145. löggjafarþing — 25. fundur
 22. október 2015.
sérstök umræða.

gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[13:31]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Í hátt í tvö ár hefur verið fjallað um gjaldtöku á ferðamannastöðum og ólögmæti þeirrar gjaldtöku. Með undantekningum höfum við orðið vitni að þegjandi samþykki ríkisstjórnarinnar við augljósum lögbrotum og þá hefur ekki síst afstaða hæstv. ferðamálaráðherra vakið athygli en með framgöngu sinni virðist hún vilja skapa hefðarrétt til eignar á náttúruperlum og nýtingu þeirra í ábataskyni fyrir einkaaðila. Þetta er sambærilegt við það sem gerst hefur varðandi sjávarauðlegðina.

Í 1. gr. fiskveiðilaga segir að sjávarauðlegðin sé sameign íslensku þjóðarinnar. Síðan fengum við kvótakerfi sem opnaði á kaup og sölu á kvóta, á framleigu kvóta. Það er farið að veðsetja kvóta og svo brá við þegar hrófla átti við þessu kerfi að fram stigu lögspekingar, þar á meðal úr Háskóla Íslands, sem héldu því fram að það stæðist ekki að breyta kerfinu vegna þess að skapast hefði hefðarréttur til þessarar eignar. Við munum að þetta gerðist á árinu 2013.

Það er margt sem hefur gerst á þessu sviði frá því fyrst var farið að tala um þessi mál. Ferðamönnum til Íslands hefur fjölgað mjög og þeir hafa fært gríðarlegar tekjur inn í íslenskt þjóðarbú, þannig að hleypur á mörg hundruð milljörðum króna. Þessir fjármunir hafa að nokkru leyti skilað sér inn í hirslur ríkissjóðs í gegnum skattheimtu af ýmsu tagi og inn til sveitarsjóða að einhverju leyti. Þarna eru fjármunir, nauðsynlegir fjármunir, til að ráðast í margvíslega uppbyggingarstarfsemi og varnir fyrir náttúruna í ljósi þessa mikla ágangs.

Við sjáum það gerast núna, eftir að náttúrupassinn fékk þá útreið sem hann fékk, og síðan virðist gistináttagjald og komugjald til landsins ekki hafa fengið náð fyrir augum stjórnvalda, að menn eru að leita leiða til að fara bakdyramegin. Þetta er að gerast á Þingvöllum, þar er í ráði að selja aðgang að þjóðgarðinum. Menn kalla þetta stöðumælagjald. En það er nú þannig að þegar við höldum til Þingvalla á 21. öldinni þá komum við þangað ekki fótgangandi og ekki ríðandi, það var á allt annarri öld, við komum á bílunum okkar og nú á að láta okkur borga fyrir að koma þangað — við sjálf, með fjölskyldur okkar og gesti. Þetta er náttúrlega gjaldtaka líka og væri fróðlegt að heyra álit ferðamálaráðherrans á þessu.

Það eru ekki bara opinberir aðilar sem vildu innheimta fé, það eru einkaaðilarnir. Það er að þeim sem ég beini fyrst og fremst sjónum mínum. Við þekkjum hvað gerðist við Geysi, í Námaskarði og í Kerinu. Þar var farið að rukka og enn er rukkað í Kerinu undir blaktandi þjóðfánanum. Það er búið að reisa þar skúr sem rukkarar hafa komið sér fyrir í og þeir innheimta peninga, hafa peninga af ferðafólki án heimildar. Er þetta mín prívatskoðun? Nei, þetta er engin prívatskoðun mín. Umhverfisstofnun úrskurðaði í júnímánuði árið 2014 að þetta væri ólöglegt. Ég vitna hér í blaðafregnir eftir að úrskurðurinn var birtur. Þar segir á visi.is, með leyfi forseta:

„Gjaldtaka landeigenda við Kerið og önnur svæði sem eru á náttúruminjaskrá stenst ekki lög að mati Umhverfisstofnunar. Þá telur stofnunin ekkert í lögum heimila gjaldtöku á öðrum ferðamannastöðum þótt þeir séu ekki á friðlýstum svæðum eða á náttúruminjaskrá.“

Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir spurði hæstv. umhverfisráðherra hvort þetta stæðist. Svar umhverfisráðherrans, í þeirri ríkisstjórn sem nú situr, er afdráttarlaust, með leyfi forseta:

„Ef tekið er gjald fyrir aðgang að náttúruverndarsvæði án þess að skilyrði 32. gr. séu uppfyllt er sú gjaldtaka óheimil samkvæmt lögum.“

Nú er spurning mín til hæstv. ráðherra: Þorir ráðherrann ekki að fara með þetta mál fyrir dóm af ótta við að hennar málstaður verði undir en málstaður almennings verði ofan á?



