemmtilegt, ég er ekki ánægð með það. Mér þykir verst að bankinn skuli einnig loka á stöðum þar sem um erfiða fjallvegi er að fara. Ef ríkið vill hins vegar hafa áhrif á starfsemi bankans verður það að gerast í gegnum lög og samninga og eigendastefnu. Þá þurfum við að fara í þá vinnu að breyta því en það er ekki skynsamlegt skref hjá fjármálaráðherra að fara að beita sér gegn einstökum ákvörðunum stjórnarinnar, það væri reyndar ekki samkvæmt lögum sem hv. þingmenn settu hér sjálfir og (Forseti hringir.) byggðu þar eldvegg á milli eigenda og rekstraraðila.



[10:44]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að hæstv. fjármálaráðherra skilji ekki hlutverk sitt í þessum efnum. Þessar breytingar eru miklu meiri en einhverjar almennar breytingar í rekstri Landsbankans. Þetta er þjónustustofnun um allt land, verið er að skera niður og loka þjónustustöðvum, sem eru mikilvægur hlekkur í heildarstarfi og þjónustu og búsetu á viðkomandi svæðum, með þeim hætti að það er eins og verið sé að hefja stríð. Það er tilkynnt um aðgerðirnar með tveggja eða þriggja daga fyrirvara, rétt fyrir hvítasunnu. Það eru ekki siðleg vinnubrögð. (Utanrrh.: Þetta er til skammar.) Það er til skammar, eins og utanríkisráðherra segir, og meira en það, í eigendastefnu bankans stendur meðal annars að byggja skuli upp heilbrigt og öflugt fjármálakerfi sem þjónar hagsmunum íslensks samfélags. (Forseti hringir.) Þá skuli líka tryggja góða þjónustu við heimili og fyrirtæki hvarvetna í landinu. Var það borið undir ráðherrann að þessi niðurskurður (Forseti hringir.) á þjónustu væri til að tryggja þjónustu við heimili og fyrirtæki á viðkomandi svæðum? Nei. Það er ekki mitt mat og ég tel að (Forseti hringir.) ráðherra hafi ekki gert sér grein fyrir ábyrgð sinni þarna í þessum efnum og að henni beri nú þegar að grípa til aðgerða (Forseti hringir.) hvað þetta varðar.



[10:45]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti hvetur hv. þingmenn til að virða tímamörk.



[10:45]
fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég er ekki ánægð með þau orð hv. þingmanns þegar hann heldur því fram að fjármálaráðherra geri sér ekki grein fyrir ábyrgð sinni. (Gripið fram í.) Ég spyr hv. þingmann á móti hvort hann hafi lesið lögin sem gilda um fjármálastarfsemi hér á landi.

Breytingar Landsbankans fela í sér að afgreiðslur úti á landi í útibúum á átta stöðvum og Landsbankinn hefur talað um að hann muni vera með ýmsa þjónustu til mótvægis þessu. En það sem skiptir máli er að Landsbankinn og Bankasýslan starfa eftir lögum og stefnumörkun um starfsemina og ef við ætlum að skapa annan ramma utan um þann rekstur og gera aðrar kröfur til Landsbankans en annarra banka sem starfa á sama samkeppnismarkaði verðum við að gera það í gegnum lög og eigendastefnu. Þá þurfum við að taka afstöðu til þess hvort Landsbankinn eigi að starfa með öðrum hætti en aðrir bankar (Forseti hringir.) á sama markaði. Þá er spurning hvort ríkiseignin hafi eitthvað með samkeppnisstöðuna að gera. (Forseti hringir.) Þess má geta að þessi lokun útibúa skapar auðvitað tækifæri fyrir til dæmis sparisjóðina að hasla sér völl á þessum stöðum.



[10:47]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti minnir á að tímamörk gilda einnig fyrir hæstv. ráðherra og eru þeir beðnir um að virða þau.