144. löggjafarþing — 37. fundur
 27. nóvember 2014.
verkefnisstjórn rammaáætlunar.

[11:34]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það var mér og nokkrum öðrum hér á þingi nokkuð þungbært á síðasta kjörtímabili að samþykkja tillögu að flokkun rammaáætlunar sem fól í sér virkjunarkosti sem voru mér og mörgum öðrum þvert um geð. Ég nefni til dæmis virkjunarkosti á Reykjanesi eins og Eldvörp, vatnsaflsvirkjun eins og Hvalárvirkjun á Ströndum, sem maður samþykkti þó að væri manni þvert um geð, eins og ég sagði, vegna þess að maður bar virðingu fyrir því verkferli og því verkfæri sem felst í rammaáætlun. Manni fannst það vera skylda sín að taka þátt í því að leysa málið með faglegum hætti þannig að til framtíðar horfði í þessum málaflokki vegna þess að hann hefur einkennst af gríðarlegum deilum og átökum og hefur meira að segja verið sá málaflokkur þar sem menn hafa gengið fram og sprengt upp mannvirki í ósætti.

Nú langar mig að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra, í ljósi þeirra tíðinda sem nú blasa við, að hv. atvinnuveganefnd leggur til að átta kostir verði færðir í nýtingarflokk, hvort hún styðji þessar fyrirætlanir fyrir það fyrsta. Í annan stað: Hver er hennar hugmynd að verkefnisstjórn um rammaáætlun núna? Ætlar hæstv. ráðherra að leysa verkefnisstjórnina upp og senda hana heim? Hvert er hlutverk hennar ef ákvarðanatakan hefur verið færð með þessum hætti inn í þingið? Látum liggja milli hluta þá virkjunarkosti sem vegna umsagna voru teknir og settir í biðflokk, tökum bara Hagavatn og Hólmsá sem voru ekki færðir með þeim hætti heldur voru ókláraðir — lítur hæstv. iðnaðarráðherra þannig á að það sé í lagi að taka þá kosti úr höndum verkefnisstjórnar?

Fyrst og síðast: Hvað á verkefnisstjórn um rammaáætlun að gera núna að mati hæstv. ráðherra?



[11:36]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil í fyrsta lagi geta þess að sú sem hér stendur skipar hvorki né leysir verkefnisstjórn frá störfum þar sem það er á forræði umhverfisráðherra eftir breytingar í tíð síðustu ríkisstjórnar. Því er til að svara varðandi það mál.

Varðandi þá tillögu sem hér liggur fyrir frá atvinnuveganefnd og rædd var áðan tel ég að sjálfsagt sé að skoða hana og að kalla eftir athugasemdum við hana eins og nefndin leggur til. Ég hef ekki farið leynt með þá skoðun mína frá því verkefnisstjórn skilaði af sér því verkefni sem henni var falið, þ.e. að skoða þessa átta virkjunarkosti, að hún lauk ekki því verkefni heldur tók á endanum út þrjá virkjunarkosti í neðri hluta Þjórsár og bar þá saman. Það þótti mér ekki vera í samræmi við það verkefni sem henni var falið og því hef ég gagnrýnt það.

Fram hafa komið ný gögn í þessu máli eins og formaður atvinnuveganefndar greindi frá áðan. Ég vek athygli á því að fulltrúi ráðuneytis míns, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, í verkefnastjórninni gerði fyrirvara við afgreiðslu verkefnisstjórnar vegna þess að ekki hafði verið tekið tillit til gagna sem komu m.a. frá Landsvirkjun um málið við afgreiðslu verkefnisstjórnarinnar. Ég tel því fulla ástæðu til þess að fara vel yfir þessa kosti.

Þrátt fyrir umræðurnar hérna áðan hafi verið heitar og fólki hafi verið heitt í hamsi held ég að við séum öll sammála um að viljum koma rammaáætlun aftur á þann stað sem hún var á — áður en síðasta ríkisstjórn greip fram fyrir hendurnar á þáverandi verkefnisstjórn. Þar fórum við út af sporinu. (Forseti hringir.) Nú legg ég til að við komum henni í sameiningu (Forseti hringir.) aftur upp á teinana. (Gripið fram í.)



[11:39]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Hér er enn gripið til þess ráðs að halda því fram að farið hafi verið út úr ferlinu á síðasta kjörtímabili. Það var 12 vikna lögbundið umsagnarferli sem leiddi til þess að ákveðnir virkjunarkostir voru settir í biðflokk. Það er ákaflega mikilvægt að þetta liggi fyrir hér. Sá sem hér stendur tók ekki þátt í neinum samningaviðræðum í neinum herbergjum um þetta heldur fór fyrst og síðast eftir því faglega ferli sem lá til grundvallar. Ef til vill man hæstv. ráðherra eftir því að sá sem hér stendur var ekki þátttakandi í stjórnarflokkum síðasta veturinn hér á þingi heldur tók faglega afstöðu til þeirrar niðurstöðu sem lá fyrir.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra út af því að honum virðist vera orðið svolítið umhugað um það að klára verkefni: Hvað gerist eftir að umsagnarferli lýkur hjá hæstv. atvinnuveganefnd? Eiga þær umsagnir að fara til verkefnisstjórnarinnar? (Forseti hringir.) Fær verkefnisstjórnin að fara yfir málið og þessar (Forseti hringir.) virkjunarhugmyndir? Eða lítur ríkisstjórnin svo á að hennar verkefni og hennar störfum sé lokið?



[11:40]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Fara þarf vel yfir mismunandi lagatúlkanir um hvað þinginu er heimilt að gera. Í lögum um rammaáætlun er tekið fram að þingið taki á endanum ákvörðun um virkjunarkosti að fenginni umsögn og síðan er litið til þess hvað þinginu hefur verið falið af verkefnisstjórninni. Túlka má það á mismunandi vegu væntanlega, og það er það sem nefndin mun standa frammi fyrir núna. Ég tel að allir þeir kostir sem eru hér til umfjöllunar hafi komið til kasta þingsins á hinum ýmsu tímapunktum. Ég tel því sjálfsagt að fara þessa leið, leita umsagnar, og í ljósi þeirra umsagna sem berast taka ákvörðun um það hvernig fara eigi með þessa tillögu.