[13:36]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Þetta er ekki í fyrsta sinn, og ég hugsa ekki síðasta sinn, sem ég og hv. þingmaður ræðum þessi mál. Þetta er mjög kunnugleg ræða sem hann hefur flutt hér í dag. (Gripið fram í: Hún er góð.) Hún er alltaf jafn góð, ég hef heyrt hana nokkrum sinnum áður.

Það eru ýmsar fullyrðingar sem koma fram í máli þingmannsins. Í fyrsta lagi hóf hann mál sitt á að segja að í hátt í tvö ár hefði þetta mál verið hér til umræðu. Nei, virðulegur forseti, þetta mál hefur verið hér til umræðu mun lengur, líka þegar hv. þingmaður sat í ríkisstjórn og hafði þá kannski meira um það að segja hvaða lög væru sett í landinu. (ÖJ: Þá var ekki byrjað að rukka, enga svona útúrsnúninga.) Það er önnur fullyrðing sem hv. þingmaður kemur hér með og hún er sú að gjaldtakan, og hann nefnir Kerið, sé ólögmæt. Þar er ég ósammála hv. þingmanni vegna þess að það hefur enginn dómstóll ályktað um að slík gjaldtaka sé ólögmæt. Það sem meira er, það hefur ekkert dómsmál verið höfðað um það hvort þessi gjaldtaka sé ólögmæt. Þau dómsmál sem farið hefur verið í og dæmt hefur verið í, bæði varðandi Geysi og einnig fyrir norðan, snúa að því hvort meiri hluti landeigenda megi taka ákvarðanir í bága við minni hluta landeigenda, þetta er sem sagt húsfélagsmál og það hefur verið úrskurðað, og Hæstiréttur hefur staðfest það, að slíkt megi ekki. En það er ekki verið að úrskurða um það hvort það megi innheimta eða ekki.

Hv. þingmaður vísar í úrskurð Umhverfisstofnunar sem dómsvalds í þessu. Ég verð að vera ósammála því. Þetta var reyndar ekki úrskurður, heldur var þetta bréf sem Umhverfisstofnun sendi umhverfisráðherra í júní 2014. Þar heldur Umhverfisstofnun því fram að landeigendur við Kerið megi ekki innheimta gjald af ferðamönnum þar sem svæðið sé á náttúruminjaskrá, að Umhverfisstofnun hafi samkvæmt lögum umsjón með slíkum svæðum og að heimildir til gjaldtöku á slíku svæði séu á hendi Umhverfisstofnunar eða þeirra sem Umhverfisstofnun hefur gert samning við um umsjón svæðisins, en að þá verði að kveða á um heimildir til gjaldtöku í samningnum.

Við leituðum lögfræðiálits á þeim tíma varðandi þetta atriði. Í því lögfræðiáliti, sem við fengum frá fyrirtækinu Landslög, var niðurstaðan sú að með því að kveða á um að Umhverfisstofnun hafi umsjón með náttúruverndarsvæðum þá sé ekki verið að flytja hefðbundin eignarráð eigenda landsins til Umhverfisstofnunar. Meðal annars er bent á það í þeim úrskurði að ef svo hefði átt að vera þá væru ýmis ákvæði í lögunum óþörf, t.d. það þar sem kveðið er á um hvernig skuli fara með ef samkomulag næst ekki um friðlýsingu. (ÖJ: Skrifuðu Landslög …?) Landslög telja jafnframt að slíkt ákvæði — og ég vil biðja (Gripið fram í: Rólegur Ögmundur.) hv. þingmann um að hlusta á umræðuna —

(Forseti (ÞorS): Hljóð í salnum.)

um að flytja eignarráðin frá eigendunum væri að öllum líkindum andstætt stjórnarskrá.

Þá ætla ég að koma að því sem ég tel vera mikilvægast í þessu máli og það snýr að eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Við þurfum að fara eftir stjórnarskránni hér í þessum sal hvað sem okkur kann að finnast. Þar stendur skrifað skýrt: Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almannaþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir. Og eignarrétturinn, hann er skilgreindur neikvætt, þ.e. að gengið er út frá því að eigandi megi gera það sem hann vilji við eign sína nema þær heimildir séu takmarkaðar með beinum hætti með samningum eða lagaákvæði. Og það má líka draga þá ályktun að séu eignarréttindi landeigenda ekki takmörkuð með samningum eins og til dæmis í þessu máli eða í ákvæðum laga sé eiganda fasteignar bæði heimilt að banna umferð um fasteign og innheimta gjald af þeim sem vilja fara og skoða.

