140. löggjafarþing — 35. fundur
 13. desember 2011.
niðurstöður loftslagsráðstefnu í Durban.

[13:51]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Lokið er 17. loftslagsráðstefnunni í Durban í Suður-Afríku og niðurstöðurnar eru bæði vondar og góðar. Þær eru vondar því að ekkert gerðist nema að stigið var eitt hænufet eins og hæstv. umhverfisráðherra sagði ágætlega í útvarpinu í gær, en góðar vegna þess að enginn bjóst við neinu. Þetta er svona eins og í kosningum sem við þekkjum, að menn hafa að vísu tapað í atkvæðagreiðslunni en unnið skoðanakannanirnar.

Það hænufet sem þó var stigið fólst í því að menn einsettu sér að komast að samkomulagi síðar, árið 2015. Nú er spurning hvort það verður of seint, sumir segja það, að við getum í raun og veru ekki lengur staðið við fyrirheitið um 2° hækkun sem veldur feikilegum breytingum og hörmungum og verðum nú að — þegar ég segi við á ég við mannkynið — reyna að hemja okkur við 3°. Hins vegar tókst það að flest þau ríki sem staðið hafa að Kyoto-bókuninni ætla sér að framlengja hana. Ekki hafði það fyrr verið sagt en sjálfstæðisflokkurinn í Kanada ákvað að draga það land út úr því samstarfi.

Spurningin sem blasir við okkur á þinginu og við ættum að ræða [Kliður í þingsal.] — ja, sjálfstæðisflokkarnir í ýmsum löndum gera ýmislegt. Sjálfstæðisflokkurinn í Kanada dregur sig út úr samstarfinu um loftslagsmál og sjálfstæðisflokkurinn í Bretlandi dregur sig út úr sjálfsagðri samvinnu um efnahagsmál, nú þarf Sjálfstæðisflokkurinn á Íslandi að segja okkur hvað hann ætlar að gera í þessu. En augljósu spurningar eru þessar: Hvernig blasir þetta við Íslandi? Hver eru næstu skref okkar í Kyoto-bókuninni og hvernig gengur sú loftslagsáætlun sem við (Forseti hringir.) samþykktum hér í fyrra?



[13:53]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina sem snýst um stöðu mála eftir loftslagsráðstefnuna í Durban. Það má eiginlega segja, þó að hv. þingmaður hafi ekki orðað það beinlínis þannig, að eina ferðina enn varð niðurstaðan sú að komast að niðurstöðu síðar. Ég held að það sé ekki ofmælt að tíminn er ekki bara á þrotum heldur er hann í raun og veru runninn út. Ef við ætlum að komast að samkomulagi, og þá er ég líka að tala um mannkynið þegar ég segi við, árið 2015 um aðgerðaáætlun fyrir jörðina sem hefst 2020 er það of seint.

Við horfumst í augu við það að hlýnunin sem verður að óbreyttu gjörbreytir veðurfari og náttúrufari um alla jörð. Við erum í hópi þeirra ríkja sem vilja framlengja Kyoto-bókunina, við viljum horfa á loftslagsmálin heildstætt og reyna að skapa eins mikla vissu um líklegar skuldbindingar og hægt er. Þess vegna fórum við í samflot með Evrópusambandinu — sem á ekkert skylt við aðildarumsókn svo því sé haldið til haga — sem byggir á því að við tökum loftslagsreglur ESB inn á þessu ári og því næsta samkvæmt EES-samningnum. Með því þurfum við ekkert undanþáguákvæði frá Kyoto eins og er í gildi nú. Það koma einfaldlega engar kröfur á Ísland umfram þær sem verða í Evrópureglum.

Varðandi aðgerðaáætlunina sem hv. þingmaður spurði um var áskilið í henni að hún yrði endurskoðuð að tveimur árum liðnum sem er núna upp úr áramótum. Við komum til með að gera það. Það er ljóst nú þegar að um verulegar forsendubreytingar er að ræða sem ég get væntanlega komið að í síðara svari mínu.



[13:55]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ef ég má, eins og í gamla daga var stundum sagt, skemmta um hina óskemmtilegustu hluti, vil ég óska hæstv. umhverfisráðherra Svandísi Svavarsdóttur til hamingju með að vera gengin í umhverfisbandalagið í Evrópusambandinu. Við höfum þó náð þeim árangri í nálgun okkar að vera í samstarfi þeirra sem gera mestar kröfur, vegna þess að Evrópusambandið er í þeim flokki ásamt okkur og Norðmönnum og nokkrum í viðbót sem gera mestar kröfur og haga sér með ábyrgustum hætti í þessu efni. Þá er nokkuð mikið sagt því að ekki er hægt að halda því fram að við Íslendingar gerum það af sjálfsdáðum. Við erum hins vegar svo heppin að búa við þær aðstæður í landi þar sem við getum notið auðlinda án þess að ganga verulega á sameign mannkyns, hreint loft. Það vekur auðvitað athygli að við höfum ekki enn farið yfir loftslagsáætlun okkar, hæstv. umhverfisráðherra eða aðrir hafa ekki (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Hv. þingmaður hafði eina mínútu.)

Já, ég bið forseta afsökunar.

(Forseti (ÁRJ): Klukkan lætur ekki að stjórn.)

En ég lýk þessu og þakka fyrir þá ábendingu að við skulum endurskoða áætlunina upp úr áramótum og býst við miklu í því efni, en ég vildi spyrja sérstaklega um endurheimt votlendis sem ég óska umhverfisráðherra líka til hamingju með að hafa fengið ítrekaða (Forseti hringir.) í Durban.



[13:57]
umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að nefna nokkur atriði sem snúa að þeirri aðgerðaáætlun sem við höfum sammælst um um samdrátt í losun og nefna nokkur atriði sem er alveg klárt að mun þurfa að endurskoða. Í fyrsta lagi höfum við bundið miklar væntingar við innleiðingu lífdísils í fiskiskipaflotanum. Þar var greinilega um óhóflega bjartsýni að ræða og við þurfum að skoða það og uppreikna. Í öðru lagi er það samstarf okkar við títtnefnt, og afar kært þingmanninum, Evrópusambandið að ræða, þau samskipti eru enn þá í mótun. Forsendurnar gætu tekið breytingum. Endurheimt votlendis var stór hluti af þeim áætlunum sem við áttum í í samstarfi við Evrópusambandið en ekki hefur verið úr því skorið hvort það fellur undir þá áætlun, þ.e. (Forseti hringir.) þau 20% sem þar eru undir. Fiskimjölið fer undir almennu heimildirnar í aðgerðaáætluninni en ekki eins og áætlað var. Virðulegur forseti, þessi klukka segir mér að ég eigi 15 sekúndur eftir þannig að ég verð að nýta þær hér bara maður á mann.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biðst velvirðingar á því að klukkan í ræðustóli er ódæl.)