139. löggjafarþing — 109. fundur
 11. apríl 2011.
Framleiðnisjóður landbúnaðarins.
fsp. SIJ, 445. mál. — Þskj. 731.

[16:27]
Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hérna upp með fyrirspurn sem kviknaði í sjálfu sér í aðdraganda fjárlagagerðar vegna ársins 2011. Þá kom í ljós að ekki voru ætlaðir miklir fjármunir til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins.

Mig langar aðeins að vitna í ársskýrslu Framleiðnisjóðs. Í inngangi stendur, með leyfi forseta:

„Framleiðnisjóður landbúnaðarins starfar samkvæmt lögum nr. 89/1966, með síðari breytingum.“

Þetta er sem sagt ekki alveg nýtt fyrirbrigði. Eins eru tekjur Framleiðnisjóðs eins og fram kemur hér í skýrslunni „starfsfé í samræmi við samning sem landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, og Bændasamtök Íslands gera samkvæmt búnaðarlögum, nr. 70/1998. Aðrar tekjur Framleiðnisjóðs eru vaxta- og umsýslutekjur“.

Það er því alveg ljóst að hér er verkefni sem ríkisvaldið kemur að með beinum hætti, bæði hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og eins fjármálaráðherra. Það er merkilegt að á þessu ári eru ætlaðar 15 milljónir til sjóðsins sem hefur fengið 160, 170, 180 milljónir úr að spila á liðnum árum og svo á sjóðurinn að ganga á eigið fé. Komið hefur fram að á næsta ári eru hugmyndir um að sjóðurinn fái 25 milljónir og eigi jafnframt að ganga á eigið fé sem þá muni klárast.

Niðurskurðurinn á árinu 2011 er um 90% og í engu samræmi við það sem annars staðar hefur verið gert. Það hlýtur að vera nokkurt áhyggjuefni að menn skuli ganga svo djarft fram í sjóð sem fyrst og fremst er nýsköpunar- og þróunarsjóður fyrir atvinnugreinina. Ef maður skoðar aðeins í ársreikningum sjóðsins hafa á árunum 2009 og 2010 farið 60, 70, 80 milljónir til greina sem tengjast atvinnugreininni og rannsóknum og nýsköpun, ekki bara til bændanna sjálfra. Þar eru núna fyrirliggjandi margar umsóknir sem sýnir að menn eru hvergi að bugast í kreppunni, heldur vilja sækja fram í nýsköpun og þróunarstörfum. Aldrei hafa komið eins margar umsóknir frá bændum um jafnfjölbreytta atvinnusköpun víðs vegar um landið — og þá er sjóðurinn takmarkaður. Sjóðurinn hefur síðan valið að einskorða sig við úthlutanir til þeirra verkefna, en það þýðir að rannsóknar- og þróunarverkefni, m.a. á vegum Matíss, Landbúnaðarháskólans og annarra rannsóknargreina sem tengjast þessari atvinnugrein, fá ekki neitt. Það er dálítið öðruvísi en ríkisstjórnin (Forseti hringir.) hefur lýst yfir gagnvart öðrum atvinnugreinum, t.d. sjávarútvegi og iðnaði. Þar hefur verið lögð áhersla á að reyna að tryggja að nýsköpun og þróun (Forseti hringir.) haldi áfram, en hér virðist vera stöðvun.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hver er framtíðarstefna (Forseti hringir.) ráðherrans með Framleiðnisjóð landbúnaðarins?



[16:30]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir að koma með málefni Framleiðnisjóðs landbúnaðarins inn til þingsins. Eins og hv. þingmanni er kunnugt þurfti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið eins og önnur ráðuneyti að skera niður fjárframlög til ýmissa verkefna við afgreiðslu fjárlaga fyrir yfirstandandi ár, þar á meðal framlög sem tengjast landbúnaðarmálum. Við undirbúning fjárlaga fyrir árið 2011 þurfti að taka erfiðar ákvarðanir um hvar helst ætti að bera niður við það verkefni. Ég hafði ásamt fjármálaráðherra samráð við Bændasamtök Íslands og varð niðurstaðan sú að illskásti kosturinn væri að skera niður fjárframlög sem kæmu óbeint niður á framlögum til bænda, þ.e. greiðslur til Bændasamtaka Íslands vegna leiðbeiningarstarfsemi og fjármuni til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Hins vegar var því algjörlega svarað á móti að staðið yrði við búvörusamningana í fjárlögum.

Framleiðnisjóður landbúnaðarins var stofnaður með lögum nr. 89/1966. Samkvæmt þeim var hlutverk sjóðsins að veita styrki og lán til framleiðsluaukningar og hagræðingar í landbúnaði. Við þá miklu breytingu sem varð í íslenskum landbúnaði með setningu búvörulaganna 1985 fékk sjóðurinn einnig það hlutverk að veita fé til atvinnuuppbyggingar og framleiðniaukningar í landbúnaði. Jókst þá vægi rannsókna- og þróunarverkefna í úthlutunum sjóðsins.