Þá komum við að almannaréttinum sem er líka mikilvægur, sannarlega. Hann er bundinn og varinn með lögum, en eignarrétturinn í stjórnarskrá. Ákvæði náttúruverndarlaga um almannarétt þarf því að skoða í samhengi við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Um þetta ríkir einfaldlega ekki einhugur. Hver er það þá sem úrskurðar? Er það hv. þm. Ögmundur Jónasson? Nei. Er það Umhverfisstofnun? Nei. Það eru dómstólar. Ég segi það aftur, hvort sem þingmanninum líkar það betur eða verr: Slíkt mál hefur ekki verið höfðað. (Gripið fram í.) Á meðan slíkt mál hefur ekki verið höfðað þá getur sú sem hér stendur ekki sent eða sigað lögreglunni á einn eða neinn (Forseti hringir.) vegna þess að iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem fer með ferðamál hér í landinu líka, hefur einfaldlega ekki heimildir til að siga lögreglunni á eitthvað sem er ekki búið að dæma um að sé ólöglegt. (ÖJ: … á móti almannarétti.)



[13:42]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir það fyrsta vil ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir að taka upp þessa umræðu hér, hún er mjög mikilvæg. Því miður er það þannig að ráðherra ferðamála skilar enn einu sinni auðu í þessu máli. Náttúrupassinn, sem hún lagði til, var versta leiðin og var klúður enda andaðist sú hugmynd í fæðingu. Það er líka vond leið að taka pening beint úr ríkissjóði, eins og verið er að gera núna til að redda ráðherranum frá þessu klúðri.

Mín skoðun og félaga minna í Samfylkingunni er sú að við eigum að útfæra það gjald sem síðasta ríkisstjórn kom á, þ.e. gistináttagjaldið, sem er 100 kr. í dag. Það má útfæra það á betri hátt miðað við reynsluna, en þetta gjald gefur um 300 millj. kr. í ár. Segjum að þetta yrði fært upp í 500 kr. og gæfi á bilinu 1,5–2 milljarða kr. Það eru miklar upphæðir. Gistináttagjald er þekkt leið út um allan heim og kemur ferðamönnum ekki á óvart. Við sjáum það á reikningum þegar við borgum sjálf hótelreikninga. Við í Samfylkingunni erum á þeirri skoðun að skipta eigi þessu gjaldi milli ríkisins og sveitarfélaganna.

Segjum sem svo að sveitarfélögin fengju helming. Hluta af því yrði heimilað að nota til reksturs við ferðaþjónustu og hluta gætu sveitarfélög annaðhvort notað í sinn þátt eða við styrki til annarrar uppbyggingar. Eins og við sjáum hafa framkvæmdaraðilar ekki farið á mikið flug hvað þetta varðar vegna þess að það vantar mótframlag.

Virðulegi forseti. Því er spáð að það komi um 1,3 milljónir ferðamanna til Íslands á þessu ári. Nýleg spá greiningardeildar Arion banka fjallar um 2 milljónir ferðamanna árið 2018. Það er búið að klúðra gjaldtöku á þessu þingi, á þessu ári, og líka á árinu 2016. Því heiti ég á ráðherra ferðamála að koma með tillögu sem hægt er að skapa sem mesta sátt um þannig að við getum byrjað slíka (Forseti hringir.) gjaldtöku með útfærðu gistináttagjaldi á árinu 2017, þ.e. láta ferðaþjónustuaðila vita í tæka tíð.



[13:45]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa umræðu, hún er þörf. Það sem opinberaðist í ræðu hæstv. ráðherra rétt áðan er það sem ítrekað hefur verið bent á hér í ræðustól á þessu kjörtímabili, fullkomið getuleysi ríkisstjórnarinnar og hæstv. ráðherra til að ráða við þann málaflokk sem honum hefur verið treyst fyrir í þessum efnum. Rúmlega tvö ár liðu frá því ríkisstjórnin tók við, í einhverri mestu þenslu ferðamannaiðnaðarins í Íslandssögunni, búið að tala um það í mörg, mörg ár að nú þurfi að fara að taka á í þessum efnum, og ekkert búið að gerast enn þá. Engin áætlun. Jú, hæstv. ráðherra tilkynnti um eigin stefnu. Hún birti landsmönnum stefnu sína. Hún bað ekki þingið um að koma og taka þátt í að móta hana. (Gripið fram í.) Hún birti landsmönnum stefnu sína út af því að þannig vinnur hæstv. ráðherra. Þess vegna liggur ekkert eftir.

Ég hef lagt fram hér á þinginu frumvarp um breytingu á sveitarstjórnarlögum sem felur sveitarstjórnum að leyfisskylda fénýtingu ferðamannastaða. Það tók mig um það bil dagspart, með smáaðstoð frá nefndasviðinu, að skrifa þetta mál, en það leysir það sem tók hæstv. ráðherra tvö og hálft ár að gera ekki.

