141. löggjafarþing — 7. fundur
 20. september 2012.
samningsveð, 1. umræða.
frv. LMós o.fl., 23. mál (fasteignaveðlán - lyklafrumvarpið). — Þskj. 23.

[16:34]
Flm. (Lilja Mósesdóttir) (U):

Virðulegi forseti. Ég mæli nú í fjórða sinn fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um samningsveð. Þetta frumvarp er í daglegu tali kallað lyklafrumvarpið. Flutningsfólk er úr öllum flokkum nema Samfylkingunni og á þessu frumvarpi er í fyrsta sinn þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson.

Í fyrri grein frumvarpsins segir að lánveitanda, sem veitir lántaka lán gegn veði í fasteign sem ætluð er til búsetu, sé ekki heimilt að leita fullnustu fyrir kröfu sinni í öðrum verðmætum lántaka — til dæmis bíl eða sumarbústað — en veðinu, sem er fasteignin, nema krafa hafi orðið til vegna saknæmra athafna eða meintra brota lántaka á lánareglum. Til viðbótar stendur í fyrri greininni að krafa lánveitanda á lántaka skuli falla niður ef andvirði veðsins, þ.e. markaðsvirði fasteignarinnar, nægir ekki til greiðslu hennar.

Í seinni grein frumvarpsins er rætt um gildistíma frumvarpsins og það gildir fram í tímann, það nær yfir þá lánasamninga sem gerðir eru eftir samþykkt frumvarpsins sem lög. Það er líka afturvirkt. Ástæðan fyrir því að frumvarpið felur í sér afturvirkni er forsendubresturinn sem varð hér eftir hrun, sérstaklega hvað varðar verðtryggð fasteignalán sem hafa tekið á sig rúma 40% hækkun vegna verðbólguskotsins. Afturvirkni þykir nauðsynleg nú þegar við sjáum fram á að það stefni í annað hrun, ekki bankakerfisins heldur fjárhagshrun heimila með verðtryggð fasteignalán.

Markmið þessa frumvarps er tvíþætt. Í fyrsta lagi að innleiða úrræði fyrir fólk sem hefur orðið fyrir forsendubresti og á í vaxandi mæli erfitt með að standa í skilum af lánum sínum, er búið að nota sparifé sitt til að greiða niður höfuðstólinn og nýta séreignarsparnaðinn til að auðvelda sér afborganir af fasteignalánum sínum.

Í öðru lagi er markmiðið að veita lántakendum rétt sem styrkir samningsstöðu þeirra. Það er ekki gert ráð fyrir að þeir nýti sér endilega þann rétt heldur nýti hann til að styrkja stöðu sína í samningaviðræðum við lánveitendur. Þeir geta með þessum rétti hótað því að skila inn lyklunum að eigninni ef lánastofnunin er ekki tilbúin til að skrifa niður lán að verðmæti eignarinnar.

Þetta frumvarp hefur verið gagnrýnt og þykja fyrst og fremst þrír þættir gagnrýnisverðir. Í fyrsta lagi muni slíkur réttur lántakenda hindra eða takmarka aðgang einstaklinga að lánsfé. Þetta finnst mér dálítið einkennileg gagnrýni vegna þess að rétturinn til að skila inn lyklum að eign sem er yfirskuldsett hefur verið við lýði í Bandaríkjunum frá því í kreppunni miklu. Þess má geta að öll skuldaúrræði bandarískra yfirvalda fela í sér að fólk geti alltaf, ef ekki dugar að skrifa niður skuldir, afhent lyklana og það sem eftir stendur af skuldinni fellur niður.

Annað atriði sem hefur verið gagnrýnt er að verið sé að ganga á eignarrétt kröfuhafa. Það er svo merkilegt hér á landi að eignarréttur kröfuhafa virðist vera heilagur réttur, að minnsta kosti samanborið við eignarrétt fólks með verðtryggð lán. Það virðist ekki vefjast fyrir neinum að hér hafi verið innleidd verðtrygging sem gengur á hlut fólks í fasteign sinni, sérstaklega af því að um var að ræða kerfishrun sem enginn gat séð fyrir. Þessi gagnrýni á rétt á sér að því leytinu til að þarna er verið að skoða réttindi út frá hagsmunum kröfuhafa en ekki hagsmunum lántakenda.