Við setningu búnaðarlaganna 1998 var gert ráð fyrir fjármögnun Framleiðnisjóðs sem hluta af samningum ríkisins og Bændasamtaka Íslands um fjárframlög til landbúnaðarins, en einnig hafði Framleiðnisjóður tekjur af kjarnfóðurgjaldi.

Ákvörðun um niðurskurð til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins var m.a. tekin með hliðsjón af því að sjóðurinn gæti haldið úti nokkurri starfsemi í tvö ár með því að ganga á eigið fé eins og kemur fram í bókun við búnaðarlagasamninginn. Þar er einnig bókað að samningsaðilar séu sammála um mikilvægi þess að landbúnaðurinn hafi þróunarsjóð líkt og aðrar atvinnugreinar og að leitað verði leiða til þess að treysta fjárhag sjóðsins og hvort hægt verði að tryggja honum fasta tekjustofna.

Það er mat ráðherra að sjóðurinn hafi sannað gildi sitt og gegnt veigamiklu hlutverki fyrir atvinnuveginn í að efla nýsköpun í sveitum landsins jafnframt því að stuðla að virkri byggðastefnu og einnig til að styrkja og standa á bak við rannsóknar- og þróunarverkefni í landbúnaði. Ég mun þess vegna beita mér fyrir því að fjárframlög til þessara verkefna hækki á ný um leið og tækifæri gefst þegar fjárhagur ríkisins verður með betri hætti eins og við stefnum að sjálfsögðu að. Ég tel að þessi sjóður sé gríðarlega mikilvægur fyrir íslenskan landbúnað og þar með líka íslenska þjóð til þróunarstarfs þar.

Í ljósi þessa og í samræmi við áðurnefnda bókun við búnaðarlagasamninginn hef ég ákveðið að setja á fót vinnuhóp sem hefur það verkefni að skoða stöðu Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og möguleika á eflingu sjóðsins sem þróunarsjóðs landbúnaðarins. Ég mun gefa þessum hóp frekar skamman tíma til að koma með tillögur sínar en tek hér og afdráttarlaust og eindregið undir þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. þingmanni og fyrirspyrjanda að Framleiðnisjóður landbúnaðarins er einn þeirra sjóða og eitt þeirra tækja sem hefur kannski skilað hvað mestum árangri einmitt fyrir atvinnugreinina og komið þar að margháttaðri nýsköpun um allt land. Þessi ársskýrsla Framleiðnisjóðs landbúnaðarins fyrir árið 2010 rekur hvert einasta verkefni sem sett er hér mjög ítarlega og er í sjálfu sér mjög athyglisverð og góð lesning.

Ég ítreka, frú forseti, að ég legg áherslu á að Framleiðnisjóður landbúnaðarins fái áfram öflugt og gott hlutverk og á ferðum mínum um landið, hvort sem er í landbúnaði eða sjávarútvegi, sé ég hversu miklu máli skiptir að þessar atvinnugreinar eigi sér sína eigin þróunar- og rannsóknarsjóði til að geta starfað beint með greinunum í samfélögum þeirra. Það er mín ætlan að þessi starfsemi og styrkur sjóðsins verði aukinn.



[16:35]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er öllum ljóst að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið þurfti að skera niður. Það kemur hins vegar nokkuð á óvart að það skuli hafa verið forgangsröðun hæstv. ráðherra að skera sérstaklega niður þennan eina rannsóknar-, vísinda- og þróunarsjóð sem landbúnaðurinn hefur til að dreifa. Maður hefði haldið að við þær aðstæður sem við búum við núna, þessar háskalegu aðstæður, hefði verið mjög mikilvægt fyrir okkur að hafa einmitt slíkan sjóð til reiðu fyrir landbúnaðinn til að sækja í til að geta brugðist við ýmsum þeim breytingum sem eru að verða í starfsumhverfi landbúnaðarins.

Ég vek athygli á því að aðrir rannsóknar- og þróunarsjóðir á vegum ríkisins, eins og t.d. AVS og Rannís, hafa ekki fengið neitt nándar nærri slíka meðhöndlun sem Framleiðnisjóður fær hérna.

Ég fagna út af fyrir sig yfirlýsingum hæstv. ráðherra um að hann vilji gjarnan að þessi sjóður starfi í framtíðinni. Hann hefur skipað sérstakan starfshóp í þessu skyni og því spyr ég hæstv. ráðherra: Má vænta þess við fjárlagagerð fyrir næsta ár að hæstv. ráðherra geri tillögu um að auka að nýju fjárveitingar til sjóðsins? Það er ljóst að hann gengur nú þegar á eigið fé. Hann getur ekki starfað svona (Forseti hringir.) öllu lengur. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Mun hann sýna þennan vilja sinn í verki með tillögu um auknar fjárveitingar til sjóðsins á næsta ári?