Það þarf á mjög mörgum stöðum að innheimta einhvers konar gjald til þess að hægt sé að standa að uppbyggingu. Það er það eina sem er réttlætanlegt að gera. En það að fara að rukka fólk fyrir að fara um landið sitt og fyrir að upplifa náttúruna, fyrir að ferðast á eigin vegum og vera í landi sínu er andstætt öllu því sem einkennir okkar land og er aðalsmerki þess umfram mörg önnur lönd þar sem búið er að hólfaskipta og girða niður á milli fjalls og fjöru.

Það á að vera réttur hvers og eins Íslendings að fara um landið sitt og upplifa það. Það á ekki að vera gjaldskylt. En þegar menn eru á annað borð að fénýta það þá er sjálfsagt að einhvers konar leyfisgjald komi fyrir. Hvers vegna er þetta svona erfitt?



[13:47]
Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka frummælanda fyrir að vekja máls á því þarfa umræðuefni sem gjaldtaka á ferðamannastöðum er. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að mikil fjölgun ferðamanna kalli á gjaldtöku. Það dugar ekki að beita þeim rökum að ferðamenn skilji svo mikla peninga eftir sig á annan hátt að óþarft sé að rukka fyrir aðgang að náttúruperlum landsins. Á næstu árum þarf að verja miklum fjármunum í að verja okkar helstu ferðamannastaði vegna ágangs sé mark takandi á spám um fjölda ferðamanna. Gjaldtaka er því nauðsynleg.

Ég hef talið og tel að blönduð leið sé farsælust. Hún getur verið blanda af komu- eða brottfarargjöldum hingað til lands, gistináttaskatti og síðan gjaldtöku á einstaka stað, en sú gjaldtaka yrði þá helst að vera tengd einhverri þjónustu sem viðkomandi ferðamaður keypti, til dæmis ef hann nýtti sér þjónustu leiðsögumanns eða annað þess háttar.

Að þessu sögðu þá sé ég ekkert að því að bílastæðagjald eða eitthvað slíkt sé innheimt á Þingvöllum. Slík gjöld eru víða innheimt. Ég sé ekkert að því að það sé gert á Þingvöllum eins og víða annars staðar. Gistináttagjald er rukkað í ótal borgum og bæjum um allan heim og þykir almennt ekki tiltökumál, enda er oftast ekki um slíkar upphæðir að ræða að það skipti máli.

Lággjaldaflugfélög hafa vissulega áhyggjur af komu- eða brottfarargjöldum en ef þau eru lág þá mun það ekki fæla fólk frá landinu. Það er einmitt kosturinn við blönduðu leiðina að ekki er verið að rukka einstaklinga um háar fjárhæðir fyrir fram óháð notkun heldur borgar fólk fyrir veitta þjónustu.

Ég er ekki hrifinn af þeirri gjaldtöku sem var við Geysi og því sem tíðkast hefur við Kerið. Slíkt skaðar ímynd okkar út á við, tel ég. Sýnum skynsemi þegar við stígum næstu skref og skoðum möguleika á blandaðri leið. Við erum ekki þau fyrstu sem finna upp hjólið þegar kemur að gjaldtöku í ferðamennsku.



[13:49]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á því að þakka frummælanda fyrir að vekja máls á þessu efni. Mig langar einnig til að þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör og að útskýra að þetta er ekki einfalt mál. Þarna er um að ræða eignarrétt og almannarétt og hvar mörkin liggja þar.

Það er síðan líka spurning hvenær náttúruperla er náttúruperla. Það er ekkert sem segir í lögum og skilgreinir það hvenær náttúruperla er náttúruperla og hvenær má þá rukka fyrir hana og hvenær ekki. Það þykir hins vegar eðlilegt í flestum löndum í kringum okkur og víðar að rukkað sé inn á ákveðin svæði sem þurfa ákveðna umgengni og ákveðna vernd. Það er verið að rukka inn á þjóðgarða þar sem fólk ferðast um, t.d. í Nepal og víðar. Ég man eftir því að hafa þurft að borga mig inn í Persepolis í Íran og Ani í Tyrklandi og það þótti ekkert tiltökumál. Þarna er oftast verið að veita einhvers konar þjónustu, hvort sem um það er að ræða að vernda umhverfið í kring fyrir ágengni eða veita grundvallarþjónustu eins og að viðhalda vegum og hreinlætisaðstöðu. Og þetta kostar allt saman.

