145. löggjafarþing — 18. fundur
 8. október 2015.
fjárframlög til rannsókna í ferðaþjónustu.

[10:45]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar aðeins að ræða um ferðaþjónustuna í ljósi þess að ráðherra var að kynna nýtt plan og ekkert nema gott um það að segja, við fylgjumst með því hvernig því vindur fram. Það sem mig langar sérstaklega að ræða eru rannsóknir í ferðamálum. Ég sendi ráðherra skriflega fyrirspurn snemma á þessu ári minnir mig þar sem ég kallaði eftir því hversu miklum peningum væri varið í rannsóknir í þágu ferðaþjónustunnar, sjávarútvegs, landbúnaðar og iðnaðar. Ég veit að ég var að setja ráðuneytið í töluverða vinnu en mér fannst á sama tíma mjög mikilvægt að ráðuneytið byggi yfir þessum upplýsingum.

Ég verð að segja að mér finnst svarið mjög áhugavert. Það kemur í ljós að verið er að setja afskaplega litla fjármuni í rannsóknir á ferðaþjónustu, þessari mikilvægu atvinnugrein. Ég fæ í raun bara svör um atvinnuvegaráðuneytið, en ég veit að menntamálaráðuneytið setur að einhverju leyti peninga í rannsóknir í gegnum Háskólann á Akureyri sem fara til Rannsóknamiðstöðvar ferðamála.

Þetta finnst mér vera áhyggjuefni, hve lítið fjármagn er veitt til rannsókna. Í svarinu kemur fram að árið 2013 eru það 168 milljónir. Í fjárlögum í ár, 2015, voru settar aukalega 60 milljónir sem skiptust á milli Bifrastar að mig minnir og RMF, en framlagið fellur niður í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016. Í ljósi þess hversu mikilvæg þessi atvinnugrein er og það kemur líka fram í þeirri vinnu sem fór fram, í þessum vegvísi um ferðamál, að rannsóknir séu mjög mikilvægar — það segir beinlínis hérna: Áreiðanleg gögn eru ómissandi og það er ágætiskafli einmitt um mikilvægi rannsókna í ferðaþjónustunni — þá hlýt ég að spyrja hæstv. ráðherra: Hvaðan eiga þá peningarnir að koma? Hvað erum við að fara að gera til dæmis strax á næsta ári? Þetta er ekki eitthvað sem við ætlum að byrja á eftir fimm ár, við ættum þegar að vera byrjuð. Og af því að ég er með þessar tölur hérna þá eru til dæmis framlög til rannsókna í sjávarútvegi um 3 milljarðar, en það fóru sem sagt 168 milljónir til rannsókna í ferðaþjónustunni á árinu 2013.



[10:47]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég get nánast tekið undir hvert orð. Það er einmitt það sem við urðum fljótlega áskynja í stefnumótunarvinnunni, sem við kynntum núna síðastliðinn þriðjudag, þegar við vorum að greina stöðu ferðaþjónustunnar að það vantaði traustan grunn. Við vorum ekki með áreiðanleg, tímanleg, alþjóðlega samanburðarhæf gögn til þess að geta sett okkur markmið. Þess vegna er það eitt af forgangsverkefnum sem við setjum okkur í þessari stefnumótunarvinnu.

Það er líka rétt sem hv. þingmaður bendir á að rannsóknirnar liggja víða. Þingmannanefnd, menntamálaráðuneytið, ég get nefnt það að hæstv. forsætisráðherra fer með málefni Hagstofu Íslands. Þar fara fram gríðarlega mikilvægar rannsóknir. Við erum með sérstakan samning við Hagstofuna um svokallaða ferðaþjónustureikninga sem lagðir voru af hérna á árunum eftir hrun. Við endurvöktum þá og leggjum til að því starfi verði haldið áfram og það verði unnið sem hluti af ferðaþjónustureikningi. En þetta viðfangsefni er kannski klassískt dæmi um það af hverju við ákváðum að fara þá leið sem við gerum og leggjum til í vegvísinum sem við kynntum á þriðjudaginn. Við verðum að vinna þetta þverfaglega, öll ríkisstjórnin, greinin sjálf og sveitarfélögin verða að koma sameiginlega að þeim viðfangsefnum sem snerta ferðaþjónustuna og áður en við getum sett ákveðnar upphæðir í fjárlögum til rannsókna þá verðum við að vita í hvaða rannsóknir við viljum eyða og hvaða rannsóknir er verið að gera núna. Það verður eitt af fyrstu verkefnum sem við munum fara í.

Ég segi það hins vegar að ég mun beita mér fyrir því og leggja til síðar í fjárlagagerðinni að við komum inn með einhver framlög til rannsókna (Forseti hringir.) vegna þess að ég tek algjörlega undir með hv. þingmanni að þær eru gríðarlega mikilvægar.



[10:50]
Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka svarið og ég fagna því að settir verði meiri fjármunir í þetta. Ég get tekið fram varðandi þetta svo ég haldi áfram, mér finnst svo gaman að glugga í þessi gögn, að það fór t.d. hátt í milljarður í rannsóknir í þágu landbúnaðar á árinu 2013. Ég er ekki að segja að þar sé endilega verið að setja of mikið fé. En við munum þá væntanlega sjá þess stað í fjárlagagerðinni að meiri fjármunir komi inn til rannsókna í ferðaþjónustu.

Mér finnst líka mikilvægt að benda á að þetta umhverfi, rannsóknarumhverfi, er gríðarlega flókið og það ætti að vera forgangsverkefni að koma þessu á færri hendur. Þetta er eins og ég segi og eins og kemur í ljós í þessu svari eiginlega út um allt og undir mismunandi ráðherrum. Þar af leiðandi er mjög gott hvað margir ráðherrar koma að þessari vinnu. Ég vil hvetja ráðherrann til dáða. Ég held að við höfum öll skilning á þessu en það þarf algjörlega að spýta í lófana hvað þetta varðar og ég ítreka þá ósk og kröfu um að rannsóknir í þágu ferðaþjónustunnar verði efldar til muna.



[10:51]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni áskorunina og hvatninguna og óska eftir liðsinni hv. þingmanns og annarra þingmanna við að gera bragarbót á þessu, ekki síst gagnvart þeim fjárveitingum sem lagðar eru til. Þetta snýst nefnilega líka um það, eins og við höfum kannski séð annars staðar í ferðaþjónustunni, t.d. í Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, að nýta fjármunina sem best, að við séum að setja upp þannig verklag að við vitum hvaða verkefni liggur mest á að fara í, forgangsröðum fjármunum og kröftum í þau verkefni og látum keðjuna virka sem eina heild. Í framkvæmdasjóðnum höfum við séð að keðjan rofnar, það vantar hlekki þannig að á allra næstu dögum munum við setja allan kraft í að gera sem mest á stuttum tíma svo við getum vonandi lagt fram tillögur fyrir þingið við meðferð fjárlagafrumvarpsins og það er svo þingsins að ákveða hvort fallist verður á þær.