Í þriðja lagi hefur komið fram sú gagnrýni að búið sé að innleiða öll úrræði sem þörf er á til þess að taka á skuldavanda heimilanna. Það er vissulega rétt að mörg úrræði hafa verið lögfest frá hruni. Sum þeirra hafa runnið út, önnur eru nýrri og sem dæmi um ný úrræði má nefna 110%-leiðina og sérstaka vaxtaniðurgreiðslu. En vandamálið við þessi úrræði er að þau hafa ekki komið í veg fyrir fjölgun einstaklinga í alvarlegum vanskilum, sem er í mínum huga merki um að ekki sé búið að gera nóg til að taka á skuldavandanum.

Samkvæmt upplýsingum frá Creditinfo sem birtust í ágúst eru einstaklingar í alvarlegum vanskilum núna tæplega 26.700 talsins og þeim hefur farið fjölgandi. Ef við skoðum aldursskiptinguna í þessum hópi eru alvarleg vanskil algengust í aldurshópnum 40–49 ára. Það er mikilvægt að hafa það í huga í ljósi þess að það á víst að aðstoða skuldsett heimili sem eru í erfiðleikum með barnabótum. Ég geri ekki ráð fyrir að margir þeirra í þessum aldurshópi eigi rétt á hærri barnabótum vegna þess að þeir eru komnir með uppkomin börn. Hærri barnabætur munu auðvitað hjálpa einstæðum foreldrum sem eru frekar í vanskilum en aðrir hópar, þó svo að það sé ekki fjölmennasti hópurinn.

Í nýlegri greiningu Seðlabankans á skuldavanda heimilanna kom fram að almenn leiðrétting lána mundi fækka heimilum í greiðsluvanda og skuldavanda um samtals 15.000. Til samanburðar má geta þess að helstu skuldaúrræði ríkisstjórnarinnar, sem er 110%-leiðin og sérstök vaxtaniðurgreiðsla, hafa aðeins fækkað heimilum í vanda um 1.450. Ekki nóg með að þessi úrræði séu ekki jafnáhrifamikil í að aðstoða heimilin og almenn leiðrétting heldur hafa þau fyrst og fremst fallið í skaut heimila sem ekki eru í greiðsluvanda, þeirra heimila sem skuldsettu sig mest en ráða kannski við afborganir af lánum sínum. Það er í algjörri andstöðu við það sem hæstv. ríkisstjórn hefur haldið fram að hún sé að reyna að gera.

Frumvarpið tekur til lána sem veitt eru með hvers konar veði í fasteign ætlaðri til búsetu og óháð því hvernig andvirði lánsins er ráðstafað. Fólk má hafa tekið lán með veði í fasteign sinni og nýtt það til kaupa á bifreið eða sumarbústað án þess að það skerði rétt þess til að skila inn lyklunum að veðsettri eign. Ástæðan fyrir því er að ekki er gerður greinarmunur á því í hvað lánið var notað þegar metið er hvort fólk eigi rétt á þessu úrræði er sú að það er mjög erfitt að sanna að viðkomandi hafi ekki notað lán sem er með veði í fasteigninni í neitt annað en að kaupa íbúðina.

Hv. þm. Pétur Blöndal gagnrýndi þetta ákvæði fyrr í umræðunni og talaði um að það væri ekki réttlátt að veita bara rétt til að skila inn lykli að fasteign heldur ætti að útvíkka hann og það ætti jafnvel að vera skylda að skila inn allri lyklakippunni, þ.e. öllum lyklum svo sem lyklum að bifreið, sumarbústað og öðrum eignum. Það er vissulega hægt að takmarka þennan rétt á einhvern hátt með því að segja t.d. að allir þeir sem eiga ekki aðrar eignir yfir 10 milljónum eigi rétt á þessu. En ég hef mjög slæma reynslu af því, frú forseti, að reynt sé að takmarka á einhvern hátt réttindi lántakenda þegar kemur að skuldaúrræðum. Mér er mjög minnisstætt þegar við vorum að vinna í 110%-leiðinni. Ég reyndi að stoppa það frumvarp sem var með ákvæði um að fólk mætti ekki eiga bifreið til þess að eiga rétt á niðurfellingu skulda að 110% af virði eignarinnar. Þetta ákvæði var innleitt í lög um 110%-leiðina fyrir Íbúðalánasjóð en náði ekki til bankanna. Þeir geta sjálfir ákveðið hvaða úrræði þeir innleiða þar sem þeir eru komnir í einkaeigu, fyrir utan Landsbankann. Þetta ákvæði varð til þess að viðskiptavinir bankanna fengu miklu meira, þeir gátu haldið bifreið sinni en fengið niðurfelldar skuldir að 110% en ekki þeir sem voru með lán hjá Íbúðalánasjóði.