Mér finnst ekkert óeðlilegt að við séum að komast á þann stað sem nágrannalönd okkar eru, einfaldlega að stíga það skref að rukka fólk sem vill fara inn á ákveðin svæði út af því að þau þykja sérstaklega áhugaverð. Ekki er þar með sagt að þau séu endilega sérstakari en önnur svæði. Við getum farið víða og skoðað náttúruperlur þótt þær séu ekki skilgreindar sem slíkar í ferðamannabæklingum. Þetta er mjög afstætt og þetta er mjög flókið mál, miklu flóknara en að almannarétturinn eigi að trompa allt, að því er mér finnst.

Þetta er líka spurning um eignarrétt. Þetta er líka spurning um vernd og þetta er spurning um það hvernig við finnum einhverja millileið hver sem hún verður.



[13:51]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Í svari við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur um þessi málefni á síðasta þingi svaraði hæstv. umhverfisráðherra eftirfarandi spurningu: Telur ráðherra að 32. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, veiti fullnægjandi heimild til gjaldtöku á náttúruverndarsvæðum miðað við 12. gr. sömu laga þar sem kveðið er á um rétt almennings til að fara um landið?

Svarið er mjög skýrt, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson fór yfir hér áðan, og ég ætla að vitna til, með leyfi forseta:

„Í 1. mgr. 32. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999, segir að Umhverfisstofnun eða sá aðili sem falinn hefur verið rekstur náttúruverndarsvæðis geti ákveðið gjald fyrir veitta þjónustu. […] og skuli þeim tekjum varið til eftirlits, lagfæringar eða uppbyggingar svæðisins eða aðkomu að því. Í ákvæðinu er skýrt kveðið á um að eingöngu getur verið um tvenns konar gjöld að ræða, þ.e. annars vegar gjald fyrir veitta þjónustu og hins vegar aðgangsgjald þar sem spjöll hafa orðið á náttúrunni af völdum ferðamanna eða hætta er á slíkum spjöllum. Ákvæðið veitir því ekki heimild til almennrar gjaldtöku á náttúruverndarsvæðum …“

Og áfram heldur ráðherra í sínu svari, með leyfi forseta:

„Í 32. gr. er einnig sett það skilyrði að rekstraraðili náttúruverndarsvæðis hafi gert samning við Umhverfisstofnun um rekstur svæðisins …“

Og svari sínu lýkur hæstv. ráðherra á eftirfarandi:

„Ef tekið er gjald fyrir aðgang að náttúruverndarsvæði án þess að skilyrði 32. gr. séu uppfyllt er sú gjaldtaka óheimil samkvæmt lögum.“

Það er svarið sem ráðherra hæstv. gaf á síðasta þingi við sömu spurningu; er sú gjaldtaka óheimil samkvæmt lögum. Svo kemur hún hér upp nú og segir að hún sé ósammála sjálfri sér um ólögmætið (Gripið fram í.) — hún sé ósammála sjálfri sér um ólögmætið í þessu svari hér.

Þá spyr ég: Af hverju beitir ráðherra sér ekki fyrir því að úr þessu verði skorið fyrir dómstólum? (Forseti hringir.) Ef það leikur einhver minnsti vafi á því, af hverju beitir ráðherrann sér þá ekki fyrir því að úr þessu verði skorið? Hverra hagsmuna er hún þá fyrst og fremst að gæta (Forseti hringir.) með því að gera það ekki, að láta ekki skera úr um það, almannahagsmuna eða sérhagsmuna?



[13:54]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Mér fannst hæstv. ráðherra svara í einu og öllu mjög málefnalega þeim fyrirspurnum sem til hæstv. ráðherra var beint. Það færi betur á því ef við mundum ræða þessi stóru mál án þess að vera með sífellt hnútukast og persónulegar árásir á þann hæstv. ráðherra sem hér talaði.

Við erum náttúrlega að ræða stórmál. Þetta er stærsta útflutningsgreinin okkar, ferðaþjónustan, og ef við ætlum að nýta hana eins og við flest viljum þá þurfa að koma til tekjur til að byggja upp innviði. Þá er það næsta spurning: Hver á að greiða fyrir það? Hv. þm. Ögmundur Jónasson er eini þingmaðurinn, og kannski hv. þm. Björn Valur Gíslason, sem hefur talað eins og það komi bara af himnum ofan og enginn eigi að greiða það. Þá vitum við hvar sá reikningur lendir. Hann lendir á almenningi. (ÖJ: Þú vilt rukka.) Hv. þm. Ögmundur Jónasson vill sem sagt skattleggja fólkið í landinu til að byggja upp ferðamannastaði. Ég er því öldungis ósammála. (Gripið fram í.) — Nú fer frammíkallakórinn af stað og allt í góðu með það.