[16:36]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra fyrir þá fyrirspurn sem hér er komin af stað. Þetta er mjög mikilvægt málefni og það er gríðarlega mikilvægt að fá staðfest frá hæstv. ráðherra að hann hyggist grípa í taumana áður en langt um líður og auka aftur það fé sem þessi mikilvægi sjóður hefur fengið.

Eins og fram hefur komið hjá hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni og hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni er þessi sjóður gríðarlega mikilvægur fyrir alla nýsköpun og þróun og ekki síst fyrir þá bændur sem eru að þróa aðra starfsemi meðfram hefðbundnum búskap. Það hefur vissulega gengið mjög brösuglega að halda rekstri búa, stórra og smárra, í þeim farvegi sem nauðsynlegt er öllum fyrirtækjum. Hæstv. ráðherra lýsti því hér að hann hygðist beita sér fyrir því að auka fé í sjóðinn áður en langt um líður, þ.e. um leið og tækifæri gefst.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort við þurfum að hafa einhverjar áhyggjur af því að aðrir stjórnarflokkar (Forseti hringir.) hér á Alþingi leggist gegn því að aukið fé renni í þennan sjóð í ljósi þess að ákveðnir flokkar hér eru áhugasamir (Forseti hringir.) um að ganga í Evrópusambandið.



[16:38]
Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Eins þakka ég svör ráðherrans og þær yfirlýsingar sem hann gaf um að vilji hans stæði til þess að hækka á ný fjárframlög þegar tækifæri gefst, svo ég taki upp orðfæri hæstv. ráðherra. Það tel ég hins vegar ekki nándar nærri nóg og tek undir fyrirspurn hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar um það hvort það komi þá ekki fram í fjárlögum næsta árs. Ef haldið verður áfram eins og stefnt hefur í og einhverjar yfirlýsingar voru um í haust fyrir árið 2012 er starfseminni sjálfhætt á næsta ári.

Ég get ekki tekið undir það með hæstv. ráðherra að það hafi verið eitthvert val fyrir hæstv. fjármálaráðherra og ráðherra landbúnaðarmála um hvar þeir gætu skorið niður. Þeir hafa ákveðið að standa við búvörusamningana. Það hefði a.m.k. verið sérkennilega að verki staðið að fara í samningaviðræður við bændur þar sem bændur komu fyrstir á vettvang og gerðu samninga um að taka á sig kreppuna með því að skerða búvörusamningana og menn síðan kæmu ári síðar og skæru þá niður einhliða frá ríkisvaldinu. Það væri mjög sérkennilegt.

Það sem ég var að benda á er að sjóðurinn virðist geta með eigin fé og litlu fjárframlagi frá ríkinu haldið áfram að styðja þokkalega við þau verkefni sem bændur eru að fara fram með þrátt fyrir að nú hafi reyndar komið í ljós gríðarlegur áhugi sem beinist í margar áttir hjá bændum. Það er bæði Beint frá býli, ferðaþjónusta og ýmsir aðrir þættir sem menn eru að fara í.

Ég bendi á að þessi sjóður er sá eini sem rannsóknartengdir aðilar geta sótt í. Það er mjög alvarlegt á þessum tímum að þar sé skorið niður sem er ekki í samræmi við þær yfirlýsingar sem menn hafa gefið ríkisstjórninni um að standa áfram vörð um mennta- og vísindasviðið (Forseti hringir.) til að skapa hér arðsemi í framtíðinni.



[16:40]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Sá veruleiki sem ríkissjóður, og þar með líka sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, stóð frammi fyrir var tiltekinn niðurskurður á fjárframlögum, bæði þessa árs og væntanlega einnig líka á næsta ári. Þá varð að samkomulagi að þessi leið yrði farin. Hún er alls ekki góð en staðreyndin er sú að sjóðurinn átti nokkurt eigið fé sem hægt er síðan að skipta á tvö ár. Með því að ráðstafa því getur hann haldið nokkrum þáttum grunnstarfsemi sinnar og styrkveitinga gangandi þessi tvö ár.

Ég tel og segi það aftur að það er mjög mikilvægt að þessi sjóður landbúnaðarins verði styrktur og efldur. Það sýnir sig að þessar greinar eiga ekki möguleika á að sækja í aðra rannsóknar- og þróunarsjóði með sama hætti og þær hafa getað sótt í þennan sjóð. Hann hefur skilað miklum árangri í gegnum styrkveitingar sínar. Hér hefur verið nefnd ferðaþjónusta, Beint frá býli o.s.frv.

Varðandi það að búvörusamningarnir verði haldnir voru þeir því miður skornir af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á sínum tíma. Í þessum slag er ég stoltur af því að hafa í sjálfu sér staðið vörð um búvörusamningana. (Gripið fram í: … samninga.)

Hitt er svo að það er mín bjargfasta skoðun og ætlan (Forseti hringir.) að styrkja og efla þennan sjóð. Ég vona að ég fái líka öflugan stuðning til þess, m.a. frá hv. þingmönnum. Það fer enginn lengra í þessu máli, frekar en öðrum, en hann er studdur til.