Auk þess eiga mjög margir einstæðir foreldrar erfitt með að vera án bíls og ekki bara einstæðir foreldrar heldur líka fólk sem býr úti á landsbyggðinni og þarf að sækja vinnu um langan veg. Ég hef heyrt sögur af fólki sem ekki lengur á rétt á atvinnuleysisbótum og er sagt að sækja vinnu í næsta byggðarlag en vegna þess að það hefur farið 110%-leiðina á það ekki bifreið og það eru engar almenningssamgöngur á milli þessara byggðarlaga. Það eru því alls konar hliðarverkanir af því að setja takmörk á réttindi fólks. Það veldur því að maður veltir fyrir sér hvort það sé réttlætanlegt að vera alltaf með smásjána á fólki til að tryggja að enginn sleppi í gegnum nálaraugað.

Frú forseti. Það má geta þess að Íbúðalánasjóður og viðskiptabankarnir hafa nú þegar innleitt lyklafrumvarpið. Það má segja að það sé ákveðinn árangur af því að hafa lagt þetta frumvarp fram fjórum sinnum á þingi. Við flutningsmenn frumvarpsins höfum náð meiri árangri utan þings en innan við að fá þetta úrræði í gegn. Íbúðalánasjóður hefur innleitt lyklafrumvarpið og hann aðhefst ekkert í að innheimta kröfur ef verðmæti íbúðarinnar dugar ekki fyrir kröfunum. Hann hafnar reyndar því að veita einstaklingum lán sem hafa skilað inn eign sinni án þess að andvirðið hafi greitt upp allt lánið. Það er mjög miður í ljósi þess að ástæðan fyrir því að margir hafa þurft að skila inn lyklum að eign sinni er forsendubrestur, eitthvað sem ekki var hægt að sjá fyrir.

Margir bankar hafa líka boðið upp á þessa lyklalausn fyrir viðskiptavini sína en ég hef líka heyrt, frú forseti, að ekki sé öllum viðskiptavinum bankanna boðin þessi lausn. Þess vegna er svo mikilvægt að innleiða slíkan rétt í lög þannig að allir geti veifað lögunum þegar þeim er hafnað um úrræði sem t.d. vildarvinir hafa fengið.

Ég vil að lokum, frú forseti, hvetja þingmenn til þess að bregðast við því sem ég tel að sé yfirvofandi, skuldakreppa heimilanna, og samþykkja m.a. þetta frumvarp og veita fólki þar með rétt til þess að skila inn eign og fá skuldir umfram andvirði veðsins niðurfelldar. Ég tel að þau réttindi sem ákvæði frumvarpsins fela í sér muni stuðla að vandaðri lánastarfsemi og hvetja bankana til þess að lána ekki umfram greiðslugetu lántakenda, og jafnframt að lána ekki umfram verðmæti hinnar veðsettu eignar.



[16:51]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég ætla svo sem ekki að halda langa ræðu. Þetta er þriðja málið um skuldir heimilanna sem er á dagskrá í dag, salurinn nánast tómur. Gaman að því eða þannig. Ég vil þó beina til nefndarinnar sem fær þetta mál til skoðunar, ef einhverjir nefndarmenn skyldu vera á skrifstofunum sínum að horfa á þessar umræður, að skoða það vel í samhengi við önnur mál og hugsanlegar lausnir á skuldum heimilanna. Það sem hér er lagt til getur verið lausn og getur styrkt samningsstöðu fólks en fleira þarf til. Það getur verið lausn fyrir einhverja en við eigum að reyna að koma til móts við sem flesta og skoða allar mögulegar lausnir.

Því fagna ég því að málið sé komið eina ferðina enn inn í þingið. Það er mjög vel kynnt, það þekkja það margir. Mikið hefur verið kallað eftir því í samfélaginu að fá þetta úrræði. Það er þekkt frá öðrum löndum og menn vita hvernig það hefur gengið þar. Það hefur orðið til þess að fólk hefur getað gengið frá eignum sínum og verið laust mála og byrjað upp á nýtt annars staðar eða á sama stað en með öðrum hætti. Það veltir líka ábyrgðinni af lánveitingunni að hluta til á þann sem veitti lánið. Það er gott því að við getum ekki haft það þannig í þjóðfélaginu að lánveitandinn sé alltaf með belti og axlabönd og sá sem tekur lánið sé alltaf í rússneskri rúllettu.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um málið en vona bara að það verði skoðað vel í eitt skiptið enn og jafnvel samþykkt.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.