Þegar ég fer til útlanda sem ég geri nú stundum, fer jafnvel í sjálft ESB, þá er sjálfsagt og eðlilegt að maður greiði fyrir þá þjónustu sem þar er í boði. Af hverju ætti það að vera öðruvísi hér? Af hverju ættum við að skattleggja almenning í landinu fyrir ferðamenn? Er það sanngjarnt? Ég segi nei. Ég tek hins vegar undir með hv. þm. Ástu Guðrúnu Helgadóttur að prinsippið er það að það er eðlilegt að menn greiði fyrir þjónustuna; eins og hv. þingmaður Pírata rakti ágætlega þar sem hv. þingmaður er víðförull. Ég vonast til þess að hv. þingmenn, sem eru að ræða þessi mál, skoði hvernig menn gera þetta í öðrum löndum. Sem betur fer fyrir almenning þar þá eru menn almennt ekki að skattleggja almenning í þeim löndum fyrir uppbyggingu sem er nauðsynleg og sem ferðamenn njóta; slík uppbygging er sérstaklega nauðsynleg fyrir okkur Íslendinga.



[13:56]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að það er mjög mikilvægt að koma okkur niður á heppilegustu leiðina og skýran ramma utan um gjaldtöku af þeim mikla ferðamannafjölda sem hingað kemur árlega og stefnir í að fjölgi verulega og um leið heppilegustu leiðina til að deila því fjármagni út.

Hv. þm. Kristján Möller nefndi hér áðan að við hefðum lagt til að þeir fjármunir gangi nokkuð jafnt á milli ríkis og sveitarfélaga þannig að sveitarfélögin geti tekið þátt í því sem skiptir kannski mestu máli sem er aðgengi að náttúrusvæðunum sem mest ásóknin er í að skoða og er það vísir að ágætri leið til að útdeila fjármagninu aftur.

Hvernig eigum við að innheimta fjármagnið? Hugmyndin um náttúrupassann féll í grýttan jarðveg og kannski grýttari en margir töldu í upphafi. Ég efast ekkert um að hæstv. ráðherra gangi það eitt til að koma á heppilegu fyrirkomulagi til gjaldtökunnar. Það er mjög gott að geta rætt þessi mál af yfirvegun. Það er mjög mikilvægt að koma okkur niður á leið sem ágæt sátt er um og skilar því sem við viljum fá. Mögulega eru komu- og brottfarargjöld og gistináttaskattur leið að því markmiði. Það verður vonandi skoðað mjög nákvæmlega á næstunni af því að það eru verulegir fjármunir sem þurfa að ganga inn í málaflokkinn og nauðsynlegt að þeir komi í gegnum mikla veltu ferðamanna til landsins.

Gjaldstöðvaleið er erfið. Það kallar á mikinn og óheyrilegan fjölda gjaldstaða. Bent er á að bara á Mývatnssvæðinu þyrftu að vera 11 gjaldstöðvar þar sem eru margir staðir sem ásókn er í að skoða o.s.frv. Einhver innheimta, eins og ég nefndi áðan og hv. þm. Karl Garðarsson nefndi líka, er leið að þessu markmiði og leið hv. þm. Kristjáns Möllers um útdeilinguna held ég að sé nauðsynleg, að sveitarfélögin fái sanngjarna hlutdeild í slíkum tekjum.



[13:58]
Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Allt þetta kjörtímabil og á hinu fyrra líka voru menn sammála um að ráðast þyrfti í uppbyggingu á ferðamannastöðum sem eru undir miklum átroðningi vegna aukins fjölda ferðamanna. Því miður hefur gríðarlega mikill tími á þessu kjörtímabili farið forgörðum vegna þess að menn lögðu í mikið ferðalag til að búa til kerfi sem engin sátt var um. Það var auðvitað meingallað. Hæstv. ráðherra virtist hafa mjög takmarkaða trú á þeirri leið sjálfur, enda hefur sú leið fallið í gleymskunnar dá.

Það er hægt að gera þetta með öðrum hætti. Það er hægt að nálgast þetta á þann hátt sem Nýsjálendingar hafa gert þar sem menn hafa einfaldlega farið í þau fyrirtæki sem eru að fénýta þessa staði og sett upp ákveðna gjaldtöku af þeim. Ég hef flutt tillögu um það, sem felur í sér að hægt er að standa straum af nauðsynlegri uppbyggingu. Það er ekki aðferð til að græða á ferðamannastöðunum, það er aðferð til að varðveita þá. Það er aðferð til að búa til þjónustu. Það er eðlilegt að þau fyrirtæki sem fénýta staðina standi straum af þeim kostnaði og geri samkomulag við heimamenn, í þeim tilfellum sem ég er að leggja til hér sveitarfélögin á svæðinu, sem hafa auðvitað þekkingu á fyrirkomulaginu.

