144. löggjafarþing — 65. fundur
 16. feb. 2015.
úthlutun byggðakvóta til ferðaþjónustuaðila.

[15:17]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil í upphafi beina því til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hann fari nú að koma með þetta frumvarp sem er rætt hér undir rós, fiskveiðistjórnarfrumvarpið svokallaða. Mikið var tala um óvissu á síðasta kjörtímabili svo að það hlýtur að ríkja mikil óvissa núna úti í þjóðfélaginu og menn kalla eftir því að fá þetta mál til umræðu.

Ég vil ræða um úthlutun á byggðakvóta til erlendra sjóstangveiðimanna. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur undanfarin ár, eitt til tvö ár, úthlutað byggðakvóta sem eyrnamerktur er til dæmis Suðureyri og Flateyri til ferðaþjónustuaðila sem reka sjóstangveiðifyrirtæki og eru í meirihlutaeigu erlends aðila. Þetta er gert, að því er sagt er, út af erfiðleikum þessara fyrirtækja við að útvega sér kvóta og þannig réttlætt að gengið sé að þessum sérstaka byggðakvóta fyrir þessi þorp. Í breytingum á lögum um stjórn fiskveiða árið 2011 voru 300 tonn af óslægðum fiski ætluð til frístundaveiða. Ég vil gjarnan spyrja ráðherra hvort svo eigi ekki að vera enn þá, hvort hann hafi ekki endurnýjað þetta, sem var í bráðabirgðaákvæði þá, frá því hann tók við sem ráðherra.

Smábátamenn á Suðureyri hafa harðlega gagnrýnt þessa ráðstöfun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar á byggðakvóta sem ætlað er til ráðstöfunar á Suðureyri í þessu tilfelli og hafa skrifað opið bréf til bæjarstjórnar um þessi mál, að þar sé gengið á svig við almennar reglur um úthlutun á byggðakvóta.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það sé eðlilegt að ríkið sé sérstaklega að styrkja erlend sjóstangveiðifyrirtæki með þessum hætti þó að þau séu mikilvæg, hvort ekki eigi að hafa sérstakan (Forseti hringir.) kvóta ætlaðan þeirri starfsemi.



[15:19]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Varðandi það sem þingmaðurinn nefndi í upphafi, að óvissa væri í sjávarútveginum, þá held ég að ekki sé hægt að halda því fram að óvissa sé þar uppi. Menn vilja hins vegar gjarnan koma fram með breytingar eins og rætt var í fyrri fyrirspurn hér í dag. Grundvöllur þess er, sem ég hef ríka áherslu á, að víðtæk sátt sé um það, að fleiri flokkar en stjórnarflokkarnir séu sáttir við það. Ég gat ekki betur heyrt en að formaður Samfylkingarinnar væri að opna á að það væri margt jákvætt sem þar væri á ferð; ef sameiginlegur skilningur væri á því að auðlindin sé í þjóðareigu væri hægt að spinna þann þráð sem menn bjuggu til á síðasta kjörtímabili og halda áfram inn í þetta kjörtímabil.

Varðandi fyrirspurnina um byggðakvótann þá get ég ekki svarað fyrir svona einstök tilfelli. Hér er byggðakvótanum úthlutað samkvæmt almennum reglum, lögum í landinu, og sveitarfélögin geta síðan verið með sínar reglur. Ef þær reglur samrýmast lögunum þá er auðvitað ekkert við ríkisvaldið að eiga hvað það varðar. Ef menn hafa gert athugasemdir við það þá senda menn slíkar athugasemdir til ráðuneytisins, sem er oft gert, og farið er yfir það hvort reglur viðkomandi sveitarfélags séu í samræmi við laganna hljóðan eður ei. Þar sem þetta hefur, eins og hv. þingmaður sagði, viðgengist í einhver ár er það væntanlega vegna þess að þær reglur samrýmast lögunum.

Hvort til eigi að vera sérstakur pottur fyrir þessa nýsköpun, sem er auðvitað innan ferðaþjónustunnar, er svo aftur á móti áhugavert mál sem hægt væri að taka upp og ræða sérstaklega.



[15:21]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mér þykir þetta vera svolítið innantómt svar í sjálfu sér. Hæstv. ráðherra hlýtur að vita hvort enn þá séu áætluð þessi 300 tonn til sjóstangaveiðiaðila eins og gert var ráð fyrir árið 2011 þegar þau lög sem ég vitnaði í voru sett. Hann hlýtur líka að hafa skoðun á því hvort það sé eðlilegt að ríkið styrki sérstaklega erlend sjóstangaveiðifyrirtæki sem starfa hér á landi, með fullri virðingu fyrir þeim og starfsemi þeirra. Auðvitað eiga þessi fyrirtæki að fá aflaheimildir, en það á ekki að taka þær frá þeim aðilum sem sérstaklega eru studdir með byggðakvóta vegna erfiðleika í viðkomandi sjávarplássi. Mér finnst þetta vera mál sem hæstv. ráðherra ætti að sýna áhuga á að taka upp hjá sér og kanna hvað þarna er á ferðinni og hvort ríkisvaldið eigi ekki að úthluta sérstökum aflaheimildum til þessarar starfsemi.



[15:22]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég man þá tíð hér á síðasta kjörtímabili þegar verið var að ræða þessa úthlutun, og þann gríðarlega vöxt sem virtist stefna í innan þessarar greinar, að þetta væri talið of lítið sem þar bærist eða þetta takmarkaði möguleika fyrirtækja að stunda þessa starfsemi, ef ég man rétt. Síðan held ég að ég fari rétt með, en skal þá koma réttum upplýsingum til þingmannsins ef þær eru rangar, að það hafi ekki verið fullnýtt.

Varðandi ákvörðun sveitarfélagsins um úthlutun samkvæmt byggðareglunum — ef þær samrýmast lögum og reglum þá er ekkert hægt að setja út á það, þá eru það bara lög í landinu. Þó að ráðherra geti haft skoðanir á því hvort eðlilegt sé að einhver fyrirtæki sem sveitarfélagið telur eðlilegast að njóti þess byggðakvóta sem fellur til þess byggðarlags eður ei getur hann ekki, eftir því sem lögin segja, gripið inn í það. (Gripið fram í.)