145. löggjafarþing — 74. fundur
 4. feb. 2016.
búvörusamningar.

[11:01]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða væntanlega búvörusamninga. Við í Bjartri framtíð höfum gagnrýnt mjög hversu miklir fjármunir fara til landbúnaðarstyrkja á Íslandi og höfum kallað eftir því að fram fari góð umræða um það alla vega hvernig þeir fjármunir mundu nýtast betur. Við höfum kallað eftir meiri fjölbreytni í styrkveitingum og líka kallað mjög eftir því að gætt sé umhverfissjónarmiða og að við stuðlum að vistvænum og sjálfbærum landbúnaði.

Ég á eftir að sjá í búvörusamningunum hvernig nákvæmlega þessum atriðum er mætt og hvernig fjárútlátin eru réttlætt. En eitt atriði sýnist mér að sé jákvætt, miðað við þær kynningar sem ég hef fengið á væntanlegum búvörusamningum, og það er að leggja eigi af kvóta í landbúnaði. Það sýnist mér vera viðleitni til þess að mæta breyttri heimsmynd. Við búum ekki lengur við hættuna á offramleiðslu í landbúnaði, þurfum ekki að búa við kvóta í landbúnaðarframleiðslu. Heimsmyndin sem blasir við einkennist af umframeftirspurn. Það er mikil eftirspurn eftir hreinum og góðum matvælum eins og Íslendingar framleiða og það er greinilegt að landbúnaðurinn á Íslandi horfir mjög til aukins útflutnings. Þannig túlka ég þetta. Þar liggja sóknarfærin í útflutningi á lambakjöti og útflutningi á skyri svo dæmi séu tekin.

Við búum við þann veruleika að í Evrópulöndunum, okkar helstu viðskiptalöndum, eru náttúrlega mjög háir tollar á landbúnaðarvörur. Ég heyri það úr röðum bænda að þeir eru orðnir áhugasamari um að njóta tollfrelsis í viðskiptum við Evrópu. Þá er bara ein leið. Það er að ganga í Evrópusambandið.

Það er það sem mér finnst mjög áhugavert í þessum búvörusamningum. Mér finnst þetta vera leið landbúnaðarins til þess að átta sig á því (Forseti hringir.) að næsta skref er auðvitað að ganga í Evrópusambandið og njóta tollfrelsis í viðskiptum með búvörur frá Íslandi. (Forseti hringir.) Mun því ekki landbúnaðurinn á Íslandi krefjast þess á næstu árum að við göngum í Evrópusambandið? Er það ekki kalt mat ráðherrans?



[11:04]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er margt í því sem hv. þingmaður fór yfir í fyrri hluta ræðu sinnar, um það hvað hann hefur heyrt að sé fyrirhugað í þeim samningi sem nú er á lokametrunum, sem horfir til betri vegar og við þingmaðurinn erum sammála um. Það er fjölbreyttari landbúnaður, það er að tryggja aukna og betri afkomu í landbúnaði, tryggja neytendum lágt verð og heilnæm og örugg matvæli. Við horfum til loftslagsmálanna og með hvaða hætti landbúnaðurinn geti lagt sitt af mörkum þar. Við horfum til þess að við getum tryggt að við séum með örugg matvæli hvað varðar til að mynda sýklalyfjaónæmi sem er vaxandi ógn í heiminum og einstaka sérfræðingar hafa líkt við loftslagsvána.

Það er hins vegar alrangt hjá þingmanninum að það sé bara til ein leið. Flest ríki heims fara þá leið að gera fríverslunarsamninga. Við erum held ég með eina 35. Við gerðum tollasamning við Evrópusambandið sem á eftir að koma inn í þingið samhliða búvörusamningum, en í honum felst gagnkvæmni þannig að íslenskur landbúnaður getur nýtt sér tækifæri þar. Í þeim samningum var til að mynda Evrópusambandinu boðið fullkomið tollfrelsi á inn- og útflutningi á lambakjöti en Evrópusambandið hafnaði því sem sýnir náttúrlega svartara á hvítu en nokkuð annað hvers lags tollabandalag Evrópusambandið í raun og veru er og heldur öllum öðrum frá. Tollmúrar þar eru á margan hátt miklu hærri en til að mynda á Íslandi þó (Gripið fram í.) að maður gæti haldið annað af umræðunni hér innan lands.

Samningarnir eru einmitt gerðir til þess að tryggja fjölbreyttari landbúnað, öflugari byggð og það sem við vorum að ræða hér áðan, byggðafestu. Á sama tíma á að skila neytendum sífellt lægra vöruverði og að tryggja þeim örugg og góð matvæli sem ég held að sé ekki bara (Forseti hringir.) krafa nútímans heldur verði það vaxandi krafa inn í framtíðina.



[11:06]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að veröldin einkennist af vaxandi eftirspurn eftir matvælum eins og þeim sem Íslendingar framleiða. Hrein og góð matvæli. Gæðamatvæli.

En ég hjó eftir einu í svari hæstv. ráðherra sem í mínum huga sem er stórfrétt, stór tíðindi. Íslendingar buðu sem sagt í viðræðum við Evrópusambandið tollfrjáls viðskipti með lambakjöt og fengu ekki vegna þess að Evrópusambandið vill setja á tolla. Við erum ekki í Evrópusambandinu. Þetta staðfestir í mínum huga það sem ég hef heyrt frá mörgum bændum að við viljum flytja út meira og það er mjög lítil samkeppni við íslenskt lambakjöt í raun og veru í Evrópu, í okkar helstu viðskiptalöndum. En við erum ekki í Evrópusambandinu og fáum þess vegna ekki fullan tollfrjálsan aðgang að þeim mörkuðum.

Mér sýnist það blasa við ef við tökum (Forseti hringir.) landbúnaðinn sem afmarkað dæmi á Íslandi að hann horfir til meiri útflutnings (Forseti hringir.) og það mun há því markmiði að við erum ekki í Evrópusambandinu.



[11:07]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að þrátta um Evrópusambandið. Ég veit ekki hve margir hér inni hafa áhuga á að ganga til liðs við það eins og þar háttar (Gripið fram í: Tveir.) í augnablikinu. Tvær hendur á lofti eða þrjár.

Hins vegar er það alrangt hjá þingmanninum að túlka þetta með þessum hætti því að í tollasamningnum er að ég held um 3 þús. tonna kvóti til útflutnings. Við framleiðum um 10 þús. tonn. Það er ekki markmið í sjálfu sér að fjölga sauðfé á Íslandi. Það er markmið að efla arðsemina af þeirri grein. Síðan höfum við fjölmarga tollasamninga við fjölmörg önnur lönd sem geta tryggt að við getum notið tollfrelsis í þeim viðskiptum. Að því hefur verið unnið á þessu sviði eins og í sjávarútveginum.

En það sem er fréttin í þessu er að íslensk kindakjötsframleiðsla er framleidd á heimsmarkaðsverði. Það er fréttin. Það hefur tekist í gegnum árin að tryggja það, með stuðningi ríkisins, (Forseti hringir.) að við erum orðin samkeppnishæf um verð í framleiðslu á þessari frábæru vöru og getum boðið hana á öðrum mörkuðum á vonandi enn hærra verði en við höfum séð til þessa.