Hvað hefur núverandi ríkisstjórn gert í þessum efnum? Hvernig hefur hún ráðstafað fjármunum í þessa uppbyggingu? Í tvígang með risastórum upphæðum á fjáraukalögum Þannig hefur nú fyrirhyggjan verið í þessu. 300–400 millj. kr. settar í fjáraukalögin til að standa straum af uppbyggingu, engin fyrirhyggja höfð þannig að ekki hefur verið unnt að koma fjármagninu í verkefnin, það hefur ekki verið unnt að gera áætlanir um uppbyggingu og þess vegna er þetta enn í þessum lamasessi. Það verður að segjast eins og er að það er þessari ríkisstjórn að kenna að þetta er eins og það er. Það er vegna þess að menn höfðu ekki fyrirhyggju, höfðu ekki stefnu, höfðu ekki hugmynd um það hvernig þeir ætluðu að leysa þessi mál þegar þeir komu til valda.



[14:00]
Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir það sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði hér áðan. Ég er algerlega sammála málflutningi hans í þessu máli.

Í skýrslu sem var unnin fyrir Ferðamannastofu, samkvæmt beiðni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, er farið ágætlega yfir það hvernig gjaldtöku er háttað víða erlendis á ferðamannastöðum. Þar kemur fram að allmörg lönd innheimta brottfarar- og/eða komugjald á flugfarþega en algengara er að um brottfarargjöld sé að ræða. Framkvæmd og upphæð gjaldsins er misjöfn eftir löndum. Í flestum tilfellum er flugfélögum falið að innheimta gjaldið og er þá innheimt við kaup á flugmiða. Í einstaka tilfellum þarf að greiða gjaldið á viðkomandi flugvelli en þeim tilfellum fer ört fækkandi. Lönd sem hafa komu- eða brottfarargjöld eru til dæmis Bandaríkin, Bretland, Þýskaland, Austurríki og Írland.

Fjölmörg önnur lönd eru líka nefnd og nemur upphæðin nokkrum þúsundum króna. Í Danmörku og Hollandi var lagt á brottfarargjald en fljótlega lagt af aftur vegna erfiðrar samkeppni við mjög nálæga flugvelli í nágrannalöndum. Í skýrslunni sem unnin var fyrir Ferðamannastofu kemur fram að í sumum löndum er krafist aðgangseyris að náttúruperlum, einkum þjóðgörðum og öðrum friðlýstum svæðum. Þótt seldur sé aðgangur að þjóðgarði kemur það ekki í veg fyrir að þar sé einnig greitt fyrir þjónustu sem þar er veitt, til dæmis aðgang að salerni eða bílastæði. Ef gjald er innheimt í gjaldhliði gefur það færi á að veita upplýsingar, koma á framfæri viðvörunum og telja gesti.

Önnur leið er að hafa einhvers konar passa og síðan eftirlit á vettvangi í ætt við náttúrupassann sem var til umræðu hérlendis. Í athugun, sem gerð var snemma á 10. áratug síðustu aldar, kom fram að krafist var aðgangseyris á um helmingi verndaðra svæða í heiminum og það skiptir máli hvert aðgangseyririnn rennur. Rannsókn sem gerð var í Tasmaníu í Ástralíu sýndi að 86% gesta fundust gjöldin vera af hinu góða ef þau rynnu (Forseti hringir.) beint til garðsins sjálfs en aðeins 36% fundust þau jákvæð ef þau rynnu beint í ríkiskassann. (Forseti hringir.) Hvaða leið sem verður farin í þessu máli þá er ljóst að við þurfum að taka til hendinni strax í þessu máli og komast að sameiginlegri niðurstöðu.



[14:03]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég vil vitna í skjal sem var búið til af löngu ferli fyrir fáum árum þar sem þúsundir manna komu að stefnumótun um nýja stjórnarskrá. Þar er kafli um náttúru Íslands og umhverfi, með leyfi forseta:

„Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Öllum ber að virða hana og vernda.“

Í lok þeirrar greinar:

„Með lögum skal tryggja rétt almennings til að fara um landið í lögmætum tilgangi með virðingu fyrir náttúru og umhverfi.“

Ég held að það hafi komið mjög vel fram í máli nokkurra þingmanna hérna, hv. þm. Karls Garðarssonar, hv. þm. Róberts Marshalls og hv. þm. Ástu Guðrúnar Helgadóttur, að þjónusta er eitthvað sem við teljum sjálfsagt að borga fyrir. Það er augljóst ef við tökum dæmi eins og Hvalfjarðargöng sem mundu kannski ekki flokkast sem náttúruperla en voru ákveðið verkefni sem var lagt í og borgað, greitt gjald fyrir og svo þegar búið er að borga það upp fáum við það aftur.

Það vekur athygli mína að annars vegar er verið að tala um að ríkið eða hið opinbera greiði fyrir aðgang fólks að þessum náttúruperlum og fyrir uppbyggingu og svo er hinn póllinn í hæðina að þetta getur verið gróðastarfsemi fyrir ákveðna aðila. Þetta er vogarafl á milli almannaréttarins og eignarréttarins. Ég set ákveðið spurningarmerki við það hvernig eignarréttur fer á til dæmis sólsetrið á bak við Kirkjufellið eða norðurljósin o.s.frv. Ég tel mjög augljóst að hægt sé að rukka fyrir það að fá ferð eða leiðsögn upp á fjall þar sem menn sjá norðurljósin betur, (Forseti hringir.) en ef menn fara þangað sjálfir sé ég ekki að gáfulegt sé að rukka fyrir það.



[14:05]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Nálgun hæstv. ráðherra er einkaeignarrétturinn og að hann hljóti að vera útgangspunktur okkar og þá hvernig hann er skilgreindur í stjórnarskrá lýðveldisins. Ráðherrann sagði jafnframt að þennan rétt væri unnt að takmarka með samningum eða með lögum. Þessi réttur hefur verið takmarkaður með lögum og ég hef verið að vísa í þau lög. Samráðherra hæstv. ferðamálaráðherra hefur svarað Alþingi því skýrt til í svari við fyrirspurn frá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur að gjaldtaka við Kerið, svo dæmi sé tekið, standist ekki lögin. Ráðherrann segir: Það hefur ekki verið látið reyna á þetta fyrir dómstólum þótt Umhverfisstofnun og hæstv. ráðherra hafi komist að þessari niðurstöðu. En hvers vegna er það ekki gert? Hvers vegna er ekki sett lögbann á Kerið? Það er vegna þess að hæstv. ráðherra óttast að sá málstaður sem hún berst fyrir verði undir, en almannahagur verði ofan á. Ég segi bara þetta: Ég óska Óskari Magnússyni, Grími Sæmundsen, Ólafi H. Jónssyni til hamingju með að eiga fótgönguliða á borð við hæstv. ráðherra í sínu liði hér á Alþingi, en við Íslendinga vil ég segja: Látum þau ekki stela náttúrudjásnum Íslands frá okkur. Við eigum að rísa upp gegn þessum þjófnaði eða tilraun til hans. Við eigum þessi náttúrudjásn og rétturinn til að njóta þeirra (Forseti hringir.) er okkar. Látum aldrei taka hann frá okkur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[14:08]
iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég var að vona að þessi umræða yrði málefnaleg og ég verð að hrósa nokkrum hv. þingmönnum fyrir að þeir nálguðust þetta viðfangsefni út frá því sem það er, að reyna að finna sameiginlega lausn eða komast að sameiginlegum skilningi. Upphrópanir hv. þingmanns, endalausu frasarnir um það að allir nema hann séu að ganga erinda einhverra eru fullkomlega óþolandi og (ÖJ: … almennings.) óboðlegur málflutningur, ef ég mætti klára. Ég frábið mér, virðulegur forseti, slíkan málflutning.

Ég fór nákvæmlega yfir það og útskýrði af hverju það er ekki sami skilningurinn, þetta er lögfræðilegt álitamál sem hv. þingmaður kallar hér fram í að sé ólögmæt gjaldtaka. Það er ekki lögfræðilegur samhljómur um það. (ÖJ: En af hverju læturðu ekki reyna á þetta fyrir dómstólum?) Hv. þingmaður spyr mig af hverju ég fari ekki í lögbann, af hverju ég láti ekki reyna á þetta fyrir dómstólum. Ég vísa þeirri spurningu aftur til þingmannsins. (ÖJ: Af hverju …?) Það hefur enginn farið í málsókn, ég hvet hv. þingmann til að gera það vegna þess að það eru dómstólar sem verða að kveða upp úr með þetta. (ÖJ: Lögreglan …) (Forseti hringir.)

(Forseti (ValG): Hv. þingmaður. Vinsamlegast ekki eiga orðaskipti við ræðumanninn. (ÖJ: Ráðherrann er að tala við mig.))

Ég vil að hv. þingmaður skilji nákvæmlega það sem ég var að segja hér. Um þetta ríkir lögfræðilegur ágreiningur, niðurstaða hefur ekki verið leidd fram af dómstólum og við það situr. Ég er ekki að ganga erinda eins eða neins, málstaður minn er að fara hér að lögum. (Forseti hringir.) Það er sá málstaður sem ég fer eftir og það er sá málstaður sem ég mun fylgja í þessu. (Forseti hringir.) Ég frábið mér enn og aftur þessar dylgjur frá hv. þingmanni. (Gripið fram í.) — Þetta er eins mikið „low pro“ og hægt er að vera. (ÖJ: Talaðu íslensku.)